Morgunblaðið - 15.11.2007, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 15.11.2007, Blaðsíða 20
20 FIMMTUDAGUR 15. NÓVEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ MENNING/BÆKUR LÍF á bak við rimla er fremur ófrjálst og óskemmtilegt get ég ímyndað mér. Í nýrri skáldsögu sem hann kallar Rimla hugans fjallar Einar Már Guð- mundsson um rimlalíf. Þetta er skáldsaga sem gerist mest á tveimur sviðum. Annars vegar er sögð falleg ást- arsaga tveggja óhamingjumann- eskja sem ánetjast vímuefnum en finna sína lukku þegar botninum er náð og hins vegar fylgjumst við með stærstu tíðindum skáldsins þegar hann uppgötvar sína áþján, rimla hugans og áfengisins og gerir eitt- hvað í málum sínum. Einar Már Guðmundsson skrifar skáldsögur sem eru nokkuð ólíkar hvað vinnubrögð varðar. Fyrstu skáldsögur hans einkenndust af ljóð- rænu hugarflugi og myndmáli ýmiss konar auk djúpstæðra tilvistarlegra og innhverfra hugleiðinga en hinar síðari fjölskyldusögur hans eru ep- ískari og bera þess merki að hann hefur unnið mikla rannsóknarvinnu. Það er hins vegar alveg ljóst að hæst rísa verk hans þegar honum tekst að sameina rannsóknarvinnu, fag- urfræðina og hina knýjandi innri þörf líkt og hann gerði í Englum al- heimsins. Í Rimlum hugans tekst honum einmitt að fella þessa þætti saman. Í raun og veru eru Rimlar hugans eðlilegt framhald fjölskyldusagn- anna og raunar einnig verka á borð við Kannski er póst- urinn svangur og ljóða- bókarinnar Ég stytti mér leið fram hjá dauð- anum. Þeir atburðir hafa hins vegar orðið í lífi Einars Más sem skapa ákveðin hvörf í sögu verka hans. Líkt og svo margir aðrir Ís- lendingar hefur hann þurft að horfast í augu við alkóhólisma sinn og dregur bókin mjög dám af því uppgjöri. Sannast sagna átti ég von á bók frá Einari Má um alkóhólisma hans. Ofurlítinn kvíða bar ég í brjósti um að slík bók yrði fremur döpur lesning í anda margra vitnunarbókmennta. Vissulega vitnar skáldið um synd- ir sínar í tengslum við sjúkdóminn. En Einar er ekki venjulegur frá- sagnarmaður og sögurnar verða því ýmsar dálítið skrautlegar og á engan hátt leiðinlegar. Enn fremur kýs Einar að horfa lengra og víðara. Hann smíðar skáldsögu þar sem hann er sögumaður sem segir frá fólki, Evu og Einari Þór. Bæði eiga langan neysluferil og Einar Þór er tekinn með fulla dós af eiturlyfjum, er í yfirheyrslum og bíður dóms þeg- ar sagan hefst. Hann er staddur á botni sinnar tilveru á Litla-Hrauni. Einar Már fær bréf frá Einari Þór um mál hans og líf þeirra skötuhjúa og í veruleika skáldsögunnar kemst hann yfir bréfasafn þeirra hvort til annars. Þetta er því öðrum þræð- inum bréfaskáldsaga sem sett er inn í ramma neysluferlis Einars Más. Hann dregur því upp hliðstæður skálds og viðfangsefnis. Einmitt hér er rétt að staldra við formgerð sög- unnar því að líkt og svo oft áður er Einar Már að skrifa skáldsögu þar sem mætast skáldskapurinn í veru- leikanum og veruleikinn í skáld- skapnum. Allt er þetta í anda heim- ildaskáldsagnaformsins sem Einar hefur valið sér hin seinni ár. Hann veltir fyrir sér þessum skilum skáld- skapar og veruleika og niðurstaðan verður einfaldlega sannur skáld- skapur, jafn þverstæðufullt og það kann að hljóma. Slíkar og þvílíkar vangaveltur um form og eðli skáldsögunnar geta þó aldrei orðið einar mælikvarði á gildi þessarar skáldsögu. Um stílsnilld Einars Más efast fáir og hún bregst ekki hér. En sagan sjálf og aðal- persónurnar eru eiginlega óður til einfaldleikans og hinnar barnslegu en eilífu leitar að hamingjunni. Ástin milli þeirra er falleg og hrein þrátt fyrir dapurlega sögu þeirra, breysk- leika og vandræða á sama hátt og ást Einars á hans nýja lífi án áfengis er á vissan hátt töfrandi. Afstaða hans til þessa fólks er í hrópandi andstöðu við ýmsar þær skoðanir sem við heyrum í upphrópunum og fordæmingum sumra fjölmiðla- manna á því fólki sem býr við ánauð fíknarinnar. Þeir eru líka ófáir sem velta sér upp úr óhamingju þess. Hér er allt hófstillt og sagan minnir einna helst á epíska söngva Dylans eða jafnvel enn þá heldur á kvæðið góða um Svante og Nínu sem fjallar um hans eina lukkulega dag en það endar á þessum orðum sem best er að hafa á dönsku: „Livet er ikke det værste man har / og om lidt er kaf- fen klar.“ Ég flæktist óvart um daginn á bloggsíðu þar sem einhver var að fjalla um skáldið og sagði eitthvað í þá áttina að Einar Már væri eins og pítsa, alltaf góður. Bækur Ástarsaga Eftir Einar Má Guðmunds- son, Mál og menning. 2007 – 362 bls. Rimlar hugans Skafti Þ. Halldórsson Ástarstjarna yfir Litla-Hrauni Einar Már Guðmundsson Ekki skortir lífsmagn og ólgu í fyrstu ljóðabók ungs skálds, Krist- ínar Svövu Tómasdóttur, Blótgælur. Hér kennir í senn kunnugra og nýrra grasa; það er eitthvað hrátt og blautt og ofboðslegt í tíðarand- anum, ef marka má þessi ljóð, of- urspennt og yfirkeyrt, einhver menning á mörkum uppreisnar sem á sér þó ekki skýran andstæðing og beinist ekki síst inn á við; en líka eitthvað ofurlítið furðulegt og fal- legt. Ekki þó „krúttlegt“, svo gripið sé til orðs sem notað hefur verið um viðhorf og tjáningarform á seinustu tíð. Í prósaljóðinu „Stelpur“ segir: „Þessi bolur er kannski krúttlegur en það eru samt brjóst í honum og rauðlakkaðar táneglur í kínaskón- um. […] Drekkið stelpur, hórist og fárist og farið á bömmer, hysjið upp um ykkur slúðrið […]“ Þetta er öðrum þræði bók um slark, um hraðan lifnað þar sem „allt er einhvern veginn fyrir bí / kærulaus hamingjan ofsafengin stór og iðandi eftir því“, eins og segir í ljóðinu „3:15“. „Næturverðir“ er skemmtilegur titill á öðru ljóði og vísar til þeirra er gæta næturinnar með því að halda trylltu fjörinu gangandi í öldurhúsi, en því er lýst sem skipi í ólgusjó. Það er org í nóttinni en líka örvænting og stund- um nauðgunarseyðingur við sól- arupprás. Því að „klof vega menn“ eins og segir í samnefndu ljóði sem sækir af dirfsku orðafar til Sigurðar Pálssonar og snýr því upp á „titt- linga“ sem áður námu land en stunda nú sum- ir „barnatímaleit“. Í öðru ljóði eru þræð- ir dregnir frá Laxness: „eia pillur! eia stjörnur! / stjörnurnar í banda- ríska fánanum“ (í þessu ljóði er líka ein af fáum þreyttum og ungæð- islegum ljóðlínum bók- arinnar: „Þorgrímur Þráins kveikir sér í rettu á leiðinni út“). Í enn öðru ljóði er sótt til Jónasar: „fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel / og ég ráfa yfir Tjarnarbrúna með rauðvínsflösku í annarri“. Það ljóð fjallar um fórnarlíf móðurinnar, og þó að blótið í bókartitlinum vísi m.a. til kjaftháttar, þá er meg- inmerking þess sú gegndarlausa fórn sem stöðugt er færð – án þeirr- ar tilbeiðslu eða dýrkunar sem gjarnan fylgir, ekkert síður í sam- tímanum en í fornum trúar- brögðum. Þeir sem ekki falla fyrir gyllimyndum verða að leita og spyrja, en þeir geta samt lent í svelgnum þar sem ýmsu er fórnað, bernskunni, hugarheill, sjálfsmynd- inni. Í þessum ljóðum eru það stúlk- urnar í nútímaskóginum sem fórna sér – „í myrkrinu burðast ég með stráka“ segir einn ljóðmælandinn. Þessi áleitna lína er margræð og sýnir að Kristín Svava er fær um að leysa úr læðingi óvænta orku í tungumálinu. Og þjóðin er líka í fórnarstell- ingum og þar vantar ekki sjálfsdýrkunina. Dýrin í Hálsaskógi sannfæra sig um að firringin sé ekki hér og á Mallorka er skál- að fyrir Íslandi: „Isl- and über alles“, við erum að hertaka heimsbyggðina. Hér verður seiður skálds- ins mælskur og rammur: „(ó egósentr- íska rassgat heimsins með sjálfsmynd- arkomplexa bólugraf- ins unglings!)“ Kristín Svava kemst upp með að kyrja þetta vegna þess að hún mælir ekki frá upp- höfnu sjónarhorni vandlætarans heldur úr hringiðu sem allir ljóð- mælendur hennar hafa sogast inn í. En þeir mæla á mismunandi hátt, því ljóðin sýna að þetta unga skáld (hún er 22 ára að því er segir innan á bókarkápu) hefur ekki bara afar efnileg heldur líka fjölbreytileg tök á ljóðformi og ljóðmáli. Hér hefur enn ekki verið minnst á ljóðið „Undir einni sól“ þar sem dregin er upp listileg mynd sem gæti verið baksvið annarra ljóða. Og lokaljóðið, „Ljósin meðfram flug- brautinni“, dregur fram tengsl milli háskalegs lífshraða unglinganna í skóginum og hraðans í samfélaginu, lífsgæðakapphlaupsins (svo ég noti orð sem er sjálft orðið svo þreytt á hlaupunum að það hefur kannski enga merkingu lengur). „Meiri hamingju áður en staðirnir loka“ BÆKUR Ljóð Eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur, Bjartur 2007. Blótgælur Ástráður Eysteinsson Kristín Svava Tómasdóttir Lesendur bóka Hug- leiks Dagssonar vita orðið að hverju þeir ganga þegar nýtt verk eftir höfundinn rekur á fjörur þeirra. Mynd- ræna hliðin er grodda- leg og einföld, hugar- flugið er ýkjukennt og höfundur nýtur þess að snúa viðteknum hugmyndum á hvolf. Nokkur munur er þó á brand- arabókunum og þeim sem segja lengri sögu en Eineygði kötturinn Kisi og leyndarmálið fellur í seinni flokkinn. Saga er sögð en hún er eins einföld og hugsast getur, og má kannski sjá sem eins konar þvotta- snúru sem strengd er í gegnum bók- ina til að hengja á einstakar senur, en hér er það krafturinn í afmörk- uðum senum en ekki hugmyndir um heildarsamhengi sem skipta máli. Myndlíking þessi er þó gölluð að því leytinu til að þvotturinn sem Hug- leikur hengir út til þerris er ekki hreinn og velilmandi, þvert á móti er hann drulluskítugur, hálfgerð sjón- mengun. Hér ganga verur aftur í kúkslíki, en afturgenginn saur verð- ur vissulega að teljast sjaldgæfur viðburður, og snemma er söguhetj- unni nauðgað af ill- vígum eldfjallaguði. „Mannát“ kemur við sögu (gæsalappir eru notaðar þar sem per- sónur bókarinnar eru að hætti Disney mannhverf dýr) sem og ýmiss konar sukk og svínarí, að ógleymdum Árna Jón- sen og brekku- söngnum hans. Leyndarmálið í titl- inum er leyndarmálið um lífshamingjuna og fannst mér afar gam- an að sjá Hugleik tak- ast á við og gera stólpagrín að ein- hverjum þeim furðulegasta fjanda sem riðið hefur yfir hugsanalíf vest- rænnar menningar á síðustu mán- uðum og árum, en það er lífsham- ingjuritið The Secret eftir Rhondu Byrne. En eins og alltaf þegar Hug- leikur er lesinn vakna spurningar um merkingu og boðskap. Er höf- undur að segja eitthvað eða er hann að fíflast? Er munurinn þar á mik- ilvægur? Liggur eitthvað að baki þessu villta hugmyndaflugi og ætti lesandi að einbeita sér að einhverju öðru en þeirri vafasömu og oft afar takmörkuðu ánægju sem lesturinn hefur í för með sér? Skipta spurn- ingar sem þessar máli? Setur Hug- leikur fram gagnrýna sýn á samtím- ann, eða er hann sjúkdómseinkenni? BÆKUR Myndasaga Eftir Hugleik Dagsson, JPV Útgáfa. 2007. Blað- síðutal ekki gefið upp. Eineygði kötturinn Kisi og leyndarmálið Björn Þór Vilhjálmsson Hugleikur Dagsson Skítugur þvottur Bókin Þegar Ljósið slokknar eftir Clare Dickens – baráttusaga sonar og móður – er um von sem lifir þrátt fyrir að ljósið slokkni. Dickens lýsir baráttu fjölskyldu eftir að eldri sonurinn veikist og tekst á við geðhvörf og fíkn sína. Vonin snýst um bata son- arins og jafnvel þótt hún rætist ekki skrifar Dickens söguna með þá von í brjósti að aðrir geti lært af henni. Clare Dickens er bresk að upp- runa og Ed maður hennar er Bandaríkjamaður sem starfar hjá utanríkisþjónustunni. Þau eignast tvo syni, Titus og Max, og búa með- al annars á Íslandi í þrjú ár. Synir þeirra eiga báðir við nokkra erf- iðleika að stríða sem ágerast með tímanum hjá Titusi. Titus er heillandi og hæfileikaríkt barn. Hann er metnaðarfullur og býr við strangar kröfur í skólakerf- inu. Hann reynist vera alvarlega veikur af geðhvörfum og sveiflast milli maníu og þunglyndis. En hann er sterkur persónuleiki og vill æv- inlega ná framúrskarandi árangri. Eftir að hafa brotlent tvisvar í bandarískum skólum fær hann inn- göngu í hinn fræga skóla LAMA eða London Academy of Music and Dramatic Art sem oft er talinn meðal bestu leiklistarskóla í heimi. Sagan öll er rakin í bókinni. Dickens varpar í frásögn sinni skýru ljósi á þennan alvarlega sjúk- dóm sem kvelur son hennar. Einnig birtir hún texta eftir Titus inn á milli því þau höfðu heitið sér því að skrifa þessa bók saman. Gera vand- anum sem sprettur sífellt fram góð skil og kvíðanum sem fylgir. Í bók- inni birtist vonin um að Titus standi sig, óttinn um að hann taki líf sitt, vonin um rétta meðferð og ef- inn um að hafa brugðist rétt við veik- indum hans. Mæðginin eru bæði hreinskilin í skrifum sínum. Titus skrifar: „Og þessa köldu jan- úarnótt ákvað ég að ég yrði að fórna mér. Ég var alveg snar- ruglaður. Mér fannst ég þurfa að fórna mér fyrir heiminn af því að ég var svo hræðilegur.“ (155) Clare skrifar: „Árið sem í hönd fór voru vonir okkar lík- lega bundnar við það eitt að koma Titusi til heilsu á ný. Ennþá átti ég erfitt með að skilja hvernig dreng- ur með svona mikla hæfileika hefði getað glutrað niður enn einu tæki- færinu.“ (159) Þau skrifa einnig bæði af ást og von um að aðrir geti lært af sögu þeirra. Geðhvarfasjúklingar, aðstand- endur þeirra, heilbrigðisstarfsmenn og aðrir í samfélaginu geta lært margt af frásögun Clare Dickens. Við getum lært að sýna ævinlega virðingu og gera greinarmun á ein- staklingi og sjúkdómi. Við getum lært að leita sífellt úrræða í stað þess að bregðast á ögurstundu. Clare á þakkir skildar fyrir að segja þessa sögu – til þess þurfti hugrekki, ástúð og óbilandi von um finna megi veg sem ekki endar í blindgötu. Titus greindist með geðhvörf 16 ára og tók líf sitt bugaður af sjúk- dómi sínum 25 ára gamall en saga hans vekur þrátt fyrir það vonir um að með réttri meðferð og við- brögðum megi draga úr líkum á að þessi undarlega gáfa breytist í mar- tröð. Titus varð því miður einnig áfengissjúklingur og gerði það við- ureignina tvöfalt illvígari. En Titus og móðir hans áttu sameiginlega þá von að geta hjálpað öðrum og það er lesenda að læra og breiða út boðskapinn. Bók um von sem deyr ekki BÆKUR Baráttusaga Eftir Clare Dickens. Ólafur Stephensen þýddi. JPV. 2007 – 235 bls. Þegar ljósið slokknar Gunnar Hersveinn Clare Dickens
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.