Lesbók Morgunblaðsins - 23.11.1996, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 23.11.1996, Blaðsíða 4
LÍTIÐ EITT UM GRÍM EFTIR HANNES PÉTURSSON Öld er liðin síðan Grímur Thomsen féll frá á Bessastöóum, þar sem hann var einnig fæddur. Vagga og dánarbeður skáldsins stóðu undir einu oq sama þaki~- GRÍMUR Thomsen hlýt- ur að vera hugstæður öllum sem lesið hafa ljóð hans. Tungutak, bragstíll og efnistök er svo persónulegt og yfirbragðsmikið að unun vekur að kynn- ast því. Grímur fyllir sannarlega flokk íhug- unarverðustu stórskálda þjóðarinnar. Nú er öld liðin frá dauða hans. Grímur fæddist á Bessastöðum á Álfta- nesi árið 1820. Hann var bráðgjör, hóf sautj- án vetra háskólanám í Kaupmannahöfn og lifði að heimsmanns hætti í borginni, var jafnvel svo fínn með sig og eyðslusamur að mörgum blöskraði. En takmarki sínu, virtri menntagráðu, sleppti Grímur ekki úr augsýn. Hann las fyrst lögfræði, en sneri sér brátt að heimspeki, bókmenntum, fagur- fræði, tungumálum (frönsku, ensku, þýzku) og lauk fyrstur íslendinga meistaraprófi í samtíðarbókmenntum. Prófritgerð hans, all- mikil að vöxtum, fjallaði um Byron lávarð og kom út í Höfn vorið 1845. Um ljóðagerð Gríms Thomsens, ýmist í heild eða einstök kvæði, hefur að vonum margt verið skrifað. Ævi og högum skálds- ins hafa einnig verið gerð talsverð skil, jafnt í fræðigreinum sem endurminningum fólks, og til eru á prenti fróðleg bréfasöfn sem varða Grím. Hins vegar skortir enn fræði- lega útgáfu ritverka hans. Að líkindum var Grímur Thomsen eini íslendingurinn um miðja 19. öld sem lagði sig eftir heimspeki samtíðar sinnar af veru- legri einbeitni. Skólun hans í þeirri grein, eins og hún birtist í bókmenntafræði og fagurfræði, hefur Andrés Björnsson kynnt vel í íslenzkar bókmenntir og heimsskoðun (1975), þýðingu sinni á nokkrum ritsmíðum Gríms, aðallega frá árinu 1846. Fyrir bók- inni er formáli eftir Andrés, sem hefur öðr- um fremur rannsakað feril Gríms Thoms- ens, mikilvægur öllum sem kjósa að vita, hversu Grímur kvaddi sér hljóðs í mennta- lífi Dana. Um ákefð Gríms Thomsens, þegar til heimspekinnar kom, hefur geymzt heimild í Dægradvöl Gröndals, gullnámunni sem aldrei þrýtur. Þannig var, að Grímur dvald- ist í föðurgarði á Bessastöðum fjóra mán- uði veturinn 1843-44, eftir sex ára dvöl erlendis. Þá hafði hann skilað meistara- prófsritgerð sinni í hendur lærifeðrum og beið úrskurðar. Af Grími stafaði þessar vikur heima á Bessastöðum miklum útlöndum, mikilli ný- breytni, og sumir skólapilta drógust að hon- um eins og flugur að ljósi. Gröndal var þá við nám í skólanum, settist ásamt fleiri pilt- um að fótskör Gríms til þess að læra ofboð- lítið í frönsku og tekur fram í Dægradvöl, að Grímur væri „mjög hneigður fyrir heim- speki, eins og hún var þá tíðkuð; Hegel, Rasmus Nielsen og Sören Kierkegaard voru hans menn“. Hann nefnir líka, að Grímur hafi oft lent í rökræðum við Björn Gunn- laugsson út af heimspekilegum efnum þar á Bessastöðum, jafnvel svo að Björn gleymdi að fara heim, en hann bjó í Sviðholti, nokkru vestar á nesinu. „Grímur var vel máli farinn og flækti fram og aftur, en Björn var stirð- ari og krítaði út öll borð og gólf með mat- hematiskum formúlum; þeir skildu ætíð svo, að hvorugur lét undan.“ Grímur Thomsen var orðinn allkunnur í' bókmenntaheimi Dana, þegar hann samdi ritgerð sína um Byron. Sérstök kennara- staða í ensku og enskum bókmenntum hafði þá ekki enn verið sett á laggir í Hafnarhá- skóla (sbr. grein Sigurðar Nordals, 1948, um meistarapróf Gríms), en Byron í tízku, og var nýjabragð af þessu. Carl Bagger skáld, Byron-aðdáandi og ritstjóri í Óðinsvé- um (d. 1846, tæplega fertugur), varð sér t.d. þegar úti um bókina, og Kierkegaard las hana líka fljótt. í dagbókum hans 1845 getur að finna athugasemdir: „Grímur Thomsen hlýtur eiginlega að vera manna lærðastur; það sést á því hvað hann vitnar til margra bóka í meistaraprófs- ritgerð sinni, og þó sést í ritgerðinni að hann hefur hlotið að lesa enn fleiri bækur, t.d. Frygt og Bæven, Angest, Enten-Eller, sem hann vitnar ekki til. —“ Hér nefnir Kierkegaard þrjú rit eftir sjálfan sig (prentuð 1843-44). Það kemur heim við orð Gröndals í Dægradvöl, að Kierkegaard væri einn af „mönnum“ Gríms Thomsens í heimspeki. Úti á blaðrönd rit- aði Kierkegaard til viðbótar fyrri athuga- semd: „Hann virðist skipta bókmenntum í tvo hluta, misstóra: í rit sem hann nýtir sér og í önnur sem hann nýtir í tilvitnanir; því verður þannig ekki í móti mælt, að hann hafi hagnýtt sér bókmenntirnar. - Honum verður ekki fundið til foráttu að hann hafi sett ljós sitt undir mæliker; hins vegar get- ur það þó líka leitt menn í villu að koma ljósi fyrir uppi á fjalli, þegar það hentar í hæsta lagi til þess að skína á láglendi.“ Nokkurrar gremju og hæðni gætir í þess- um færslum Kierkegaards: að hans skuli ekki getið, fyrst hann sér að Grímur nýtti sér áðurnefnd rit. Og hann átelur um leið höfundinn fyrir yfirlæti. Hvað sem liður skoðun hins mikla hugs- uðar, Sören Kierkegaards, á ritgerð Gríms Thomsens um Byron lávarð, er markvert að hann skyldi bregðast við henni í dagbók- um sínum; það ber því vitni að hann gaf henni raunverulegan gaum meðan á lestrin- um stóð. Og hugleiddi Kierkegaard í annan tíma rit eftir íslenzkan mann? Á því bólar hvergi í allstóru sýnishomi úr dagbókum hans (1992). En ég hef ekki skyggnzt eftir þessu atriði í heildarútgáfu dagbókanna, svo að hér hafa fæst orð minnsta ábyrgð. GRÍMUR Thomsen. Teikning Sigurðar Guðmundssonar málara Að framan var vitnað til orða Gröndals, að Grímur hefði verið „mjög hneigður fyrir heimspeki, eins og hún var þá tíðkuð". Þetta mætti skilja svo, að heimspekilegar hug- myndir Gríms væru frábrugðnar þeim sem fyrir voru meðal lærdómsmanna hérlendis. Og Gröndal nefnir Rasmus Nielsen. Hann kenndi heimspeki í Hafnarháskóla áratug eftir áratug, var innblásinn lærifaðir, afar hallur undir Hegel, síðar Kierkegaard. Ge- org Brandes ritaði um Nielsen minningar- grein (1884) og bregður þar upp leiftrandi myndum af kennslusnilli hans, en ræðir einnig kosti Nielsens og ókosti sem heim- spekings. Sá er fyrstur kynnti heimspeki Hegels í riti á danska tungu var á hinn bóginn menningarpáfinn J. L. Heiberg (1824), fylgismaður Hegels ævilangt (d. 1860), og er ekki sízt rakið til hans, hversu lengi hegelianismi hélt velli í Danmörku, eða allt fram um 1870. í áðurnefndri grein um meistarapróf Gríms Thomsens víkur Sigurður Nordal ekki einu orði að Kierkegaard, en nefnir áhrif Hegels á ritgerð hans, jafnt efnið sjálft sem tyrfinn stíl. Thora Friðriksson hafði hins vegar í lítilli bók um Grím (1944) vak- ið athygli á tengslum ritgerðarinnar við viss- ar hugmyndir Kierkegaards í Enten-Eller, og dagbókarfærslurnar hér að framan styðja mál hennar. Ekki kemur fram, að Thora Friðriksson hafi um þær vitað. Grímur Thomsen fluttist alkominn til ís- lands 1867, þá diplómat, eftir langa þjón- ustu í utanríkisráðuneyti Dana, fremur en skáld og fagurfræðingur. Hneigð hans til heimspekilegrar íhugunar dvínaði samt ekki, og sér hennar allvíða stað í skáldskap hans. Ennfremur birtust greinar eftir Grím um heimspekileg efni í innlendum ritum. En lík- ast til samdi hann fátt, ef þá nokkurn hlut, þess efnis á dönsku þegar hér var komið. Heimspekileg sjónarmið Gríms Thoms- ens, frá upphafi til enda, hafa víst hvergi verið rakin skilmerkilega; ætti því að liggja þar fólgið efni í svo sem eina háskólaritgerð. Þar sem var mín vagga, Vil eg hljóta gröf kvað Steingrímur. Ef til vill bar Grímur Thomsen sömu ósk í brjósti, þegar hann keypti fæðingarstað sinn, Bessastaði, og fluttist þangað til búskapar 1868. Grímur orti á Bessastöðum flest kvæði sín, en þýddi og margt. Við ritstörf heima á búi sínu varð hann til fullnustu sá Grímur Thomsen sem við dáum. Og norðan undir kirkjuvegg á Bessastöðum var kistu þessa manns slakað í jörð niður einn vetrardag 1896, fast hjá leiði foreldra hans. Æviferill Gríms hafði verið viðburðaríkur framan af, jafnframt ólíkur ferli samlanda hans. Reyndar er hann einstakur, að ég held, séu höfð í huga þau íslenzku stór- menni horfins tíma sem víða fóru erlendis: Vagga og dánarbeður Gríms Thomsens stóðu undir einu og sama þaki. „Hvab sem líbur skoöun hins mikla hugsubar; Sören Kierkegaards, á ritgerb Gríms Thomsens um Byron lávarb, er markvert ab hann skyldi bregbast vib henni í dagbókum sínum; pab ber því vitni ab hann gafhenni raunverulegan gaum meban á lestrinum stób. “ 4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ~ MENNING/LISTIR 23. NÓVEMBER 1996

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.