Morgunblaðið - 20.11.1979, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 20.11.1979, Blaðsíða 12
12 MORGUNBLAÐIÐ, ÞRIÐJUDAGUR 20. NÓVEMBER 1979 „Það væri freistandi," hafði eitt blaðanna eftir Ólafi Jóhannessyni í sumar, þegar hann var að því spurður, hvort hann ætlaði að gefa kost á sér til forsetaembætt- isins, ef dr. Kristján Eldjárn tæki ákvörðun um að draga sig í hlé. Svar Ólafs er að flestu leyti dæmigert fyrir stjórnmálaferil hann síðan hann tók við for- mennsku í Framsóknarflokknum 1968. Hann er stjórn- málamaður, sem virðist líta þannig á pólitískar freistingar, að best sé að falla fyrir þeim. Þeg'ar Ólafur Jóhannesson tók við formennsku í Framsóknarflokknum fyrir 11 árum, hafði flokkurinn verið í um það bil 10 ár utan ríkisstjórnar. Frá því að flokkurinn var stofnaður 1916 hafði hann ekki verið jafn lengi án valda og enn liðu þrjú ár, þar til hann komst í stjórn, 1971. Undanfarin tuttugu ár hafa verið samfellt hnignunarskeið Framsóknarflokksins. Fylgi hans stóð í stað um 28% í kosningunum 1963 og 1967 en í seinni kosningunum tapaði flokkurinn einum manni á þingi úr 19 í 18. Ólafur Jóhannesson leiddi flokkinn fyrst i kosningum 1971 og þá fékk flokkurinn um 25% atkvæða og 17 þingmenn, síðan komu kosningarnar eftir fyrri forsætisráðherratíð Ólafs, 1974, og þá tapaði flokkurinn 0,4% atkvæða en þingmannatalan hélst óbreytt. Reiðarslagið kom loks 1978, þegar fylgið hrundi niður í 16,9% og þingmannafjöldinn í 12. Framsóknar- flokkurinn var orðinn minnsti flokkurinn á Alþingi. Þegar Ólafur Jóhannesson tók við forystu Framsókn- arflokksins, var sú krafa orðin ráðandi í flokknum, að hann ætti að komast í ríkisstjórn, hvað sem það kostaði. Framsóknarflokkurinn sækir afl sitt í mjög þrönga hugsjón og þcir hagsmunir, sem flokkurinn gætir, takmarkast við starfsemi Sambands íslenzkra sam- vinnufélaga. Raunar má segja, að flokkurinn sé pólitískur armur þeirrar víðfeðmu hreyfingar, sem teygir sig um allt þjóðfélagið. Hagsmunir Sambandsins gera ekki þá kröfu, að menn ríghaldi í pólitískar hugsjónir, þeir eru allt annars eðlis og þeim er best borgið séu gæslumenn þeirra við völd í þjóðfélaginu. Þess vegna fellur það mjög vel að miðflokki að vera STJÓRNMÁLAMAÐURINN ÓLAFUR J0HANNESS0N þannig „company" flokkur. Eðli sínu samkvæmt flakkar sá flokkur á milli hugsjónaflokkanna til hægri og vinstri. Ólafur Jóhannesson, sem hefur á sér yfirbragð hins stefnufasta stjórnmálamanns, er í raun fjöllyndur í stjórnmálum. Einmitt þess vegna hefur hann notið svo óskoraðs trausts fylgismanna sinna, þótt flokksfylgið þafi farið síminnkandi. Ólafur nýtur svo mikillar virðingar innan Framsóknarflokksins, að jafnvel eftir að hann sagði af sér formennsku, tala flokksmenn um hann sem „ókrýndan foringja" sinn. Eftir kosningarnar 1971 myndaði Ólafur Jóhannesson fyrra ráðuneyti sitt með Alþýðubandalaginu og Sam- tökum frjálslyndra og vinstri manna. Sú stjórn splundraðist áður en kjörtímabil hennar rann út vegna innbyrðis ágreinings. Pólitisk skapgerð Ólafs kom fyrst í Ijós á þessum árum. Hann starfar eftir reglum, sem hann setur sjálfur. Hann beitir þekkingu sinni í lögfræði til að koma andstæðingum sínum á óvart. Þetta gerðist til dæmis vorið 1974, þegar hann rauf þing og svipti þingmenn umboði sínu til að koma í veg fyrir, að vantraust á stjórn hans eða réttara sagt leifar hennar kæmi til afgreiðslu. Þetta fyrra ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar hrökklaðist frá völdum af því, að inhan þess myndaðist aldrei samstaða, sem dugði til að veita landinu stjórn. Þegar forsætisráðherra lagði fram frumvarp um viðnám gegn verðbólgu snerist Björn Jónsson samgöngu- og félagsmálaráðherra, sem raunar lá á sjúkrahúsi, gegn því, en á Alþingi sagði Ólafur: „Sá ráðherra, sem vill firra sig ábyrgð á flutningi þess, hefur þrátt fyrir orðsendingu og bókanir á elleftu stundu aðeins eitt úrræði." Björn Jónsson sagði af sér, Ólafur boðaði til kosninga en notaði tímann fyrir kosningar, eftir að þing hafði verið rofið, til þess að gefa út bráðabirgðalög, sem voru svipuð að efni og hið umdeilda frumvarp. Innan ríkisstjórnarinnar hafði Ólafi áður tekist að snúa á Lúðvík Jósepsson í máli, sem honum var kærast. Þegar Ólafur Jóhannesson samdi við Edward Heath forsætisráðherra Breta um 50 mílna fiskveiðilögsöguna haustið 1973, kom fyrst glögglega í ljós, að hann væri ekki allur þar sem hann er séður í stjórnmálum. Eftir fundinn með Heath í London beygði Ólafur Lúðvík til undirgefni. Sama leikinn átti áreiðanlega að leika gegn Birni Jónssyni. Hitt er annað mál, sem fyrr hefur gleymst en viðureignin við Lúðvík, að samkomulag ðlafs við Heath, sem heimilaði Bretum að stunda veiðar innan íslenzku lögsögunnar í tvö ár og veiða 130 þús. lestir á ári, var Islendingum mjög óhagstætt. Þetta sést best af því, að 1976 féllust Bretar á að hverfa út úr 200 mílna lögsögunni eftir 6 mánuði frá því að við þá var samið, og á þessu hálfa ári höfðu þeir aðeins heimild til að veiða sem svaraði til 50 þús. lesta ársafla. Það á illa við skapgerð stjórnmálamannsins Ólafs Jóhannessonar að leika aðra fiðlu. Hann þarf að hafa aðstöðu til að koma mönnum á óvart til að hann fái notið sín. Af þessu mætti ætla, að honum hafi ekki liðið vel að sitja í stjórn undir forsæti Geirs Hallgrímssonar. Hvað sem því líður er sú ríkisstjórn sú eina, sem Framsóknarflokkurinn hefur átt aðild að í um 40 ár, sem setið hefur heilt kjörtímabil. Einmitt sú staðreynd og það álit á Framsóknarflokknum, að hann væri ósamstarfshæfur, hefur ef til vill átt ríkasta þáttinn í því, að Ólafur ákvað að sitja allt kjörtímabilið í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Ólafur gat notað tímann til að koma á umbótum í dómsmálakerfinu og harkalegar persónulegar árásir á hann út af málum, sem eiga ekkert skylt við almenna stjórnmálabaráttu, settu hann í varnarstöðu, sem hann braust endanlega úr, þegar hann fór með krötum í stjórn. Við þær aðstæður var honum síst að skapi að ganga til kosninga. Ólafur beitti Sjálfstæðismenn aldrei því ofríki, sem hann hefur sýnt sem forsætisráðherra gagnvart samstarfsflokkum sínum. Barnalegar tilhneigingar Tímans til að ala á pólitískum freistingum Ólafs Jóhannessonar með sam- ræmdum dýrðaróði um ágæti hans hafa áreiðanlega gert honum léttbærara að leika aðra fiðlu í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar. Þá var flokksmönnum hans ekkert kærara en þegar því var haldið á loft, að Ólafur hefði í raun myndað ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar. Fáir bjuggust við því eftir hrakfarir Framsóknar- flokksins í kosningunum 1978, að flokkurinn mundi sameina erkifjendurna Alþýðubandalag og Alþýðuflokk í stjórn tveimur mánuðum síðar. Ólafur Jóhannesson lét að því liggja strax að kosningum loknum, að hann teldi afar ólíklegt, að Framsóknarflokkurinn færi í stjórn. En völdin freistuðu og þegar tækifærið gafst greip Ólafur það fegins hendi og settist í það hlutverk að verða eins konar stuðpúði milli fjandmannanna. En undir bjó vonin um að hann gæti náð sér niðri á þeim. Ólafur Jóhannesson er stjórnmálamaður sem vill hafa allt sitt á hreinu. Hann aflar sér blindra stuðningsmanna og ákafra andstæðinga. Hann hreins- aði Möðruvellingana út úr Framsóknarflokknum, og honum virðist það ekkert álitamál, að flokkur hans sé mikið stjórnmálaafl, þótt fylgið hafi stöðugt minnkað. Hann hefur hæfileika til þess að vekja á sér athygli með því að tala í hálfkveðnum vísum og segja helst ekki neitt. Hann hefur með furðulegum hætti tileinkað sér „taktik", sem virðist duga til að komast í sérstakt samband við almenning, þegar menn taka helst eftir því þegar sem minnst er sagt af viti um hin alvarlegustu mál. Þetta er óneitanlega „aðdáunarvert" hjá manni, sem í 24 ár hafði aðalatvinnu af því að kenna misjafnlega móttækilegum stúdentum stjórnlagafræði og stjórnarfarsrétt. Lögfræðimenntun getur haft þau áhrif á menn, að þeir verði kuldalegir gagnvart umhverfi sínu og viðfangsefnum. Ólafur Jóhannesson virðist hafa kulda- legt viðhorf til stjórnmála. Þrátt fyrir mikinn ósigur hikar hann ekki við að setjast í forsæti í ríkisstjórn með sigurvegurunum. Honum hlýtur að hafa verið ljóst frá upphafi við myndun annars ráðuneytis síns, að mun minni líkur væru á því, að það yrði starfhæft en hið fyrra og stjórnin gæti aldrei setið út kjörtímabilið. En hann stóðst ekki þá freistingu að fá tækifæri til að ráða ferðinni og reyna jafnframt að nota tímann til að rétta hlut Framsóknarflokksins eftir afhroðið mikla. Ríkisstjórnin hafði ekki setið lengi, þegar í ljós kom, að Ólafur hafði ékki í hyggju að taka upp aðrar starfsaðferðir en í fyrri stjórn. Þetta kom skýrast í ljós í byrjun þessa árs. Alþýðuflokkurinn undirbjó frum- varp til laga um jafnvægi í efnahagsmálum. Til að reyna að komast að málamiðlun var þremur ráðherrum, einum frá hverjum stjórnarflokkanna, falið að fjalla um frumvarpið. Þeir skiluðu áliti, sem lagt var fram í ríkisstjórninni. Ólafur tók álitið og frumvarpið í sínar hendur og samdi sjálfur sitt eigið plagg og var sagt, að samflokksmenn hans vissu ekki einu sinni, hvað í því stóð. Þetta plagg varð síðan að lagafrumvarpi, sem Ólafur Jóhannesson lagði fram sem þingmaður en ekki forsætisráðherra og naut það þá stuðnings Alþýðu- flokksins, en Alþýðubandalagið var á móti. Þegar rætt var um þessa sundrungu í ríkisstjórninni komst Ólafur m.a. svo að orði: „Það á sér stað á bestu heimilum og þar sem jafnvel ástúð er heitust með hjónum, að þau deila stundum. En þeim mun heitari verða faðmlögin þegar sættir hafa tekist." Frumvarpið komst í gegnum þingið og varð að lögum um stjórn efnahagsmála o.fl. En faðmlögin urðu ekki heitari í ríkisstjórninni, þrátt fyrir það. Frumvarpið hefur reynst gagnslaust. Samkvæmt upphaflegum forsendum þess átti framfærslukostnaður að geta e.t.v. hækkað um 32—33% að meðaltali á árinu 1979, svo að vitnað sé til framsöguræðu Ólafs. En nú segir Þjóðhagsstofnun, að síðustu áætlanir bendi til þess, að framfærsluvísitalan hækki um 53—55% frá upphafi til loka ársins. Það var þó höfuðmarkmið frumvarpsins að draga úr verðbólgu án þess að atvinnuöryggi væri stefnt í hættu. Þegar annað ráðuneyti Ölafs Jóhannessonar stóð frammi fyrir þessu gafst það upp og splundraðist eins og hið fyrra. En nú segja síðustu tölur að framfærsluvísitalan muni hækka um meira en 60% á árinu. Fyrstu viðbrögð Ólafs Jóhannessonar eftir stjórnar- slitin í haust voru þau, að hann sagðist ekki mundu gefa kost á sér í væntanlegum kosningum. En fljótlega fóru að renna á hann tvær grímur. Pólitísku freistingarnar ásóttu hann. Þegar hann sá sér leik á borði í Reykjavík, kvaddi hann dygga stuðningsmenn sína fyrir norðan og sótti á ný mið. Sú kúvending er dæmigerð fyrir stjórnmálastörf Ólafs Jóhannessonar. Hann er enn til alls líklegur í pólitíkinni, þótt hann sé ekki lengur formaður flokks síns og hafi ekki enn leikið til sigurs. Tíminn er ekki spar á hrósið og Ólafur segir sjálfur: „Dagblaðið ætlar alveg að gera mig að þjóðhetju." Sic transit gloria mundi!

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.