Organistablaðið - 01.07.1993, Blaðsíða 11

Organistablaðið - 01.07.1993, Blaðsíða 11
Kirkjukóramót Húnavatnsprófastsdæmis 16. - 18. apríl 1993 Helgina 16. - 18. aprfl sl. söfnuðuðust saman í Laugabakkaskóla í Miðfirði um 120 kórfélagar víðsvegar að úr Húnavatnsprófastsdæmi en það nær yfir Húnavatnssýslurnar báðar og Strandasýslu. Á sama tíma var haldinn aðalfundur Kirkjukórasambands Húnavatnsprófastsdæmis og var sambandinu gefið nafnið KÓSHÚN. Aðalgestur mótsins var Haukur Guðlaugsson, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar. Hápunktur mótsins var samverustund í Hvammstangakirkju á sunnudagsmorgninum þar sem prestar úr prófastsdæminu leiddu dagskrána og kórarnir sungu. Sunnudagseftirmiðdaginn var síðan samsöngur kóranna í nýju íþróttahúsi Laugabakkaskóla. Var það í fyrsta skipti sem tónlistarflutningur átti sér þar stað og reyndist hljómburður vera allgóður, en nokkra þætti mætti bæta. f fyrri hluta dagskrár sungu kórarnir ýmist hver fyrir sig eða nokkrir saman. í síðari hluta dagskrárinnar söng síðan kór allra þátttakenda Þýska messu eftir Franz Schubert en Sverrir Pálsson hefur lagað íslenskan texta að tónlistinni. Þarna var leikið undir á pípuorgel Staðarkirkju, sem hún lánaði til mótsins, og einnig á píanó Tónlistarskólans. Stjórnendur kóranna skiptu þama með sér stjómun og undirleik auk þess sem Haukur Guðlaugsson lék undir einstaka þætti messunnar. Um 150 manns komu til að hlýða á tónleikana og var flutningnum vel fagnað. Þetta var í fyrsta sinn sem kórar alls prófastsdæmisins komu saman og var það mál manna að vel hefði til tekist. Allur aðbúnaður í Laugabakkaskóla var góður og er augljóst að víða í dreifbýli er góð aðstaða til móta sem þessa. Úr frétt Karls Sigurgeirssonar, Hvammslanga. Kóramót kirkjukóra Kjalarnessprófastsdæmis Vestmannaeyjum 26. - 28. febrúar 1993 í febrúarlok var haldið fjölmennt kóramót í Vestmannaeyjum. Þangað komu 13 kórar og söngstjórar kirkna í Kjalarnessprófastsdæmi, rúmlega 200 manns. Prófastsdæmið nær yfir landsvæði Gullbringu- og Kjósarsýslu, ef undan eru skilin Reykjavík, Kópavogur og Seltjamarnes, og svo eru Vestmannaeyjar með. Þetta er annað kóramótið sem haldið hefur verið í prófastsdæminu. Hið fyrsta var í Víðistaðakirkju í mars 1991. Kórarnir höfðu undirbúið 6 verkefni heima til sameiginlegs flutnings auk þess sem allir komu með eitthvað sérstakt í farteskinu. Ferðin út í Eyjar varð söguleg. Upphaflega átti að flytja allan hópinn með Herjólfi en þegar til kom voru stýrimenn í verkfalli. Var brugðið á það ráð að fá varðskip til að flytja hópinn og sigldi Óðinn með hann út í Eyjar á föstudeginum og aftur til baka á sunnudeginum. Eftir sameiginlegar æfingar voru haldnir tónleikar í íþróttahúsi Týs laugardaginn 27. febrúar. Þar sungu nokkrir kórar einir sér en tónleikunum lauk með samsöng þeirra. Voru tónleikarnir vel sóttir af heimafólki. Kóramótinu lauk síðan með sameiginlegum fagnaði um kvöldið. 11 ORGANISTABLAÐIÐ

x

Organistablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Organistablaðið
https://timarit.is/publication/787

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.