Fréttir

Tölublað

Fréttir - 10.07.1918, Blaðsíða 2

Fréttir - 10.07.1918, Blaðsíða 2
2 FRETTIR Lloyd Georg-e. Eftir Frank Dilnot. (Frh.) Samt bar það við, að hann brá af þessari venju. í einni af ræðum sínum mælti hann: »Hvað er það sem andstæðingum mínum finst mest þörf á?« — »í*að sem eg held að ríði mest á, er að breyta stjórnarfarinu«, kallaði ölvaður maður í mannþrönginni. — »Nei«, sagði Lloyd George, »yður er mest þörf á að drekka annað en það sem þér drekkið«. Sjaldan mun Lloyd George hafa svarað jafn vel og eitt sinn á stjórnmálafundi frjáls- lynda flokksins. Par var maður einn aftur- haldssinnaður, og hafði hann hugsað Lloyd George þegjandi þörfina. »Við verðum að koma á heimastjórn«, sagði Lloyd George, »ekki einungis írlandi til handa, heldur og Skotlandi og Wales«. — »Og helvíti!« kallaði afturhaldsmaðurinn. — »Þér hafið rétt fyrir yður«, mælti Lloyd George. »Það á hver maður rétt á, að tala máli sinnar fóstur- jarðar«. Þrátt fyrir það, þótt Lloyd George hefði mörgum störfum að gegna, þá talaði hann máli sínu í kjördæminu með mestu atorku. Margir héldu að hann ynni fyrir gíg. Svo vildi til, að keppinautur hans við kosning- arnar var lánardrottinn þorpsbúanna í Llan- ystumdwy. Var hann maður mikils metinn þar um slóðir, og stórmenni í augum Lloyd George, er hann var drengur. Kosningahríðin var hin harðasta. Lloyd George sigraði með fárra atkvæða mun — 1963 móti 1945. — Þegar Lloyd George vann þenna sigur, þá var hann 27 ára gamall, og var nefndur »stjórnmála-drengurinn«. Andstæðingar hans völdu honum hæðiorð mörg. Kváðu þeir hann eigi annað vera en kjaftaskúm, er brátt mundi falla í tigninni. Spáðu þeir því, að þegar hann kæmi á þing meðal æfðra og duglegra stjórnmálagarpa, þá mundi litið úr honum verða, og honum mundi brátt verða vísað þangað, sem honum sómdi bezt að vera. Upphefð sína kváðu þeir hann eiga slembilukku einni að þakka. Og litu menn óvilhalt á málið, þá var þetta eigi all-ólík- legt, því að vafasamt var, að gáfur Lloyd George mundu geta hafið hann hærra en komið var. Hann hafði komizt til vegs og valda meðal almúgamanna, þar sem gáfur hans gátu notið sín. Frægðarljós hans hafði kviknað sem elding, og ekkert var líklegra en að það mundi slokkna jafn skyndilega. Flestir mundu hafa orðið forviða, hefðu þeir vitað hvern veg Lloyd George leit á upphefð sina. Þessi 27 ára gamli þingmaður hugði nú lífsstarf sitt vera að byrja. Það sem áður hafði fram farið, leit hann á sem undir- búning þess, sem hann stefndi að. í þann tíð mundu menn hafa brosað, hefðu þeir séð orð þau, sem Lloyd George reit í vasabók sína, er hann kom í fyrsta sinn á áheyrenda- palla þingsins, 17 ára að aldri. Sennilegt er, að enginn hafi haft hinn minsta grun um járnvilja þann, er lá að baki fjöri og glað- værð Lloyd George’s. Fyrsta þingið sem Lloyd George sat á, kom saman 17. apríl 1890. Stjórnin var í höndum frjálslynda flokksins. Gladstone-var forsætisráðherra. Hann var þá áttræður að aldri. Mikilsmetnir stjórnmálamenn sátu á fremstu bekkjunum, og bar Lloyd George kensl á þá alla af umtali blaðanna. Hann settist á einn hinna aftari bekkja, og tók nú að hyggja að mönnum þessum og framkomu þeirra. Eigi leið á löngu, unz hann hafði dregið upp mynd af þeim í huga sér. Er hann hafði skamma stund á þingi setið, reit hann svolátandi lýsingu á Asquith í blað eitt í Wales: »Hann er maður lágur og riðvax- inn, lítið eitt siginaxla, og svo nauðrakaður sem prestur væri — augun eru hvöss og ennið breitt og gáfulegt — hann talar hægt og skýrt, og ber fram skoðanir sínar með svo miklu afli og eldmóði, að unun er á að heyra«. — Lítt mun þá ungmennið hafa grunað það, að það ætti fyrir sér að liggja að verða eftirmaður Asquith’s sem forsætis- ráðherra Englands. Frá upphafi vega leitaðist Lloyd George við að afla sér sem mestrar þekkingar á sið- um og starfsemi neðri málstofunnar. Hugðist hann að forðast gildrur þær, er oft verða ungum þingmönnum að fjörlesti í starfsemi sinni. Brátt flutti Lloyd George fyrstu þingræðu sína og farnaðist vel. Gamlir þingskörungar Iuku lofsorði á ræðu hans. — Þótt ungir menn geti sér góðan orðstír á alþýðufund- um, þá ber þess að gæta, að neðri málstofan tekur oft svo í lurginn á þeim, að þeir eiga sér ekki viðreisnarvon. — Hvað sem öðru líður ber að játa það, að neðri málstofan hefur ýmsa góða eiginleika til að bera. Hún er velviljuð nýgræðingum, og virðir menn þá sem einlægir eru. Hún er þeim mönnum erfið, sem flytja langar ræður og leiðinlegar, og sýnir þeim ungmennum fyrirlitningu, sem treysta of mjög á sjálfa sig, og leitast við að heilla menn með gáfum sinum og fjölvísi. En þegar menn hafa setið svo lengi á þingi, að þeir geta ekki framar nýgræðingar talist, þá komast þeir að raun um það, að fáir eru jafn vandfýsnir sem þingtnenn neðri málstof- unnar. Reyndar er sumum þingmanna hlíft sökum ættgöfgi eða auðæfa. En þeir menn eru færri hinum. Yfirieitt virðir þingið eigi öðrum fremur þá menn sem ríkir eru. Ætt- göfgi iná sín þar ekki heldur mikils. Þeir menn, er máttu sín mest í þann tíð í neðri málstofunni og nutu mestrar alþýðuhylli, voru þeir Thomas Burt, Nestor málstofunn- ar, sem áður hafði verið málmnemi, og ír- inn Willie Redmond, sem var maður aðlað- andi og eldheitur ættjarðarvinur. Báðir nutu þeir hylli og virðingar alls þingsins. Að nokkru leyti minnir þingið á stóran skóla, sem kostaður er af almannafé. Þrátt fyrir allan ágreining vinna afturhaldsmenn og frjálslyndir að því í sameiningu að halda heiðri þingsins óskertum. Lloyd George var ekki lengi að átta sig á því, hvern veg sakir stóðu, og hegðaði sér mjög samkvæmt því. En þetta mundi hafa komið honum að litlu haldi, ef ræður hans hefðu ekkert markvert haft til brunns að bera. En menn komust brátl að raun um það, að nýgræðingur þessi var maður vitur og skemtinn. Að vísu skorti hann reynzlu á ýmsum sviðum, en hann vakti máls á ýms- um nýmælum, flutti ræður sínar skýrt og skipulega, og var svo hreinskilinn að það olli því nær óþægindum. Hann vann ekld hylli manna í einu vettfangi, en menn hlýddu á ræður hans með athygli. Og hann gat sér fljótt góðan orðstír. Áður en árið var liðið, var hans tíðum getið í blöðunum sein eins þeirra manna, sem aldrei sætu á sáttshöfði við stjórnina. Lloyd George taldist eigi til neins hinna stærri stjórnmálaflokka. Lloyd George hafði gefið nánar gætur að þingmönnum neðri málstofunnar, og komist að raun um, að enginn þeirra væri svo styrkur á svellinu, að eigi væri fært á hann að ráða. Gladstone var forsætisráðherra, og taldist Lloyd George fylgismaður hans, en í mörgum málum var hann honum samt and- stæður. Þeir voru sem refur og ljón, er þeir áttust við. Gladstone stóð öllum betur að vígi, því að hann hafði í 50 ár starfað í þágu lands síns, og verið fjórum sinnum forsætisráðherra. 670 þingmenn voru í neðri málstofu enska þingsins, og margir þeirra al- kunnir stjórnmálagarpar. Samt sem áður mundu flestir þeirra hafa hikað við að vega að Gladstone, því að þótt hann væri áttræð- ur að aldri, var hann hinn versti viðfangs. Augu hans voru sem vals-augu, og voru þau ein nægileg til þess að skjóta flestum skelk i bringu. En ungmennið Lloyd George hop- aði jafnvel ekki af hólmi fyrir Gladstone. Wales-búar háðu baráttu mikla fyrir óháðri kirkju í landi sínu, og nokkrir menn frjálslynda flokksins, með Lloyd George í broddi fylkingar, kváðu það óhæfu hina mestu, hve máli þessu miðaði lítið áfram. Margt var það sem á móti því mælti, að málið væri borið upp í þinginu. Nauður rak til að ýms önnur lög væru samin, og flestir þingmenn neðri málstofunnar voru málinu andstæðir. En Lloyd George hirti ekkert um alt þetta. Hann krafðist þess, að kirkjan í Wales væri gerð óháð ríkiskirkjunni á Eng- landi. Oft ber það við, að forsætisráðherra lætur sig engu skifta árásir minni háttar þingmanna. En Gladstone varð að svara Lloyd George. Stundum hugðist hann fræða þenna unga mann, og var það þingmönnum hin bezta skemtun. En Lloyd George siapp jafnan heill á húfi úr eldraunum slíkum, og var eigi betri viðfangs eftir en áður. Árið 1892 sagði Gladstone af sér, og Rose- berry lávarður varð forsætisráðherra frjáls- lynda flokksins. Lloyd George ól stöðugt á fríkirkjumálinu, og átti í 'sífeldum erjum við foringja flokksins. Árið 1894 fór frjálslynda stjórnin frá. Þá hægðist Lloyd George mikið um hönd. Nú gafst honum kostur á að sýna, hvað í honum bjó. Nú voru það ekki hans flokksmenn sem hann átti í höggi við, held- ur sá flokkur, sem allir vissu að hann var andstæður. Hann réð á stjórnina af hinni mestu grimd, einkum Chamberlain, sem var mest metinn í neðri málstofunni eftir að Gladstone sagði af sér. Chamberlain átti atorku sinni að þakka þessa upphefð. Þeir sem einu sinni hafa séð hann, munu aldrei gleyma honum. Hann er maður langleitur. Augnaráð hans er hvast og rólegt, og munnurinn beinn og skarpir drættir út frá munnvikunum. Hann er grannur og beinvaxinn. Hann hefur glerauga og blóm í hnappagatinu. Hann er frábærlega mælskur. Röddin er köld og skær, og ber vott um járnvilja og fyrirlitningu á tápleysi og leti. Marga átti hann andstæðinga í neðri mál- stofunni, en eigi voru fleiri en tveir eða þrír, er færir voru til þess að ganga á hólm við hann. Og eg held að enginn þeirra hafi þorað að ganga í berhögg við hann. Samt sem áð- ur gerðist nú Lloyd George andstæðingur hans. Upp frá þessari stundu réð Lloyd George ávalt á Chamberlain er færi gafst. Er rædd voru ný frumvörp sátu, þeir aldrei á sátts- höfði. Chamberlain lét sér í fyrstu nægja að skjóta að honum nokkrum hæðiyrðum. Það hafði oft komið honum að haldi. En Lloyd George brá sér ekki upp við það. Hann réð á Chamberlain eftir sem áður. Chamberlain varð að leita einhverra annara ráða gegn honum. Hann réð á Lloyd George með öll- um þeim ákafa og háði, sem hann átti til í fórum sínum, og leitaðist við að gera hann að athlægi, og var það Chamberlain ekki erfitt, þvi að meiri hluti þingmanna var hon- um fylgjandi. (Frh.)

x

Fréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir
https://timarit.is/publication/179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.