Morgunblaðið - 18.12.2002, Blaðsíða 9

Morgunblaðið - 18.12.2002, Blaðsíða 9
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 18. DESEMBER 2002 D 9 BÆKUR VAKNAÐ í Brussel segir frá æv- intýrum Lísu sem dvelur í undra- landinu Belgíu og er au-pair þar um nokkurra mánaða skeið. Lísa er dæmigert nútímaungmenni sem er alltaf að leita að sjálfu sér og reyna að bæta sig sem manneskju en gleymir þeim göfugu markmiðum jafnharðan í hringiðu djammsins, snobbinu, merkjafatnaðinum og holdsins lystisemdum. Tónlistin er gríðarlega stór hluti af lífi Lísu og hjálpar henni að tjá sig (sbr. 45). Stórstirnið Björk er mesti áhrifa- valdurinn og mikið átrúnaðargoð eins og sést á bókarkápunni og víða eru tilvitnanir í lög hennar. „Ég dreg í mig hvert orð af hennar vörum og geri það að minni speki … þetta eru mín orð“ hugsar Lísa (123). Í stað trúarboða og hefðbund- inna eða gamalla gilda hljóma dæg- urlagatextar og stjörnuspeki í hausnum á Lísu og verða hennar leiðarljós; renna saman við hugsanir hennar, sjálfsmynd og málfar. Þann- ig speglar hún sig í um- hverfi fjölmiðlamenn- ingarinnar án þess að velta hlutunum of mik- ið fyrir sér. Hún gengst upp í því að vera hörkutól en í tölvupósti er loksins hægt að vera maður sjálfur: „… við hringj- umst á og hittumst ekki fyrr en viku eftir að við hittumst fyrst og þá búin að kynnast al- veg ótrúlega vel … póstar segja svo mikið. Ég hef aldrei upplifað svona náin samskipti á svona stuttum tíma, allur töffara- skapur er rokinn út í veður og vind og ég segi nákvæmlega það sem ég vil segja“ (160–161). Lísan sem skrifar söguna er þroskaðri en aðalpersónan Lísa og hefur húmor fyrir eigin sjálflægni, glappaskotum og óráðsíu. Háðskt sjónarhornið bjargar bókinni frá að vera eingöngu vaðall um djamm og sæta stráka en lesandinn er ekki sérlega vongóður um að Lísa hafi „vaknað“ eftir reynsluna af að vera „barnapía dauðans“ (229) eða að hún hafi fundið sjálfa sig. Óneitanlega á Vaknað í Brussel margt sameiginlegt með Dagbók Bridget- ar, Dís og ótal fleiri bókum þar sem dregin er upp skopleg mynd af ungum konum sem eiga erfitt með að fóta sig í ástinni, vinnunni og lífinu yfirleitt. Leit- in að hinum eina rétta er vörðuð vandræðum og erfiðast er svo að eiga kærasta þegar á reynir, þurfa að fórna frelsinu og umbera annan sjálfhverfan ein- stakling. Í bókarlok er Lísa jafnlangt frá því að þroskast og í byrjun en henni tekst auðveldlega að réttlæta það fyrir sjálfri sér: „Mér líður ógeðslega vel og er búin að hitta fullt af frábæru fólki og þetta er búið að vera besti vetur lífs míns og auðvitað er það það sem skiptir máli. … Þó að ég hafi nú bara náð sex markmiðum og verið alltof full allan tímann þá held ég að ég hafi þroskast fullt og hefði aldrei viljað sleppa því að fara sem ópera út í heim. Þetta er ævintýri. Og nú er ævintýrið að verða búið. Ein helgi eftir og hún á eftir að vera rosaleg, ég finn það á mér“ (218). Bókin end- urómar íslenskt talmál 21. aldar, mál sem einkennist af upphrópunum (jei!), gatslitnum áhersluorðum (sjúklegt, geðveikt) og enskuslettum (tipsí, indí, sjitt, fokking gordjöss). En það eru engin átök eða endur- sköpun í stílnum líkt og voru hjá Hallgrími Helgasyni í Hellu og 101 Reykjavík þar sem myndmálið spratt úr fjölmiðlum, reynsluheimi og talanda unga fólksins. Málfarið í Vaknað í Brussel er oft fyndið (t.d. „flindbull að hata ekki reim“ 186) og það heldur frásögninni á floti. Í bók- inni opnast sýn inn í heim kynslóð- arinnar sem veit ekki hvort hún er X eður ei, tekur sér poppstjörnur og þotulið til fyrirmyndar, gleymir sér í vímugjöfum og stundarfró í enda- lausri ævintýraleit en forðast ábyrgð og skyldur sem eru jú bara fyrir nörda. Tungutak dægur- og popp- menningar eins og það er nákvæm- lega núna er hér á bók – ekki að það hafi endilega verið langþráð en kannski tímabært. Bókmenntum hættir til að lokast inni í fílabeins- turni fágaðs ritmáls og listrænna til- þrifa en bók Elísabetar á það ekki á hættu, dísess kræst! „Póstar segja svo mikið …“ SKÁLDSAGA Vaknað í Brussel ELÍSABET ÓLAFSDÓTTIR 235 bls. Forlagið, 2002 Elísabet Ólafsdóttir Steinunn Inga Óttarsdóttir ÞEGAR Álfur vaknar upp einn daginn uppgötvar hann sér til mik- ils hryllings að veröldin hefur tekið stakkaskiptum. Hann er af óvið- ráðanlegum aðstæðum neyddur til þess að berjast fyrir sjálfsímynd sinni og þannig stíga sín fyrstu skref í átt að fullorðinsárunum. Á þessum nótum hefst unglinga- og barnabókin Aldrei aftur nörd eftir Danann Thorstein Thomsen sem Halldóra Jónsdóttir hefur íslensk- að. Bókin segir í stuttu máli frá því hvernig Álfur bregst við þeim að- stæðum sem umturna lífi hans, ekki bara sjálfs- ímyndinni heldur líka hinu félagslega utan- aðliggjandi umhverfi. Eftir að æskufélagi hans flytur í burtu þarf Álfur að læra að bera sjálfur ábyrgð á lífi sínu. Hann er sviptur þeim eigin- leika að geta falið sjálfan sig á bakvið vinsælasta strákinn í bekknum. Hann þarf að sanna sig sjálfur. Smám saman upp- götvar Álfur að hann er ekki einn heldur eru fleiri í hans sporum og með því að gera banda- lag við þá reynir Álfur að snúa þróuninni við. Aldrei aftur nörd tekst á við mörg sígild og kunn- ugleg minni úr ævin- týrum og þjóðsögum. Vísanir í sögur á borð við Litla ljóta andar- ungann og Öskubusku svo fátt eitt sé nefnt má t.d finna í hliðar- sögunni um Birgittu. Sagan um litlu ljótu stúlkuna sem ekki bara þarf að glíma við það að vera öðruvísi en aðrir í bekknum heldur þarf hún einnig að berjast við bekkj- arsystur sínar sem leggja hana í einelti og gera henni allt til miska. Þjóðsagnaminni má finna í sögunni um drauginn eða verndarengilinn Friederich Vals- enberg en síðast en ekki síst er þetta þroskasaga Álfs, prinsins sem þarf að leysa úr ótalmörgum þrautum til að ná markmiði sínu. Bókin er ennfremur áminning um alvarlegar afleiðingar eineltis og er þannig ágætis innlegg í umræðu samtímans. Sagan er lipurlega sögð og stíll- inn einfaldur og aðgengilegur. Eitthvað sem þýðingin hefur fang- að prýðilega. Í persónusköpun á höfundur reyndar til með að missa sig of mikið í hina sígildu skiptingu milli góðs og ills. En aldrei þó svo mikið að kalla megi hana einfalda. Bókin dregur þannig upp ágætis mynd af þroskaferli unglingsár- anna og þeim vandamálum og jafn- framt ævintýrum sem þau ein- kenna. Þroskaskrefið Höskuldur Kári Schram UNGLINGABÓK Aldrei aftur nörd THORSTEIN THOMSEN 219 bls. Halldóra Jónsdóttir þýddi. Vaka- Helgafell 2002 NÝTT bindi í röð Íslenskra forn- rita er ávallt fagnaðarefni. Sérstak- lega þegar það geymir sögur frá jafnæsilegum tíma og það bindi sem hér birtist. Hér eru sögur Skálholtsbiskupa frá upphafi og fram á 13. öld, í Hungurvöku, Þorláks sögum, Páls sögu og þætti af Ísleifi auk latínu- brota um Þorlák sem hér eru prent- uð ásamt þýðingu Gottskálks Jens- sonar, stúdentum í miðaldafræðum til mikils léttis. Fyrirferðarmestar eru þó sögur af Þorláki helga í nokkrum gerðum ásamt frásögnum af jarteinum sem urðu fyrir hans til- verknað. Þorlákur var biskup í Skál- holti undir lok 12. aldar og gat sér það meðal annars til frægðar að eiga í langvinnum illindum við einn helsta frillukóng og höfðingja sinnar tíðar: Jón Loftsson í Odda, fóstra Snorra Sturlusonar. Þeir Jón og Þorlákur tókust á um kirknaeignir og fræg er setning Jóns um að hann megi heyra erki- biskups boðskap en hann sé ráðinn í að halda hann að engu – sem er hér á bls. 167. Þorlákur gekk einnig mjög hart fram í að siða samtíð- armenn sína en átti þar við ramman reip að draga sem var Jón Loftsson. Jón hélt fjórar frillur og átti með þeim að minnsta kosti 11 börn, þar á meðal arftaka Þorláks á biskupsstóli, Pál, með Ragnheiði, systur Þorláks. Þessi flóknu fjöl- skyldumál og harðvít- ugu deilur sem þau kyntu undir urðu til- efni spennandi frásagna sem hér eru saman komnar í misrækilegum gerðum – sem hver hefur sína sögu að segja um viðhorf manna til þess sem má segja og hvað ekki. Til dæmis er mjög ólíkt á milli sögu- gerðanna hvaða andstæðingar bisk- upsins eru nafngreindir. Til marks um hvað átök Þorláks biskups við veraldlega höfðingja brunnu lengi heitt á þjóðinni er að um fjögur hundruð árum síðar er enn verið að festa á blað nýjar sögur af þeim Jóni og Þorláki þegar Jón Erlendsson skráir biskupsannála sína: Þar ritar hann að Jón Loftsson hafi ekki látið sér segjast fyrr en hann sá “undir sér opið helvíti og djöfla farandi með gló- andi járnkrókum, reiðubúnir að draga sig ofan til sín; honum kom þá til hugar að heita því að mótstanda aldrei Þorlák biskup (sbr. bls. 49 í formála). Og enn er arfur Þorláks lifandi í samtímabókmenntum okkar því að fyrr á þessu ári kom út reyf- arakennd skemmti- saga Helga Ingólfsson- ar, Lúin bein, sem gerir sér mat úr þeirri hugmynd að fornleifa- fræðingar finni skrín með beinum dýrlingsins – en um það skrín má lesa í þessu bindi biskupa- sagna sem verður þannig ágætt við- bótarlesefni fyrir aðdáendur Helga. Jarteinasögurnar eru einhver besti gluggi okkar að daglegu lífi fólks á þeim tíma sem fornsögur voru ritaðar. Þær segja frá almenn- ingi og baráttu hans við sjúkdóma og mein sem læknavísindin áttu fá svör við önnur en að ákalla guðdóm- inn – sem kom þá gjarnan til hjálpar fyrir tilverknað dýrlinganna. Á mið- öldum voru lækningar af þessu tagi hluti af viðurkenndri heimsmynd en þær hafa nú þokað til hliðar og telj- ast til hjálækninga – þótt átrúnaður fólks hafi kannski síst minnkað. Í þessum sögum kemst lesandinn í persónulegt návígi við hinar löngu gengnu persónur og finnur til með þeim. Dæmi um slíkt má taka af ungum manni og ættstórum, Þor- steini, þegar heilagur dómur Þor- láks er tekinn úr jörðu og borinn í kirkju. Þorsteinn hafði lengi „hætt- liga steinsótt haft, varð þar alheill svá að steinninn flaut af honum fram, eigi minni vexti en baun“. (97) Í annarri gerð sögunnar kemur fram að steinninn hafi verið „harðr ok tindóttr“ (292) og er það tilfinn- ingalaus maður sem ekki nær óvæntri samlíðan með Þorsteini þessum. Í inngangi rekur útgefandi ræki- lega hugmyndir fræðimanna um höfunda, ritunartíma og áhrif helgi- sagna og guðspjallanna á þær sögur sem hér eru prentaðar, sýnir hvern- ig þær eru felldar í hugmyndamót tímans og veltir fyrir sér hvað fyrir höfundunum hafi vakað. Að öllu samanlögðu er hér komið hið eigu- legasta bindi með stórmerkilegum sögum sem eiga erindi langt út fyrir þröngan hóp fræðimanna vegna þeirrar litríku heimsmyndar sem þar er dregin upp og trúareinlægni sem þær varðveita – sem okkur nú- tímamönnum hættir oft til að van- meta í sögum af miðaldafólki. Biskupasögur á frilluöld BÆKUR Fornrit BISKUPASÖGUR 2, ÍSLENSK FORNRIT 16 Ásdís Egilsdóttir gaf út. Ritstjóri: Jónas Kristjánsson. Hið íslenska fornritafélag 2002. Jónas Kristjánsson Gísli Sigurðsson Melrakki – loðdýr, hænsn, geitur, svín er skráð af Jóni Torfasyni. Þar er fjallað um þess- ar dýrategundir sem setja svip á íslenskar sveitir og náttúru, með ólíkum hætti þó. Gerð er grein fyrir sögu þessara dýra í sambýli við óblíða náttúru, sagt frá fórðun og hirð- ingu, burði og uppeldi ungviðs, rækt- unarstarfi, meðferð afurða og úr- vinnslu. Þessi dýr eiga það sammerkt að hafast við fjarri mannaslóðum eða er að mestu haldið innan dyra og öflugra girðinga. Þótt þau séu þannig ekki mjög áberandi eru þau þó þýðing- armikill þáttur í íslenskum landbún- aði. Útgefandi er Bókaútgáfan á Hofi. Bókin er 216 bls., prentuð í Guten- berg. Verð: 4.200 kr. Fróðleikur Norræn tölfræði (Nordic Stat- istical) árbók 2002 er komin út og er það í fertug- asta sinn. Bókin er inniheldur al- mennar töl- fræðiupplýsingar af ýmsum hliðum félagslífs í Norðurlöndunum fimm, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Að auki eru einnig upp- lýsingar um Færeyjar, Grænland og Álandseyjar. Markmið árbókarinnar er að bera saman upplýsingar um Norðurlöndin. Bókin er rituð á ensku og sænsku. Ritstjóri er Klaus Munch Haagensen. Útgefandi er Norræna ráðherra- nefndin. Bókin er 352 bls., prentuð í Danmörku. Árbók Guðfræðingatal 1847–2002 hefur að geyma ævi- skrár 854 guð- fræðinga (1847– 2002), ágrip af sögu Prestafélags Íslands (1918– 2000) og sam- antekt um sögu guðfræði- og prestsmenntunar á Ís- landi með áherslu á síðari helmingi 20. aldar. Guðfræðingatalið tekur til allra þeirra guðfræðinga sem luku námi frá Prestaskólanum í Reykjavík (1847–1911) og sem síðan hafa lok- ið námi frá guðfræðideild Háskóla Ís- lands (til 2002). Einnig nær guð- fræðingatalið yfir þá sem lokið hafa námi við erlendar menntastofnanir á sama tíma. Þá spannar verkið einnig yfir þá sem hlutu prestsvígslu eftir 1847 án þess að hafa lokið guð- fræðiprófi. Loks eru birt æviágrip er- lendra guðfræðinga af íslenskum uppruna. Síðast var guðfræðingatal gefið út 1976, en síðan hafa yfir 200 manns bæst í hóp íslenskra guðfræðinga. Fjölmargar leiðréttingar hafa einnig verið gerðar á æviskrám eldri guð- fræðinga. Ritið geymir sérstaka skrá yfir guðfræðikandidata 1847–2002, BA-próf frá Háskóla Íslands 1977– 2002, þá sem lokið hafa dokt- orsprófi frá Háskóla Íslands 1911– 2002 og heiðursdoktora Háskólans á sama tíma. Ritstjóri æviskrárhluta verksins er Gunnlaugur Haraldsson þjóðháttafræðingur. Í sérefni ritsins er að finna ágrip af sögu Prestafélags Íslands 1918– 2000 eftir séra Heimi Steinsson og séra Hjalta Hugason dr. theol. Einnig er í ritinu samantekt um Sögu guð- fræði- og prestsmenntunar á Íslandi með áherslu á síðari helming 20. aldar. Kennarar guðfræðideildar Há- skóla Íslands tóku efnið saman undir ritstjórn séra Guðna Þórs Ólafssonar. Útgefandi er Prestafélagið. Bæk- urnar eru í tveimur bindum, alls 1.000 síður. Skálholtsútgáfan sér um dreifingu. Verð 16.900 kr. Stéttartal

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.