Dagblaðið Vísir - DV - 27.01.2010, Blaðsíða 18

Dagblaðið Vísir - DV - 27.01.2010, Blaðsíða 18
Á M I Ð V I K U D E G I 96 ÞÚSUND Á AVATAR Kvikmyndin Avatar situr enn á toppnum yfir aðsóknarmestu kvikmyndir í bíóhúsum landsins. Á eftir koma Sherlock Holmes og Bjarnfreðarson. Mamma Gógó er í 4. sæti og ný inn á lista er myndin Planet 51 sem stekkur beint í 5. sætið. Nú hafa rúmlega 96 þúsund Íslendingar séð Avatar en hún hefur setið í 6 vikur á listanum og halað inn meira er 116 milljónir. 18 MIÐVIKUDAGUR 27. janúar 2009 FÓKUS Það er víst óhætt að segja að síð- asta helgi hafi verið íslensk í leikhús- um borgarinnar. Þrjú ný íslensk leik- rit voru frumsýnd frá fimmtudegi til sunnudags og skal nú stuttlega greint frá þeim og hvernig þau fóru í undir- ritaðan við fyrstu kynni. Komplexar í Nemendaleikhúsinu Fyrst í röðinni var leikrit Sigtryggs Magnasonar Bráðum hata ég þig í Nemendaleikhúsinu, annað verkefni útskriftarhópsins í ár. Þetta er í aðal- atriðum hefðbundið fjölskyldudrama um fjórar systur sem koma sam- an eftir langan aðskilnað í jarðarför móður þeirra. Að sjálfsögðu eru ýmis fjölskylduleyndarmál grafin undir yf- irborðinu: gamall sársauki, gamalt svekkelsi, óútkljáð og óuppgert, sem brýst svo fram í erfisdrykkjunni og eft- irleik hennar. Mér finnst ekki ástæða til að rekja það frekar hér; sjón er sögu ríkari, eins og þar stendur. Þetta er lipurlega saminn texti og hélt athygli manns ágætlega lengst af, þó að tæp- ast búi hann yfir þeirri sálfræðilegu dýpt sem hefði þurft til að gera þessi samskipti öll trúverðug; framvindan virtist einkum knúin áfram af gamal- kunnum hugmyndum um kynferð- islegar bælingar sem hér eru látnar enda í þreföldum samfara-klímax, býsna grafískt útfærðum af leikstjóra með hjálp leikmyndar og ljósa. Fyrir minn smekk gerði það ekki mikið fyr- ir verkið. Annars var leikmyndin vel heppnuð og ljósabeiting til fyrirmynd- ar, enda Egill Ingibergsson pottþéttur í sínu fagi. Leikendur stóðu sig vel; þetta er býsna góður hópur og ættu flestir að eiga möguleika eftir útskrift. Sem fyrr vakti þó Hilmar Guðjónsson mesta athygli fyrir einkar sannferðuga túlk- un; hér lék hann sambýlismann einn- ar systurinnar, íslenskan alþýðustrák, svolítið búralegan en alls ekki slæman í sér – ætli við þekkjum ekki flest týp- una. En eitt skil ég ekki: hvers vegna í ósköpunum setti leikstjórinn, Una Þorleifsdóttir, þetta upp í svona hægu tempói? Þó að persónurnar eigi ef- laust að vera frekar lokaðar og inn í sig, flestar þeirra alltént, var ekkert, það ég gat séð, í lýsingu þeirra eða samskipt- um, sem kallaði á slíkan hægagang. Tveir tímar án hlés með ekki meiri dramatískri spennu, það er nú held- ur mikið á áhorfendur lagt, og enginn greiði við verkið, öðru nær. Samtíðin í Borgarleikhúsinu Á föstudagskvöld var komið að nýj- um leik þeirra Halls Ingólfssonar, Jóns Atla Jónassonar og Jóns Páls Eyjólfs- sonar á Nýja sviði Borgarleikhúss- ins. Þeir kalla sig Mindgroup og leik- inn Góðir Íslendingar. Þeir félagar sýndu í fyrra á þessu sama sviði ekki óáþekkan satíruleik, Þú ert hér, sem mér fannst undarlega lítið fara fyrir og ekki fá þá athygli í kynningu og um- ræðu sem hann átti skilið. Hann beit ágætlega á sukkið og svínaríið sem við höfum horft upp á og þurfum nú öll að borga fyrir að hafa látið viðgangast; hann var líka skemmtilega leikrænn. Skeytingarleysi hins venjulega Ís- lendings, meðal-jónsins, hugsun- ar- og afskiptaleysi okkar allra, átti greinilega að vera helsti skotspóninn í Góðum Íslendingum. Sem fyrr standa þeir þremenningar á sviðinu, en hafa nú fengið til liðs við sig fjóra leikara: Halldór Gylfason, Berg Þór Ingólfsson, Halldóru Geirharðsdóttur og Dóru Jó- hannsdóttur. Þessi hópur er lokaður inni í einhvers konar búri úr vírdrusl- um; þar flýtur allt í gluggabréfum sem þau eru að sanka að sér, nánast eins og úti á þekju; þau eru þarna þegar áhorf- endur koma inn og einnig þegar þeir fara út. Útgangurinn á þessu liði er all- ur fremur kyndugur; þó er víst engin ástæða til að efast um að þarna séu „góðir Íslendingar“ á ferð. Í baksýn er veggur með mörgum sjónvarpsskjá- um með síbreytilegum myndbrot- um sem enginn horfði þó á nema rétt þegar eitthvað var kynnt með þess- um venjulegu látum sjónvarpsfrétt- anna; fyrst kom forsetinn og tilkynnti að hann ætlaði að láta okkur kjósa um Icesave, síðast voru það auglýsingar á kjúklingum sem fólkið glápti á eins og naut á nývirki, áður en það snéri aft- ur að sínu. Sem sagt: enginn greinar- munur á stóru og smáu í sljóum heila- búum sjónvarpsfíklanna. Öðru hverju er eins og opnist fyrir gátt yfir sviðinu og heljarskammtur af nýjum glugga- bréfum hrynur yfir hópinn; á því geng- ur allan leikinn. „Samræður“ fólksins eru mestanpart fólgnar í því að það segir af sér sögur, gerir grein fyrir ýms- um viðbrögðum sínum og lífsviðhorf- um; í reynd eru þetta langmest eintöl, því hér er enginn í sambandi við ann- an og trúlega minnst við sjálfan sig. Óneitanlega sveif andi absúrdismans yfir vötnum, en það var þá pólitískur absúrdismi – sem var kannski, þegar öllu er á botninn hvolft, skásti absúr- disminn. Það var margt reglulega smellið í þessu sem auðheyrilega hitti í mark hjá áberandi velviljuðum áhorfenda- hópi á frumsýningu. Þetta varð bara alltof, alltof langt, tilbreytingarlaust og fyrirsjáanlegt – sem var líka auðfundið á áhorfendunum, þó að þeir væru allir af vilja gerðir að hafa gaman af og láta leikendur finna það. Það væri auðvelt að kenna því um að leikstjóri og höf- undur/höfundar hafi sjálfir verið uppi á sviði; það hefur sjaldnast þótt giftu- samlegt, eftir að leikhúsið sagði skil- ið við stjörnudýrkun nítjándu aldar- innar, að hræra því svona hressilega saman. En nú voru þeir félagar allir á sviðinu í Þú ert hér og þar gekk það svo ljómandi vel. Kannski var ástæð- an sú að hér voru þeir með fleiri leik- ara sem voru sumir áberandi illa nýtt- ir; ég nefni Halldór Gylfason og ég hefði líka viljað sjá meira til Halldóru Geirharðsdóttur. En ég skal játa að ég fæ seint nóg af Halldóru þegar hún er í essinu sínu. Hún er örugglega einn af vannýttum snillingum leikhússins og sýndi það enn og sannaði; fór meist- aralega með síðustu ræðu sína um konuna sem efnaðist skyndilega og tapaði svo aftur öllu jafn skyndilega, en reynir bara að vera jákvæð og taka hlutunum með æðruleysi. Á því and- artaki náðist þetta hárrétta jafnvægi milli kómedíu og tragedíu sem var svo miklu meira af í Þú ert hér. Og meðal annarra orða: mér finnst að Jón Atli ætti að einbeita sér að skriftunum en halda sig fjarri leik- sviðinu. Þangað á hann sannast sagna ekki meira erindi en hver annar. Jón Páll er hins vegar afbragðs leikari og ég vildi gjarnan sjá hann leika meira og oftar, þó að þá myndi ég að öðru jöfnu mæla með því að hann léti aðra stýra sér. Hallur getur verið spaugilega aulalegur, að vísu á nokkuð einni línu; að þessu sinni byrjaði hann sýning- una ágætlega, þó að hvorki færi hann þá né síðar fram úr prestinum í Þú ert hér. Strindberg og Þór í Iðnó Það var ánægjulegt að koma í Iðnó á sunnudagskvöldið, þetta hús sem er svo þrungið andblæ löngu liðinna leikkvölda. Af hverju finnst manni þau öll hafa verið góð, í endurminning- unni?! Að þessu sinni tróð flokkur leik- enda undir stjórn Ingu Bjarnason þar upp með leikrit eftir Þór Rögnvalds- son sem nefnist því einfalda nafni Til- brigði við stef. Stefið er fengið úr leik Strindbergs, Hinni sterkari, sem fram fer á kaffihúsi; þar setjast tvær kon- ur við sama borð; þær hafa þekkst fyrir þó fátt hafi verið með þeim um skeið, önnur lætur móðan mása, hin segir ekki neitt – ekki með orðum, en því meira með þögulum viðbrögð- um. Á daginn kemur að þær hafa bar- ist um sama manninn; rimma þeirra snýst að sjálfsögðu um hvor sé „hin sterkari“, eiginkonan eða viðhaldið, því að Strindberg var á þeim árum, er hann samdi leikinn, afar upptek- inn af „glímu kynjanna“, valdabaráttu karla og kvenna í ástar- og hjúskap- arsamböndum. Sjálfur stóð hann í erfiðum skilnaði um það leyti, skiln- aði sem lagðist svo þungt á hann að hann missti nánast vitið og þurfti að skrifa sig frá ósköpunum – sem hann gerði í þessum leik og ýmsum öðr- um. Af hverju skyldu þeir aldrei sjást á íslenskum sviðum nú orðið? Sýn- ing leikflokksins, sem nefnir sig engu sérstöku nafni, fer ekki fram í aðals- alnum, heldur veitingasalnum á efri hæð; áhorfendur sitja við borð eins og á kaffihúsi sem er vel til fundið, því að leikurinn – eða öllu heldur leikirnir – fara, sem fyrr segir, fram í þess konar umhverfi. Fyrrnefnt stef Strindbergs tekur Þór sem sé upp og býr til fjögur til- brigði við, lauslega sniðin að íslensk- um samtíma: fyrst er texti Strindbergs leikinn, svo koma tilbrigðin í sama mynstrinu: tvær konur hittast á kaffi- húsi og einnig tveir karlar; í flestum tilvikum er einhvers konar þríhyrn- ingsflækja að baki. Það er út af fyrir sig aðdáunarvert þegar höfundar sýna slíkan kjark að leggja sinn eigin texta upp að texta Strindbergs, þó naum- ast verði sagt að Þór hafi nokkru sinni náð strindbergsku flugi; atriðin fannst mér býsna misáhugaverð, „samtöl“ kvennanna yfirleitt betri en karlanna (kannski af því þær lágu nær Strind- berg); einkum var síðasta samtalið röflkennt og á mörkum þess að vera boðlegt. Auk þess hygg ég að betur hefði farið á því að enda ekki sýning- una á því, heldur hafa það strax á eft- ir hléinu – ef það átti á annað borð að vera inni – og leyfa konunum að ljúka leiknum. Leikendurnir fjórir, Lilja Þórisdótt- ir, Valgeir Skagfjörð, Guðrún Þórðar- dóttir og Gunnar Gunnsteinsson, hafa lítið sést á undanförnum árum, þó að öll séu þau menntaðir leikarar. Ekki má heldur gleyma Ólafi Þór Jóhannes- syni í hlutverki þjóns. Þau skiluðu öll sínu mjög sómasamlega og ástæðu- laust að hampa einum umfram ann- an. Búningarnir féllu vel að verkinu og yfirleitt fór ágætlega um leikinn þarna í kaffisalnum. Það hefur verið undarlega dauft yfir Iðnó það sem af er vetri; þar hefur verið lífleg leikstarf- semi síðustu ár og illt til þess að vita ef hún á að verða eitt af fórnarlömbum kreppunnar. Jón Viðar Jónsson Íslensk helgií leikhúsunum NEMENDALEIKHÚS LHÍ: BRÁÐUM HATA ÉG ÞIG eftir Sigtrygg Magnason Leikstjóri: Una Þorleifsdóttir Leikmynd og búningar: Axel Hallkell Jóhannesson Ljósahönnun: Egill Ingibergsson Hljóðmynd: Högni Egilsson LEIKLIST IÐNÓ: TILBRIGÐI VIÐ STEF eftir Þór Rögnvaldsson Leikstjórn: Inga Bjarnason Búningahönnun: Fitore Berisha Ljós: Jóhann Bjarni Pálmason LEIKLIST MINDGROUP Í SAMVINNU VIÐ L.R. GÓÐIR ÍSLENDINGAR Handrit, leikmynd og leikstjórn: Mindgroup Lýsing: Björn B. Guðmundsson Leikgervi: Sigríður Rósa Bjarnadóttir og leikhópurinn Búningar: Stefanía Adolfsdóttir og leikhópurinn LEIKLIST Góðir Íslendingar „Skeytingarleysi hins venjulega Íslendings, meðal-jónsins, hugsunar- og afskiptaleysi okkar allra, átti greinilega að vera helsti skotspóninn í Góðum Íslendingum. “ MYND GRÍMUR BJARNASON

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.