Morgunblaðið - 13.03.2002, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 13.03.2002, Blaðsíða 38
MINNINGAR 38 MIÐVIKUDAGUR 13. MARS 2002 MORGUNBLAÐIÐ Fyrir nær 25 árum var ég að taka við nýju starfi landnýtingar- ráðunautar hjá Búnað- arfélagi Íslands sem þurfti að móta frá grunni. Víða var leitað fanga, mikið lesið, stofnanir heimsóttar og rætt við fagmenn, einkum varðandi beitarmál, gróður- vernd og uppgræðslu lands. Allir tóku mér vel og mér er sérstaklega minnisstætt hve fljótt komst á náið samstarf við þá Svein Runólfsson landgræðslustjóra og fulltrúa hans, Stefán H. Sigfússon, sem báðir bjuggu yfir mikilli þekkingu og reynslu á landnýtingarsviðinu. Við ferðuðumst mikið saman á þessum árum og nú rifjast upp margar góðar minningar þegar Stefán er fallinn frá eftir hetjulega baráttu við erfiðan sjúkdóm. Við Stefán höfðum reyndar kynnst nokkuð snemma á 8. áratugnum, m.a. í Tilraunaráði, og kunni ég vel að meta hið hlýja og glaðlega viðmót hans. Hann var vandvirkur og glögg- ur, gagnorður og úrræðagóður og ég fann það alltaf betur og betur hve Stefán var vel kynntur og kunnugur mönnum og málefnum um land allt. Sama var hvort verið var að skoða uppgræðslusvæði á Reykjanes- skaga, vinna við ítölu í þingeyskum afréttum eða mæta á fundum þar sem tekist var á um landeyðingu og landgræðslu vegna Blönduvirkjun- ar. Ætíð var Stefán hollráður og hygginn og alltaf æðrulaus, á hverju sem gekk. Mér fannst þægilegt að vinna með honum því að auk þess að vera samviskusamur og vel skipu- lagður fagmaður var hann uppörv- andi félagi, ekki síst þegar á móti blés. Við stóðum þétt saman í ýmsum málum og honum gat ég alltaf treyst. Þetta mat ég mikils og þegar ég lít um farinn veg finn ég að það sem ég lærði af honum um uppgræðslu lands hefur reynst mér drjúgt vega- nesti. Í Bændahöllinni var Stefán ætíð aufúsugestur, þar áttu líka ýmsir fleiri en ég samskipti við hann um fjölmörg mál og um langt árabil. Við kveðjum nú þennan góða félaga úr hópi búvísindamanna með virðingu og þökk. Þá er mér ljúft að minnast hinna góðu samskipta sem ég og fjölmargir fjáreigendur á Reykjavíkursvæðinu áttum við Stefán með tvennum hætti. Eftir að við fjáreigendur fór- um að sinna uppgræðslu í afrétti STEFÁN HILMAR SIGFÚSSON ✝ Stefán HilmarSigfússon fædd- ist á Seltjarnarnesi 20. ágúst 1934. Hann lést í Reykjavík 24. febrúar síðastliðinn og fór útför hans fram frá Fossvogs- kirkju 7. mars. seint á 8. áratugnum í samvinnu við Land- græðslu ríkisins og sveitarfélögin vorum við stöðugt í sambandi við Stefán á vorin, allt fram á síðustu ár, þar sem hann hafði umsjón með áburðarfluginu. Þar var góð regla á hlutunum og árangur- inn eftir því. Þessu starfi ber nú vitni stórt algróið svæði við Arn- arnýpur neðan Blá- fjallavegar. Á haustin áttu síðan margir okk- ar ánægjuleg viðskipti við Stefán þegar við keyptum ilmandi gras- köggla frá Gunnarsholti sem þar voru lengi framleiddir undir stjórn hans. Að mínum dómi hafði Stefán betri skilning en flestir aðrir á sjón- armiðum og tilfinningum kindakarla og -kvenna, svo og annarra smá- bænda, sem margir hverjir áttu und- ir högg að sækja í sambýlinu við út- þenslu borgarinnar. Þeim reyndist hann vel. Þeirra á meðal voru síðustu bændurnir í Laugardalnum, þeir Gunnar á Laugabóli og Stefnir í Reykjaborg. Reyndar hafði Stefán mjög ríka réttlætiskennd og það var honum eiginlegt að taka málstað þeirra sem minna máttu sín. Stefán kveð ég með söknuði. Eiginkonu, dætrum og öðrum að- standendum votta ég innilega sam- úð. Ólafur R. Dýrmundsson. Öll eigum við okkar rætur, og ekki er langt síðan mikill hluti Íslendinga átti stutt að rekja ættir sínar til sveitanna og fann fyrir því. Ég hef tekið eftir því að margir af ágætum samstarfsmönnum mínum, sem ólust upp í þéttbýli, en ákváðu ungir að læra til þess að geta þjónað landbúnaðinum og bændum þessa lands, áttu einmitt sterkar rætur í sveitum. Þeir voru og eru í anda og hugsun sannir sveitamenn. Stefán H. Sigfússon landgræðslu- fulltrúi, sem nú er fallinn frá fyrir aldur fram, var gott dæmi um þetta. Hann var fæddur og alinn upp hér í þéttbýli höfuðborgarinnar, en gegn- um foreldrana lágu rætur hans norð- ur í þá merku dali Laxárdal í Suður- Þingeyjarsýslu og Svarfaðardal. Hann bar uppruna sínum gott vitni. Kynni okkar Stefáns hófust þegar eftir að hann kom heim frá háskóla- námi í Danmörku og hóf störf hjá Landnámi ríkisins árið 1960. Við unnum nokkuð saman næstu árin, m.a. í Gunnarsholti þegar þar hófst umfangsmikil kornrækt og stofnað var til grænfóðurverksmiðjunnar Fóðurs og fræs, sem Stefán síðar veitti forstöðu af mikilli trúmennsku um langt skeið. Ógleymanleg er mér ein vika er við Stefán áttum saman sumarið 1963, þegar við vorum sendir á ráð- stefnu um málefni æskufólks í sveit- um sem haldin var í borg borganna, Rómaborg. Þá kynntist ég því hve prúðmennið Stefán var góður félagi, fróður um marga hluti og áhugasam- ur um það fjölmarga sem fyrir augu bar. Ég kynntist vel störfum Stefáns fyrir Landnám ríkisins. Þá ferðaðist hann um nær allt land og er við átt- um sæti saman í Landnámsstjórn kom allt fram, samviskusemi Stefáns við alla afgreiðslu mála, trúfesti hans við þau stefnumál sem hann aðhyllt- ist og svo góður kunnugleiki á fólki og aðstæðum um allar sveitir. Eftir að Stefán réðst til Landgræðslu rík- isins og hafði m.a. með höndum stjórn áburðarflugsins með land- græðslustjóra kom sér vel þekking hans á landinu og fólkinu í sveitun- um. Mikilvæg voru einnig góð sam- skipti Sveins landgræðslustjóra og Stefáns við fjölmarga atvinnuflug- menn sem gáfu vinnu sína við að fljúga landgræðsluflugvélinni Páli Sveinssyni. Þeirrar starfsemi mun lengi sjá stað víða um landið. Stefán var maður fremur hæglát- ur og ákaflega prúður í fasi. Hann var umhyggjusamur og traustur vin- um sínum. Skoðanafastur var hann og fylgdi fram sannfæringu sinni í hverju máli. Þekking og traust yf- irsýn á því sem um var fjallað ein- kenndi málflutning hans. Það var ætíð gott að vinna með Stefáni og gott að eiga hann að vini. Við hjónin sendum Sigrúnu, dætr- um þeirra og vandafólki okkar inni- legustu samúðarkveðjur. Jónas Jónsson. Þegar við sem þessar línur ritum kveðjum sameiginlegan vin okkar, Stefán H. Sigfússon, leita fyrst og fremst á hugann minningar frá okk- ar fyrstu kynnum. Þau hófust ekki fyrr en Stefán var kominn heim frá framhaldsnámi í Danmörku og þau Sigrún höfðu stofnað heimili á Skóla- vörðustígnum. Við tengdumst vin- áttuböndum í Æskulýðsfylkingunni í Reykjavík (ÆFR) upp úr 1960, átt- um okkur draum um betra og rétt- látara þjóðfélag og vildum leggja eitthvað af mörkum til þess að gera hann að veruleika. Þessi draumur var alla tíð bindiefnið sem aldrei gaf sig þótt samverustundum fækkaði og starfsvettvangur okkar væri alla tíð ólíkur. Það mun hafa verið í Risinu í Tjarnargötu 20, félagsheimili ÆFR, sem við hittumst fyrst. Adda Bára, systir Stefáns, var um þetta leyti í forystusveit félagsins. Segja má að þau systkinin hafi verið fædd inn í hina sósíalísku hreyfingu því faðir þeirra, Sigfús Sigurhjartarson, var í fylkingarbrjósti Sósíalistaflokksins frá stofnun flokksins eins og síðar verður vikið að. Það mátti því heita sjálfgefið að Stefán (Stebbi eins og við kölluðum hann alltaf) legði þess- ari hreyfingu lið. Við sátum saman í framkvæmdanefnd Æskululýðsfylk- ingarinnar, sambands ungra sósíal- ista (ÆF) á árunum 1962–’64. Margs er að minnast frá þessum árum, en gefið hér verður fátt eitt nefnt. Á þessum tíma hófum við útgáfu á blaðinu Neista, sem kom út í nokkur ár. Þótt Æskulýðsfylkingin hefði sín eigin lög og væri sjálfstæður fé- lagsskapur þá var hún í sterkum tengslum við Sósíalistaflokkinn, átti m.a. áheyrnarfulltrúa í fram- kvæmdanefnd flokksins og hafði rétt til að kjósa fulltrúa á flokksþing. Stefán varð strax á þessum árum og lengi síðan áhrifamaður um mótun flokksins í landbúnaðarmálum. Og hann sat í mistjórn flokksins 1962– ’68. Við í Æskulýðsfylkingunni litum á það sem sjálfsagðan hlut að vinna ungt fólk til fylgis við stefnumið flokksins. Kalda stríðið var í al- gleymingi og baráttan gegn hernám- inu og veru Íslands í NATO höfðaði sterkt til okkar. – Það þótti sjálfsagt að leita til félaga í Æskulýðsfylking- unni þegar afla þurfti fjár til útgáfu Þjóðviljans og það var nánast árvisst verkefni. „Þjóðviljinn fyrir þjóðina – Þjóðin fyrir Þjóðviljann“. Þannig voru vígorðin á happdrættismiðum blaðsins sem við félagarnir vorum einhverju sinni að selja í Skodabif- reið (happdrættisbílnum) niðri í Austurstræti á þessum tíma. Stebbi lá ekki á liði sínu við það verkefni frekar en önnur sem hann tók að sér í þágu hreyfingarinnar. Við áttuðum okkur kannski ekki alveg á því þegar við sátum þarna í happdrættisbíln- um hvers vegna þessum félaga okkar var svo annt um hag Þjóðviljans sem raun bar vitni. En það rifjaðist alla- vega upp fyrir okkur síðar: Auk þess að vera þingmaður og borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins hafði Sigfús faðir hans verið ritstjóri Þjóðviljans ásamt Einari Olgeirssyni. Vegna starfa sinna við blaðið voru báðir þessir félagar og Sigurður Guð- mundsson blaðamaður (og síðar rit- stjóri Þjóðviljans) teknir til fanga af breska hernámsliðinu 1941 og fluttir í fangelsi í Bretlandi. Og blaðið var bannað um þetta leyti, sem aftur leiddi til þess að ekkert var aflögu í laun handa Sigfúsi sem hafði rit- stjórnina sem aðalstarf. Af þessum sökum missti fjölskyldan hús sitt úti á Nesi. – Engan þurfti því að undra þótt syninum væri annt um líf þessa blaðs. Seinna átti Stefán sem for- maður Sigfúsarsjóðs eftir að leggja sósíalískri hreyfingu ómetanlegt lið. Varla verður sagt að stúss okkar félaganna í pólitíkinni á þessum ár- um hafi verið sérstaklega fjölskyldu- vænt eins og nú er sagt. En kannski mátti þar koma auga á ljósa punkta! Þetta vafstur styrkti með vissum hætti tengsl og vináttu fjölskyldna okkar. Auk svipaðra viðhorfa til lífs- ins og tilverunnar áttum við það m.a. sameiginlegt að eiga dætur á svip- uðum aldri, og við vorum um þetta leyti að koma okkur þaki yfir höf- uðið. Fjölskyldurnar hittust gjarnan á laugardagsmorgnum. Þá var hægt að sameina það tvennt að sjá og sýna börnin og fara með þau í göngutúra, og skeggræða svolítið um pólitíkina og starfið framundan. Heimili Stebba og Sigrúnar var svo mið- svæðis að það varð oft fyrir valinu fyrir þessi stefnumót. Þeir sem kynntust Stefáni fóru ekki í neinar grafgötur um hvern mann hann hafði að geyma. Hann var hæggerður að eðlisfari en íhugull og traustur vinur vina sinna. Það sem hann tók að sér vissu menn að var í góðum höndum. „Hvað skyldi Stebbi segja um þetta?“ var gjarnan viðkvæðið þegar við félagar hans vorum að ráða ráðum okkar. En þeg- ar honum þótti hallað réttu máli eða ómaklega að sér eða málstað sínum vegið gat hann verið harður í horn að taka og stundum óvæginn. Um- hyggjan fyrir þeim sem höfðu orðið undir í lífsbaráttunni var honum í blóð borin. Það kom m.a. vel fram í aðstoð hans og þolinmæði við þá vist- menn á drykkjumannahælinu í Gunnarsholti sem á sínum tíma störfuðu á sumrum við grasköggla- verksmiðjuna á staðnum. Stebbi leit á það sem sjálfsagðan hlut að leita uppi hér á götum borgarinnar þá skjólstæðinga sína sem höfðu fengið leyfi til að bregða sér í bæinn en orð- ið fótaskortur. Að telja í þá kjark og keyra með þá austur á kvöldin eða nóttunni var ekki tiltökumál. Svona var Stebbi. Nú að leiðarlokum þökkum við, eiginkonur okkar og dætur þessum góða félaga samfylgdina. Við send- um Sigrúnu, dætrunum, systrum hans og aðstandendum öllum sam- úðarkveðjur. Gísli B. Björnsson, Gunnar Guttormsson. Vinur og félagi er fallinn frá. Ég mun sakna hans eins lengi og ég lifi. Stefán Sigfússon var einn þeirra fáu manna sem hafa hitt mig í hjarta- stað. Hógværð hans og ljúfmannleg framkoma gat aðeins farið framhjá þeim sem aldrei staldrar við og veit ekki hvenær hann hefur hitt fyrir ærlegan mann. Ég var svo heppinn að staldra við á sínum tíma og sjá þennan ljúfling fyrir framan mig. Fyrir það er ég honum ævinlega þakklátur. Við ræddum ekki mikið um pólitík Stefán og ég, þótt það væri e.t.v. það sem allir töldu eðlilegt í samskiptum mínum sem framkvæmdastjóra Al- þýðubandalagsins og hans sem son- ar Sigfúsar Sigurhjartarsonar, þessa stóra nafns í sögu vinstrihreyfingar- innar. Við vorum of uppteknir af verkefnum dagsins til að sökkva okkur í slíka smámuni eins og pólitík. Hins vegar komst ég fljótlega að því að hugmyndir okkar um lífið og til- veruna voru af sama meiði. Stefán hafði að vísu reynsluna, söguna, fram yfir mig. Sú reynsla og saga hafði styrkt hann í trúnni á heiðarleikann. Þau gömlu gildi að „orð skyldu standa“. Og þannig var Stefán. Hann gaf ekki mörg loforð og gaf aldrei svo ég vissi digrar yfirlýs- ingar, en það sem hann sagði stóð eins og stafur á bók. Þegar pusaði á bátinn í hreyfingu okkar og Stefán sagði að þetta myndi reddast var ég eins og sonur sem hafði fengið pabbatryggingu fyrir því að ljónin í veginum yrðu gerð tannlaus. Þannig var okkar samstarf og þannig mun ég muna eftir honum, sem manninum sem dró tennurnar úr ljónunum. Sum ljónin munu aldrei vita að það var Stefán sem dró úr þeim tennurnar, vegna þess að þau héldu í pólitískum hégóma sínum að þau ættu hann. Það átti aldrei nokk- ur maður Stefán. Hann var maður hreins hjarta, heiðarleika og einurð- ar. En hann var ekki maður hróp- gjarn og þess vegna héldu mörg póli- tísk gjallarhorn að þögn hans þýddi að hann dansaði með þeim. Fá þeirra höfðu snefil af viti til að uppgötva að lokum hvað þögn hans þýddi. Í vikunni sem leið hætti einlægt mannshjarta að slá. Góður vinur minn er farinn. Ekki bara frá mér, heldur svo mörgum ættingjum og vinum sem voru svo lánsamir að verða á vegi hans. Hann er einn ör- fárra sem sanna fyrir mér að „orðstír deyr eigi“. Gjöf hans til mín er að mér lánist að tileinka mér þótt ekki væri nema brot af einlægum huga hans og ást til lífsins. Mig skortir orð þegar ég hugsa til þeirra sem standa honum miklu nær en ég. Samúðin er með þeim. Nafn Stefáns Sigfússonar hverfur mér aldrei úr minni. Heimir Már Pétursson. Stefán, vinur minn og okkar hjóna, er horfinn til fjarlægra stranda. En ekki á þá sólarströnd sem við ætluðum til saman, heldur á þá strönd sem allir fara einir til. Þrátt fyrir langvinn og erfið veik- indi nafna míns bar hann sig alltaf svo vel að maður fann aldrei að marki að hann væri veikur. Jú, hann fór á sjúkrahús að hitta elskurnar sínar eins og hann sagði svo oft, en alltaf kominn heim að bragði, eins og ekkert hefði í skorist. Hann ákvað þrátt fyrir öll veikindi að lifa lífinu lifandi og standa meðan stætt væri. Það gerði hann svo sannarlega til síðasta dags. Vinátta okkar Stefáns byrjaði á námsárunum í Danmörku. Hann var að ljúka sínu námi, ég að byrja. Ég var stundum í vandræðum með gist- ingu í helgarferðum til Köben. Þá reyndi ég það fyrst, sem alla tíð var aðalsmerki nafna míns gagnvart vin- um sínum: „Þú getur gist hjá mér.“ Alltaf var Stefán boðinn og búinn að bjóða fram aðstoð ef einhvers þyrfti með. Þetta var mjög áberandi þáttur í fari nafna míns. Umhyggjan fyrir öllum sem í kringum hann voru. Þeg- ar hann og Sigrún komu í heimsókn í Aðaldalinn á sumrin þurfti alltaf að heimsækja vini og frændur og fara í Brettingsstaði í Laxárdal, þar sem Stefán dvaldi á sumrin sem drengur hjá ömmu sinni og afa. Nafni minn var tæplega meðal- maður á hæð og alla tíð frekar grannvaxinn. Hann var agronom frá Landbúnaðarháskólanum í Kaup- mannahöfn. Að námi loknu vann hann hjá Landnámi ríkisins, sem fulltrúi landnámsstjóra, jafnframt því sem hann var framkvæmdastjóri Fóðurs og fræs í Gunnarsholti. Eftir að Landnámið hætti var hann fulltrúi landgræðslustjóra til ævi- loka. Alla tíð hafði hann umsjón með og stjórnaði áburðarflugi á vegum Landgræðslunnar. Í mörg ár nutum við hjónin samvista við hann í gegn- um starf hans hjá þessum aðilum. Fórum við í fjölda ferða að skoða ár- angur áburðarflugsins eða til að kanna ný svæði. Þá eru ótaldar óvissuferðirnar, sem við hjónin og stundum börn okkar fórum saman MORGUNBLAÐIÐ tekur afmælis- og minningargreinar til birtingar endurgjaldslaust. Greinunum er veitt viðtaka á ritstjórn blaðsins í Kringlunni 1, Reykjavík, og á skrifstofu blaðsins í Kaupvangsstræti 1, Akureyri. Þá er enn fremur unnt að senda greinarnar í símbréfi (569 1115) og í tölvupósti (minning@mbl.is). Nauðsynlegt er, að símanúmer höfundar/sendanda fylgi. Um hvern látinn einstakling birtist formáli, ein uppistöðugrein af hæfilegri lengd, en aðrar greinar um sama einstakling takmarkast við eina örk, A-4, miðað við meðallínubil og hæfilega línulengd, - eða 2.200 slög (um 25 dálksentimetra í blaðinu). Tilvitnanir í sálma eða ljóð tak- markast við eitt til þrjú erindi. Greinarhöfundar eru beðnir að hafa skírnarnöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum. Við birtingu afmælisgreina gildir sú regla, að aðeins eru birtar grein- ar um fólk sem er 70 ára og eldra. Hins vegar eru birtar afmælisfréttir ásamt mynd í Dagbók um fólk sem er 50 ára eða eldra. Mikil áhersla er lögð á, að handrit séu vel frá gengin, vélrituð eða tölvusett. Sé handrit tölvusett er æskilegt, að disklingur fylgi útprent- uninni. Það eykur öryggi í textameðferð og kemur í veg fyrir tvíverknað. Auðveldust er móttaka svokallaðra ASCII-skráa sem í daglegu tali eru nefndar DOS-textaskrár. Þá eru ritvinnslukerfin Word og Wordperfect einnig auðveld í úrvinnslu. Birting afmælis- og minningargreina
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.