Lesbók Morgunblaðsins - 29.11.2003, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 29.11.2003, Blaðsíða 11
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 29. NÓVEMBER 2003 11 Hvað eru margar holur á golfkúlum? SVAR: Holufjöldinn á golfkúlum er breyti- legur eftir tegundum en algengt er að hann sé um 400. Í sumum tilvikum er hans getið í tegundarheiti og stundum fylgir einnig orð eða skammstöfun sem segir til um hver lög- unin á holunni er (hringlaga, fimmhyrn- ingar, sexhyrningar og svo framvegis). Hol- urnar og einkenni þeirra hafa áhrif á flugeiginleika kúlunnar. Ef ekki þarf að taka tillit til loftmótstöðu er einfalt að sýna fram á að kasthlutur eins og golfkúla nær lengstu flugi fyrir tiltekinn upphafshraða ef henni er skotið undir 45° horni frá láréttu. Flugferill hennar verður alltaf fleygbogi (parabóla) og öll önnur skot- horn bæði stærri og minni gefa styttra flug. En málið verður öllu flóknara þegar taka þarf tillit til loftmótstöðu og loftstreymis umhverfis kúluna. Ef yfirborð kúlunnar er mjög slétt verður meginmótstaðan við flug hennar vegna sogs og iðukasta sem myndast í „kjölfar“ hennar. Þessi mótstaða er þeim mun meiri sem hraði hennar er meiri, en hiti og loftþrýstingur hafa hér einnig nokkur áhrif. Nú verður sambandið flókið milli upp- hafshraða, skothorns og fluglengdar og regl- an um einfaldan fleygboga gildir ekki leng- ur. Ef snúningi er komið á kúluna um leið og henni er skotið af stað verður flugferill hennar enn flóknari og það er einkum hér sem fyrrgreindar holur fara að skipta máli. Snúningurinn veldur því að loftið streymir mishratt framhjá kúlunni, miðað við yf- irborð hennar, svipað því sem gerist ofan og neðan við flugvélarvæng. Þetta leiðir til þess að þrýstikraftur verkar á kúluna auk þyngd- arkraftsins. Stefna þessa krafts ræðst af því hvernig kúlan snýst miðað við hraðastefnu hennar. Ef kúlan snýst þannig að neðsti punktur hennar hreyfist áfram miðað við miðpunkt- inn er talað um að hún hafi bakspuna. Efsti punkturinn hreyfist þá að sama skapi aftur- ábak miðað við miðpunkt og hrjúft yfirborð kúlunnar stuðlar að því að hraði loftsins framhjá kúlunni fyrir ofan hana verður tals- vert meiri en fyrir neðan hana. Þrýstikraft- urinn niður á við frá loftinu fyrir ofan verð- ur þá minni en krafturinn upp á við frá loftinu fyrir neðan og það kemur fram heild- arkraftur sem lyftir kúlunni á fluginu og vinnur að hluta til gegn þyngdarkraftinum. Flug kúlunnar verður þannig að hún rís meðan snúningshraðinn er mikill en þegar hann minnkar síðan dettur hún nánast nið- ur. Þessi áhrif eru mismikil eftir því hvaða kylfa er notuð, það er að segja undir hvaða horni kúlunni er skotið. Hér ræður mestu að snúningshraðinn verður þeim mun meiri sem hærra járn er notað, eins og kylfingar kalla það. Við getum tekið sem dæmi að kúla sé slegin með 7-járni og fái þá snúnings- hraða sem er um 5.000 snúningar á mínútu. Ef notað er 9-járn í staðinn verður snún- ingshraðinn um 7.000 snúningar á mínútu. Laginn kylfingur getur einnig framkallað spunastefnu þannig að þrýstikrafturinn sveigi kúluna til hægri eða vinstri á fluginu. Þeir sem minna mega sín framkalla einnig slíkar hreyfingar, en sjaldnast eins og þeir ætla sér og boltinn sveigir út og suður þegar þeir vildu í raun fá hann til að fljúga beint. Við sjáum af þessu að tilgangurinn með holunum er að gera flugeiginleika golfkúl- unnar fjölbreyttari og auðvelda kylfingnum að stjórna flugi hennar þegar rétt er slegið. Holurnar ásamt spunanum hafa svipuð áhrif á flug boltans eins og breytileg vængbörð eða flapar á flug flugvéla. Skotlengdin ákvarðast síðan af skothorninu, það er að segja af valinu á kylfu. Örn Helgason, prófessor í eðlisfræði við HÍ. Hvað eru til margar tegundir af þróunarkenningunni? SVAR: Margir hafa sett fram þróunarkenn- ingar, svo sem hinn gríski Anaximander eða Frakkarnir Buffon og Lamarck og að sjálf- sögu Charles Darwin. En spurt er um teg- undir eða gerðir af þróunarkenningum. Færa má fyrir því rök að til séu tvenns kon- ar þróunarkenningar. Þróun er breyting á ástandi einhvers kerfis í tíma. Þróunarkenningu er ætlað að skýra breytinguna. Fyrri gerð þróunarkenn- inga má kenna við þroskun eða umbreyt- ingu. Hún gerir ráð fyrir því að einingarnar í kerfinu taki hver fyrir sig áþekkum breyt- ingum. Ástand kerfisins (eða hópsins) breyt- ist eða þróast vegna þess að einingarnar taka slíkum breytingum. Sem dæmi má nefna kenningu Piaget um þroskun manna. Ef fylgst er með hópi barna sem byrjar í barnaskóla og klárar stúdents- próf í menntaskóla sést að hvert barn lærir að lesa, skrifa og reikna og táningarnir læra síðan tungumál, stærðfræði og fleira og fleira. Hver einstaklingur þroskast og hóp- urinn breytist eða þróast þar eð einstakling- arnir þroskast á áþekkan hátt. Kenning Marx og Engels um þróun þjóðfélaga er af sömu gerð. Þeir gerðu ráð fyrir að þjóðfélög breyttust úr lénskerfi í kapítalisma og úr kapítalisma í kommúnisma. Ef hvert þjóð- félag breytist mun hópur slíkra þjóðfélaga, t.d. í einni heimsálfu, þróast. Hin gerð þróunarkenninga er um fyr- irfram gerðan breytileika sem er sigtaður þannig að eftir stendur það sem ekki fór í gegnum sigtið – hún er breytileika- og sigt- unarkenning og algjör andstæða um- breytikenninga. Þróunarkenning Darwins (og nýja synþesan eða samþættingin sem er afsprengi hennar) er eina kenningin af þess- ari tegund þróunarkenninga. Náttúrlegt val er gangvirki þessarar kenningar. Það byggist á þremur stað- reyndum um allar lífverur: 1. Lífverur eru breytilegar að formi, líf- eðli og atferli. 2. Breytileiki erfist sem merkir að af- kvæmi líkjast foreldrum sínum meira en þeir líkjast óskyldum einstaklingum. 3. Breytilegar lífverur eignast mismörg afkvæmi. Ef þessar þrjár forsendur eru sannar all- ar í senn þá er það óhjákvæmileg afleiðing að ein gerð velst fram fyrir aðra á vélrænan eða náttúrlegan hátt. Náttúrlegt val er því afleiðing þessara þriggja staðreynda. Sam- setning stofns sem inniheldur þessar gerðir mun því breytast, stofninn þróast. Til að út- skýra aðlögun bætir Darwin síðan við fjórða lögmálinu um baráttuna fyrir lífinu sem er starfræn efnisleg ástæða fyrir mishraðri æxlun. Einar Árnason, prófessor í líffræði við HÍ. HVAÐ ERU MARGAR HOLUR Á GOLFKÚLUM? Hvaða áhrif hefur femínismi haft á félagsfræði- legar rannsóknir, um hvað fjallar gaiakenningin og hvað er maurildi. Þessum spurningum og fjölmörgum öðrum hefur verið svarað að undanförnu á Vísindavefnum og hægt er að lesa svörin á slóðinni www.visindavefur.hi.is. VÍSINDI Í dróttkvæðinu Haustlöng er greint frá reið Þórs um himinhvolfið til fundar við jötna. Þessari ferð fylgir mikill gnýr í lofti, náttúran öll bylur og brestur, enda ræður Þór ekki aðeins yfir þrumum og eldingum heldur lætur hann haglél dynja á jörðu þegar svo ber undir. Orrustunni sjálfri er lýst sem veðri guðsins og skotvopn kennd til hagls eða drífu; eru kölluð „hagl boga“ svo dæmi sé tekið. Svipað skáldmál kemur víða fyrir í fornum skáldskap enda styðst það við eldgamlar hugmyndir um atbeina guða og vætta í orrustum manna; þá er beitt vopnum sem kastað er inn í bardagann, oftast í formi ofsafengins veðurs. Í Svarfdæla sögu er til dæmis talað um „kornél gróið vél- um“, galdramaður lætur illt él drífa yfir óvini sína; og í Ólafs sögu Tryggvasonar tekur flagð nokkurt þátt í bardaga með éli miklu og illviðri, og sáu menn að ör flaug af hverjum fingri þess. Rúnagaldrar 17. aldar tengjast oft og tíðum máttarsviði Þórs enda var hlutverk hans að verja heiminn fyrir öflum ofbeldis og glundroða. Sé horft yfir Íslenska galdrabók kemur til dæmis í ljós að tákn honum tengd koma oftar fyrir en önnur, ýmist ein síns liðs eða í slagtogi við önnur. Eitt þeirra var að mínum dómi Hagalsrúnin, sem stóð fyr- ir hljóðgildið h, en í rúnakvæðum er hún tengd korn- éli, krapadrífu og snákasótt. Sumir fræðimenn hafa gert ráð fyrir að hagalsnafnið tengist sérnafninu Hagall (sem þekktist að fornu), en í rúnalýsingum Jóns Ólafssonar frá Grunnavík, 1732–52, er rúnin kennd til Hræsvelgs, jötuns í arnarham. Samkvæmt Vafþrúðnismálum situr hann við enda himins og vek- ur vind með vængjum sínum; hjá Jóni spýtir hann líkt og Þór hagli yfir jörðina. Hagalsrúnin líktist í upphafi latnesku H, en varð á fyrri hluta níundu aldar nauðalík eldingartákni sem tengst hafði þrumuguðum Grikkja og Rómverja, Seifi og Júpíter, auk þess sem svipað tákn var eignað Póseidon og Neptúnusi, sjávarguðum fornaldar. Þetta tákn mun hafa breiðst út um Norðurálfu með rómverskri mynt á fyrstu öldum eftir Krist. Þá sýna fornleifafundir að germanskir stríðsmenn ristu eld- ingartáknið á spjótsblöð og sköft svo ætla má að vopnið hafi átt að taka með sér eldingu og blindhríð í bardaga. Germanir einfölduðu þó tákn Rómverja því miðkvíslin hvarf að mestu, varð að skafti á milli tvíkvíslaðra gaffla. Þar var um eðlilega þróun að ræða því miðkvíslin hefur frá upphafi staðið fyrir eldingargeislann sjálfan sem vopnið leysti smám saman af hólmi. Þá munu norrænir menn hafa þekkt þríforkinn þótt miðkvísl- inni væri oft sleppt, táknið tók á sig ýmis form einsog Hagalsrúnin er til vitnis um, en með henni var táknið einfaldað og lagað að skrift. Hagalsrúnin er notuð með ýmsum hætti í Íslenskri galdrabók. Þar er til dæmis stafur bú- inn tíu Hagalsrúnum sem skjótast í allar áttir líkt og sólargeislar eða þyrnisbroddar. Stafn- um fylgir svofelldur texti: „Ef þú vilt að maður rati ei á bæ þinn, rist þennan staf á reynirtré þá sól er í hádegisstað og gakk þrisvar réttsælis og þrisvar rangsælis í kringum bæi þinn og halt á reynirssprotanum sem stafurinn er á ristur og hvassbrodduðu þyrnigrasi og legg svo hvoru tveggja upp á miðjan bæg á dyrabust þína… “ Brugðið er huliðshjálmi yfir heilan bæ með atbeina reynis og þyrnigrass, auk þess sem tímasetning skiptir miklu máli: athöfnin verður að fara fram á hádegi þegar máttur sólar er mestur. Þá er sem töfraflutningur eigi sér stað, sólin rennur saman við stafinn og blindar óvelkominn gest. Með þyrnigrasi er trú- lega átt við jurt af körfublómaætt, þistil, sem taldist búa yfir sérstöku magni. Jurt þessi hef- ur tengst Hagalsrúninni, þótt ekki sé nema vegna útlits, því Hagall minnir á þyrnóttan þistil sem stingur, veldur sviða, brennir. Eldingartáknið var tákn suðrænna þrumuguða svo ekki er óeðlilegt að það tengist Þór eft- ir að hafa ruðst inní rúnastafrófið undir nafni Hagalsrúnar. Ástæða þess að táknið festist hvorki við þrumu né eldingu er trúlega sú að haglél var norrænum mönnum hættulegra auk þess sem það fellur oft með þrumuveðri á norðurslóðum. Það má því ímynda sér að Haga- lsætt rúnastafrófsins sé í raun ætt Þórs með sama hætti og Týsætt vísar á guðinn Tý, guð laga og reglu, sigurs og dauða. Hagalstáknið minnir auk þess í sumum formum sínum á tvö- falda mannsrún, svo setja má fram aðra tilgátu til viðbótar; að í tákninu felist tvíefldur eða rammaukinn Maður, búinn mætti Þórs sem var erkidæmi mannsins sjálfs samkvæmt sum- um goðsögnum, sonur guðs og jarðar. Allt þetta samræmist því sem áður er sagt um tví- og margræðni frumtákna. Þór var í senn guð frjósemi og ofbeldis, vaxtar og dauða, svo eðlilegt er að tákn hans byggist á and- stæðu líkt og þríforkar Grikkja og Rómverja sem tengdust í senn goðmögnum elds og vatns. RÚNAMESSA LESBÓKAR Morgunblaðið/Golli „Eitt þeirra var að mínum dómi Hagalsrúnin, sem stóð fyrir hljóðgildið h, en í rúnakvæðum er hún tengd kornéli, krapadrífu og snákasótt.“ HAGALL RÚNALÝSING 7:16 M AT T H Í A S V I Ð A R S Æ M U N D S S O N

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.