Morgunblaðið - 07.07.1983, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 07.07.1983, Blaðsíða 32
32 MORGUNBLAÐIÐ, FIMMTUDAGUR 7. JÚLÍ 1983 Stórval Myndlist Valtýr Pétursson Stórval (Kjarval), Stefán V. Jónsson frá Möðrudal, galsa- fengnir graðfolar og hlæjandi Herðubreið. Hestalestir og harð- ir vetur, jöklar og Snæfell. Blesi að príla, vorleikur og villtir hest- ar. Möðrufells-Manga og Dottin af hesti. Það er galsi í þessum titlum hjá sjötíu og fimm ára stráknum frá Möðrudal, Stefáni, syni Jóns, er málaði altaristöfl- una, sem ekki var á Kirkjulistar- sýningunni. Þeir feðgar í Möðru- dal voru nokkuð mörgum ára- tugum á undan sínum tíma, því að enginn getur neitað því, að þarna fyrir norðan til fjalla voru þeir í Möðrudal að búa til það, sem nú er kallað „Nýja mál- verkið", með öllum þess krafti og bægslagangi, sem hrist hefur upp í vitund heimsins að undan- förnu meðal menningarþjóða beggja vegna hafs. Án þess að hafa haft nokkra hugmynd um Gullstrandarfólk, ítalska eða þýska skólann. Svona getur frelsið í fjallasalnum verið óút- reiknanlegt og margslungið. Hafi nokkur íslendingur unnið til að bera titilinn nýlistamaður, er það hinn hári sonur fjalla og frelsis, Stefán V. Jónsson frá Möðrudal. í tilefni afmælis Stefáns hefur verið komið á fót sýningu á verk- um hans í Listmunahúsinu. Það er Morkinskinna, sem einnig tekur þátt í þessari hátíð, og áreiðanlega koma þarna margir og ná sér í mynd eftir hinn fræga mann, sem fjölmiðlar hafa því miður fjallað um á heldur óviðeigandi hátt. Við fór- um svipað að strákarnir í göt- unni í mínu ungdæmi, en ég hélt, að slíkur skrípaleikur tilheyrði fortíðinni og þekktist ekki leng- ur meðal siðaðs fólks. Stefán er jafn skemmtilegur og hress samt sem áður, en þeir, sem ætla sér skemmtun af frávikum hans, gera sig aðeins að minni persón- um. Það er mikill galsi í þessum verkum, sem valin hafa verið til sýningar ( Listmunahúsinu. Þarna eru hlutirnir teknir í aðalatriðum og lítið hirt um smámunina. Og þegar Stefáni tekst að hemja innblástur og galsa, verða til eftirminnileg málverk, sem eiga fulla virðingu skilið. En það er ekki alltaf sem svo vel viðrar á fjöllum. Herðu- breið er þarna í mörgum útgáf- um, og hestarnir eru það við- fangsefni, sem einna best lætur í höndum þessa einkennilega listamanns. Ég held, að betur hefði mátt vanda til þessarar sýningar og þá hefði naivistinn Stefán frá Möðrudal komið sterkari út úr þessu afmælishófi. Stefán er ekki við eina fjölina felldur: hann er þekktur fyrir að þenja nikkuna í Austurstræti þegar vel viðrar, og væri ekki upplagt að setja hann á launa- skrá hjá þjóðinni til að halda uppi húmornum i rigningu og súld. Hann er mikill hestavinur og margt annað, en við skulum ekki hafa þetta lengra að sinni, heldur vísa á afmælisskrif ör- lygs, stórvinar Möðrudalsmeist- arans. Það voru skemmtileg skrif fyrir báða parta og gefur betri mynd en sá getur gefið er þetta párar. Til hamingju með afmælið, og vonandi fær maður að hlýða á nikkuna þanda, þegar styttir upp. Jóhann G. Jóhann G. Jóhannsson, tón- skáld, hljómlistarmaður og mál- ari, hefur rekið Gallery Lækjar- torg um nokkurn tíma, og þar hefur verið margt á ferð. Það hefur verið nokkuð misjafn sauður í mörgu fé í þessu galleríi og nokkuð hefur verið fjallað um sýningar þar á siðum þessa blaðs. Nú hefur Jóhann sjálfur efnt til sýningar á nýjum verk- um sínum, og kallar hann þessar myndir sínar „Smáljóð í lit“, en hver og ein ber sitt heiti fyrir því. Þetta eru frekar litlar myndir, afar snyrtilegar í alla staði og á stundum verulega vel unnar í lit. Þær eru flestar nokk- uð abstrakt í eðli sínu, og fellur efnið mjög vel að hugmyndum listamannsins. Ég man ekki eftir eins snoturri sýningu í þessu galleríi Jóhanns, og er því ástæða til að óska honum veru- lega til hamingju með þessu litlu ljóð í litum. Nafnið er ágætt á slíkum verkum, og í sjálfu sér hefur stærð mynda enga þýð- ingu, hvað gæði myndar snertir. Það þarf ekki marga fermetra til að túlka viðkvæmni og hjarta- hlýju. Öskur og ólæti þurfa meira pláss og verða því oft á tíðum ágeng og óþægileg, en þau verk, sem hér eru til umfjöllun- ar, eru þess eðlis, að þau skila sér ágætlega í sínu lítillæti, ef svo mætti segja. Það eru 77 verk á þessari sýn- ingu Jóhanns G. Þau eru öll gerð í vatnslitum og með pennastrik- um sem nokkurs konar ívafi. Þarna er viðkvæm myndgerð á ferð, sem virðist eiga betur við Jóhann en margt er áður hefur sézt frá hans hendi. Vonandi sér hann þetta sjálfur, og vart hefði þessi myndaflokkur orðið til nema svo sé. Það verður því merkilegt að sjá, hvað er á næstu grösum í myndgerð þessa fjölhæfa unga manns. Engu skal um framtiðina spáð hér. Það er hættulegt og óvisst, eins og skoparinn sagði hér á árunum. En sannast að segja bjóst ég ekki við svo varfærnislegri myndgerð, er ég gekk í salinn við Lækjartorg. Jóhann G. er nú að hefja nýja starfsemi í galleríi sínu, og er þar um að ræða útlán og greiðslufyrirkomulag, sem of langt mál er að útskýra hér. Ef þessi tilraun tekst hjá Jóhanni G., ætti það að verða til mikillar hagræðingar fyrir seljendur og kaupendur listaverka. Útleiga i grafík hefur verið í gangi hjá Norræna húsinu að undanförnu, og nýlega var sagt í fjölmiðli, að þar stæðu ekki myndirnar við. Eftirspurn væri mikil og meiri en menn gerðu sér vonir um. Vonandi verður það sama sagan hjá Gallery Lækjartorgi, og er þessi tilraun Jóhanns G. virð- ingarverð i alla staði. Ég hef verið mjög jákvæður i þessum línum, en eitt er það sem mér finnst vel mega minnast á að endingu. Litameðferð Jó- hanns G. er að mínum dómi mjög sérstæð og gefur á stund- um afar þægileg áhrif. Hann getur túlkað hlutina í vissum tónum, sem öllum er ekki gefið, og auðsjánlega er að hefjast nýtt tímabil í myndlist hans, sem er rökrétt framhald af því, sem á undan er gengið. Ég hafði ánægju af þessari sýningu, og hún stendur fyrir sínu í mínu hugskoti. Þakkir fyrir ágætt andartak. Málfræði og málstefna Bókmenntír Erlendur Jónsson ÍSLENSKT MÁL OG \LMENN MÁLFRÆÐI 4. irg. 336 bls. Ritstj. Höskuldur Þráinsson. Reykjavík 1982. íhugamenn um íslenskt mál eru nargir, fleiri en ætla mætti í fljótu >ragði. Og íslenskan er þeim flest- im viðkvæmt málefni. Jafnan er því ilustað með athygli á það sem mál- ræðingar segja. Islenska málfræði- élagið sendir frá sér myndarlegt irsrit. Þar birta málfræðingar sér- ræði sín sem sum hver eru þó skilj- inleg og aðgengileg hvaða áhuga- nanni sem er. Frá því ég man eftir hafa mál- ræðingar taliö sig gegna tvenns konar hlutverki: að rannsaka og ráðleggja. Svo er enn. Ungir mál- fræöingar eru enn að glíma viö svipuö verkefni og eldri kynslóð. Fyrsta ritgerðin í þessum árgangi ber t.d. yfirskriftina „Þágufalls- sýki“. Höfundur Ásta Svavars- dóttir. Orðið er gamalt og lýsir af- stöðu málfræðinga til hugtaksins: Röng notkun þágufalls er sjúk- dómur sem ber að lækna. Athygli vekur strax að Ásta ritar orðið innan gæsalappa. Sá fyrirvari skýrist í ritgerðinni. Samkvæmt rannsóknum telur Ásta sýnt að börn úr verkamannastétt noti meira umrætt þágufall en börn úr stétt háskóla- og embættismanna. »Ef niðurstöður þessarar athug- unar gefa rétta mynd af ástand- inu, virðist full ástæða til að endurmeta það hvort baráttan við „þágufallssýkina" sé réttlætan- leg,« segir Asta. Svipaðar skoðanir hafa komið fram á undanförnum árum og skírskotar Ásta til þeirra. Ég held að þessar skoðanir séu rangar og aðhaldsleysi muni ekki stefna að menningarlegum jöfn- uði, heldur þvert á móti. Ef skól- arnir kenna einföldustu málfræði- reglur svo að einungis sumir festa þær í minni, aðrir ekki, þá er það kerfið sem bregst, ekki börnin. Halldór Halldórsson ritar um sama efni og byggir á rannsóknum eins og Ásta en nefnir ritgerð sína Um méranir. Halldór segir al- mennt um fjöldakannanir: »Fé- lagslegar kannanir eru eðli sínu samkvæmt ótryggar. Ástæðan er sú, að maðurinn er erfitt rann- sóknarefni. Einstaklingar bregð- ast misjafnlega við — þeir eiga meira að segja til að ljúga — þeir eru í ólíku skapi á ólíkum tíma og misjafnlega fyrirkallaðir.« Þetta er viturlega mælt. Eigi að síður eru fjöldakannanir viður- kennd rannsóknaraðferð. Enda sýnist mér könnun sú, sem Hall- dór greinir frá, hafa tekist bæri- lega. »Ég vil að lokum benda á,« segir Halldór, »að helztu rithöf- undar okkar á þessari 'öld hafa ekki notað méranir.* Undantekn- ingar minnist Halldór þó einnar þar sem fyrir kemur »mér vantar« til að auðkenna málfar tiltekinnar skáldsögupersónu. Nokkuð er hér ritað um fram- burð sem vænta má. Hver hefur ekki heyrt Norðlendinga (eystri) bera stúlka og stelpa fram öðruvísi en tíðkast t.d. hér í Reykjavík. En hvað um stafina It eins og í orðun- um hollt, holt og velta? Baldur Jónsson ritar hér um tvenns konar framburð á orðum af þessu tagi. Þá er hér stuttur þáttur eftir Halldór Ármann Sigurðsson: Smá- saga vestan af fjördum (ath. fjörd- um ritað svo — með d). Eins og fyrirsögnin bendir til er Halldór að segja sögu af gamla d-fram- burðinum sem landsfrægur varð af vísunni, Nordan hardan gerdi gard. Þessi framburður, sem þótti skringilegur, mun nú víðast hvar — eða alls staðar horfinn. Ég nefni líka athyglisverða rit- gerð: Um lýsingarhátt nútíðar, eftir Jón Friðjónsson. Jón fer ofan í fínu blæbrigðin í málinu og minn- ir á hvernig jafnvel orðaröð einber getur breytt merkingu einstakra orða í setningu. Fleira gott og gagnlegt er í riti þessu, stórt og'smátt. Alþýðlegt er það ekki beinlínis, enda naumast við slíku að búast, hér eru sér- fræðingar að ræða sín á milli. Samt tel ég sem fyrr segir að áhugamaður geti haft góð not af riti þessu þótt hann hafi aldrei náiægt háskóla komið. Verður gaman að fylgjast með hvað þessir ágætu málfræðingar eiga eftir að kanna og kunngera. Rannsóknar- efnin eru óteljandi. Og þau eru alls staðar. Til dæmis væri fróð- legt ef einhver góður maður legði við eyrun og athugaði hvort hann heyrði ekki einstök orð borin fram með aðaláherslu síðar en á fyrsta atkvæði — svo sem veðurspá (með aðaláherslu á spá) sem oft heyrist í veðurfréttum. Ef svo fer, sem sumir giska á, að áherslan eigi eft- ir að færast til, er gagnlegt að með því sé fylgst frá upphafi. Fleira nefni ég ekki; óskalistinn yrði þá lengri en goðu hófi gegndi.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.