Morgunblaðið - 18.06.2009, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 18.06.2009, Blaðsíða 29
Minningar 29 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 18. JÚNÍ 2009 ✝ Hulda Pálsdóttirfæddist á Skeggjastöðum í Fellum í Norður- Múlasýslu 3. apríl 1929. Hún lést 11. júní síðastliðinn. For- eldrar hennar voru Páll Jónsson, f. í Þúfu í Dalsmynni í Suður- Þingeyjarsýslu 1898, d. 1972, og Bjarn- heiður Magnúsdóttir, f. á Hallgeirsstöðum í Hlíðarhreppi í Norð- ur-Múlasýslu 1902, d. 1981. Systkini Huldu eru Aðaldís, f. 1925, Þórarinn, f. 1927, d. 1990, Jón Þór, f. 1931, Björn, f. 1933, d. 2001, og Garðar, f. 1934, d. 1981. Hulda giftist árið 1959 Hart- manni Kristjánssyni, f. í Höfn á Dalvík 1937, og bjuggu þau allan sinn búskap á Dalvík. Foreldrar hans voru Kristján Hallgrímsson, f. í Syðra-Holti í Svarfaðardal 1890, d. 1968 og Guðlaug Ingibjörg Þor- valdsdóttir, f. í Árgerði í Svarf- aðardal 1903, d. 1991. Börn Huldu og Hartmanns eru: 1) Páll Heiðar, f. 1959, kvæntur Halldóru Marý Kjartansdóttur, f. 1955, þau búa á Mógili II á Svalbarðs- strönd í Suður- Þingeyjarsýslu. Börn þeirra: a) Kjartan, f. 1981, sambýliskona Eva Hilmarsdóttir og b) Hulda, f. 1984, sambýlismaður Egill Freyr Ólason, börn þeirra Árný Lilja Tulinius, f. 2004 og Helga Marý, f. 2007. Sonur Hall- dóru Marý er Jón Aðalsteinn Dav- íðsson, f. 1974, sambýliskona Hulda Hallgrímsdóttir, börn þeirra Davíð Fannar, f. 2001 og Elfar Bjarki, f. 2004. 2) Elsa, f. 1966, sambýlismaður Magnús Már Stein- þórsson, f. 1966. Dætur þeirra eru Þorgerður Elva, f. 1991 og Hlédís María, f. 2008. Útför Huldu verður gerð frá Dalvíkurkirkju í dag, 18. júní, kl. 13.30 Mig langar í örfáum orðum að þakka ástkærri tengdamóður minni Huldu fyrir allar stundirnar sem við áttum með henni. Margar góðar minningar streyma fram, sem við fjölskyldan getum yljað okkur við um ókomin ár. Hulda var alltaf boðin og búin að veita aðstoð ef á lá og skipti þá ekki máli hvort verið var að heyja, taka upp kartöflur eða stússast við fé. Tók hún á öllum verkum með miklum móð því hún var dugnaðarforkur. Með hrífu í hendi var hún í essinu sínu, rifjaði þá gjarnan upp minning- ar og sagði okkur sögur frá bernsku- heimili sínu, Skeggjastöðum í Fell- um. Upp í hugann koma myndir: Hulda amma að steikja býsnin öll af sínum himnesku kleinum, sem við söknum öll, útbúa nesti í berjamó og það ekki af verri endanum eða bera kræsingar á borð, því betra var að enginn færi svangur úr Bárugötu 8. Oft er búið var að gæða sér á öllu góðgætinu stakk hún upp á að nú yrði gripið í spil. Leið hún engan trassa- skap við spilamennskuna og var þá ráð að hafa hugann við spilið og setja rétt út. Svona viljum við minnast Huldu eins og hún var áður en veikindin settu mark sitt á hana. Þó að við eig- um eftir að sakna hennar gleðjumst við yfir því að nú er hún komin til sól- fagra landsins þar sem hið eilífa ljós skín. Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð, hjartans þakkir fyrir liðna tíð, lifðu sæl á ljóssins friðar strönd, leiði sjálfur Drottinn þig við hönd. (Guðrún Jóhannsdóttir.) Sjáumst síðar. Dóra. Látin er tengdamóðir mín, Hulda Pálsdóttir, á Dalvík. Það sem kemur fyrst upp í huga minn þegar ég hugsa til baka er gjafmildi og umhyggja Huldu. Þegar við Elsa komum norður tók hún á móti okkur með opnum örmum og kaffibrauð var lagt á borð um leið og við gengum inn úr dyr- unum. Voru veitingar á borðum frá morgni til kvölds. Minnisstætt er mér þegar við Hartmann vorum að leggja upp í veiðiferð í Mýrarkvíslina. Hulda tók Hartmann tali og bað hann að sjá nú til þess að ég veiddi a.m.k einn lax. Þegar við komum heim úr veiðiferð- inni hafði Hartmann veitt þrjá laxa en ég ekki neinn og Hulda var ekki hrifin. Ekki var við Hartmann að sak- ast því að hann er fiskinn með af- brigðum eins og allir vita sem hann þekkja. Hulda ákvað þá að ég skyldi bara fá hluta aflans því að laxlaus færi ég ekki heim. Sérstaklega hafði Hulda gaman af þegar barnabörnin fóru að koma í heimsókn, en alltaf var hún reiðbúin að fara út í garð til að sparka bolta eða leika sér. Mikla ánægju hafði hún af dansi, söng og músík ýmiss konar og talaði oft með bros á vör um böllin á Rauðalæk og skemmtanir í Atlavík. Ég kveð þig með söknuði, elsku Hulda, en jafnframt með þakklæti fyrir þá hlýju og umhyggju sem þú sýndir okkur alltaf. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (V. Briem.) Magnús Steinþórsson. Elsku amma. Við hlupum léttfætt upp tröppurn- ar í Bárugötunni. Þar beiðstu í dyrunum og brostir til okkar með opinn faðminn. Ilmur af nýbökuðum kleinum lá í loftinu og það glamraði í hringunum þínum þegar þú klappaðir saman lófunum í takt við tónlistina í útvarpinu. Þú bauðst okkur upp í dans, með misgóð- um undirtektum, en það var þó alltaf hægt að reiða sig á að hjá þér myndi okkur aldrei leiðast. Nú er komið að stundinni sem við óttuðumst mest. Það hefur verið ánægjulegt að fá að vera hluti af lífi þínu og stundunum okkar saman munum við aldrei gleyma. Við kveðjum þig á sama hátt og þú varst vön að kveðja okkur: Vertu bless gæskan mín, við sjáumst síðar. Haltu að heiman meðan sólin skín, dansaðu á enginu eða sestu við lækinn og vertu bara til. Vatnið kvika kippir með sér áhyggjum þínum og ber þær til sjávar. (J. Donald Walters) Elsku amma. Nú ertu komin heim til mömmu þinnar og pabba. Dansaðu á skýjunum og borðaðu súkkulaðiköku, því að nú ertu orðin frísk. Við vitum að þú fylgist vel með okkur og við söknum þín. Leiddu mína litlu hendi ljúfi faðir þér ég sendi. Bæn frá mínu brjósti sjáðu blíði Jesú að mér gáðu (Höf. óþekktur.) Davíð Fannar, Elfar Bjarki, Árný Lilja, Helga Marý og Hlédís María. Hulda frænka eins og hún hét í hugum okkar var einstök frænka og móðursystir. Fædd og uppalin á Skeggjastöðum í Fellum á mann- mörgu heimili. Minningarnar okkar um Huldu eru allar tengdar kátínu, gleði og höfð- ingsskap. Hún var góður gestur og einstakur gestgjafi. Fyrstu minning- arnar eru af henni þegar hún kemur heim frá Noregi úr námi sem fót- snyrtidama 1955. Það hefur verið áræði og dugnaður á þeim tíma og einstakt að sækja nám erlendis og kannski óvanalegt val á námi á þess- um tíma. En Hulda kom færandi hendi með tvær dúkkur handa frænkum sínum. Stórar dúkkur í fín- um kjólum með sítt hár fléttað og prinsessuhúfur. Ógleymanlegur dag- ur litlum barnssálum. Hulda frænka var áræðin og tók að sér ýmis verk og gerðist meðal annars ráðskona á ver- tíð suður í Sandgerði. Þar kynnist hún manni sínum Hartmanni Krist- jánssyni og flutti með honum til Dal- víkur og bjó þar alla sína tíð. Börn þeirra eru tvö, Páll og Elsa. Hulda vann í síldarsöltun á Dalvík. Þá þurfti að fá einhvern til að gæta sonarins ef ræst var út að nóttu til. Ólöf var ráðin til starfans og dvaldi þar góðan part úr sumri. Forvitnilegt fyrir stelpu af Héraði að sjá sjó og finna lykt af fiski og bryggjum og fá svo að fara út á Eyjafjörð með Hartmanni á bátnum hans og leggja línu. Ólöf var fyrsta systkinabarnið sem fór í dvöl til Huldu. Síðar komu Anna Heiður, Páll og Borgþór öll í námsdvöl. Tíminn sem við systkinabörn hennar dvöld- um hjá henni á Dalvík er okkur öllum mikils virði í lífi okkar og eigum hann sem góða og ógleymanlega minningu og gefandi tíma. Eitt af einkennum Huldu var að hún gekk gjarnan í bux- um því hún gæti þurft að leika sér, taka á sprett eða annað þar sem pils var heldur til trafala. Ævistarf Huldu var fiskvinnsla ásamt húsmóðurstarf- inu og vann hún í fiski fram á efri ár. Ferðirnar austur á land urðu færri með árunum en Elsa, dóttirin, kom í vist til Ólafar 9 ára gömul og passaði frumburðinn hennar um tíma meðan mamman vann og síðar kom hún aft- ur og réð sig í vinnu til Önnu. Gott að eiga góða að og geta skipst á. Síðasta ferðin hennar Huldu austur í Skeggjastaði var á áttræðisafmæli Dísu systur hennar 28. maí 2005. Það var bjartur og hlýr dagur og hátíð- arkaffi á Skeggjastöðum. Nánustu vinir og ættingjar voru á staðnum og upplifðu sérstakan dag. Báðar syst- urnar farnar að tapa minni en glödd- ust innilega yfir því að hittast og vera saman. Ættingjar og vinir nutu þess að upplifa með þeim daginn og ánægju þeirra að vera þar sem þær fæddust og ólust upp. Gaman var að fylgjast með þeim þar sem þær leidd- ust hönd í hönd í nágrenni hússins og töluðu saman eitthvað sem við heyrð- um ekki en greinilegt var að þær nutu innilega samverunnar. Eitt af því sem Huldu fannst skemmtilegast var að dansa. Þegar hún var ung stúlka á Skeggjastöðum reið hún gjarnan með bræðrum sínum á böll hvort sem var uppi í Fljótsdal eða á Rauðlæk. Þegar afmæliskaffinu lauk dönsuðu þær systur saman á stofugólfinu við gítarundirleik og söng sinna nánustu og nutu samvistanna og gleðinnar. Þetta var síðasti samverudagur þeirra í þessu lífi bjartur og fagur og þannig verður minning okkar um Huldu Pálsdóttur. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem.) Ólöf Magna og Anna Heiður. Hulda Pálsdóttir Valur Björn Valdimarsson ✝ Valur Björn Valdi-marsson fæddist á Siglufirði 18. júní 1937. Hann lést á heimili sínu í Hafn- arfirði að morgni 7. maí síðastliðins og fór útför hans fram frá Hafnarfjarðarkirkju 15. maí. Meira: mbl.is/minningar Morgunblaðið birtir minningar- greinar alla útgáfudagana. Skil | Greinarnar skal senda í gegnum vefsíðu Morgunblaðsins: mbl.is – smella á reitinn Senda efni til Morgunblaðsins – þá birtist val- kosturinn Minningargreinar ásamt frekari upplýsingum. Skilafrestur | Ef birta á minning- argrein á útfarardegi verður hún að berast fyrir hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á föstudegi ef útför er á mánudegi eða þriðjudegi). Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein ber- ist áður en skilafrestur rennur út. Greinar, sem berast eftir að útför hefur farið fram, eftir tiltekinn skila- frests eða ef útförin hefur verið gerð í kyrrþey, eru birtar á vefnum, www.mbl.is/minningar. Æviágrip með þeim greinum verður birt í blaðinu og vísað í greinar á vefnum. Lengd | Minningargreinar sem birtast í Morgunblaðinu séu ekki lengri en 3.000 slög. Ekki er unnt að senda lengri grein. Engin lengdar- mörk eru á greinum sem birtast á vefnum. Hægt er að senda örstutta kveðju, HINSTU KVEÐJU, 5-15 línur. Ekki er unnt að tengja við- hengi við síðuna. Formáli | Minningargreinum fylgir formáli sem nánustu aðstand- endur senda inn. Þar koma fram upplýsingar um hvar og hvenær sá sem fjallað er um fæddist, hvar og hvenær hann lést og loks hvaðan og klukkan hvað útförin fer fram. Minningargreinar ✝ Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma, lang- amma og langalangamma, INGIBJÖRG ÖGMUNDSDÓTTIR, Hrafnistu, Reykjavík, verður jarðsungin frá Fossvogskirkju föstudaginn 19. júní kl. 13.00. Kristín Björg Pétursdóttir, Halldór Stefán Pétursson, Ólöf Sigurðardóttir, Ingibjörg Soffía Pétursdóttir Sik, Leif Sik, Ragna Brynjarsdóttir, ömmubörn, langömmubörn og langalangömmubörn. ✝ Eiginmaður minn, MAGNÚS SIGURÐSSON, Gilsbakka, verður jarðsunginn frá Reykholtskirkju laugar- daginn 20. júní kl. 11.00. Jarðsett verður í Gilsbakkakirkjugarði. Ragnheiður Kristófersdóttir. ✝ SIGURÐUR ÓLAFUR SVEINSSON, Þorvaldseyri, Austur-Eyjafjöllum, sem lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli mánudaginn 8. júní, verður jarðsunginn frá Eyvindarhólakirkju laugardaginn 20. júní kl. 14.00. Blóm og kransar afþakkaðir, en þeim sem vilja minnast hans er bent á hjúkrunar- og dvalarheimilið Kirkjuhvol. Aðstandendur. ✝ Frændi okkar, EIRÍKUR BJÖRGVINSSON múrari, Kleppsvegi 128, Reykjavík, er látinn. Útför hans fer fram frá Fossvogskapellu föstu- daginn 19. júní kl. 11.00. Frændfólk hins látna.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.