Alþýðublaðið - 07.02.1987, Blaðsíða 15

Alþýðublaðið - 07.02.1987, Blaðsíða 15
Laugardagur 7. febrúar 1987 ______________________15 GYLFI Þ. GÍSLASON 70 ÁRA sjón. Jafnframt var hann brautryðj- andi í hagfræðikennslu og islenskun þeirrar fræðigreinar. Pað er aðalsmerki Gylfa sem kennara, að hann hefur bú- ið i hendur nemendum sínum fjölda rita um hagfræðileg efni. Öllu þessu kom hann í verk samhliða erilsömu og lýjandi starfi stjórnmálamannsins. Þannig gerir hann skömm til mörgum háskólakennaranum, sem héldu sig þó við leistann sinn og létu sér nægja að ástunda fræðin ein. Þegar Gylfi var horfinn á braut úr eldlínu stjórnmálamanna tók hann aftur til við háskólakennsluna af sömu elju og áhuga og fyrr. Þannig hefur hann seinni árin gerst brautryðjandi i kennslu fiskihagfræði innan Við- skiptadeildar og dregið þar saman föng í hendur nemendum á móður- málinu. Þetta sýnir m.a. hversu heill hann kom út úr róstum stjórnmála- baráttunnar með óskert starfsþrek og í fullu fjöri. * * * Af stjórnmálaferli Gylfa gnæfir sennilega hæst framlag viðskiptaráð- herra Viðreisnar til þeirra löngu tíma- bæru og róttæku umbóta á hagstjórn, sem hrundið var í framkvæmd á fyrra skeiði þeirrar farsælu ríkisstjórnar. Síöan hefur islenskum stjórnmála- foringjum mjög fatast stjórn efnahags- mála eins og lesa má af línuritum um óðaverðbólgu og skuldasöfnun seinni ára. Þar þarf aftur að taka til hendinni og koma fram róttækum umbótum á stjórnarfari og stjórnsýslu, í framhaldi af umbótastarfi viðreisnarmanna. Heimt handritanna úr höndum Dana hefur áreiðanlega verið stór stund á ferli hins hámenntaða og list- unnandi menntamálaráðherra. Sem dæmi um framsýni Gylfa og raunsætt mat á stöðu mála má nefna, að gáfaðir menn í bændastétt harma það nú alla daga að viðvörunarorðum Gylfa um fyrirsjáanlegar ógöngur bænda undir jarðarmeni misráðinnar ríkisforsjár og einokunarkerfis, var ekki sinnt í tæka tíð. Nú vildu margir þá Lilju kveðið hafa. * * * Á s.l. ári hélt Alþýðuflokkurinn há- tíðlegt 70 ára afmæli sitt. Þar kom fyrr- verandi formaður Alþýðuflokksins og jafnaldri, Gylfi Þ. Gíslason, eftirminni- lega við sögu. i ræðu sinni við setning- arathöfn flokksþingsins miðlaði lífs- reyndur stjórnmálaleiðtogi okkur hin- um af reynslu sinni. Þar kvað við tón umburðarlyndis og velvildar i garð allra manna. Það er hinn hreini tónn, sem mætti að ósekju gæta meir í sam- skiptum einstaklinga og hópa, í okkar fámenna þjóðfélagi. Alþýðuflokkurinn og Gylfi eru ekki einasta jafnaldrar. Þeir hafa átt sam- leið í bráðum hálfa öld. Af þeim 70 ár- um, sem Alþýðuflokkurinn hefur starfað, hefur Gylfi Þ. Gíslason átt sæti 1 miðstjórn flokksins í 46 ár. Hann var ritari flokksins í 20 ár, varaformaður í 2 ár og formaður í 6 ár (1968—74). For- maður þingflokks var hann í 10 ár, eða þar til hann vék af þingi árið 1978. Alþýðuflokkurinn og Gylfi hafa mátt þola saman súrt og sætt, velgengni og mótlæti. Það verður að segja reykvísk- um jafnaðarmönnum til hróss, að þeir höfðu snemma vit á að virkja hæfileika hins unga gáfumanns í þágu flokks og þjóðar. Alþýðuflokkurinn fól Gylfa mikinn trúnað. Og Gylfi níddist i engu á þeim trúnaði, sem honum var sýnd- ur. Fyrir hans tilverknað öðrum frem- ur náði flokkurinn miklum árangri í stjórnarstörfum. Enn í dag erum við jafnaðarmenn stoltir af þeim góðu verkum. En á seinni hluta formanns- tímabils síns fékk Gylfi einnig að kenna á því harða lögmáli, að laun heimsins eru vanþakklæti. Því tók Afmæliskve öj ur til Gylfa Þ. Gíslasonar hann með karlmennsku og æðruleysi, sem honum er í blóð borið. * * * í Viðskipta- og hagfræðingatali er þess getið, að hagfræðiprófessorinn og stjórnmálamaðurinn Gylfi Þ. Gíslason eigi sönglög á þremur hljómplötum. Heitin eru táknræn: Við sundin blá, Lestin brunar og Ég leitaði blárra blóma. Heitin á hljómplötunum, ljóða- og lagavalið, staðfestir að þessi afkasta- mikli stjórnmálamaður er i innsta sinni óforbetranlegur rómantiker. Um það luma ég á lítilli sögu, sem lýsir fagurkeranum og listunnandan- um Gylfa Þ. Gíslasyni. Sú var tíð að kona mín var fremst í flokki fagurra ungmeyja, sem héldu uppi merki ís- lenska dansflokksins. Einhvern tíma snemma á skólaárum hennar færði dansflokkurinn upp nýjan, frumsam- inn ballett, eftir danska ballettmeistar- ann Erik Bidsted. Ég bið að heilsa, hét hann. Daginn eftir var ballerínan stödd á myndlistarsýningu í gamla Listamannaskálanum. Þar steðjar að henni frakkaklæddur valdsmaður, tekur ofan sinn svarta hatt og hneigir sig djúpt fyrir ballerínunni. Hann þakkaði af hrifningu fyrir ánægjulega kvöldstund og hvatti Bryndísi eindreg- ið til dáða í þjónustu danslistarinnar, sem þá var vissulega í bernsku hér á landi. Þarna var þá kominn sjálfur menntamálaráðherrann, fagurkerinn og listunnandinn í einni og sömu per- sónu. Margur valdsmaðurinn hefði lát- ið ógert að ávarpa svo virðulega unga skólastúlku, sem var að stíga fyrstu sporin á sviðinu. — Kannske var það líka stjórnmálamaðurinn sem kunni sig. Alla vega er þetta litla atvik ekki gleymt, þótt meira en 30 ár séu liðin síðan. * * * í Biskupasögum segir frá því er menn ræddu sín í milli um mannkosti og ágæti ísleifs biskups. Þar var nær- staddur fóstursonur hans, Jón Hóla- biskup Ögmundarson, og komst svo að orði um fóstra sinn að æ síðan hefur verið í minnum haft á íslandi: „Hans skal ek ávallt geta er ek heyri góðs manns getið." Þessi orð vil ég gera að mínum um Gylfa Þ. Gíslason. Að svo mæltu flyt ég honum hugheilar þakkir okkar ís- lenskra jafnaðarmanna fyrir giftu- drjúgt starf og dygga þjónustu við góð- an málstað i bráðum hálfa öld. Við árn- um Gylfa, Guðrúnu kona hans Vil- mundardóttur, sonum þeirra og fjöl- skyldu allri heilla á afmælinu. Okkur hinum óska ég þess til handa, að við megum enn um langa framtíð njóta góðra verka afmaslisbarnsins, landi og lýð til heilla. Jón Baldvin Hannibalsson. formaður Alþýðuflokksins. Á sjötugsafmæli Gylfa Þ. Gíslasonar lít ég í huganum yfir glæsilegan starfs- feril hans. Gylfi hefur lengi staðið í fylkingarbrjósti bæði í sinni fræðigrein og á sviði stjórnmála. Að loknu kandí- datsprófi í hagfræði frá háskólanum í Frankfurt am Main árið 1939 hóf hann kennslustörf við Viðskiptaháskóla ís- lands og hélt þeim áfram í Háskóla ís- lands, þegar kennsla í viðskiptafræði og hagfræði fluttist þangað árið 1941. Hann var skipaður dósent árið 1940 og prófessor 1946. Doktorsprófi lauk hann við sinn gamla háskóla í Frank- furt árið 1954 og árið 1971 var hann gerður heiðursdoktor við Háskóla ís- lands. Gylfi hefur setið i miðstjórn Alþýðu- flokksins í 46 ár og var formaður hans í sex ár. Auk þess hefur hann gegnt mörgum öðrum helstu trúnaðarstörf- um innan flokksins. Hann sat á Al- þingi sem þingmaður Reykvíkinga í 32 ár, eða frá árinu 1946 til 1978. Hann var menntamálaráðherra í meira en 12 ár. Jafnframt fór hann með samskipti íslands við alþjóða- stofnanir á sviði efnahagsmála eins og Efnahags- og framfarastofnunina (OECD áður OEEC), Alþjóðagjaldeyris- sjóðinn og Alþjóðabankann og við- skiptabandalögin í Evrópu (Fríversl- unarsamtökin, EFTA, og Evrópu- bandalagið) allan sinn langa ráðherra- feril. Hann hefur látið norrænt sam- starf mjög til sin taka og var árin 1971—1978 formaður menningar- málanefndar Norðurlandaráðs og fjár- laganefndar Norðurlandaráðs árin 1975—1978. Hann er nú formaður Norræna félagsins á íslandi. Ég hef hér stiklað á stóru í starfsferli Gylfa, því nákvæm upptalning á öllum þeim margháttuðu trúnaðarstörfum, sem hann hefur gegnt, sprengir af sér öll bönd. Auk kennslu- og stjórnmála- starfa hefur Gylfi verið mikilvirkur rit- höfundur og einn helsti brautryðjandi í kennslu og rannsóknum á efnahags- málum hér á landi. Hann hefur skrifað fjölda bóka og ritgerða í fræðigrein sinni, en hefur auk þess látið sér fátt óviðkomandi, sem varðar farsæld ís- lendinga, afkomu þeirra og menningu. Honum er einstaklega vel lagið að koma skoðunum sínum á framfæri á ljósu máli. Fjölbreytnina í störfum Gylfa og hugðarefnum má glöggt sjá aí úrvali úr ræðum hans og ritgerðum, sem vinir hans og samstarfsmenn hafa gengist fyrir að gefið er út í bók- inni Hagsæld, tími og hamingja i tilefni af sjötugsafmælinu. Úrvalinu fylgir einnig ítarleg skrá um rit hans. Gylfi leggur gjörva hönd að ritsmíðum jafnt um reikningsskil fyrirtækja sem varðveislu þjóðmenningar. Það sætir furðu, hversu miklu Gylfi hefur komið í verk um dagana. Þó finnst mér enn merkilegra, að hann er enn í dag jafnstarfsamur og hann var á sínum yngri árum. Nú, þegar hann stendur á sjötugu, er hann afkasta- mikill að semja og gefa út kennslu- bækur í þjóðhagfræði og rekstrarhag- fræði. Hann hefur frá því hann hóf kennslu á ný árið 1972 lagt grundvöll að nýrri grein við viðskiptadeild Há- skóla íslands, fiskihagfræði, og eins og fyrri daginn ekki látið sér nægja að nota erlendar kennslubækur heldur samið sérstakt kennsluefni á íslensku, sniðið eftir íslenskum aðstæðum. Kennslustarf Gylfa er stórvirki, sem flestir mættu vera fullsæmdir af einu, en hjá honum er það aðeins einn þráð- ur í margþættum starfsferli. Gylfi Þ. Gíslason sannar með lífi sínu og starfi þá kenningu um örlæti andans, sem Sigurður Nordal setti fram í ritgerðinni ,,Samlagning“ í timaritinu Vöku ár- ið 1927: Mörgum manni hœttir við að spara sjálfan sig og minnast hins alkunna stœrðfrœðilögmáls: Það eyðist allt sem af er tekið. En undir eins og kem- ur yfir á landamœrasvið efnis og anda. hið lífræna svið, kemur fram segulskekkja í áttavita tölvísinnar. Steinn og málmur slitna seint, en slitna bótalaust. En lifið bætir oftslit og áreynslu tvennum og þrennum gjöldum. Það rýrnar og hrörriar við sparnað, en magnast við slitog auðg- ast við örlœti. Ef menn eru svo gœtnir ogsínkir, að þeir tímaekki aðsegja né skrifa hugsanir sinar, rýmist aldrei til í huganum. Gylfi Þ. Gíslason hefur aldrei sparað sjálfan sig. En fyrir utan þekkingu, vinnusemi og starfsþrek er hann einnig gæddur þolinmæði og þrautseigju, sem eru af- ar mikilvægir kostir forystumanns í stjórnmálum. Mig langar að nefna þrjú dæmi um farsæla forystu Gylfa í mál- efnum þjóðarinnar, þar sem þessir kostir hans koma glöggt i ljós. Fyrsta dæmið er aðild íslands að Fríverslun- arsamtökum Evrópu, EFTA, og við- skiptasamningar við Evrópu'banda- lagið, sem sigldu í kjölfarið og hafa reynst íslendingum hagstæðir, og eiga án efa eftir að reynast enn hagstæðari í framtíðinni. Gylfi skildi flestum bet- ur, að íslendingar máttu ekki einangr- ast á sviði alþjóðaviðskipta, ef unnt átti að reynast að efla útflutningsiðnað verulega sem undirstöðu framfara. All- an sinn ráðherraferil vann hann ásamt öðrum að því að ná hagstæðum samn- ingum við viðskiptaheildirnar, sem mynduðust í Vestur-Evrópu á síðari hluta sjötta og í upphafi sjöunda ára- tugarins. Mikilvægasta áfanganum í þessu máli var náð haustið 1969, þeg- ar ísland gerðist aðili að EFTA. Annað dæmið, sem ég vil nefna, er á sviði menntamála. Það er ekki jafn- skýrt markað sem einstakur atburður og aðildin að EFTA, en er þó ekki síður mikilvægt. Hér á ég við nýskipan á málefnum Háskólans, sem ákveðin var árið 1970 með setningu reglugerða um aukna fjölbreytni í kennslu og rannsóknarstörfum og með auknum fjárveitingum til skólans. Þessi efling Háskólans var i reynd ávöxtur margra ára undirbúningsvinnu undir forystu Gylfa. Þriðja dæmið er svo heimkoma handritanna. Sjaldan hefur nokkrum atburði verið tekið af jafndjúpum og einlægum fögnuði af öllum lands- mönnum eins og þegar menntamála- ráðherra Danmerkur, Helge Larsen, af- henti íslendingum Flateyjarbók og Konungsbók eddukvæða í apríl árið 1971 til marks um það, að handrita- málinu væri lokið með þessu óviðjafn- anlegá drengskaparbragði Dana. Að- dragandi þessa einstæða, menningar- sögulega viðburðar var langur. Alla sína ráðherratíð hafði Gylfi Þ. Gislason forystu fyrir því mikla þolinmæðis- verki að auka skilning Dana á málstað íslendinga í þessu viðkvæma máli. Það fór einkar vel á því, að Gylfi skyldi sem menntamálaráðherra taka við bókun- um tveimur fyrir hönd íslendinga Það er þátttaka Gylfa og forysta i þjóðþrifaverkum af þessu tagi, sem gera það að verkum, að hann má hik- laust telja einn merkasta stjórnmála- mann íslendinga á lýðveldistímanum. Hann, sem er rösku ári eldri en full- veldið, er einn þeirra stjórnmála- manna, sem hafa lagt sitt af mörkum til þess að draumur þeirra, sem hófu sjálfstæðisbaráttuna á nítjándu öld, rættist; draumurinn um íslenska þjóð sem stjórnarfarslega frjálsa þjóð, eTna- hagslega sjálfstæða þjóð og menninga- rlega fullgilda þjóð. En til að þetta þrennt verði varanlegur veruleiki þarf þolgæði og þrotlaust starf. í þvi starfi er fordæmi Gylfi Þ. Gíslason verðugt til eftirbreytni. Fundum okkar Gylfa bar saman í fyrsta sin'n árið 1964, þegar ég hóf störf í Efnahagsstofnun. Mér er það minnis- stætt, hversu yfirlætislaus og þægileg- ur ráðherrann var í viðmóti við nýút- skrifaðan kandídat og reiðubúinn til að tala við hann eins og jafningja um viðfangsefnið, sem var yfirlit yfir þró- un kaupmáttar kauptaxta og tekna. Þá eins og nú hafði hann smitandi áhuga á því að fá sem allra gleggsta mynd af því, sem tölurnar áttu að lýsa. í störf- um mínum við Efnahagsstofnun kynntist ég svo Gylfa betur í hinum daglegu verkum á sviði efnahagsmála. Auk þess átti ég seinna þvi láni að fagna að vinna fyrir hann að ýmsum afmörkuðum verkum. Meðal margra Framh. á bls. 17

x

Alþýðublaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Alþýðublaðið
https://timarit.is/publication/2

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.