Lesbók Morgunblaðsins - 26.02.2005, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 26.02.2005, Blaðsíða 4
4 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 26. febrúar 2005 M ikil er hún, myndgátan sem þú hefur burðast með í gegnum lífið“ (65) segir Friðrik B. Friðjónsson við nýlátinn hálfvitann, Öbbu hina asíatísku. Öll koma þau fyrir í verðlaunasögunni Skugga-Baldri: myndgátan, Friðrik og Abba, auk auðvitað Skugga- Baldurs sjálfs. Myndgátan reynist bera latneskar áritanir eftir Óvidíus, höfund Myndbreyting- anna. Önnur fjallar um myndbreytingar: „Allt breytist – ekkert hverfur“ (68) en hin segir: „Sú byrði er létt sem vel er borin“ (73). Áritanirnar spegla á áhugaverðan hátt efni sögunnar, sem einmitt fjallar öðrum þræði um myndbreytingar og byrðar mannfólksins. Árituðu myndgátuna má einnig skoða í samhengi við höfund- arverk Sjóns og leik hans með myndir og orð, samspil og árekstra. Áhrif súrrealismans birtast einmitt í myndmálinu, en eitt af því sem súrrealískir listamenn fögnuðu voru óvæntir fundir ólíkra hluta í ólíklegu rými sem sköpuðu tilfinningu ein- kennileika, gáfu til kynna hugmynd um annan veruleika. Súr- realisminn er hið myndglaða leiðarljós Sjóns þegar hann byrjar að smíða ljóð, sextán ára gefur hann út ljóðabókina Sýnir (1978) fulla af ungæðislegu og skemmtilegu myndmáli: „Hvert stefn- ir?“ segir í ljóðinu Sýnir III, „ég geng eftir glerbrúnni“. Mörkin milli veruleika og fantasíu, draums, eða kannski frekar einhvers annars veruleika eru strax skáldinu hugleikin og það skemmti- lega er að þessi annar veruleiki – súrrealisma, fantasíu – er allt- af innan seilingar í ljóðunum: leggur aðra höndina á glervegginn stundum finnur hann fyrir fiskunum í gegn og þá kitlar hann í lófann undan sporðakastinu og svo stendur hann upp og gengur að glerveggnum og (Svefnrof 1980) Hér er lesandanum boðið yfir glerbrúna með skáldinu og það þarf sterkar taugar til að finna ekki fyrir iðandi fiskunum í lóf- anum. „you don’t have to speak“ Það er þó ekki endilega súrrealisminn sem er mér minnisstæður úr þessum fyrstu ljóðum Sjóns, heldur miklu frekar erótíkin, ljóðin, sérstaklega frá og með Hvernig elskar maður hendur? (með Matthíasi Magnússyni, 1981), eru löðrandi í heillandi eró- tík sem tekur tungumálið yfir: „Nú duga nefnilega ekki lengur orð“ segir í Sjónhverfingabókinni (1983), „einsog höfuð, bíll, maríufiskur, / japanslilja, vegur, nótt, reykelsi, / tjörn, losti, jakkaföt, tónlist“: Nú vil ég ganga á þér og hljóðin sem berast þegar iljar mínar og hörund þitt leika teningaspil Það (h)ljóð ætlar ljóðmælandi að tileinka sér og hrópa á eftir þeirri sem ávörpuð er þegar hún siglir frá honum á „gömlu sendibréfi“. Það er rómantík í þessu ljóði (gamla sendibréfið, ástarbréf?), vissulega, en fyrst og fremst birtist hér tilfinning fyrir snertingu, samhljóm sem einkennir erótík skáldsins Sjóns. „Hver er orðinn að glerveru?„ spyr skáldið í ljóði í Hvernig elsk- ar maður hendur?: „Inni í höfðinu titra konubrjóst / marmarinn snertir þau varlega / með rökum augnakrókum og gagnaugum.“ Myndmál augna er áberandi í gegnum ljóðin, ekki aðeins til- vísun til höfundarnafns Sjóns heldur einnig til nóvellu Georges Batailles, þess er mest skrifaði um erótík, eftir að hafa skrifað hina erótísku klámSögu augans (1928). Volgt gler „Þá eru konurnar úr volgu gleri“ segir í ljóðinu Dagur og nótt (Reiðhjól blinda mannsins 1982) og það skemmtilega er að það er eins og það sé gler á milli þessara fyrstu ljóðabóka og fyrstu skáldsögunnar, Stálnótt (1987). Myndmálið er það sem sést í gegnum glerið, en fyrir utan augnamyndmálið og erótíkina er sjávarmyndmál áberandi á báðum stöðum. Þetta spilar svo sam- an á heillandi mótsagnakenndan hátt, kalt og heitt, kaldur sjór og svalt glerið (marmarinn), í gegnum það horfa heit augun – er það furða að glerið volgni. Þetta er auðvitað sýn gægisins, þess sem horfir inn, utanfrá, en með því að tefla fram þessum mót- sögnum skapar Sjón þá tilfinningu að það sé sjálft augnaráðið sem hefur tekið yfir, heit augun bræða sig gegnum glerið, fjar- lægðin minnkar, veggurinn opnast undan augnaráði Önnunnar í Stálnótt (90). Seinna mola setningar veggi í því sem er líklega minn uppáhaldsbókmenntatexti, lokakaflinn í Stálnótt. Stálnóttin hefst á því að við sjáum eitthvað, greinum dökka „þúst á hafsbotni“. Þústin reynist bíll Johnnys Triumphs, hann rennir uppí fjöru og ekur í átt til borgarinnar að blýmúr sem skýlir afleiðingum kjarnorkuslyss, og skilur eftir þar fyrir innan fjögur rjúkandi egg sem togast og teygjast uns þau taka á sig leðurklæddar mannsmyndir. Djöflarnir úr eggjunum leita uppi fjögur ungmenni: Jonnann, Finninn, Dísuna og Önnuna. Les- andinn er gerður að áhorfanda atburða sögunnar, augnamynd- málið er stöðugt og hlaðið erótík. Erótíkin er síðan hlaðin hryll- ingi: „hákarl syndir inn í ljósgeislann. Ekillinn snarhemlar og það fer um hann ljúfur hrollur: Augnablikið sem andlit dýrsins var aðeins sentimetrum frá hans kveikti minningar um löngu liðinn tíma“ (13). Johnny Triumph nemur staðar og rifjar upp skemmtilega oddhvassan ástafund. Þráður úr rauðu efni Í Engli pípuhatti og jarðarberi (1989) víkur hinn kantaði stíll Stálnæturinnar fyrir (almennt) mun ljúfari texta, sögu, um drenginn Stein sem einn góðan veðurdag fer niður á strönd með englinum sínum, stúlkunni sinni, í bæ þar sem jarðarberjatré vaxa og ilma. En í sögunni er annar heimur samhliða þeim bjarta, skuggaheimur, þar leiðir skuggi með pípuhatt Stein inn í súrrealískan heim og þar eru jarðarber blóð og tákn uppreisnar. Aftur birtist þessi glerveggur, eða glerbrú, þarsem Steinn og Skugginn horfa inn í heim hversdagsleikans (sem er þó ekki hversdagslegur), og þótt Steinninn þar sjái aldrei almennilega inn í skuggaheiminn, þá birtast honum ýmsar vísbendingar um tilvist hans. Og aftur sjáum við myndmál ljóðanna gegnum gler- ið: „Dagar eins og hljómfagur skuggi / á vegg yfir heitum vatna- fiskum“ segir í ljóðinu Upprifjun úr Reiðhjóli blinda mannsins og í sama ljóði er línan: „Dagar eins og hreistraður þráður / í rauðu efni í kjól“, en rauður þráður er einmitt leiðarhnoða Steins í skuggaheiminum. En hvað eigum við að halda um skuggaheiminn? Hann er greinilega heimur óróans, óreiðunnar, jafnvel ofbeldisins. Hér er uppreisn, sem virðist beinast jafnt að hinum borgaralegu gildum sem hugmyndum okkar um veruleikann – bakvið glerið/ spegilinn er annar heimur, undirheimur eða skuggaheimur sem við viljum ekki vita af og reynum að hafna. Skáldsagan Engill pípuhattur og jarðarber birtir því líklegast á hvað skýrastan hátt þau átök sem eiga sér stöðugt stað í skáldskap Sjóns, átök milli hugmynda okkar um hvað er veruleiki og hvað ekki, átök sem endurspegla síðan hugmyndir okkar um veruleikann, hvernig við mótum hann úr því sem við erum tilbúin að sam- þykkja og því sem okkur finnst þægilegra að ýta til hliðar. „Fiskarnir streyma úr líkama hússins“ Einhvernveginn er sjávarmyndmálið („one breath away from mother oceania“, Björk, Oceania, texti Sjóns) mér efst í huga þegar ég hugsa til ljóðabókarinnar Ég man ekki eitthvað um skýin, þó líklega ætti ég að beina sjónum mínum meira til him- ins: „himinninn vekur mig / með höggi / milli augnanna“ segir í ljóðinu (ferja) (og farþegi), en sjáiði til, þarna er ljóðmælandi samt úti á sjó. Þetta er elegant ljóðabók, fáguð og fægð – eins og titlarnir sem ramma ljóðin inn gefa til kynna, en samt svo dásamlega villugjörn, enda segir ljóðmælandi (café selsíus): „ég er með götukort / og get verið viss um að villast.“ Ein af þessum línum sem hver einasti ferðalangur hlýtur að hafa upplifað á eig- in líkama í óþekktri borg. Í öðru ljóði, „(vetrarprinsinn horfir á hérann) (hérinn horfir á vetrarprinsinn)“, er ljóðmælandi „í djúpinu / með djúpverðinum / smokkfiskar skjótast / um líkam- ann“. Aftur erum við minnt á þessa ólýsanlegu tilfinningu ein- hverrar ókennilegrar snertingar, sem kannski tilheyrir nóttinni: í Góða nótt (Reiðhjól blinda mannsins); „verpa klukkurnar gler- augum á stólseturnar á meðan við sofum“. Og með þessi gler- augu getur lesandi verið viss um að lenda í dásamlegum villum. „Upphafið að nýjum tímum í bókmenntum heimsins“ Ég hef áður velt því fyrir mér hvort hér megi sjá ákveðin skil í höfundarverki Sjóns. Ljóðin og skáldsögurnar hingað til hafa einkennst af leik með myndmál og áhrifavalda, en með skáldsög- unni Augu þín sáu mig (1994) verður úrvinnslan úr öðrum text- um mun markvissari og er komin meira uppá yfirborðið. Sagan gerist í smáþorpinu Kükenstadt, en þar birtist hungr- aður flóttamaður með leirklump í hattöskju. Flóttamanninum, Löwe að nafni, er komið fyrir á gistiheimili og með hjálp þjón- ustustúlkunnar Marie-Sophie mótar hann barn úr leirklump- inum og saman gefa þau því líf. Viðfangsefni skáldsögunnar er gyðingleg goðsaga um góleminn, gervimann sem mótaður var úr leir og lífgaður með tungumáli, bókstöfum og orðum, nánar til- tekið bókstöfum hebreska stafrófsins. Góleminn er goðsagna- og þjóðsagnavera, frægasta útgáfan er frá sextándu öld og ger- ist í Prag, en þá var leirkarl lífgaður af rabbía að nafni Löwe. Fyrir utan þessa þjóðsögu kallast Augu þín sáu mig á við skáldverk af ýmsu tagi, kvikmyndir og aðrar þjóðsögur sem tengjast viðfangsefninu á misljósan hátt. Sumt eru sögur af gervimennum, annað sögur frá Prag: á einum stað hittum við fyrir sætabrauðskarla, þeir misbjóða velsæmi eldabuskunnar á hótelinu: Deigið dansaði á borðinu, hófst á loft og skall niður, snerist, tognaði og þéttist, eins og ólmur krakkagrislingur sem vill ekki láta skipta á sér. Og eldabuskan var öll á valdi deigsins, mikilfenglegur búkur hennar hristist og skalf, allt frá smáum fótunum sem tóku snögg dansspor undir borðinu til undirhökunnar sem belgdist út og dróst saman í samræmi við upptök hreyfingarinnar – deigið. (33) Hér höfum við dýrlega erótík, líkamleika hins mikla móðurlík- ama sem mótar menn úr deigi sínu – og bakar. Þetta líflega deig endurspeglar leir gólembarnsins sem einnig er lífgað í miklum hita, mótað úr „lifandi formleysu“ (37). Augu þín sáu mig er fyrsta bókin í þrennu (sú þriðja enn ófædd), framhaldið, Með titrandi tár: Glæpasaga (2001), birtist einum sjö árum síðar. Leo Löwe, sem í lok Augnanna er kominn á skip sem stímir á Ísland, er sestur hér að og strax búinn að flækja sig í ýmislegt vafasamt, það er að segja viðskipti með frí- merki. Í hattöskju ber hann leirbarnið sitt en til að lífga það þarf hann að finna hringinn sem hann borgaði farið með, gullhring- inn sem mennirnir tveir sem birtust í káetudyrum hans í upphafi ferðar brutu í tvennt og skiptu þannig milli sín. Þeir reynast vera tvíburar, annar er frímerkjasali og hinn þingvörður, báðir nokkuð vafasamir. Sem betur fer hittir Leó þó einnig gott fólk, rússneskan njósnara og bandarískan djassista, sem aðstoða hann eftir mætti. Hér er magn af litskrúðugum persónum og rjúkandi húmor, auk næmrar og lýsandi úttektar á Íslend- ingnum í ýmsum útgáfum. Allt þetta fléttast saman í stuttum myndskeiðum sem jafnframt gefa sterka og skýra heildarmynd. „Geðbilaði drengurinn kemur reglu á hlutina“ Milli skáldsagnanna tveggja stendur ljóðabókin Myrkar fígúrur (1998). Líkt og Augu þín sáu mig ber bókin þess vitni að eitthvað mikið er að gerast í skáldskap Sjóns, þótt vissulega megi enn greina höfundareinkenni hins unga súrrealista, þá hefur orðið hér einhver breyting á takti. Meira er um frásögur, vissulega draumkenndar og ævintýralegar, en hvorki eins æsingslegar og í fyrstu ljóðabókunum, né eins fágaðar og í Skýjunum. Ljóðið „upphefð“ lýsir þessu vel: þér hæfa hvorki ljóð né skáldsaga aðeins söluvænn bókartitill: geðbilaði drengurinn kemur reglu á hlutina bókina skrifa ég ekki en les samt fyrir börn á kvöldin flissandi eins og þú á góðri stundu Sjón Gegnum glerið „Og aftur sjáum við myndmál ljóðanna gegnum glerið: „Dagar eins og hljómfagur skuggi / á vegg yfir heitum vatnafiskum“ … Af skáldum og skuggaböldrum

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.