Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 20

Litli Bergþór - 01.12.2013, Blaðsíða 20
20 Litli-Bergþór Um uppruna og aldur þessa þekkta stúdentasöngs er margt á huldu. Þar tekur hver eftir öðrum. Sumir hafa viljað tengja hann rómverska stóuspekingnum Seneca yngra sem uppi var kringum Krists burð. Vissulega má í báðum textum finna hið alkunna og eðlilega viðhorf að menn skuli njóta æskunnar meðan hún endist, og þarf hvorki skáld né speking til að komast að þeirri niðurstöðu. Frumtextann hafa aðrir viljað eigna Strada nokkrum biskupi í Bologna á Ítalíu og hann er nefndur sem höfundur í Söngbók Hafnarstúdenta sem ekki minni menn en Sigfús Blöndal, Jón Helgason og Jakob Benediktsson sáu um árið 1937. Um Strada þennan biskup er hinsvegar ekkert að finna í lærðustu uppflettiritum sem nú eru tiltæk hérlendis og ekki heldur á gúglinu. Varla hefur á hinn bóginn þótt fara illa á að tengja þennan söng við þá borg sem hýsti elsta háskóla Evrópu. Á Þjóðarbókhlöðunni í París er aftur á móti til handrit á latínu sem talið er frá árinu1267 eða 1287 og geymir nokkurnveginn sama texta og 2. og 3. erindi en ekki upphafið Gaudeamus igitur sem við þekkjum. Þar sjást einnig nótur, en þær líkjast ekkert því lagi sem við syngjum og sést fyrst prentað í Leipzig árið 1788. Latínutextinn sem við þekkjum núna birtist fyrst í bókinni Studentenlieder sem lítt þekktur þýskur prestlingur og gamanskáld að nafni Christian Wilhelm Kindleben (1748-1785) gaf út í Halle árið 1781. Hann virðist þó hafa til hliðsjónar drykkjusöng eftir eldri skáldbróður, Johann Christian Günther (1695-1723) sem hefst á orðunum Brüder, lasst uns lustig sein (Bræður, lát oss lifa glatt) og virðist hafa verið sungið undir áþekku lagi. Günther þessi þótti eitt frumlegasta og listfengasta þýska ungskáld á sinni tíð en þoldi ekki hið svallsama stúdentalíf og dó í Jena aðeins 27 ára gamall. Hann minnir um sumt á Kristján okkar Fjallaskáld hálfri annarri öld síðar. Bæði leikskáld og tónskáld hafa nýtt sér þennan söng beint eða óbeint en þekktastur er háskólaforleikurinn eftir Johannes Brahms sem hann samdi þegar hann var kjörinn heiðursdoktor við háskólann í Breslau árið 1880 og endar á hljómsveitarútsetningu lagsins. Fyrstur til að þýða Gaudeamus á íslensku mun vera Jón Helgason frá Rauðsgili og þó aðeins fyrsta erindið: Kætumst meðan kostur er / knárra sveina flokkur. Það birtist í fyrstu útgáfu kvæðabókarinnar Úr landsuðri árið 1939. Erlingur Sigurðarson frá Grænavatni þýddi þrjú erindi og birtust þau í ársritinu Jón á Bægisá 2004. Fyrstu línurnar hljóða þannig: Gleðjumst meðan gefst oss tóm! / Gleðjumst því án tafar! Nú hefur Ólafur Stefánsson á Syðri-Reykjum snúið öllum níu erindunum. Árni Björnsson þjáðháttafræðingur. Gaudeamus (latneski textinn) 1. Gaudeamus igitur Iuvenes dum sumus. Gaudeamus igitur Iuvenes dum sumus. Post iucundam iuventutem Post molestam senectutem Nos habebit humus. Nos habebit humus. 2. Ubi sunt qui ante nos In mundo fuere? Ubi sunt qui ante nos In mundo fuere? Vadite ad superos Transite in inferos Hos si vis videre. Hos si vis videre. 3. Vita nostra brevis est Brevi finietur. Vita nostra brevis est Brevi finietur. Venit mors velociter Rapit nos atrociter Nemini parcetur. Nemini parcetur. 4. Vivat academia! Vivant professores! Vivat academia! Vivant professores! Vivat membrum quodlibet; Vivant membra quaelibet; Semper sint in flore. Semper sint in flore. Gaudeamus Þýðing: Ólafur Stefánsson

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.