Árbók Hins íslenzka fornleifafélags

Árgangur

Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1987, Blaðsíða 1

Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1987, Blaðsíða 1
MJÖLL SNÆSDÓTTIR KIRKJUGARÐUR AÐ STÓRUBORG UNDIR EYJAFJÖLLUM Á hverju sumri frá árinu 1978 hefur verið unnið að uppgrefti á hinu gamla bæjarstæði Stóruborgar undir Eyjafjöllum. Mislengi hefur verið unnið á hverju ári, minnst 6 vikur en mest 11 vikur á sumri. Uppgrefti þessum er enn ekki að fullu lokið. Hann er gerður á vegum Þjóðminja- safnsins og kostaður af framlagi Þjóðhátíðarsjóðs til safnsins. Ástæða fyrir því að byrjað var að grafa á þessum stað er sú, að bæjar- stæðið er í mikilli hættu og sýnt að það muni senn eyðast af ágangi sjávar og vatnsfalla. Bærinn á Stóruborg var fluttur frá þessum stað um 1840 og stendur hann nú nokkru austar. Stóraborg undir Eyjafjöllum er nokkru austar en Holtsós en vestar en Skógar og liggur jörðin að sjó. Næsti bær austan við Stóruborg er kirkjustaðurinn Eyvindarhólar. Land er sléttlent og lágt, en að baki gróin móbergsfjöll og heiðar. Yfir þeim gnæfir Eyjafjallajökull, en austar sér á Mýrdalsjökul. Tvær ár falla til sjávar nærri hinu gamla bæjarstæði Stóruborgar, Bakkakotsá vestan hans og Kaldaklifsá austan hans. Þessar ár falla ekki alltaf á sama stað en færast til og frá um sand- inn við ströndina og hafa orðið til að eyða hólnum og gróðurlendinu í kringum hann. Skammt vestan Stóruborgar var bærinn Miðbæli. Á því landi eru nú býlin Miðbælisbakkar og Önundarhorn.1 Þar stendur mikill og gróinn bæjarhóll, vestan Bakkakotsár og skammt frá sjó. Á síðustu öld komu í ljós bæjarrústir suður af þessum hól, líklega eldra bæjarstæði Miðbælis og sá þar móta fyrir bæjarhúsum og kirkjugarði. Þetta gerðist uppúr 1860 en bæjarstæði þetta mun nú vera með öllu eytt eða komið undir sand.2 1 Þórður Tómasson: „Austur-Eyjafjöll." Sunnlenskar byggðir IV, Rangárþing austan Rangár, Rv. 1982, bls. 64. 2 Páll Sigurðsson: „Bæjarfundrinn undir Eyjafjöllum." Þjóðólfur 16.-17. tbl. 1865, bls. 67-68, og 18.—19.tbl. 1865, bls. 77-78. íslendingur, 2. ár. no.20, 19.2.1862, bls. 160.

x

Árbók Hins íslenzka fornleifafélags

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Árbók Hins íslenzka fornleifafélags
https://timarit.is/publication/97

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.