Morgunblaðið - 10.01.2005, Blaðsíða 11

Morgunblaðið - 10.01.2005, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 10. JANÚAR 2005 11 MINNSTAÐUR ÚTSALA Opið virka daga 10-18, laugardaga 10-16 Nýbýlavegi 12, Kóp., sími 554 4433 TILEFNIÐ var fyrst og fremst að fræðast um starfið í Arnardal því á fundi sínum í lok nýliðins árs ákvað bæjarráð Akraness að veita æsku- lýðsheimilinu Arnardal viðurkenn- ingu fyrir góðan rekstur á árinu 2004. Í tilkynningu frá bæjarráði segir að rekstur Arnardals hafi á undanförnum árum verið í samræmi við fjárhagsáætlun og verið öðrum stofnunum til fyrirmyndar í þeim efnum. Auk þess hafi á liðnum mán- uðum verið staðið vel að faglegu starfi og nýbreytni. Af þessu tilefni veitti bæjarráð Arnardal viðurkenn- ingu og 500 þúsund krónur til kaupa á tækjum og áhöldum eða annarra skilgreindra verkefna. „Já, starfið hefur gengið vel og það er vissulega ánægjulegt að fá viðurkenningu,“ sagði Einar Skúla- son, „og það skiptir okkur líka miklu máli að fá þessa peninga enda mikil not fyrir þá.“ Unglingastarf og sérverkefni með yngri börnum Markmið Arnardals eru vel skil- greind. Þar fer fram viðurkennt tómstundarstarf, forvarnir, fræðsla og örvun til félagsþroska og já- kvæðra samskipta. Þessir áherslu- þættir birtast með beinum og óbein- um hætti í starfsemi Arnardals og liggja til grundvallar því tómstunda- starfi sem unglingar og starfsfólk vinnur að. Arnardalur er opinn öll- um unglingum á aldrinum 13–16 ára sem áhuga hafa á að taka þátt í starfseminni. Sérstaklega er leitast við að ná til þeirra unglinga sem sök- um áhugaleysis eða af öðrum orsök- um sinna ekki heilbrigðum viðfangs- efnum í tómstundum sínum. Áhersla er lögð á að ná til þeirra barna og unglinga sem eru einangruð vegna líkamlegrar eða andlegrar fötlunar. Einar og Anna segja að þrátt fyrir að starfið sé að stærstum hluta mið- að við 13–16 ára unglinga hafi á und- anförnum árum verið þróað sérverk- efni fyrir yngri börn. Um er að ræða litla hópa, 5–10 í hverjum hópi, þar sem hverjum og einum er vel sinnt. Valið er í hópana í samráði við skólana og fjölskyldusvið Akraness. „Það hefur sýnt sig að mikil þörf er á þessu starfi,“ segir Anna. „Þetta byrjaði fyrir 4–5 árum en starfið hefur hlaðið utan á sig ár frá ári.“ Mikið var um að vera á þrett- ándanum, enda stór hópur unglinga sem ætlaði að klæðast álfabúningum og fara í blysför frá Arnardal að íþróttasvæðinu og taka þátt í þrett- ándabrennunni og álfadansi. „Þegar ég byrjaði að vinna hér, árið 2000, tóku um 60 unglingar þátt í blysför- inni héðan frá Arnardal,“ sagði Anna Margrét, „en nú verða á milli 115 og 120 unglingar í göngunni og álfabrennunni. Að launum fá krakk- arnir að gista hér eina nótt í Arn- ardal. Það er greinilegt að þeim þyk- ir það spennandi.“ Viðurkenningin til ungling- anna fyrir að vera virkir Þau Einar og Anna Margrét voru sammála um að á Akranesi væru frábærir unglingar sem væru alveg til fyrirmyndar. „Það byggist auðvit- að á góðu unglingastarfi í bænum,“ segir Einar, „en fyrst og fremst er þetta unglingunum sjálfum að þakka. Ég lít því þannig á að þessi viðurkenning sé fyrst og fremst til unglinganna sjálfra fyrir að vera svo virk í starfinu hérna. Það er orðið stórt hlutfall unglinga sem kemur í Arnardal og sýnir þátttakan í álfa- brennunni það kannski best. Þar mæta 115–120 unglingar af um það bil 260 unglingum á þessum aldri sem búa á Akranesi.“ Þau byggja þessa skoðun sína reyndar ekki bara á eigin reynslu af unglingum því niðurstöður könn- unar sanna það. Fyrirtækið Rann- sóknir og greining sér um að leggja könnun á áfengisneyslu, reykingum og hassneyslu fyrir alla 10. bekkinga í grunnskólum landsins á hverju vori. Akraneskaupstaður birti ný- lega niðurstöður könnunarinnar, sem gerð var vorið 2004, á vef sínum og þar kom fram að 4% 10. bekkinga á Akranesi reykja daglega en 12% jafnaldra á landsvísu. Tæplega fimmti hluti (19%) árgangsins á Akranesi hefur orðið drukkinn sl. 30 daga en ríflega fjórðungur (26%) á landsvísu. Fjögur prósent ungling- anna á Akranesi segjast hafa neytt hass einhvern tímann á ævinni en níu prósent unglinga á öllu landinu og tíu prósent unglinga á höfuðborg- arsvæðinu Arnardalur er ein af fyrstu fé- lagsmiðstöðvunum á Íslandi. Hún var stofnuð 12. janúar 1980 og segir Einar að miklir hugsjónamenn hafi barist fyrir stofnun hennar. „Það hefur margt breyst á þess- um tíma. Ég byrjaði að vinna hérna 1987 og þá var ólíkt minni afþreying í boði fyrir unglinga en er núna. Starfsemin í Arnardal hefur líka breyst í samræmi við það. Áður var aðaláherslan lögð á að hafa opið sem mest, en nú er meiri áhersla lögð á alls kyns hópastarf. Í rauninni má segja að litlar félagsmiðstöðvar séu í mörgum heimahúsum þar sem ung- lingarnir hópa sig saman, horfa á myndir eða eru í tölvuleikjum. Ég held að þetta sé að mörgu leyti ágætt því margir krakkar hafa sjón- vörp og tölvur í herberginu sínu og geta því boðið vinunum upp á slíka afþreyingu og verið svolítið út af fyr- ir sig þrátt fyrir að foreldrarnir séu heima. En þetta hefur líka sínar slæmu hliðar því unglingar sem hafa til- hneigingu til að einangra sig gera það og geta vegna þessarar nýju tækni. Þeir hafa aðallega samskipti við annað fólk í gegnum tölvuna og þeir læra ekki venjuleg félagsleg samskipti, geta til dæmis ekki horft í augun á þeim sem þeir tala við. Við þurfum að gæta vel að þessu á næstu árum og reyna að ná til þess- ara unglinga.“ Margt hefur breyst til batnaðar En margt hefur breyst til batnaðar segja þau Einar og Anna Margrét. Um það leyti sem Arnardalur var að hefja starf, um 1980, var unglinga- drykkja almenn. Nú segja þau að mun færri unglingar reyki eða drekki. „Við höfum til dæmis ekki lent í vandræðum vegna drykkju á samkomum hjá okkur,“ segja þau. Anna Margrét segist ekki vita til þess að krakkar sem sækja Arn- ardal reyki, þótt auðvitað fari þeir sem það hugsanlega gera leynt með það. Einar bætir því við að hvers kyns starf með unglingum sé ákveð- in forvörn. Miklu skiptir að seinka því eins og hægt er að unglingar fari að drekka. Því þegar þau séu drukk- in sé hættara við að þau láti til leið- ast að prófa önnur efni. „Það er eng- inn skynsamur sem er undir áhrifum áfengis og hætta á að ung- lingar prófi eitthvað sem þeir mundu annars aldrei gera edrú,“ segir hann. Margt hefur unnist vel í sambandi við unglingastarf á Íslandi almennt á undanförnum árum, segir Einar. „Samskipti við foreldra hafa aukist mjög á undanförnum árum og ég held að það skipti mjög miklu máli. Foreldrar láta sig það varða sem unglingarnir þeirra eru að gera. Þegar foreldraröltið hófst breyttist margt. Þá hittust foreldrarnir á sín- um eigin forsendum, ekki undir stjórn skóla eða lögreglu. Þarna gátu þeir rætt um unglingana sína og borið saman bækur sínar. Ég held að það hafi skipt jafn miklu og að þeir sáust á röltinu í bænum inn- an um unglingana. Þegar litið er á alla unglingana kemur í ljós að það er sáralítill hóp- ur sem er til vandræða. Það ber bara mikið á þeim. Hér í Arnardal er ákveðið mottó sem við höfum í há- vegum og fullorðið fólk mætti til- einka sér: Unglingar koma ekkert öðruvísi fram við okkur en við kom- um fram við þá.“ Félagsmiðstöðin Arnardalur verðlaunuð fyrir góðan rekstur „Frábærir unglingar á Akranesi“ Í Arnardal á Akranesi hefur verið fjölbreytt starfsemi frá því að húsið var byggt árið 1925. Það var íbúðarhús og þar var rekið trésmíðaverkstæði og búskapur í byrjun, svo elliheimili og æskulýðsstarfsemi frá 1980. Þá stofn- aði Akraneskaupstaður eina af fyrstu félagsmiðstöðvum fyrir unglinga á landinu. Ásdís Haraldsdóttir fór í Arnardal og hitti Einar Skúlason æsku- lýðsfulltrúa og Önnu Margréti Tómasdóttur tómstundafulltrúa. www.akranes.is/arnardalur asdish@mbl.is Morgunblaðið/Ásdís Haraldsdóttir Einar Skúlason og Anna Margrét Tómasdóttir í Arnardal. Unglingarnir fjölmenntu í gönguna og álfabrennuna. VESTURLAND

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.