Morgunblaðið - 17.07.1983, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 17.07.1983, Blaðsíða 20
20 MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 17. JÚLÍ 1983 Útgefandi mMitfcifr hf. Árvakur, Reykjavík. Framkvæmdastjóri Haraldur Sveinsson. Ritstjórar Matthías Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Fulltrúar ritstjóra Þorbjörn Guömundsson, Björn Jóhannsson. Fréttastjórar Freysteinn Jóhannsson, Magnús Finnsson, Sigtryggur Sigtryggsson. Auglýsingastjóri Baldvin Jónsson. Ritstjórn og skrifstofur: Aöalstræti 6, sími 10100. Auglýsingar: Að- alstræti 6, sími 22480. Afgreiðsla: Skeifunni 19, sími 83033. Áskrift- argjald 230 kr. á mánuöi innanlands. í lausasölu 18 kr. eintakiö. Samkomulag í Madrid Aþremur sviðum ræðast að- ilar frá austri og vestri við um takmörkun ákveðinna vopnategunda. í áratug hafa staðið yfir viðræður milli Varsjárbandalagslanda og Atlantshafsbandalagsríkja um samdrátt venjulegs herafla í Evrópu. Síðan í nóvember 1981 hafa fulltrúar Bandaríkjanna og Sovétríkjanna ræðst við um niðurskurð Evrópueldflaug- anna, sem Sovétmenn einir ráða yfir. Frá því í sumarbyrjun 1982 hafa Bandaríkjamenn og Sov- étmenn ræðst við um fækkun langdrægra kjarnorkueldflauga. Ógjörlegt er á þessari stundu að segja fyrir um árangurinn af þessum afvopnunarviðræðum. Hitt er ljóst að í þeim öllum stefna vestrænar þjóðir að sömu markmiðum: draga úr eyðingar- mætti vígtóla, minnka spennu milli þjóða, lækka útgjöld til hermála og treysta forsendur fyrir heimsfriði með minni víg- búnaði en nú er fyrir hendi. Tæpu ári eftir að sovéski her- inn réðst inn í Afganistan, eða í nóvember 1980, settust fulltrúar 35 ríkja frá Evrópu og Norður- Ameríku á rökstóla í Madrid til að ræða öryggi og samvinnu í Evrópu í samræmi við ákvæði í lokaskjalinu um það efni sem undirritað var af leiðtogum þátttökuríkjanna við hátíðlega athöfn í Helsinki 1975. Síðan hafa fundir verið haldnir í Madrid af og til. Þaðan bárust þær fréttir í gær að samkomu- lag hefði náðst. Málamiðlun náðist á ráðstefnunni sem bygg- ist meðal annars á því að enn verði efnt til nýrra ráðstefna innan ramma Helsinki-sam- þykktarinnar, annars vegar um öryggismál og hins vegar um mannleg samskipti. Þetta þykir ef til vill ekki merkilegt í sjálfu sér en markar þó tímamót því að aðilar frá austri og vestri hafa ekki samið sín á milli síðan sumarið 1979 þegar SALT-2- samkomulagið var undirritað, sem að vísu hefur aldrei verið staðfest. Undirritun skjalsins í Hels- inki var hápunktur slökunar- skeiðsins í samskiptum austurs og vesturs. Efnislega voru síður en svo allir sammála um gildi skjalsins, en formleg staðfesting þess þótti miklum tíðindum sæta. Sovétmenn sáu þann ávinning helstan að yfirráð þeirra í Austur-Evrópu voru í raun skjalfest en af vestrænni hálfu töldu menn að tekist hefði að fá Kremlverja til að gangast undir skuldbindingar um mann- úðlegri stjórnarhætti. Því miður er reynslan sú að lítið hefur far- ið fyrir mannúðinni fyrir austan tjald og þeir ofurhugar í komm- únistaríkjunum, sem krafist hafa mannréttinda á grundvelli Helsinki-skjalsins, eru í fangels- um, á geðveikrahælum eða hafa verið reknir úr landi. í Madrid fór svo að Sovét- menn einangruðust í andstöð- unni við málamiðlun en sáu sér að lokum þann kost vænstan að gefa eftir og ganga að tillögum sem gistiríkið, Spánn, lagði fram og byggjast að verulegu leyti á hugmyndum hlutlausra ríkja. Menn spyrja nú, hvort samkomulag í Madrid muni hafa áhrif á samskipti austurs og vesturs á öðrum sviðum, til dæmis í afvopnunarviðræðunum í Genf. Þessari spurningu er ekki unnt að svara og þeir sem segjast vera raunsæjastir í mati á hegðan Kremlverja telja, að þeir séu að mynda svikalogn og undirbúa stórkostlega áróðurs- herferð á Vesturlöndum síðustu mánuðina áður en hafist verður handa við að koma bandarískum kjarnorkueldflaugum fyrir í Vestur-Evrópuríkjum til mót- vægis við sovésku SS-20-eld- flaugarnar. Samkomulag í Madrid verður undirritað af utanríkisráðherrum þátttöku- ríkjanna á lokafundi sem ráð- gerður er í september, en strax Ekkert Afyrstu vikunum í utanrík- isráðuneytinu hefur Geir Hallgrímsson staðið þannig að málum, að enginn þarf að vera í vafa um hvað efst er á baugi þegar rætt er um einstakar framkvæmdir sem miða að því að treysta öryggi þjóðarinnar með endurnýjun á tækjabúnaði varnarliðsins. Nýjasta dæmið um þetta eru skýr svör ráðherr- ans við spurningum Ragnars Arnalds um ratsjárstöðvarnar. Hreinskilni utanríkisráðherra er í góðu samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins sem jafnan hefur viljað að einstakir þættir varnarmálanna séu ræddir opinberlega en ekki farið með þá sem feimnismál. Það liggur fyrir að mest er pukrast með öryggismálin þegar Alþýðubandalagið á aðild að eru byrjaðar vangaveltur um að kannski skapi Madrid-sam- komulagið þær aðstæður að Ronald Reagan og Júrí Andro- pov geti hist. Staðan í viðræðunum um niðurskurð Evrópueldflauganna er skýr. Þar er beðið eftir því að Sovétmenn sýni lit. Þeir gerðu það ekki áður en samningalot- unni lauk nú í vikunni. Tíminn sem þar er til stefnu styttist óðfluga, því að fyrir áramót verður fyrstu bandarísku flaug- unum komið fyrir. „Andinn frá Madrid" á vonandi eftir að hafa þau áhrif í Genf, að Sovétmenn sýni sveigjanleika og hætti að krefjast einhliða yfirburða. pukur ríkisstjórn. Tvöfeldni alþýðu- bandalagsmanna varðandi allt er snertir varnir íslensku þjóð- arinnar lýsir sér best í því að utan ríkisstjórnar láta þeir eins og þeir hafi verið á annarri plánetu á meðan þeir sátu í stjórn. Alþýðubandalagið átti sæti í ríkisstjórn þegar Kefla- víkurflugvöllur var lengdur, þegar AWACS-vélarnar komu til íslands, þegar sú bókun var gerð um flugstöðina sem vísað var til í nýlegum orðsendinga- skiptum, þegar fullkomnari kaf- bátaleitarvélar komu til lands- ins, þegar fullkomnari orrustu- þotur komu til landsins, þegar hafist var handa um flugskýla- smíði og hönnuð olíustöð í Helguvík. En með allt þetta var pukrast á hinn vandræðalegasta hátt og töku ákvarðana háttað í samræmi við það. MORGUNBLAÐIÐ, SUNNUDAGUR 17. JÚLÍ 1983 21 Hitt er óbrigðult enn sem fyrr öllu mennsku, að hóflaust líf hreppir að lokum hóflaust böl sagði Sofokles karlinn í íslensk- um búningi Helga Hálfdanar- sonar. Til hvers að vera að vekja upp 2500 ára gamla karlaspeki nú? Tilefnin vantar sennilega ekki hjá þjóð sem hættir til að setja samasemmerki milli bruðls og menningar. En ekki lærir maður víst af prédikun annarra. Eigin reynsla ein dugir. Raunar höfum við líka nóg af ferskri reynslu af því hvert hófleysi leiðir í minnkandi fiskafla eftir ofveiði og minna landi að lifa af eftir gróðureyðingu. Hvorugt þetta vakti þó upp aðvörunina hans Sofoklesar gamla í þetta sinn heldur ágætur skýringa- þáttur um gangverkið í jarðhita og nýtingu hans í sjónvarpinu á miðvikudag, tengdur nýlegum ummælum Halldórs Jónatans- sonar, forstjóra Landsvirkjunar, á fundi Orkubús Vestfjarða: „f þessu sambandi er vert að minnast hinna mörgu hitaveitna sem komið hafa í gagnið á und- anförnum árum. Reynslan af sumum þeirra sýnir að við rekst- ur þeirra virðist sem dælt sé úr hitageymum jarðar hraðar en í þá rennur." Væri það ekki „hóf- laust böl“ ef við eyddum nú líka upp í óvitaskap heita vatninu, sem á að ylja börnum þessa kalda lands um ókomnar aldir? Ekki var þetta þó fyrsta að- vörun, sem klingdi bjöllu í heila- búi Gáruhöfundar. Jón Jónsson, jarðfræðingur, sem í áratugi hefur verið að rannsaka vatns- rennsli, jarðhita og sprungur á Reykjanesskaga og telur að jarð- hitasvæðin séu meira og minna tengd, sagði fyrr á árinu í við- tali: „Hins vegar er eitt sem mér sýnist ekki hafa verið hugað nægilega vel að. Það er sú stað- reynd að ekki er ráðlegt að taka meira af svæði en rennur inn í það. Því þá er farið að taka af höfuðstólnum. Og það hefur aldrei verið talið heppilegt. Spurningin er hve stórt svæði fyrir sig er. Og það vitum við ekki. Það er svo margt í þessu efni sem ekki er enn vitað." Lík- lega hafa þessi ummæli orðið til þess að undirrituð setti á lista hjá frönskum stjórnvöldum yfir óskaverkefni í Frakklandsför í mars, að fá áheyrn hjá einhverj- um sérfræðingnum þeirra um tvíholukerfi og hringrás á vatn- inu sem þeir nota sums staðar í hitaveitum sínum. Ekki nennti ég þó að fara að aka langar leiðir til að skoða hitaveitur í Frakk- landsferð þegar til kom.Lenti þar nú samt, þegar forseti vor og allt fylgdarliðið var drifið í skoð- unarferð á hitaveitu 50 km frá París í Clichy-sur-Bois með til- heyrandi lögregluvakt á hverj- um gatnamótum og stöðvun á umferð á þjóðbrautinni meðan lestin æddi hjá. Og ég hefi gam- an af að búa til þá kenningu að beiðni blaðamanns fyrr á árinu hafi komið frönskum embættis- mönnum til að halda að hitaveit- ur væru eitt af því sem Islend- ingar vildu helst sjá í Frakk- landi og vildu vitanlega veita gestum sínum vel. Og raunveru- lega var þetta mér a.m.k. fróð- legt. Þarna var einmitt ein af þess- um frönsku hitaveitum, sem nýt- ir sama heita vatnið í hringrás. Boraðar tvær holur í jörðina, önnur til að ná því upp, hin til að skila því allmiklu kaldara með þakklæti fyrir lánið. Þeir skila því niður eftir notkun af tveimur ástæðum. Sums staðar af því að vatnið inniheldur mikið af sölt- um og tærandi efnum og annars staðar til að fá nægan þrýsting og nægilegt vatnsrennsli um hitagjafann. Því eins og sjá mátti í sjónvarpsþættinum um jarðhita, þá þarf bæði heitt berg niðri og vatn eða gufu til að flytja það upp, svo það megi nýt- ast. Þeir Ari Trausti og Hjálmar sögðu reyndar að dálítill hæga- gangur væri á þessu. Vatnið sem húsmóðir í Reykjavík væri að þvo upp úr í Reykjavík, kynni að hafa fallið á Langjökul um það leyti sem Ingólfur Arnarson kom hér. Svo hægt gengur það að vísu ekki í Frakklandi að fá vatnið hitað upp aftur í iðrum jarðar. Þó er reiknað með a.m.k. 30—60 árum. í sumum af þessum 30—40 hitaveitum, sem Frakkar hafa komið sér upp síðan olíu- kreppan tók að herja, eða frá 1978, og sem flestar eru á lág- hitasvæðum, bora þeir því tvær holur og láta vatnið fara í hringrás, hitna á heita berginu niðri. Sums staðar hefur þurft að bora skáholur eins og í Kröflu til að fá nægilega langt á milli til upphitunar, en vatninu skila þeir yfirleitt 35 stiga heitu. Þeir reikna með að 2000—2500 hús þurfi til að það borgi sig að bora á staðnum, og ætla þeir að verða búnir að koma hitaveitu í 800 þúsund híbýli 1990. Ég var ákaflega stolt af því að geta upplýst að það hefði verið Islendingur, Sveinn Einarsson, verkfræðingur, sem fyrstur fann þessa úrlausn. Þá var það salt— og brómmengað vatnið í E1 Salvador, sem gerði óbrúklegt að senda það eftir notkun út í árn- ar. Ekki aðeins að árvatnið sé í því vísa landi nýtt í áveitur á kaffiplantekrurnar, heldur er aðaláin landamerkjaá milli Salvador og Guatemala og nóg er víst af misklíðarefnum þar, þótt ein þjóð fari ekki að eitra gróður fyrir hinni. Þetta hefði stöðvað nýtingu jarðhita, ef Sveinn hefði ekki fundið það ráð að skila vatninu aftur niður í jörðina. Hér hefur þess ekki ver- ið talin þörf. En nú ætlar Hita- veita Suðurnesja að fara að bora 1700 m holu til að losna við salt- vatnið úr lóninu góða niður fyrir grunnvatn, því kísilútfall er að þétta botninn svo að það ski.lar sér ekki niður í gegnum hraunið lengur. Þessi kísill hefði betur verið kominn á botninn í hrip- leku Sigöldulóni Jón Jónsson varaði semsagt við því að fara of geyst í nýtingu á jarðhitanum, sagði: „ I hita- veitum er e.t.v. of mikið bruðlað með vatnið. Vatn með allháu hitastigi er látið renna út í sjó og það er vitanlega sóun á verð- mætum. Ef milljón tenings- metrar af kannski 30—40 stiga heitu vatni eru látnir renna út í sjó á ári hverju, þá er það sorg- legt og sóun. Með því að setja afgangsvatnið aftur niður í jörð- ina væri kannski hægt að lengja nýtingartíma jarðhitasvæðisins verulega." Vonandi verður ekki hitaveitan stopul stundargrið í þessu landi ísa. Og heldur svo fram ummælum þeirra Sofokles- ar og Helga: Reikul vonin svo víða fer, víst er hún ýmsum heilladrjúg öðrum magnar hún svikaseið sífellt ginnir af réttri braut, senn er gengið á glóðum elds. Spaklega mælti spektarorð spekingur einn á fyrri tíð; Þeim, sem guðirnir vilja verst, villa þeir sýn um illt og gott verða þá stopul stundargrið ♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦ Reykj a víkurbréf ►♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦ Laugardagur 16. júlí ♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦♦ Fimmtungur þjódar flyzt úr landi Sjónvarpið endursýndi fyrir skemmstu svipmyndir af Vestur- íslendingum, sem ólafur Ragn- arsson bókaútgefandi vann fyrir það á sínum tíma. Það var bæði fróðlegt og skemmtilegt að sjá og heyra þessa frændur okkar; af- komendur fólks sem flutti bú- ferlum frá fslandi á síðari hluta 19. aldar. Það var sér í lagi ánægjulegt að kynnast því, hve vel hið íslenzka þjóðarbrot í Vestur- heimi hefur varðveitt tungu og siði mæðra og feðra sinna og hve vel því hefur vegnað í nýjum heimkynnum. Þessir sjónvarpsþættir hljóta þó að kalla fram ýmsar spurn- ingar í hugum þeirra er heyrðu þá og sáu. Horfum eilítið um öxl í þjóðar- sögunni. Um miðbik 19. aldar vóru fs- lendingar aðeins sextíu þúsund talsins. Talið er að milli 10—15 þúsund fslendingar hafi flutzt til Vesturheims á síðari hluta þeirrar aldar. Hvað var það sem dró fimmtung þjóðarinnar frá heima- landi út í óvissu fjarlægrar heims- álfu — á tímum þegar slíkir flutn- ingar vóru meira fyrirtæki en nú- tímafólk á auðvelt með að gera sér grein fyrir? Þegar gluggað er í heimildir um fólksfjölda á íslandi verður fyrst fyrir manntal Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Þá vóru fslendingar rúmlega 50 þúsund talsins. Næst þegar manntal er tekið, nálægt sextíu árum síðar, 1762, hefur landsmönnum fækkað um 5.500 (Stórabóla), eru tæplega 45 þúsund talsins. Neðst kemst íbúatalan 1785 en þá eru íslend- ingar aðeins 40.623 talsins. Enginn getur í dag fullyrt, hve fslendingar vóru margir við lok landnáms. í heimildarriti áætl- anadeildar Framkvæmdastofn- unar, „Mannfjöldi, mannafli og tekjur" (júlí 1981) segir: „Talið er að landsmenn hafi verið allt að 70—80 þúsund frá landnámi og fram á 17. öld, en ekki er um það vitað með neinni vissu." Síðan seg- ir: „Ljóst er, að það sem hefur ráð- ið mestu um framvindu mann- fjölgunar á fyrri öldum, auk fæð- ingartíðni, er annars vegar veð- urfar og hinsvegar drepsóttir og afleiðingar eldgosa og jarð- skjálfta." Vitað er um drepsóttir, er lögðu stóran hluta þjóðarinnar að velli, og eldgos, er eyddu heilar byggðir. En e.t.v. hafa kuldaskeið, þegar meðalhiti lækkaði um 1 til 2 stig, verið hinu forna bændaþjóð- félagi erfiðastur ljár í þúfu. í byrjun 20. aldar eru íslend- ingar 78.470 talsins, eða litlu fleiri en í lok landnáms. Það segir sfna sögu. Þá heldur tæknin innreið sína; atvinnuhættir taka stökk- breytingum; auðlindir lands og lagar eru gjörnýttar; og íbúatala landsins margfaldast. Við erum í dag vel yfir 230 þúsund talsins og verðum, ef að líkum lætur, 270—280 þúsund áður en ný öld rennur upp. Jarðhitinn, Islands hvíta gull Líklegt er að land okkar hafi ekki borið mikið meira en 50—80 þúsund manns, miðað við veður- far, atvinnuhætti og verklag fyrri alda. Tæknin og vélvæðingin gerðu okkur hinsvegar kleift að ná þeim verðmætum út úr landkost- um til sjávar og sveita, sem dugað hafa 230.000 manns til velmegun- ar. Spurningin er hinsvegar sú, hvort við höfum ekki gengið lengra en góðu hófi gegnir á höf- uðstól þessara auðlinda, fiski- stofna og gróðurmoldar. Alla vega er tímabært að staldra við og ákvarða hyggileg nýtingarmörk, sem miðist við ræktun fremur en rányrkju, hámarksnýtingu án þess að ganga á höfuðstól. Og huga að nýjum viðbótarstoðum undir at- vinnu og efnahag þjóðarinnar. Langt er síðan við hófum að nýta þriðju auðlindina, orkuna í fallvötnum og jarðhita landsins. Við höfum notað jarðhita lengi, fyrst og fremst til húshitunar, og nú njóta 70—75% þjóðarinnar varmahitunar. Ekki er talið hag- kvæmt að leiða jarðvarma til miklu fleiri byggða en nú er gert í þessum tilgangi. Við höfum einnig lengi nýtt jarðhita til ylræktar. Nú spanna gróðurhús meira en 150.000 fermetra. Fullnægir þessi framleiðsla innlendum markaði mestpart. Umtalsverð aukning hlýtur því að byggjast á útflutn- ingi. Loks hafa sundstaðir lengi notað jarðhita. Jarðvarmi hefur verið nýttur um nokkurt árabil til fiskræktar. Líkur benda til að á þeim vett- vangi séu miklir framtíðarmögu- leikar. Framtakssamir einstakl- ingar hafa þegar unnið þrekvirki á þessu sviði, sem vísa veginn. Fleiri nýtingarmöguleikar jarð- varmans koma vel til greina. Nefna má fiskimjölsverksmiðjur, en þær þurfa gufu til suðu, mjöl- þurrkunar og soðkjarnavinnslu. Ennfremur hraðþurrkun á heyi og graskögglagerð. Þá hefur verið rætt um jarðgufu á frystivélar í frystihúsum, svo ótrúlega sem það annars kann að hljóma. Loks má nefna raforkuvinnslu, sem gott dæmi er um í Svartsengi á Suður- nesjum. Á Orkuþingi 1981 vóru og rædd- ir ýmsir nýiðnaðarmöguleikar, sem tengjast frekari nýtingu jarðhitans, hins hvíta gulls, svo sem framleiðsla á þungu vatni, sykri úr melassa, súráli, salt- vinnsla (sem komin er á veg), magnesíumklóríð, magnesíum úr sjó, pappír, móþurrkun, etanól úr trjákenndum efnum o.fl. Sjálfsagt er að kanna vel og vandlega þá möguleika, sem lík- legir eru til að skila góðum arði í tengslum við frekari nýtingu jarð- varma; sem og efla hvers konar rannsóknarstarf, sem aðrar þjóðir leggja miklu meiri áherzlu á og fjármuni í en við. Breyta verdur vatnsorku í útflutnings- verdmæti Afkoma okkar og efnahagslegt sjálfstæði hvíla á þeim afrakstri sem atvinnuvegirnir skila í nettó- hagnaði, það er tekjum umfram tilkostnað. Þingvellir. Lj®sm-MbL: 6i.k.m. Tveir af undirstöðuatvinnuveg- um okkar, sjávarútvegur — sem er lang gjöfulastur — og landbúnað- ur eru víða komnir að nýtingar- mörkum. Fiskistofnar eru flestir fullnýttir og búvörumarkaður sýnist mettaður. Sumir halda því jafnvel fram að gagnsömustu fiskistofnarnir séu ofnýttir og að skattborgurum séu bundnir óþarfa baggar í meðgjöf með framleiðslu búvöru, umfram inn- lenda eftirspurn, ofan í útlend- inga. Þriðja meginauðlind okkar, orkan í fallvötnum og jarðvarma landsins, er hinsvegar vannýtt, jafnvel stórlega vannýtt. Það er löngu ljóst að framtíðaratvinnuör- yggi og framtíðarlífskjör vaxandi þjóðar þarf að allnokkrum hluta að byggja á orkuiðnaði; því að vinna vatnsorkuna í útflutnings- vöru og grjótharðan gjaldeyri. Sá orkuiðnaður, sem fyrir er (ál, járnblendi og áburður), skilar 3% til 3,5% af þjóðarframleiðslu, þeg- ar framleiðslugeta er fullnýtt, og 15% til 17% af vöruútflutningi þjóðarinnar. Auk þessa sparar áburðarverksmiðjan allnokkuð í innflutningi, ef að líkum lætur. Hlutur orkuiðnaðar í þjóðarbú- skap okkar er þannig þegar nokk- ur, bæði í atvinnutækifærum og verðmætum, en gæti verið meiri, ef staðið hefði verið að þessum málum af framsýni og fyrirhyggu næstliðin ár. Þröngsýni og kreddufesta einkenndu hinsvegar pólitíska stjórnsýslu orkumála allar götur frá 1978 til 1983. Þessi glötuðu ár seinka í raun lífskjara- hótum í landinu um allnokkur ár. Gylfi Þ. Gíslason, fyrverandi ráðherra, sagði í erindi á Orku- þingi 1981: „Fram til næstu aldamóta verð- ur veruleg fjölgun á vinnufæru fólki á íslandi. Sýnt hefur verið fram á, að í hinum hefðbundnu atvinnuvegum íslendinga, sjávar- útvegi og landbúnaði, verða ekki verkefni, a.m.k. ekki hagkvæm verkefni, fyrir þetta fólk. Það á eflaust einnig við iðnað, sem framleiðir fyrir innlendan mark- að. Sá iðnaður, sem nú framleiðir fyrir erlendan markað, getur ef- laust aukið framleiðslu sína og út- flutning, en ekki nægilega til þess að veita öllum þeim hagkvæma at- vinnu, sem bætast munu við á vinnumarkaðnum. Nýr útflutn- ingsiðnaður þarf því að koma til skjalanna. Honum er hægt að koma á fót með hagnýtingu ónot- aðra orkulinda.“ Síðar sagði Gylfi Þ. Gíslason: „Ég hef þegar gert grein fyrir þeirri skoðun minni, að fyrst ís- lendingum tókst að varðveita — og raunar efla — menningu sína samfara hinni gagngeru þjóðfé- lagsbyltingu, sem umbreyting bændaþjóðfélags í útvegssamfélag hafði í för með sér, ætti engin ástæða að vera til þess að óttast um örlög hennar samfara upp- byggingu orkuiðnaðar ... Og ég tel reynslu, bæði fslendinga og annarra smáþjóða á liðnum ára- tugum, tvímælalaust sýna, að þjóðerni og sjálfstæði þarf ekki að vera hætta búin af samvinnu við erlenda aðila, ef aðgát er höfð og skynsamlega haldið á málum." Þar stendur hnífurinn í kúnni Sú var tíð, meðan Svavar Gestsson & Co. vermdu ráðherra- bekki, að Þjóðviljinn jafnaði hjöðnun verðbólgu við krónu- hækkun kauptaxta. Fjórtán verð- bótaskerðingar launa, sem Al- þýðubandalagið stóð að 1978—1983, vóru gjarnan réttlætt- ar með því, að þær heftu annars fyrirsjáanlegan verðbólguauka, sem léki kaupgetu ennnú verr. Á þessum skýringarvettvangi flagg- aði formaður Alþýðbandalagsins með slagorðinu „slétt skipti", sem átti að spanna útkomu almenn- ings eftir efnahagsaðgerðir vinstri stjórnar. Annað mál er að hjöðn- un dýrtíðar lét á sér standa, í höndum Svavars & Co, enda óx ís- lenzk verðbólga upp í heimsmeta- hæðir á valdaferli Alþýðubanda- lagsins. f endurskoðaðri þjóðhagsspá, sem Þjóðhagsstofnun sendi frá sér 27. júní sl. segir m.a.: „Undir árslokin (1983) gæti verðbólga verið komin niður undir 30% miðað við heilt ár en ætla má að án viðnámsaðgerða og að óbreyttu hefði verðbólgan verið um 140%“! Hvað skyldi Svavar Gestsson og Þjóðviljinn hafa metið lækkun verðbólgu úr 140% í 30% ef Al- þýðubandalagið hefði verið innan veggja í stjórnarráði? En tekst ríkisstjórninni að vinda ofan af verðbólgunni, eins og endurskoðuð þjóðhagsspá tí- undar? Þeirri spurningu svarar hún sjálf í þeirri reynslu sem hún vinnur þjóðinni á næstu mánuð- um. Þar verða ýmis ljón á vegi. Ekki aðeins neikvæð viðbrögð vinstri afla, innan og utan verka- lýðshreyfingar. Máski ekki síður hlutir, sem velta á afstöðu, þreki og þori ríkisstjórnarinnar sjálfr- ar. Inn í þá framvindu kemur ekki sízt verðþróun búvöru og fisk- verðs. Þar eru ýmsir kerfishnútar sem höggva verður á. Viðbrögð al- mennings, sem miklu skipta, máski mestu, um veg- og velferð ríkisstjórnarinnar, velta á því, að þessir þættir valdi ekki verðskriði, þá með hugsanlegu gengisfalli og tilheyrandi olíu á verðbólgubálið. Hér stendur hnífurinn í kúnni. Taki ríkisstjórnin á þessum þáttum af sömu röggsemi og víxlgengi launa og verðlags; takist henni að halda gengi krónunnar stöðugu; tryggja umtalsverða vaxtalækkun á haustmánuðum; ná verðbólgu í raun niður í 30% fyrir áramót, eins og þjóðhagsspá stendur til, — þá hefur hún unnið til þjóðartrausts. Þá getur ekkert holtaþokuvæl vinstri afla sett henni stólinn fyrir dyrnar. Þjóðin vonar einlæglega að rík- isstjórnin rísi undir markmiðum sínum en festi ekki fætur í kerf- isklúðrinu.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.