Lesbók Morgunblaðsins - 11.10.2003, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 11.10.2003, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 11. OKTÓBER 2003 Þ EGAR ég fyrir hartnær áratug tók að kanna galdra og galdra- mál á Íslandi varð fyrir mér merkileg játning, gjörð af ung- um manni fyrir rétti á Eyri í Skutulsfirði, dagsett 9. apríl 1656. Maður þessi hét Jón Jóns- son, ættaður frá Kirkjubóli í sömu sveit, en hann var ásamt föður sínum, Jóni eldra, ákærður fyrir að hafa valdið sókn- arpresti sínum, séra Jóni Magnússyni, galdra- kvölum sem næst gengu lífi hans. Játaði Jón meðal annars að hafa lesið miskavers yfir manni og gert öðrum geig með því að rista á kefli og syngja þar yfir. Hann kvaðst hafa rist tvo stafi, skyldi annar snúa hugarfari stúlku en hinn koma í veg fyrir sjódrukknun. Sagði hann einnig frá glímugaldri, kveisustöfum, og „það með blóðvökum í skurðina á stöfunum draga svo renna skyldi, nefnandi til nokkra með nafni sem er Golnisþey, Urnir, Hagallinn blá, Augnaþuss“. Játaði hann að hafa rist staf í lófa sér, Fjölni, tekið í hönd klerks og valdið honum með því lófasviða, en öðru sinni mælti hann fram bölbæn, risti staf á skíði eður tálkn og kastaði út í veðrið. Jukust veikindi klerks sam- stundis til muna. Einn liður þessara játninga vakti sérstaka athygli mína, en Jón kvaðst hafa rist nafnkenndri stúlku „fretrúnir“ sem svo kölluðust. Hvernig átti að ráða í þessa frásögn; var þetta hálfbrjálaður hugarburður, gróft spaug eða vísvitað yfirstig, reist á raunveru- legri iðkun? Ljóst er að dómendur í Skutuls- firði töldu svo vera því Jón var ásamt föður sín- um brenndur í logandi báli daginn eftir, sekur fundinn um galdraóhæfu, sannur dauðamaður fyrir Guði og mönnum. Litlu seinna urðu umræddar rúnir í vegi mínum í íslensku galdrakveri frá sautjándu öld. Í ljós kom margbrotin flétta texta og tákn- stafa, fordæðuskapur í orði og mynd, reistur á framandlegri rúnaformúlu, átta ásar, nauðir níu og þursar þrettán, en flétta þessi átti sér ekki hliðstæðu í öðrum heimildum, svo mönn- um væri kunnugt. Galdrar Jóns yngra hurfu við þetta úr heimi groddalegs spaugs og upp- loginna saka, og fengu hlutkennda mynd, með djúpar og víðar rætur, jafnt rúnir hans sem og „að snúa hugarfari stúlku“. Mér þótti brátt lík- legt að þessir táknaklasar byggðust á rökfræði sem skýra mætti með hliðsjón af miðaldakveð- skap, rúnakvæðum og samtímaskrifum um rúnir. Að sérkennileg en rökföst hugsun byggi að baki; rúnum ása og þursa væri núið saman fyrir tilstilli níu Nauðrúna, en tæta átti iður fórnarlambsins sundur, þann veg, líkt og eldur er vaktur við núning tveggja steina. Stafirnir ættu að tengja saman tíma goðsagnar og sam- tíð þess sem galdrar, reynt var að endurskapa viðureign guða og jötna í ragnarökum með dul- úðugri samsömun þar sem örlögrúnin Nauð gegndi lykilhlutverki. Sams konar hugsun lægi til grundvallar kvennagaldri, „að snúa hugar- fari konu“, þar sem rista átti nafn stúlku og nokkra stafi, til dæmis Þurs, Nauðrún og Mannsrún. Þar hafði samsetning Manns og Þursrúnar svipuð áhrif, en sú fyrri vísar á sjálf stúlkunnar sem hin síðari sundrar og þröngvar undir sig fyrir tilstilli Nauðar. Galdraskrift sautjándu aldar var samkvæmt þessu rökvísleg í sínu trúarlega samhengi, en undir niðri býr vísun til „töfraheims“ Óðins sem nam upp rúnir, æpandi og frá sér numinn eftir harða vist í trjávið níu heima. Hinn korg- aði og ruddafengni veruleiki íslenskra rúna- galdra birtir okkur í afskræmdri mynd heim heillandi forma og djúprar lífsspeki, trúarlega forneskju sem margt á sameiginlegt með vist- fræðihugsjónum nútímans, þegar öll kurl koma til grafar. Bók máttarins Þrungin nöfn líkt og grjótvörður á af- skekktri heiði fyrir mörgum árum. Einhvers staðar uppi á fjalli fyrir vestan. Þokumóðan spann rauðleitan vefnað úr steinum og þúfum, flaut í fugli, veröldin stóð á öndinni, en eftir langa göngu hallaði skyndilega undan fæti, heimurinn dró andann á ný og fyrir augum blasti grösugt dalverpi með bláum straumi og bændabýlum; iðandi líf niðri við strönd í fjarska. – Vestfirsk þoka og erlendar galdra- skinnur: Picatrix, Lemegeton, eður Salómons- lykill hinn minni, Fjórða bók Agrippa, Hepta- meron, Grimorium verum, Galdrabók Hónoríusar, Rauði drekinn, Grand Grimoire, Svartur hrafn, Helgitöfrar Abramelins og bók Jóhannesar Fásts, Magia Naturalis et Innat- uralis. Hugvitsvörður sem vöktu dáhrif og skelfingu fyrr á öldum, en liggja núna fyrir framan mig á skrifborðinu, ekki jafnstórann- arlegar og forðum: stafafléttur, launtákna- kerfi, textaflókar á ýmsum málum, tungutal ævagamals tungugaldurs, – hingað komin fyrir mátt nútímatækni, fjarkaupa á interneti, sem hefur að sumra dómi leyst okkur undan krafta- dulinni, nafnaþoku sem spann fjölda kynslóða undravaf. Hérna eru þær, stórar og smáar, minjar um blendna trú á forneskjulega upp- sprettu speki og valds, bækur sem talið var að gætu snúið veröldinni á hvolf. Sá sem kannar trúarbrögð heimsins hverfur inn í víðáttumikinn skóg fíkjutrjáa, taldi E.M. Butler (1948), en þau eru þeirrar náttúru að skjóta rótarsprotum er vaxa niður á við og mynda nýja stofna þannig að eitt tré getur breiðst út um margar ekrur lands í marg- breytilegri gnótt; rætur, leggir og greinar fléttast hver um önnur í sveigjum upp á við og niður á við, til hliðar, í átt að jörðu og upp til himins. Íslensk galdramenning ber vitni um slíka flækju þótt hún hafi haft nokkra sérstöðu í töfraflóru árnýjaldar. Það má sjá með sam- anburði íslenskra og skandinavískra galdra- bóka, en í Noregi nefndust slíkar skræður Svarteboka, í Danmörku og Svíþjóð voru þær oft kenndar við Cyprianus. Í bókum þessum er að finna töfraþulur og tæki af heiðnum toga, samofnar suðrænum anda- og djöflasæringum, en rúnaheim íslenskra galdrakvera er hvergi að finna. Myndmál fíkjuskógar kann að fela í sér of mikla einföldun, hugmynd um sameiginlega heild að baki ólíkum töfra- og trúarheimum, samlíkingu frumstofns og erkiforms, en nota má hana um sinn sem leiðsögutilgátu. Íslensk galdramenning sver sig að minnsta kosti í ætt við slíkan skóg, enda er jafnörðugt að greina frumstofn hennar, með rætur í helgisiðum, lík- um forsögulegum myrkvið, – frjóvgunarsvæði fjölbreyttra trúarhugmynda. Ferlið undir þessari frábæru ofgnótt er kannski hið sama og í fíkjuskógi Butlers, hugmyndirnar hafa vaxið líkt í ofgnótt óteljandi frávika og nýmyndana, en að baki þeim býr óbreytanleg frumhvöt, sem líkist náttúrulegu ferli fæðingar, lífs, dauða og endurfæðingar; vaxtarhring sem tekið hefur sér ólík sniðmót innan trúar, töfra og lista í tím- ans rás, til dæmis í rúnum eins og seinna getur. Auðvelt er að rekja nánar hliðstæður með ís- lenskri galdramenningu og öðrum menningar- heildum; reika má fram og aftur um „skóg- HEIMUR RÚN- ANNA E F T I R M AT T H Í A S V I Ð A R S Æ M U N D S S O N Með þessari grein hefst Rúnamessa Lesbókar. Hér er sagt frá heimsmynd rúnanna og aðferð við túlkun þeirra. Næstu vikur og mánuði verða birtar sextán rúnalýsingar og að endingu eftirmáli þar sem samhengið í táknheimi rúnanna verður skýrt. RÚNAMESSA LESBÓKAR 1 Þeir sem skyggnast í rúnir verða þess fljótt áskynja að margt líkist aðferð skáldskapar. Sé markmið rúna að brjóta niður tálma í vitund- inni og afhjúpa hinstu rök um líf og náttúru, þá er það gjört með flóknum vefnaði orða, mynda og goðsögulegra vísana; hver rún er öðrum bundin, jafnframt því sem allar eru gæddar sérstöðu og einstaklingseðli. Tilviljun ræður ekki stöðu og flokkun, heldur hugmyndarím, ljóðrænt og rökvíslegt í senn, auk þess sem einstök rúnanöfn byggjast á geymd sagna og hugtaka. Þetta eru í senn hljóðtákn og töfra- stafir með slóða inn í forn fræði, skáldskap og goðsagnir. Hægt er að túlka þau með ýmsum hætti, en hér er gengið út frá 1) bókstaflegri eða sögulegri merkingu (Fé vísar á búsmala eða fjár-magn); 2) goðfræði (Fé vísar á gull Völsunga) og 3) heimsmynd (Fé tengist freys- magni jarðar). Tekið skal fram að einstök merkingarsvið blandast saman, auk þess sem hvert þeirra, einkum tvö hin seinni, lýsa í senn félagslegum og sálrænum öflum. Greinarmun- ur goðfræði og heimsmyndar krefst hins vegar nánari skýringar. 2 Elstu rúnir sem fundist hafa, ristar á hjálma frá Negau í Norður- Júgóslavíu (1. öld e. Kr.), bera nöfn manna og goða. Rúnaristur frá þjóð- flutningatímanum innihalda oft töfrarúnir og á silfurspöngina frá Nordendorf eru rist þrjú goðanöfn, „logaþore: wodan: wigiþonar“, auk nafnsins „awaleubwini“, en úr því hafa menn lesið kvennafnið Awa og karlmannsnafnið Leubwini. Goðanöfnin kunna hins vegar að vísa til Óðins, Þórs og Lóðurs (Loka). Spöng þessi mun vera af frönskum uppruna, frá sjö- undu öld e. Kr., og felur væntanlega í sér áheit til guðanna þriggja. Fundist hafa steinar frá víkingaöld með myndum af goðsögulegum at- burðum og athöfnum. Loks má nefna langt grenikefli sem fannst um miðja seinustu öld í Staraja Ladoga í Rússlandi, en á því er áletrun með alls 52 táknum. Kefli þetta mun vera frá níundu öld, en áletrunin lýsir líklega þremur norrænum goðsögnum. Annað dæmi um goð- sögutengsl er galdur Skírnis sem lagði álög á Gerði með bölbæn og rúnaristu, þurs og „þremur stöfum“ sem valda áttu þrenns konar meinum, ergi og æði og óþola. Svipaðar sær- ingarþulur er að finna í þýskum miðaldatext- um, en á rúnakefli frá Björgvin, frá ofanverðri fjórtándu öld, er að finna áletrun sem umskrifa má svona: „ek sendi þér/ ek sé á þér/ ylgjar ergi/ ok óþola.“ Í íslenskum kvennagaldri frá sautjándu öld er að finna samskonar bölbæn svo um raunverulega hefð hefur verið að ræða. Minjar sem þessar bera vitni um kynngimagn- aða og trúarlega þýðingu, enda hafa fræði- menn eins og Rudolf Simek (1984) hafnað til- raunum til að túlka rúnir sem veraldlegt letur án trúarlegs tákngildis og töframáttar. 3 Goðfræðin myndar sem fyrr getur sérstök merkingartengsl sem nauðsynlegt er að kunna grein á. Undir þeim liggur hins vegar hug- takaflétta um myndun og eðli manna, náttúru og guða, margbrotin heimsmynd sem lesa má úr brotakenndum heimildum og mótar tákn- gildi einstakra rúna. Heimsmyndunarsögn Snorra-Eddu er að mínum dómi leiðarvísir í þessu efni, en samkvæmt henni var til kaldur þokugeimur áður en jörð var sköpuð; nefndist hann Niflheimur. Í suðri var annar heimur er Múspell hét, ljós og heitur, en milli þeirra lá opið hyldýpi, Ginnungagap. Í Niflheimi miðjum lá brunnur sem nefndist Hvergelmir. Streymdu úr honum ár miklar, Elivogar, en þegar þær voru komnar nægilega langt frá upptökunum storknaði straumur þeirra og varð að ís. Hlóðst hann upp og þaktist hrími allt til Ginnungagaps, svo nyrðri hluti þess fylltist ísi og snjó, raka og kulda. Sá hluti Ginn- ungagaps sem vissi mót suðri tók hins vegar við sindri og gneistum úr Múspellsheimi. Í miðju Ginnungagapi var loft vindlaust og mættust þar hrím og hiti svo bráðnaði og draup, í kvikudropum, en við það kviknaði ein- kynja lífvera, lík manni; það var frumjötunn- inn Ýmir, en svo er sagt að undir vinstri hendi hans hafi vaxið karl og kona, auk þess sem annar fótur hans gat son við hinum. Með þeim hætti hófust ættir hrímþursa. Þegar hrímið bráðnaði í Ginnungagapi varð einnig til kýrin Auðhumla og fékk Ýmir næringu sína úr fjór- um mjólkurám er runnu úr spenum hennar. Kýrin sleikti salta hrímsteina og „hinn fyrsta steinanna, er hún sleikti, kom úr steininum að kveldi mannshár, annan dag mannshöfuð, þriðja dag var það allur maður“. Hét hann Búri og var fagur álitum, mikill og máttugur, að sögn Snorra-Eddu. Gat hann son er Bor hét og fékk sá þeirrar konu er Bestla hét, dóttir Bölþorns jötuns, en synir þeirra þrír voru æs- irnir Óðinn, Vili og Vé. Þessi guðaþrenning drap Ými, flutti hann í mitt Ginnungagap og gjörði af honum jörð, sjó og himin með fjórum skautum. Þar næst skóp þrenning þessi menn úr tveimur lifandi verum, trjám, sem fundust á sjávarströndu. Gaf Óðinn lífsanda (önd og líf), Vili gaf vitsmuni (vit og hræring), en Vé form, mál og skilningarvit. Hét karlmaðurinn Askur, en konan Embla. 4 Þetta ferli lýsir atburðum á undan og í örófi tíma og rúms. Ginnungagap er órofavídd án forms, hlaðið óskiptu orkuflæði því frumefni hafa ekki myndast. Tvö orkuskaut verða samt til, kölluð Niflheimur og Múspellsheimur, en samdráttur þeirra liggur því sem á eftir fer til grundvallar. Hvað veldur slíkri skautun í loft- leysi Ginnungagaps er óljóst, en við spennuna verður til frum-myndan, kvikudropi, sem felur kannski í sér forsnið heimsins, Yggdrasils, form alls sem síðar varð. Þegar bloss hitans og hrímið mætast þá á önnur tvískautun sér stað; droparegnið myndar frum-efni (Ými) og frum- orku (Auðhumlu), en sumt sest til í Ginnunga- gapi, kristallast í salta hrímsteina sem kýrin fæðist við og skapar úr frum-guð/jötun. Vit- undin kemur síðan til sögu með Bor, föður guðaþrenningar sem sundrar efnisorku upp- hafsins, Ými, og setur heiminum lög til sam- ræmis við frumdropa eða perlu alheimsins. Þessi þrenning varð til við kynferðislega æxl- un, einkynja veruleiki upphafsins víkur fyrir skiptum heimi andstæðna, en mismunur er forsenda allrar vitundar. Tilurð mannkyns er hluti af þessu ferli því það er ekki skapað úr engu; Askur og Embla voru fyrir lífrænar ver- ur, myndan þeirra var liður í órofa sköpunar- ferli náttúru og alheims. Þessi fræði eru að mínum dómi undirstaða merkinga, arfsagna og hugtaka sem lesa má úr einstökum rúnum. Í næstu greinum verður rýnt í nöfn og tengsl, lögð er áhersla á þrennd- ir eða þríundir sem virðast oft og tíðum hafa mótað töfraaðferð rúna. Hafa verður í huga við lestur að lögmál og óreiða mynduðu marg- slungna og brothætta jafnvægisheild í heiðinni hugsun. Lífið átti stöðugt undir högg að sækja því þótt ásum tækist að binda orku íss og elds í upphafi var ekki um endanlega sköpun að ræða; skipulag þeirra gat sprungið hvenær sem var ef leystist um mátt jötna. INNGANGUR UM AÐFERÐ

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.