Lesbók Morgunblaðsins - 26.07.2008, Blaðsíða 2

Lesbók Morgunblaðsins - 26.07.2008, Blaðsíða 2
2 LAUGARDAGUR 26. JÚLÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Stytta útgáfan Eftir Kristján B. Jónasson kbjonasson@gmail.com Það fyrsta sem mætir manni á flugvéla-tröppunum er lykt af viðarkolum.Hún er ekki ágeng og bensínmettuðeins og íslensk úthverfagrilllykt. Hún er sæt og fínleg líkt og hún berist langt úr fjarskanum og hafi á leiðinni dregið í sig keim af jurtum og heitri mold. Þetta er hveralyktin þeirra. Megnið af íbúum Ouagadougu eldar matinn sinn með því að brenna viðarkolum og lurkum. Höfundur Lonely Planet-leiðarbókar- innar dregur af þessu þá stórkarlalegu ályktun að „næstum engin“ tré sjáist á 70 kílómetra breiðu belti um borgina, stórbrotin villa sem er kannski skiljanleg í ljósi þess að komið hefur í ljós að bók Lonely Planet um Kólumbíu var rit- uð án þess að höfundurinn hefði stigið þar fæti. En auðvitað blasir við að einnar og hálfrarmilljón manna borg, sem auðvitað fer stækkandi eins og allar borgir heimsins, getur ekki endalaust treyst á eldivið til að sinna grunnorkuþörfum fjölskyldunnar. Auðvitað eru þau með rafmagn, meira að segja frá vatnsafls- virkjun, en það er sparlega nýtt, því raforku- verð í Búrkína Fasó er það hæsta í Vestur- Afríku. Götuljós eru aðeins á meginleiðum, hverfin eru meira og minna hulin myrkri eftir sólsetur. En á fullu tungli eru moldartroðning- arnir raunar furðu bjartir og týrur hér og þar lóðsa mann áfram, eins og blikkandi innsigling- armerki. Bílarnir og hin óendanlegi her skelli- naðra þurfa að sjálfsögðu jarðefnaeldsneyti, en það hefur margfaldast í verði á umliðnu ári og yfirmaður Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóð- anna í landinu segir mér að í raun hafi ekki nema brotabrot af þeim nærri 14 milljónum sem byggja Búrkína Fasó efni á að knýja farartæki með sprengivél. Ofan á það bætist að grunn- fæðutegund íbúanna, hrísgrjón, kostar nú fimm sinnum meira en hún gerði fyrir ári síðan. Þótt maður sjái hrísgrjónaakra hér og þar og haldi þess vegna að ef til vill sé þjóðin sér næg um grjón, mun svo ekki vera, vart nema 4% af hrís- grjónaþörf þjóðarinnar er svarað með innlendri framleiðslu, hitt er flutt inn fyrir gjaldeyri sem þjóðin á í raun ekki til. Búrkína Fasó hefur að- eins tvennt að bjóða heiminum: baðmull og gull og hvorugt í nógu miklu magni til að það hefji þjóðartekjur upp fyrir fátæktarmörk. Þegar maður stígur á flugbrautina í Ouagadougu er maður því kominn til eins fátækasta lands heims, lands sem naut þess vafasama heiðurs um árabil að vera sá blettur jarðar þar sem fæstir kunnu að lesa. Eðlilega spyr maður: Er eitthvað hægt að gera? Fyrr í vikunni hófst enn ein umferð Doha- viðræðanna um lækkun tolla í alþjóðavið- skiptum. Frá því að viðræðurnar hófust árið 2001 hefur margt áunnist en enn stendur hníf- urinn í þróunarkúnni, „nýmarkaðslönd“ og það- an af fátækari frændur þeirra krefjast greiðari aðgangs fyrir landbúnaðarvörur á mörkuðum hinna betur stæðu hagkerfa ESB, Norður- Ameríku og Japan – en fá ekki. Þessar viðræður snerta einnig íslenska bændur og íslenska neyt- endur því niðurstaða úr þeim gæti haft umtals- verð áhrif til framtíðar á beingreiðslukerfi ís- lensks landbúnaðar og tilhögun innflutnings- tolla, en eins og jafnan þegar um alvöru atburði er að ræða umlykur þá móska í fjölmiðlum sem kemur í veg fyrir að vægi þeirra fyrir jarðarbúa ljúkist upp fyrir manni. Viðræðunum er ýmist fagnað á trúarlegum grunni undir kjörorðinu „áfram alþjóðaviðskipti“ eða menn telja sig sjá hnattvæðingargrýluna ganga hönd í hönd með Leppalúða Evrópusambandsins til byggða að sækja vondu börnin sem spyrna fótum við loka- sigri kapítalismans. En í Ouagadougu horfir málið öðruvísi við.Þar er enginn díll versta mögulega niður- staðan í Doha-viðræðunum vegna þess að það er einfaldlega ekkert að gerast í viðskipta- málum þjóðar sem flytur meira og minna allt inn en hefur nánast ekkert að bjóða í staðinn nema vöru sem er niðurgreidd af alríkisstjórn- um og framkvæmdastjórnum USA og ESB til þess að friða 0,6%–2,5% íbúa sinna ríku landa. Þótt talsmenn Bandaríkjastjórnar og Evrópu- sambands haldi því stíft fram að viðræðunar strandi á þvermóðsku G20-hópsins, sem svo er nefndur, þar sem Kína, Indland og Brasilía eru í forsvari, tekur maður meira mark á fulltrúum smærri hagkerfa Afríku, Eyjaálfu og Mið- Ameríku. Þeir segja það sama: Við erum þegar búin að taka til í okkar tollagarði, það er nánast óhindraður aðgangur fyrir innfluttar vörur í okkar hagkerfum en við verðum enn sem fyrr að kljást við höft á innflutningi landbúnaðar- afurða okkar til ríku landanna sem í ofanálag knýja niður heimsmarkaðsverð á vörum okkar með niðurgreiðslum. Fyrir íbúa Búrkína Fasó er þetta algerlega augljóst mál. Baðmullin sem þeir flytja út hefur hríðfallið í verði á undan- förnum árum. Baðmullarframleiðsla í Banda- ríkjunum er svo stórkostlega niðurgreidd að framleiðsla frá Afríkulöndum hefur ekki roð við henni á heimsmarkaði. Þær upphæðir sem Bandaríkjastjórn ver til niðurgreiðslna á land- búnaðarafurðum eru stjarnfræðilegar í sam- anburði við efnahag landa á borð við Búrkína Fasó. Nú stendur talan í 18 milljörðum dala, en Bandaríkjamenn hafa raunar gert því skóna að hún verði lækkuð í 15 milljarða í tengslum við yfirstandandi samningalotu. Samt er landbún- aðarframleiðsla í Bandaríkjunum í höndum svo fámenns hluta þjóðarinnar að hann telst vera undir einu prósenti. Mikilvægi þessara pró- sentubrots er hins vegar mikið á stjórnar- kontórunum í Washington. Þróunarhjálp og gjafmildi af ýmsum togagagnvart Afríkuþjóðum sunnan Sahara hefur verið í tísku á undanförnum árum eins og við höfum glöggt séð af glæsilegum galaveislum íslenskra auðmanna til stuðnings þjáðum bræðrum og systrum. Um leið ber mönnum saman um að aðferðirnar við aðstoðina hafi tek- ið stakkaskiptum til hins betra. Þótt enn hitti maður fólk eins og unga stúlku sem ég rakst á um daginn sem var á leið til Afríku að gefa „krökkunum þar nammi“ vegna þess að þau „brjálast alveg“ þegar þau sjá sætindin og „klifra yfir hvert annað til að gúffa það í sig“, þá leggja menn æ meiri áherslu á að þróa innviði í samfélögunum sem koma íbúunum að gagni og íbúarnir sjálfir taka þátt í að byggja og kalla eftir. En um leið sér maður glöggt í Afríku- löndum að einskonar sjálfstæður „þróunar- atvinnuvegur“ verður til sem erfitt er að skilja hvernig muni fleyta almenningi þessara landa áfram til betra lífs. Þar verður að koma til vöxt- ur vegna alþjóðaviðskipta, réttlátari aðgangur að mörkuðum fyrir landbúnaðarafurðir sem er það eina sem flest þessara landa hafa að bjóða. Yfirmaður Þróunarsamvinnustofnunar SÞ í Ouagadougu segir að Búrkína Fasó gæti hæg- lega orðið Mekka jarðarberjaræktar, ef menn vildu svo, en til þess þyrfti að byggja kæli- geymslur, leggja vegi, fá stærri vélar til flutn- inga, koma á reglulegum fraktflugsamgöngum við Evrópu og svo framvegis. Ekkert af þessu væri fyrir hendi því það borgaði sig ekki í augnablikinu. Yrði þetta hins vegar allt að veru- leika gæti Búrkína Fasó borið nafn með rentu, orðið „land hinna keiku manna“. Hinn merki stjórnmálamaður og byltingarforingi Thomas Sankara gaf landinu þetta nafn og kastaði eldra nafninu Efri-Volta fyrir róða. Sankara var skot- inn af fyrrverandi vopnabróður eftir að hafa tekist einstaklega vel til við að koma lagi á ríkis- búskapinn, bæta heilsufar íbúanna og taka fyrstu skrefin í átt að kenna þeim að lesa. Gröf hans er á óupplýstu bersvæði í útjaðri Ouaga- dougu þar sem finna má sæta lyktina af eldivið- inum í ofnum milljónaborgarinnar, blandna sætum keim af jurtum og mold. Keikir menn „Þar verður að koma til vöxtur vegna alþjóðaviðskipta, réttlátari aðgangur að mörkuðum fyrir landbúnaðarafurðir.....“ Ouagadougu » Baðmullin sem þeir flytja út hefur hríðfallið í verði á undanförnum árum. Baðmull- arframleiðsla í Bandaríkjunum er svo stórkostlega niður- greidd að framleiðsla frá Afr- íkulöndum hefur ekki roð við henni á heimsmarkaði. FJÖLMIÐLAR Lesbók Morgunblaðsins Hádegismóum 2, 110 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýs- ingar sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins Eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur sith@mbl.is ! Útlent tímarit bað mig að greina frá uppáhalds Jónsmessusiðnum mín- um. Ég skrifaði: „Jónsmessunótt er ein af mögn- uðustu nóttum ársins, samkvæmt íslenskri þjóðtrú. Hinar eru nýárs- nótt, jólanótt og æ, ég man ekki meir, jú, þrettándinn auðvitað, sem er síðasti dagur okkar ótrúlega lang- dregna jólahalds. Nú, á nefndum nóttum verða yfirnáttúru- leg öfl merkjanlegri en ella. Álfarnir, til dæmis, standa í búferlaflutningum á nýárs- nótt, kýr tala o.s.frv. Jónsmessan er áreið- anlega gædd ýmsum undrum og furðum sem ég kann ekki að nefna, en aðallega er hún frábrugðin hinum þremur vegna birt- unnar. Heimskautasumarið er einn óslitinn sólargangur og því tengjast engin dimm öfl Jónsmessunni – bara björt og bætandi. Sem leiðir mig að uppáhalds siðnum mín- um, og raunar þeim eina sem ég tengi um- ræddri nótt, nefnilega: að velta sér nakinn upp úr dögginni. Ég veit að tímarit yðar er ekki af þeirri tegund sem hverfist fyrst og fremst um nekt, þið verðið því að afsaka myndmálið, en það er samt ómissandi því það er það eina sem gerir siðinn áhugaverð- an. Að velta sér kappklæddur upp úr dögg- inni væri varla eftirminnilegur siður. Oder? Nema hvað, hin merkishliðin á þessari hefð er að ég þekki engan sem fylgir henni. Ég þekki fólk sem er oft nakið, ég þekki fólk sem hefur vakað nógu lengi til að sjá dögg myndast á villtu grasi, ég þekki fólk sem fer í útilegur, ég fer m.a.s. stundum sjálf í úti- legur, en ekkert okkar hefur nokkru sinni gert það. Velt sér nakin upp úr dögginni, það er að segja. En ef þið mynduð spyrja einhvern annan af mínu ástsæla þjóðerni, beinlínis hvern sem er, myndi hann þó snimmhendis segja ykkur frá þessum frá- bæra sið og lýsa honum í smáatriðum sem stæðu í línulegu hlutfalli við strípiáhuga hans. Ég þori samt að veðja að enginn að- spurðra gæti útskýrt til hvers siðurinn er. Ég get sagt ykkur það. Að velta sér upp úr dögginni hreinsar líkamann af hvers kyns sjúkdómum og varnar því að maður veikist í heilt ár á eftir. Það var nefnilega forn trú að um hásumar, á Jónsmessunni, yrði flóra landsins gædd sérstökum kröftum sem gætu hjúpað líkamann ósýnilegri vernd. Þetta, ef við spáum í það, er magnað trix sem gæti sparað manni marga ferðina í apó- tekið – tala nú ekki um til sérfræðilækna og sálfræðinga – þannig að mér er hulin ráð- gáta hvers vegna þjóðin tekur sig ekki til, strippar í einni samræmdri hreyfingu og rúllar sér fram af næstu brún. Það myndi komast í heimsfréttirnar. Ekki nakta þjóð- in, enda hefur heimspressan úr nægu kyn- svalli að moða, heldur fyrirsögnin: Enginn veikur á Íslandi í heilt ár! En þá myndum við líklega fljótt drukkna í pirrandi bylgju heilsutúrista, og þar sem við stöndum þegar klofblaut í hafsjó norður- ljósatúrista, er kannski jafngott að við montum okkur bara áfram af þessum sæta, gamla sið og látum vera að reyna hann á eigin skinni. Gleðilegt sumar.“ Þetta svar gaf ég sumsé hinu útbreidda, virta, þýska tímariti Brigitte þegar þeir spurðu með kollegí kveðju: Við erum að gera sérstakan efnisþátt um Mitt- sommer … bla bla. Gætirðu deilt þínum eftirlætis íslenska sið? Mér fannst svarið mitt ágætt, kannski ekki drepfyndið, bara nett írónískt, jafnvel upplýsandi fyrir helstu nerði, en þar sem meira lá á að birta mynda- röð um sænska hringdansa var það svona þegar það birtist í blaðinu: „Íslendingar velta sér naktir upp úr dögginni – flóran er sögð búa yfir sér- stökum kröftum um miðsumar. Alveg snið- ugt, en það athyglisverðasta við þennan sið er að ég þekki engan sem hefur farið eftir honum. Samt segja allir Íslendingar frá þessari frægu hefð.“ Genau. Þetta kallar maður að spara pláss.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.