Morgunblaðið - 22.10.1983, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 22.10.1983, Blaðsíða 26
26 MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 22. OKTÓBER 1983 Minning: Eyjólfur Eyjólfsson hreppstjóri Hnausum Fæddur 27. febrúar 1889 Dáinn 12. október 1983 Eyjólfur Eyjólfsson, hreppstjóri á Hnausum í Meðallandi, er látinn á 95. aldursári, en hann lést í Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund 12. október sl. Hann fæddist á Botnum í Með- allandi 27. febrúar 1889. Foreldrar hans voru heiðurshjónin Eyjólfur Eyjólfsson bóndi þar og kona hans, Vilborg Þorsteinsdóttir, en auk Eyjólfs eignuðust þau eina dóttur, Guðrúnu, er fæddist 9. október 1891, en dó hér í Reykja- vík 1. janúar 1980. Á búskaparárum þeirra hjóna var Botnaheimilið víðfrægt fyrir rausn og einlæga gestrisni. Heim- ilisfaðirinn léttur og snöggur í hreyfingum og tilsvörum, en hús- móðirin rólynd og hlédræg. Vissu- lega vildu þau leysa hvers manns vanda, hvort sem óvæntan gest, þekktan eða ókunnan bar að garði, eða þreytta gangnamenn eftir erf- iða fjárleit að kvöldi. Eyjólfur, sonur þeirra hjóna, þráði að leita sér menntunar, en efni þeirra leyfðu slíkt, því efna- hagur þeirra var góður eftir því sem gerðist í Meðallandinu í þá daga. Hann sótti nám í Flensborg- arskólanum í Hafnarfirði, var þar síðasta veturinn sem séra Magnús Helgason var þar, en Eyjólfur taldi það gæfu sína að hafa kynnst honum og þeim kennurum, sem með honum voru þar. Hugur hans stefndi til kennslu barna og ungl- inga. Sjálfur hafði hann af miklu að miðla, því hann var mjög fróð- ur og bar með sér höfðinglegan svip hvar sem hann fór strax í æsku og alla tíð. Eftir dvöl sína í Flensborg hóf hann kennslu í Meðallandinu. Þar var þá farskóli sem annars staðar í sveitum og kennt aðeins í fáar vikur á hverjum vetri. Börnum kenndi hann til ársins 1916, ýmist sem heimiliskennari í Meðalland- inu og Skaftártungu eða sem far- kennari í Meðallandinu. Suma vet- urna kenndi hann einnig í Álfta- veri og Skaftártungu. Hann var skólastjóri við unglingaskólann í Vík veturna 1916—18, og enn kenndi hann í sveit sinni veturna 1920—’21 og 1929—’30. Hann var stjórnsamur kennari og fáir munu þeir nemendur hafa verið sem ekki vildu hlýðnast honum í einu og öllu, því svo var kennarinn ákveðinn í háttum sínum og hafði fullkomið vald á því námsefni sem nemendur hans glímdu við. Eftir að Eyjólfur hætti kennslu var hann prófdómari í Meðallandinu fram undir síðustu ár. Á æskuárum hans voru ýmsar nýjar félagshreyfingar í mótun meðal ungs fólks í Meðallandinu og nærliggjandi sveitum, en þá var margt fólk austan Sands. Ungmennafélögin áttu hug unga fólksins og þeir sem gátu miðlað af þekkingu sinni voru kærkomnir gestir á fund félaganna. Þórarinn Helgason, fyrrum bóndi í Þykkva- bæ í Landbroti, segir í ævisögu föður síns er hann skráði og nefndi Frá heiði til hafs, að á sviði hinna andlegu mennta hafi mest kveðið að Eyjólfi Eyjólfssyni kennara, nú bónda á Hnausum. 28. desember 1918 kvæntist Eyj- ólfur Eyjólfsson eftirlifandi konu sinni, Sigurlínu Sigurðardóttur Péturssonar pósts og bónda á Hörgslandi á Síðu og Agnesar Ingimundardóttur á Rofabæ í Meðallandi. Greind og mæt kona, sem stóð við hlið manns síns í gestrisni og margþættum störfum er biðu hans í þágu sveitar þeirra, svo lengi er þróttur hennar leyfði. í Botnum bjuggu þau til vor- daga 1923 í félagsbúi við foreldra Eyjólfs. Þá festu þau kaup á Hnausajörðinni og fluttu þangað það vor. 5. júní fæddist sonur þeirra hjóna, Vilhjálmur, eina barn þeirra, sem alla tíð hefur helgað foreldrum sínum krafta sína og hefur nú tekið við ýmsum trúnaðarstörfum föður síns í þágu sveitarfélagsins í Meðallandi. Að sjálfsögðu biðu Eyjólfs margþætt trúnaðarstörf. 1919 var hann valinn hreppstjóri Meðal- lendinga og gegndi því starfi til ársins 1972, er sonur þeirra hjóna tók við starfinu. Því starfi fylgdu ýmsar annir og tímafrek störf, sem hreppstjórar annarra sveita komust lítt í kynni við. Voru það aðallega ströndin sem mjög voru tíð fram eftir árum í hreppstjóra- tíð Eyjólfs. Starfi hans fylgdi og formannsstarf í skattanefnd, en í fjölmennri sveit var það ærið starf út af fyrir sig. Á marga bæi var hann kallaður til þess að gera skattaskýrslur, en almælt var að þær skýrslur sem Eyjólfur gerði þyrftu ekki endurskoðunar við. Slík var nákvæmni hans við alla embættislega gjörð fyrr og síðar. I hreppsnefnd var hann kjörinn 1925 og gegndi þvf starfi um ára- tugi. Oddviti um nokkur ár. Sýslu- nefndarmaður frá 1942 um ára- tugi, um 25 ár sem formaður Sjúkrasamlags Leiðvallarhrepps, í stjórn Læknisvitjunarsjóðs Kirkjubæjarlæknishéraðs á annan áratug, deildarstjóri Sláturfélags Suðurlands frá 1945 til um 1970, safnaðarfulltrúi frá 1926 til 1982, en kirkjan og kenning þjóna henn- ar var honum alltaf hugstæð og hafði mikil kynni við prestana. sem þjónuðu Langholtssöfnuði. I mörg ár var hann forsöngvari í Langholtskirkju, en hann hafði góða söngrödd og unni sálmunum og lögum þeirra. Hnausar hafa löngum verið taldir til höfuðbýlis í Meðalland- inu, enda setnir með reisn af hálfu ábúenda þar. Áreiðanlega hefur umhverfi Hnausa heillað ungu hjónin, þau Sigurlínu og Eyjólf, þegar þau festu kaup á jörðinni 1923. Þurrlendi var þar meira en annars staðar í Meðallandinu, nið- andi silfurtært Eldvatnið þar sem það streymdi í austurátt með tún- inu og bak við fitjarnar, meðfram vatninu að norðan voru háar mosavaxnar dyngjur Eldhrauns- ins, sem veittu nokkuð skjól fyrir norðanáttinni. Og víst er að oft hefur Eyjólfur hugsað til eyðibýl- anna í grennd við Hnausa og ör- lagavaldsins mikla, sem lagði býl- in í auðn. Landnámsjörðin Skarð í suðri sandorpin auðn með rústir Skarðskirkju og Hólmasel í norðri, nú hulið brunahrauni ásamt kirkju Hólmasels. Sandur- inn gekk einnig á Hnausana, svo mikið á fyrstu búskaparárum þeirra hjóna, að fullt útlit var fyrir að jörðin færi í auðn, ef ekki væri tekið til snöggra úrræða. Þá var unnið þrekvirki á Hnausum. 1927 var mikill hluti Hnausalands girtur af og sáð í sandinn. Hrepp- stjórinn borgaði helming kostnað- ar þessa verks á móti sandgræðsl- unni. Nú eru þar grasigrónir víðir vellir, sem að líkindum væri sand- auðn ein, ef kjarkur og framsýni hjónanna á Hnausum og ræktun- armannsins Gunnlaugs Krist- mundssonar hefðu ekki ráðið. Utan sýslu, og raunar langt út fyrir mörk hennar, var Eyjólfur kunnastur fyrir afskipti sín af skipströndunum, sem á tímabili voru mjög tíð í Meðallandinu. Alls hafði hann meiri og minni afskipti af á fjórða tug skipstranda í hreppstjóratíð sinni. Starfi hans sem hreppstjóra fylgdi hverskon- ar umsjónarstarf með ströndun- um í umboði sýslumanns, frá þvi er skipverjum var bjargað í land, oft við erfið og hættuleg skilyrði, til þess er þeir nutu allrar þeirrar aðhlynningar, sem heimilisfólk á bæjum í Meðallandi gat í té látið hinum sjóhröktu mönnum. Vissu- lega var sú þjónusta veitt með mikilli gleði. Hreppstjóra bar einnig að stjórna björgun og gæslu allra verðmæta úr skipun- um, uppboðshald átti hann að framkvæma, færa strandreikn- inga og afhenda siðan sýslumanni og margt fleira sem til kom. Allt þetta reyndi á sívökula vandvirkni og reglusemi hans í hverskonar færslum. Daglega skráði hann í strand- bók sína frásagnir af atburðum líðandi dags af nákvæmni og allur frágangur svo vandaður að af bar. Miklar eru þær heimildir sem þessi bók geymir um störf Meðal- lendinga í þágu björgunar manns- lífa og verðmæta úr ströndunum. Ekki er ólíklegt að þegar saga skiptapanna við sanda Meðallands verður skráð, að þá verði hugsað til Eyjólfs hreppstjóra með þakk- læti fyrir nákvæmni hans í frá- sögn og frágangi þessarar ein- stæðu bókar. Hann unni sígildum bókmennt- um í bundnu sem óbundnu máli. Bréf hans, skýrslur og ritgerðir sem eftir hann liggja bera vott um málvöndun hans og vandaðan frágang, og fáir munu gleyma óvenjufallegri rithönd hans, sem til þekktu. Hann var mjög sögu- fróður maður, og margir voru þeir fræðimenn sem leituðu fundar hans er þeir öfluðu sér heimilda um þætti úr sögu Meðallendinga fyrr og síðar. Þar náði þekking hans yfir langa sögu einstakra manna og atburða, um staði og ör- lög býla í Meðallandi og mál fólks- ins. Því fylgdi alltaf nokkur til- hlökkun, þegar vænst var komu Eyjólfs á Hnausum. Þótt hann væri í raun alvörumaður og flest- um færnari í orðum um menn og málefni, var hann glaður í viðmóti og tengdi frásagnir sínar léttum gamanyrðum, sem eftir var tekið og brosað að. Mér kemur nú í hug liðlega 50 ára gömul minning frá æskuheim- ili mínu í Nýjabæ. Eyjólfur kom síðla dags. Þá fyrir nokkru hafði ég eignast bók séra Magnúsar Helgasonar, Kvöldræður í Kenn- araskólanum, og vitanlega var tal- að um efni bókarinnar og ritgerð- ir. Eyjólfur handlék bókina með varfærni, fletti henni og las upp erindið Signýjarhárið. Hann gerði það með þeim hætti að enn finnst mér ég heyra raddblæ hans og áherslur, er ég les þessa merku kvöldræðu séra Magnúsar Helga- sonar skólastjóra. Björtu svipmóti hans á þessari stundu hefi ég aldr- ei gleymt en oft hugsað um, er ég hefi beint huga mínum til æsku- heimilis míns austur í Meðallandi. I dag, 22. október, kveðja Meðal- lendingar fyrrverandi hreppstjóra sinn í kirkju sinni að Langholti. Veit ég að margir verða þeir innan og utan sveitar sem votta honum þar virðingu sína og þakkir fyrir liðin kynni og samfylgdarár. Ég sendi eiginkonu hans, Sigur- línu Sigurðardóttur, syni hans, Vilhjálmi, og öðrum sem sárast sakna vinar í stað, innilegar sam- úðarkveðjur okkur sem nutum samverustunda hins látna drengskaparmanns í Nýjabæ, og þökkum við samfylgd hans og störf á langri ævi í þágu kærrar sveitar. Ingimundur Olafsson frá Nýjabæ Miðvikudaginn 12. október sl. andaðist á Elli- og hjúkrunar- heimilinu Grund Eyjó}fur Eyjólfs- son, hreppstjóri á Hnausum í Meðallandi, V-Skaftafellssýslu. Eyjólfur fæddist í Botnum í sömu sveit 27. febrúar 1889. For- eldrar hans voru sæmdarhjónin Eyjólfur (f. 1852, d. 1937) Eyjólfs- son og Vilborg, (f. 1852, d. 1935) Þorsteinsdóttir. Foreldrar Eyjólfs voru Eyjólfur Jónsson (f. 1821) og Guðrún Jónsdóttir (f. 1831, d. 1918 í Botnum). Eyjólfur Jónsson drukknaði í lendingu við Dyrhóla- ey 1871 og var grafinn við Dyr- hólakirkju. Móðir Guðrúnar var Ingibjörg Erlendsdóttir Björns- sonar, bónda á Uppsölum í Suður- sveit. Systir Ingibjargar var Margrét í Fjósakoti, en börn hennar voru Sigurður Sigvaldason í Bakkakoti og Guðmundur Einarsson. Guð- mundur var faðir Kristínar, móð- ur Einars Sigurfinnssonar, föður Sigurbjarnar Einarssonar bisk- ups. Foreldrar Eyjólfs Jónssonar voru hjónin Jón Ólafsson á Grímsstöðum, þar sem Eyjólfur bjó eftir hann, og Þuríður Ara- dóttir. Þuríður fæddist á Hofi í Öræfum 1788 og var móðir hennar Ingveldur Vigfúsdóttir frá Skála- felli í Suðursveit. Ingveldur var áður gift Bjarna Þorvarðarsyni, Salomonssonar, og var dóttir þeirra Guðný, f. 1777, er átti Jón Hannesson á Núpstað, en hún var amma Stefáns Hannessonar á Hnausum. Foreldrar Vilborgar voru Þor- steinn Þorgerðarson, f. 1824, bóndi á Undirhrauni og Þórey Jónsdótt- ir, f. 1824. Þeir voru albræður, Jón faðir Þóreyjar og Jón faðir Eyjólfs, syn- ir Ólafs Jónssonar og Kristínar Jónsdóttur Ingimundarsonar á Leiðvelli. Jóhannes Kjarval var þriðji maður frá Stefáni, syni Ólafs. Móðir Þóreyjar var Þórey Gísla- dóttir, Jónssonar, móðir hennar var Sigríður, dóttir Lýðs sýslu- manns í Vík og Margrétar Eyj- ólfsdóttur, lögréttumanns I Ey- vindarmúla, Guðmundssonar. Árið 1888 reistu þau Eyjólfur og Vilborg bú í Botnum í Meðallandi. Þótt efni væru smá í byrjun blómstraði bú þeirra vel, enda voru hjónin samhent, hagsýn og ráðdeildarsöm. Botnaheimilið varð brátt orð- lagt fyrir rausn og myndarskap, gestrisni og frábæra umgengni. Viðurgerningur við vinnufólkið var mjög rómaður, enda voru Botnar eftirsóttur staður, og munu flestir hafa sótt þangað nokkurn þroska, er unnu þar. Á uppvaxtarárum sínum kynnt- ist Eyjólfur fátækt og þröngum kosti fólks, hét hann því þá að búa því fólki er hann ætti yfir að ráða betri kjör. Við það heit sitt stóð hann eins og önnur, því að Eyjólf- ur í Botnum gekk aldrei á bak orða sinna. Handtak Eyjólfs, sem enginn gleymir er þekkti, var samnings ígildi. Á þessu heimili ólst Eyjólfur á Hnausum upp, hjá góðu fólki í fögru umhverfi, þar sem heilla- vættir byggðu hóla og steina. Botnar eru afskekktir, um tveggja tíma gangur til bæja yfir hraun og mela, ár og læki að fara, en nú er búið að ryðja bílveg þangað. Slægjur voru litlar og þurfti að sækja heyskap suður í Meðalland. Heyið var flutt á klökkum þriggja tíma leið. Reið þá á miklu að bagg- ar væru vel bundnir og reiðingur sæti vel, því að annars gat hann meitt hestana. Það var vandaverk að búa upp á allt að tíu hesta lest svo að vel sæti og baggar færu ekki ofan á langri og erfiðri leið. Það kom snemma í hlut Eyjólfs að leysa það vandaverk af hendi, og ekki sást heyslóði þar sem Botna- lestin fór. f Botnum var góð fjárbeit og þurfti oft litla gjöf, en Eyjólfur í Botnum vissi vel, að það var ekki nóg að beita, það þurfti einnig að fóðra og þá list kunni hann vel. Botnaféð var alltaf vel á sig komið, hvenær árs sem var, lagð- hvítt og frískt, frátt á fæti og þol- ið, a.m.k. fannst smölunum það vor og haust. En þetta var á dög- um hins lífræna búskapar, þegar búið var vegna búsins, ekki mark- aðarins. Á ferðum sínum um haga og hraunin kynntist Eyjólfur hinum fjölskrúðuga jurtagróðri og fugla- lífi þar um slóðir og leið ekki á löngu að hann þekkti flestar al- gengustu jurtir þar um slóðir og einnig marga fugla, en á yngri ár- um stoppaði hann upp fuglshami og fór vel úr hendi. Eyjólfur var snemma bók- hneigður, enda góðum námsgáfum búinn. Hann stundaði nám við Flensborgarskólann og nýttist honum dvölin þar vel, enda fór hann í skólann til að læra og menntast. Eyjólfur kunni vel að vera með fólki, hann var virðu- legur og háttprúður í framgöngu og sómdi sér jafnan vel, hvort sem hann var með „háum eða lágum", eins og komist er að orði. Eyjólfur gegndi mörgum trúnaðarstörfum um ævina og leysti öll þau störf af höndum með virðuleika, ná- kvæmni og skyldurækni. 28. desember 1918 kvæntist Eyj- ólfur eftirlifandi konu sinni, Sig- urlín Sigurðardóttur (f. 30. sept- ember 1891). Foreldrar hennar voru Agnes Ingimundardóttir, hreppstjóra á Rofabæ, og Sigurður Pétursson, póstur og bóndi á Hörgslandi á Síðu og seinna bóndi í Árnanesi i Hornafirði. Móðir Péturs var Þorbjörg, dóttir sr. Bergs Jónsson- ar og Katrínar, dóttur sr. Jóns Steingrímssonar. Þau Eyjólfur og Sigurlín voru í Botnum til ársins 1923, er Eyjólf- ur keypti Hnausa í Meðallandi, af Stefáni Hannessyni. Faðir Stefáns var Hannes Jónsson frá Núpstað, sonur Guðnýjar, hálfsystur Þuríð- ar Aradóttur, en móðir Stefáns var Helga, dóttir sr. Jóns á Hnausum, en hann var sonur sr. Jóns á Mýrum og Helgu, systur sr. Jóns Steingrímssonar. Taldi Stefán þau hjónin, Eyjólf og Sigurlínu, til skyldmenna sinna. Hnausaheimilið var gamalt og rótgróið heimili og héldust þar við lýði margar gamlar venjur meðan Stefán bjó þar. Stefán var fróður maður og minnungur, hann var ættfróður og kunni frá mörg- um mönnum og atburðum að segja. I ár eru 200 ár frá Skaftáreld- um. Stefán þekkti konu, sem þá var barn á Hnausum. Á hvíta- sunnu 1782 fóru Hnausa-börnin upp að Syðri-Fljótum og urðu börnin allhávaðasöm. Þar á bænum var gömul kona, sem undi hávaðanum illa og sagði: „Þið látið ekki svona næsta hvíta- sunnudag." Það eru 200 ár frá Skaftáreldum og fram á þennan dag lifa menn, er þekktu fólk, er kunnugt var mönnum frá eldunum, t.d. Eyjólf- ur á Hnausum. Þetta er sami tími og frá 900—1100 og er þá ástæða að rengja allt, sem í íslendinga- sögunum stendur? Eyjólfur var fróður maður um sögu átthaga sinna, menn og ættir og lærði hann mikið af Stefáni á Hnausum. Eyjólfur mat mikils góðskáldin okkar og kunni margt af kvæðum þeirra, hann las einnig mörg fræðirit, einnig á ensku og Norð- urlandamálunum. Eyjólfur bjó á Hnausum fram á elliár og meðan heilsa leyfði. Hann var höfðingi heim að sækja, ræðinn og hafði frá mörgu að segja og fóru menn jafnan fróðari af fundi hans en þegar þeir komu. Eyjólfur hafði unun af að fræða, enda var hann kennari um skeið og getur sá er þetta ritar borið um, að hann var afburðakennari. Eyjólfur var góður húsbóndi, var annt um líðan heimilisfólks- ins, og t.d. lét hann aldrei standa í illviðrum á engjum. Hann var bú- hagur, smíðaði sjálfur undir hesta sína, smíðaði orf og hrífur, gerði við áhöld og fór honum það vel úr hendi. Oft öfundaði ég Eyjólf af hinu góða biti í ljánum hans, þeg- ar við vorum að slá Hnausa-túnið eða Seftoppana í þurrki. En þetta var fyrir daga vélvæðingarinnar. Eins og fyrr er að vikið, var Eyj- ólfur fróður maður um margt og liggja eftir hann ritgerðir í blöð- um og tímaritum, enda maður mjög vel ritfær. Hann var ís- lenskumaður mikill bæði ( rituðu máli og mæltu og hafði gaman af réttritun. Man ég það, að stundum þegar við vorum saman þegar snjóföl var, þá skrifaði hann með brodd- stafnum vandmeðfarin íslensk orð í fölina og bendir það til þess, að móðurmálið hafi verið honum hugleikið.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.