Morgunblaðið - 03.02.1982, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 03.02.1982, Blaðsíða 18
18 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 3. FEBRÚAR 1982 Minning: Sveinbjörn Jónsson byggingameistari Fæddur 11. lebrúar 1896 Dáinn 26. janúar 1982 Ekki óraði mig fyrir því, þegar ég kvaddi Sveinbjörn, vin minn, fyrir rúmri viku á tröppunum að Háteigsvegi 14 hér í bæ, að það yrði í siðasta sinn, sem ég sæi hann lifandi. Hópur af frændfólki hafði komið saman á heimili Björns, sonar hans, og Guðlaugar, til að minnast afmælis Guðrúnar frænku minnar, konu Sveinbjarn- ar. Hefur sá siður haldist síðan hún féll frá fyrir rúmum 5 árum, að hittast á Háteigsveginum og minnast fæðingardags hennar, sem var 14. janúar. Þessir afmælisdagar hafa verið mikið tilhlökkunarefni, því margs er að minnast frá fyrri dögum og tengslin héldust milli náinna ætt- ingja og vina. Sveinbjörn var hinn hressasti þennan dag og talaði til okkar gestanna og hafði yfir vísur eftir konu sína, sem var mikil gáfukona og hagmælt vel, þó hún léti lítið á því bera. Allir skildu glaðir og kátir í von um að hittast aftur að ári liðnu. En tæpri viku seinna veiktist hann skyndilega og andaðist í Landakotsspítala eftir hættulegan uppskurð, aðfaranótt þriðjudags, þ. 26. janúar. Sveinbjörn var fæddur að Syðra-Holti í Svarfaðardal 11. febr. 1896. Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Jónsdóttir og Jón Þórðarson trésmiður og síðar bóndi að Þóroddsstöðum í Ólafs- firði. Faðir hans var Jón, sonur Halldóru Jónsdóttur og Þórðar Jónssonar, sem lengi bjó að Hnjúki í Skíðadal. Var Halldóra systir Snorra Jónssonar, timbur- meistara á Akureyri, sem var um áratuga skeið merkur borgari þar í bæ og hinn mesti dugnaðar- forkur og hagleiksmaður. Sem dæmi um hagleik Halldóru, ömmu Sveinbjarnar, má nefna, að hún spann hárfínan þráð í fána iðnað- armanna á Akureyri og blakti hann á Alþingishátíðinni á Þing- völlum árið 1930, var hún þá kom- in talsvert á níræðisaldur. Einnig má minnast föðursystur Svein- bjarnar, Ingibjargar, húsfreyju á Hofi í Svarfaðardal, sem vann i þann fínasta svuntudúk, sem sög- ur fara af hér á landi og sjálfsagt þó víðar væri leitað. Sveinbjörn átti því ekki langt að sækja hagleikinn, því þar við bættist að móðir hans var einnig hög í höndum. Og eplið féli ekki langt frá eikinni, frá því fyrsta að hann mundi eftir sér hélt hann á tálguhníf og reyndi að smíða. Sveinbjörn átti til góðra að telja, foreldrar hans og fleiri ættmenni voru hið mesta mannkostafólk, gætt hugviti og fjölhæfum gáfum. Unni hann alla ævi mjög æsku- heimili sínu og æskubyggð. Sveinbjörn átti þrjá bræður, sem allir eru völundar í höndum og mikilsmetnir drengskaparmenn. Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan vegir okkar Svein- bjarnar lágu fyrst saman. Haustið 1910 komu tveir ungir drengir frá Ólafsfirði í Gagnfræðaskólann á Akureyri, sem nú er Menntaskól- inn á Akureyri, og tóku inntöku- próf í skólann. Annar var Svavar Pálsson, sonur þeirra miklu merkishjóna Svanhildar Jör- undsdóttur og Páls Bergssonar kaupmanns og útgerðarmanns, síðar í Hrísey. Var Svavar mikið mannsefni, en hann kembdi ekki hærurnar, dó tvítugur að aldri úti í Kaupmannahöfn, en átti þar merkan námsferil að baki, og víða blöstu við honum verkefni. Allir sem þekktu hann voru harmi slegnir, þegar hann féll frá. Hinn drengurinn var Sveinbjörn Jóns- son frá Þóroddsstöðum í Ólafs- firði. Við kynntumst fljótt eftir að þeir komu í skólann, vorum á svip- uðum aldri og okkur féll strax vel við hvert annað. Sveinbjörn var lítill vexti á þeim árum, en áhuga- samur og vakandi yfir því sem var að gerast í kringum hann, hlakk- aði til að setjast á skólabekk. Og þá var ekki ónýtt að eiga von á að standa öðru hverju við hefilbekk og læra smíðar hjá öðlingsmann- inum Stefáni Björnssyni smíða- kennara. Féll þeim vel saman og kom brátt í ljós, að allt lék í hönd- um Sveinbjarnar Og hvorki skorti vilja né áhuga hjá þessum prúða sveini. Fyrir jólin kom bátur frá Ólafsfirði og sótti drengina, svo þeir gætu verið heima um jólin. Svavar kom aftur eftir jólafríið, en Sveinbjörn ofkældist á leiðinni heim og lagðist í brjósthimnu- bólgu þegar heim kom. Söknuðum við hans úr skólanum. Það var gott að leita til þessa góða drengs, ef eitthvað fór úr skorðum, þá var hann á svipstundu búinn að laga það. Það var annars snemma, sem heilsuleysið ásótti hann. Sem kornabarn var honum ekki hugað líf. Var hann af þeim sökum skírð- ur skemmriskírn og hlaut nafnið Sveinbjörn eftir bóndanum á Brekku í Svarfaðardal, Sveinbirni Halldórssyni, sem þá var nýlátinn. Nafnið varð honum farsælt, hann hjarnaði fljótt við eftir skírnina, en sá Sveinbjörn, sem hann var heitinn eftir, var bróðir Zóphoní- asar í Viðvík í Skagafirði, sem þótti merkur klerkur á sinni tíð og faðir Tryggva Svörfuðar er margir kannast við, því hann var starfs- maður í sendiráði íslands í Kaup- mannahöfn í tugi ára og Þórberg- ur getur um hann í bók sinni Is- lenskum aðli. Síðar á æfinni hefur Sveinbjörn legið þungar legur. Þóttist hann geta rakið veikindi sín að nokkru til brjósthimnubólg- unnar, sem hann fékk eftir heim- komuna fyrir jólin 1910. Tíminn leið og fátt fréttist af Sveinbirni annað en það, að hann hefði farið til Noregs að leita sér menntunar vorið 1917. Stundaði hann nám við tækniskóla í Osló, kynnti sér steinsteypu- og bygg- ingafræði í Drammen, lét ekkert tækifæri ónotað til að kynna sér nýjungar í byggingalist. Hann var félagshyggjumaður og eignaðist marga góða vini og kunningja í Noregi, sem leiöbeindu honum og studdu hann, þegar hann fór að brjótast um hér heima, því víða var óplægður akur. Eftir heimkomuna vorið 1920, settist hann að á Akureyri. Eigi var til setu boðið. Þjóðin hafði frá alda öðli hírst í lélegum húsa- kynnum og búið við myrkur og kulda, svo telja mátti kraftaverk, að hún skyldi lifa það af. Þessu varð að breyta og ungi bygg- ingafræðingurinn frá Noregi tók til óspilltra málanna, en vissulega var þar við ramman reip að draga, en kyrrstaðan var rofin. Svein- björn hvatti til dáða og smátt og smátt risu upp betri hús og eftir því sem ég best veit, færðist líf í samtök iðnaðarmanna þar nyrðra. Eins og að líkum lætur, var Sveinbjörn ekki það efnum búinn, þegar hann kom heim frá námi, að hann gæti lagt fram fé til stórra framkvæmda, en hann vár ríkur af hugsjónum og gæddur miklum mannkostum. Vann hann sér brátt traust manna og sótt voru til hans ráð og dáð. Auðheyrt var, að hon- um var ekkert óviðkomandi, vildi úr öllu bæta eftir því sem kostur var á og greiða götu sem flestra. Mestur var áhuginn fyrir bættum lífskjörum fólksins í landinu, en þá þurfti það fyrst og fremst að eiga þak yfir höfuðið. Ég kom heim frá Danmörku með gamla Lagarfossi sumarið 1921. Faðir minn hafði látist um veturinn, og ég hringdi til móður minnar þegar skipið kom til Seyð- isfjarðar. Fékk ég þær fréttir í simanum að Guðrún, frænka mín frá Veðramóti, hefði gift sig nokkrum dögum áður, eða nánar tiltekið þann 7. júlí, Sveinbirni Jónssyni frá Þóroddsstöðum í Ólafsfirði. Gat það verið satt, að hún Guðrún væri gift, ég sem hafði haldið að hún myndi aldrei giftast. Mér var kunnugt um það, frá fyrri árum, að henni hafði oft staðið gifting til bóða, en ætíð hafnað ráöahagnum, en nú var hún gift litla drengnum frá Ólafsfirði, sem fór heim í jólafrí en fékk brjósthimnubólgu og kom ekki aftur í skólann. Þau höfðu fyrst sést í Vagla- skógi sumarið 1920 og Guðrún sá strax, að þarna var maðurinn, sem hún hafði beðið eftir. Hár, grannvaxinn, ungur maður, glæsi- legur maður með glampa í augum. Guðrún var systurdóttir föður míns, hafði um árabil átt öruggt athvarf hjá foreldrum mínum í skólanum þegar þess þurfti með og okkur þótti öllum mjög vænt um hana. Þegar ungu brúðhjónin komu í skólann til móður minnar og sögðu tíðindin, var slegið upp veislustúf og fáni dreginn að hún á fallega skólahúsinu. Þessu gat Sveinbjörn aldrei gleymt, enda reyndist hann móður minni síðan sem hinn besti sonur. Guðrún var sem kunnugt er, fyrsta lærða garðyrkjukona landsins og vann í Gróðrarstöðinni á Akureyri um árabil. Þangað sótti ungt fólk til garðyrkjunáms. Vorhugur var í ungu hjónunum. Þeim var efst í huga að elska, byggja og treysta á landið. Þau trúðu á gróðrarmátt hinnar íslensku moldar og hvar- vetna var verk að vinna. Var þeim efst í huga að eignast land og helst að koma upp garðyrkjuskóla. Þar átti einnig að kenna nemendum að hagnýta grænmeti til matar. Þau keyptu landspildu af bóndanum í Kaupangi. Skömmu síðar reis þar bær, sem nefndur var Knarrarberg og það var enginn kotungsbragur á þeim bæ, burstabær úr steinsteypu, björt og rúmgóð herbergi, sólstofa þar sem húsfreyjan átti lítið gróð- urhús. Allt kapp var lagt á að setja fjölbreyttan gróður í lóðina. Skóli var stofnaður á Knarrar- bergi. Draumurinn var að rætast. Meðan þessu fór fram, starfaði Sveinbjörn sem byggingameistari á Akureyri. Var hann á sífelldum þönum á mótorhjólinu sínu, sem hann kom með frá Noregi og mun hafa verið eitt hið fyrsta, sem menn litu augum á Norðurlandi. Um þessar mundir stóð hann í stórræðum, auk smærri verkefna. Hann hafði eftirlit með byggingu Kristneshælis og stórhýsi Kaupfé- lags Eyfirðinga við Hafnarstræti hannaði hann og stjórnaði smíð- inni. íslenska þjóðin hafði frá önd- verðu verið að krókna úr kulda, nú fannst Sveinbirni nóg komið af slíku. Það var ekki nóg að byggja, það þurfti ljós og yl í húsin. Is- lenskar orkulindir urðu að sjá fyrir því, og því var hann síleit- andi að heitu vatni, sem runnið hafði öldum saman engum að gagni. Það var sannarlega kominn tími til að nota það. Hann barðist einnig fyrir rafvæðingu, því fólkið þurfti ljós. Þegar heilsuhælið í Kristnesi var byggt, urðu mikil heilabrot um það, hvernig ætti að hita upp hið mikla hús. Heit laug var í Reykhúsum, en hún var fyrir neðan, svo álitið var að ekki yrði hægt að nota hana til hitunar. Sveinbjörn var á öðru máli og sá ráð við því, leiddi kalt vatn ofan úr fjalli í heitu laugina, sem síðan hitaði það áður en það rann heim í hælið. Sveinbjörn hafði auga á hverj- um fingri. Hann virtist oft langt á undan sinni samtíð, og átti því oft við skilningsleysiserfiðleika að stríða. Menn trúðu ekki ávallt á framsýni hans og hugsjónir. Það er einkennilegt með íslend- inga, að stundum eru þeir svo íhaldssamir að engu tali tekur, en samtimis gleypa þeir óhugsað flugur á lofti. Hugvitsmaðurinn og mannvinurinn var sívökull fyrir öllu sem varðaði heill almennings. Hann krafðist ekki daglauna að kvöldi, aðalatriðið var að koma góðu máli í höfn. Þetta skildu ekki allir, það var svo óvenjulegt að menn gerðu nokkuð, sem um var talandi nema í eiginhagsmuna- skyni. Sveinbjörn fyllti ekki þann hóp. Hann var ekki eigingjarn maður og hann keypti ekki vináttu fólks, eins og tíðkast. Vinátta var hon- um meira virði en peningar, en honum féll þungt er vinir hans, sem hann treysti, brugðust. Hann var ávallt veitandi. Því miður er ég ekki fær um að rekja allar þær framkvæmdir, sem Sveinbjörn tók þátt í, en ég veit að þær voru margar og merki- legar og gætu fyllt stóra bók, ef grannt væri skoðað. Fyrstu árin á Akureyri lét hann framleiða hina svokölluðu R-steina, sem notaðir voru svipað og múrsteinar og hlaðnir úr þeim veggir. Þóttu þeir gefast vel. Hann sá, þegar lítil atvinna var á vetr- um, að gott var að grípa til þess að steypa steina til að vinna úr þegar voraði. Hann var glöggur maður. A þessum árum framleiddi hann einnig fyrir norðan hrífur og orf úr áli, og urðu þau verkfæri mjög vinsæl. Það var mikill munur að nota þau eða þungu orfin og hríf- urnar. En svo fór, að 1936 er Knarrar- berg selt og fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur. Sjálfsagt hefur það ekki verið sársaukalaust að yfir- gefa Knarrarbergs-draumana. Þar fæddist einkasonurinn, Björn, árið 1925. Og margar sólskinsstundir voru tengdar við Knarrarberg. Sveinbjörn var farinn að gæta heilsubrests og svo tóku við ný störf í höfuðborginni. Sama ár og fjölskyldan kvaddi Norðurland og fór til Reykjavíkur, var Ofna- smiðjan hf. stofnuð og var hann forstjóri þess fyrirtækis frá fyrstu tíð, þar til fyrir fáum árum að Björn Jóhannsson tók þar við. Ofnasmiðjan hefur ávallt notið trausts almennings og veitt fjölda manns atvinnu. Sama ár, þegar Rafha í Hafnarfirði var stofnað, var hann meðal stofnenda og fyrsti forstjóri og átti sæti í stjórn fyrirtækisins um árabil. Hann var skrifstofustjóri Landssambands iðnaðarmanna árin 1938—’44 og ritstjóri Tímarits iðnaðarmanna 1939—’52, og þannig mætti lengi telja. Jafnframt öllu þessu var hann úti um ailt, upp um fjöll og firnindi að leita að vikri til ein- angrunar og vakti fyrstur manna, að ég hygg, máls á því að nota innlent einangrunarefni. Hann stuðlaði að því að grasfræi var sáð í götubakka, þegar stórfelld vega- gerð fór fram, svo græn grös mættu gleðja augað, þá ekið var um vegina. Hann var oft með hug- ann uppi í sveit, fannst sárgræti- legt, að bændur væru svo háðir sól og regni eins og raun bar vitni um. Hann vildi nota heita vatnið til að þurrka heyið. Deildartunguhver gæti þurrkað allt hey Borgfirð- inga, sagði hann stundum. Vefarinn var stofnaður, þar sem dýrindis gólfábreiður voru ofnar úr íslensku ullarbandi. Það er svo gaman að geta prýtt heimili sín með ísl. gólfábreiðum. Og Svein- björn hefur látið sér annt um hag húsmæðranna. Honum varð oft hugsað til móður sinnar, sem hon- um þótti mjög vænt um og fann til með, þegar hún stóð við hlóðirnar í gamla eldhúsinu sínu, skaraði í eldinn svo hitnaði á katlinum. Hvað honum fannst þetta vonlaus barátta, og svo allur reykurinn sem fyllti húsið. Þessu varð að breyta. Gaf hann margri húsfreyj- unni góð ráð þegar byggt var á bæjunum og gaf þeim teikningar til að fara eftir. Man ég þegar Kvennaskólanum á Blönduósi var breytt í húsmæðraskóla og gagn- gerð viðgerð fór fram. Þá var leit- að ráða hjá Sveinbirni. Gáfust hans ráð hið besta. Enda þótt róðurinn sæktist seint og verk hans ekki alltaf met- in sem skyldi, þá fékk Sveinbjörn öðru hverju viðurkenningu fyrir störf sín. Hann var sæmdur gull- merki Landssambands iðnaðar- manna 1964 og kjörinn heiðursfé- lagi þess. Einnig kjörinn heiðurs- félagi Iðnaðarmannafélags Akur- eyrar. Sömuleiðis var hann sæmd- ur Fálkaorðunni. Framan af ævi átti Sveinbjörn oft í erfiðleikum hvað fjárhag snerti. Hann átti enga bakhjarla, sem studdu hann fjárhagslega. Það var bjartsýni hans og heit trú, sem gaf honum þrek til að halda áfram ótrauður fram veginn. En eftir að fjárhagur hans varð rýmri, gáfu þau hjón á báða bóga, því áhuginn var hinn sami og víða þurfti að taka til hendi. Allt kost- aði peninga. Ekki veit ég betur en þau hjón hafi hlynnt að vinnuhæl- inu að Reykjalundi og Heilsuhæli Náttúrulækningafélagsins í Hveragerði, svo eitthvað sé nefnt. Voru þau meðal stofnenda Nátt- úrulækningafél. íslands. Bæði voru þau trúuð, nutu kirkjurnar þess, Háteigskirkja og Hall- grímskirkja, að ég ekki tali um Hóladómkirkju, sem Guðrún færði stórgjafir, enda taldi hún Hóla í Hjaltadal einn helgasta stað þessa lands. Ótal margt er hér ótalið sem þau gerðu, þessi heiðurshjón, öðrum til góðs. Það var fyrst í haust og vetur sem Sveinbjörn hafði orð á því við mig að sér liði illa og hann ætti í erfiðleikum. Undanfarin ár hafði hann barist fyrir byggingu stál- vers hér sunnanlands. Honum ofbauð allt járnaruslið, sem hrúg- aðist upp svo að segja hvert sem augum var litið. Hann var að eðl- isfari mikill reglu- og þrifamaður. Honum fannst um að gera að safna þessu saman, hreinsa til og bræða ruslið og láta það koma að gagni. Þungur hefur sá róður verið honum, en hann lét ekki bugast, hvernig sem nú þeim málum lýk- ur, þegar hann er úr leik. Vonandi verða einhverjir til að halda þeirri hugsjón hans til streitu og koma því máli farsællega í höfn. Sömu- leiðis tjáði hann mér, að hann hefði orðið fyrir margvíslegum vonbrigðum síðustu mánuðina, sem lögðust þungt á hann. Það er eins og menn trúi mér ekki lengur, sagði hann. Sjálfsagt hefur Sveinbjörn þráð meiri menntun þá hann var ungur, en fátækir sveitapiltar höfðu ekki úr miklu að moða, og þar við sat. Það sætti því engri furðu þó hon- um væri umhugað um að einka- sonurinn, Björn, fengi góða og víð- tæka menntun, sem og varð. Er Björn vel metinn verkfræðingur hér í bæ. Hann kvæntist ungur Jakobínu Finnbogadóttur. Eiga þau fimm börn sem öll eru upp- komin og mesta myndarfólk. Þau hjónin skildu. Börn þeirra eru Nanna Dýrunn, húsmóðir og lista- kona. Hún á heima í London. Sam- býlismaður hennar er Stephen Katanka. Ólöf, hjúkrunarfræðing- ur og ijósmóðir hér í Reykjavík. Hennar maður er Vigfús Arnason endurskoðandi. Sveinbjörn Egill tæknifræðingur. Hann á norska konu, Ase-Gunn, hjúkrunarfræð- ing. Heiga Lilja, garðyrkjukona. Mannsefni hennar er Tryggvi Agnarsson lögfræðinemi. Guðrún Þorbjörg, kennari, gift Árna Reynissyni, forsetaritara. Lang- afabörnin eru 10. Seinni kona Björns er Guðlaug Björnsdóttir frá Hafnarfirði, mikil sómakona. Hefur hún reynst stjúpbörnunum sem góð móðir og tengdaföður sín- um hlý og nærgætin. Lét Svein- björn þess oft getið hvað hann væri henni þakklátur. Það var með ólíkindum hverju Sveinbjörn fékk áorkað, þegar þess er gætt að um fjölda ára átti hann við alvarleg veikindi að stríða. Á besta aldri veiktist hann af berklum, eftir að hafa verið

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.