Morgunblaðið - 13.07.1984, Blaðsíða 1

Morgunblaðið - 13.07.1984, Blaðsíða 1
56 SÍÐUR STOFNAÐ 1913 158. tbl. 71. árg.____________________________________FÖSTUDAGUR 13. JÚLÍ 1984_________________________________Prentsmiðja Morgunblaðsins Ragnar í Smára látinn Ragnar Jónsson í Smára RAGNAR í Smára er látinn. Hann fékk hægt andlát að kvöldi mið- vikudagsins 11. júlí. Ragnar hefur átt við vanheilsu að stríða og dvalizt í Borgarspítalanum, en hélt upp á áttræðisafmæli sitt 7. febrúar sl. og var þá umkringdur ættingjum og stórum vinahópi. Ragnar Jónsson var einn þeirra manna, sem setti mestan svip á þjóðlíf okkar um og eftir miðja öldina. Hafði afskipti af stjórn- málum og einarða forystu í menningarmálum, svo að ekki verður til annars jafnað um hans daga. Hann var annar aðaleig- andi og forstjóri Smjörlíkisgerð- arinnar Smára og jafnan við hana kenndur, þó að bókaútgáfa hafi verið aðalstarf hans. Undir forystu hans varð Helgafell leið- andi forlag hér á landi og alkunn- ugt víða. Ragnar í Smára bar ekki marga titla, en áhrif hans voru þeim mun meiri og umsvif hans í þjóðlífinu með þeim hætti, að hann var eins konar ríki í ríkinu, hafði öðrum mönnum meiri áhrif á þróun menningar og listar. Og afskipti hans af stjórnmálum og þjóðfélagsþróun voru einatt ör- lagarík, ekki sízt þegar hann gekk fram fyrir skjöldu og gerðist helzti stuðningsmaður Kristjáns Eldjárns fyrir forsetakosn- ingarnar 1968 og stjórnaði kjöri hans. Ragnar Jónsson lætur eftir sig börn og eiginkonu, Björgu Ell- ingsen. Einar Ragnar Jónsson var fæddur 7. febrúar 1904 í Munda- koti á Eyrarbakka, sonur hjón- anna Guðrúnar Jóhannsdóttur frá Mundakoti og Jóns Einars- sonar hreppstjóra, sem ættaður var úr Skaftafellssýslu. Þau eign- uðust fimm börn. Eyrarbakki var mikil verzlunarmiðstöð á Suður- landi á uppvaxtarárum Ragnars, en dönsk áhrif sterk. Félags- og menningarlíf var öflugt og tón- listarlíf fjölbreytt. Ragnar hleypti heimdraganum 16 ára að aldri og fór til Reykja- víkur til náms. Hann settist í Verzlunarskólann og brautskráð- ist úr honum eftir tveggja vetra nám, í maí 1922, en réð sig þá til Smjörlíkisgerðarinnar Smára, sem hann hefur æ síðan verið kenndur við. Upp úr þessu fer Ragnar að kynnast menningarlíf- inu í höfuðborginni, enda hafði hann fengið veganesti í þeim efn- um úr foreldrahúsum. Hann kynnist Erlendi i Unuhúsi og verður nákominn fjölmörgum helztu listamönnum landsins, eins og frægt er orðið. Þá kynnt- ist Ragnar m.a. Halldóri Laxness og Þórbergi Þórðarsyni og er samstarf þeirra sérstakur þáttur íslenzkrar menningar á þessari öld. Hann verður einnig mikill stuðningsmaður myndlistar- manna og fyrstu myndirnar, sem hann kaupir, eru eftir Ásgrím Jónsson. Hann var einn af helztu hvatamönnum að stofnun Tón- listarskólans alþingishátíðarárið 1930, en stofnar síðan, ásamt öðr- um, Tónlistarfélagið sem mark- aði tímamót í tónlistarlífi hér á landi. Samstarf þeirra Ragnars Jónssonar og Páls ísólfssonar markaði ekki síður þáttaskil í tónlistarsögu landsins, enda al- kunnugt. Afskipti Ragnars í Smára af bókaútgáfu hófust á síðara hluta fjórða áratugarins, en fyrir þá starfsemi er hann kunnastur. Ragnar hefur gefið út fjölmörg verk eftir helztu rithöfunda þjóð- arinnar, hann var útgefandi Hall- dórs Laxness, Davíðs og Tómasar, Þórbergs, Gunnars og Steins Steinarrs. Þá var Ragnar fyrsti útgefandi velflestra skálda og rit- höfunda yngri kynslóða. Hann var útgefandi tímaritsins Helga- fells, síðar Nýs Helgafells og voru þau áhrifarikustu menningar- tímarit síns tíma. Alþekkt er myndlistargjöf Ragnars til Alþýðusambands ís- lands og útgáfa hans á listaverk- um og listaverkabókum. Lífsskoðun Ragnars í Smára fólst í þessum orðum: ,Auður er hvorki góður né vondur, það er afstaða mannsins til auðsins, sem er annað hvort góð eða vond.“ Árið 1982 kom út á vegum Listasafns ASÍ og Lögbergs bók um Ragnar Jónsson, Ragnar í Smára. Hún er mikið heimildar- rit um þennan svipmikla menn- ingarfrömuð og sérstæða per- sónuleika. Þar eru höfð eftir Halldóri Laxness eftirfarandi orð um Ragnar Jónsson: „Ragnar hefur einhverja djúprætta samúð með mannlegu lífi. Hann hefur ekki getað lifað öðru vísi en styrkja það, sem hann hefur verið sannfærður um að hafi verið gott. Þetta hefur verið aflvélin í per- sónuleika hans. Verk sem hann hefur unnið íslenzkri endurreisn hefði enginn annar getað unnið. Menn eins og Ragnar eru tilvilj- un; nánast eitthvert happ í mannlegu félagi." Morgunblaðið sendir öllum ástvinum Ragnars í Smára inni- Iegar samúðarkveðjur um Ieið og það þakkar honum langa og góða samfylgd. Mondale velur Ferraro fyrir varaforsetaefni St. Paul, Minnesota, 12. júlí. AP. WALTER MONDALE tilkynnti í dag að hann hefði valið Geraldine Ferraro, fulltrúadeildarþingmann frá New York, varaforsetaefni sitt, er gengið verður til forsetakosninga í nóvember nk. „Ég veit hvað þarf til að vera góður varaforseti — ég gegndi nú einu sinni því embætti sjálfur. Ég leitaði að besta varaforsetanum og fann Ferraro," sagði Mondale, er hann tilkynnti val sitt. F’erraro og Mondale brostu út að eyrum er þau töluðu við frétta- menn og réttu upp hendurnar til að innsigla samning sinn. „Allt er mögulegt í Ameríku, ef maður bara keppir að því. Ég er sammála Fritz (gælunafn Mondales) um að ég sé gott dæmi um ameríska drauminn," sagði Ferraro. Auk þess að vera fyrsta konan sem valin er varaforsetaefni, er hún dóttir innflytjanda frá Ítalíu, barðist sjálf til mennta og frama og er þriggja barna móðir. Það er von stuðningsmanna Mondales að þessi persónueinkenni hennar dragi að sér marga kjósendur sem sjá sjálfa sig í henni. Jesse Jackson sagðist ánægður með val Mondales og kvað það stórt skref í sögu Bandaríkjanna. Hann sagði að Mondale hefði sýnt hugrekki með því að taka þessa ákvörðun. Skoðanakannanir sýna þó að ekki sé liklegt að kvenvara- forsetaefni breyti nokkru um möguleika Mondales til að sigra Ronald Reagan í forsetakosning- unum, en Reagan hefur enn 7% meira fylgi. Walter Mondale og Geraldine Ferraro brosa út að eynim, eftir að Mondale tilkynnti val sitt. AP-símamynd. Mitterrand vill þjóðar- atkvæði Paris, 12. júlf. AP. FRANCOIS Mitterrand, Frakk- landsforseti, fór að dæmi fyrirrenn- ara síns, Charles de Gaulle, og lagði persónulegt álit sitt að veði með til- lögu um stjórnarskrárbreytingu þess efnis að málefni einkaskóla verði borin undir þjóðaratkvæði. Mitterrand lagði einnig fram til- lögu fyrir þingið, um að völd for- seta yrðu aukin á þá lund, að hon- um yrði heimilt að leggja stórmál undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef tillagan verður samþykkt, fer hún sjálf fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hóta lokun allra hafna London, 12. júlí. AP. MARGRÉT Thatcher, forsætis- ráðherra Bretlands, sagði í dag, að slæm staða efnahagsmála í landinu og lækkun pundsins væri mikið til verfalli námamanna og hafnar- verkamanna að kenna. Hafnar- verkamenn, sem njóta stuðnings járnbrautastarfsmanna og sjó- manna, hafa nú hótað að loka höfn- um fyrir öllum inn- og útflutningi um helgina. Fulltrúar Nígeríu brottrækir London. 12. jnlí. AP. UTANRÍKISRÁÐHERRA Breta, Sir Geoffrey Howe, tilkynnti í dag að tveimur starfsmönnum sendiráðs Nígeríu í Bretlandi hefði verið vísað úr landi vegna hugsanlegra tengsla við meint rán á Umaru Dikko í síð- ustu viku. Howe sagði að gripið hefði verið til brottvísunar sendiráðsmann- anna, þar sem breskum yfirvöldum hafði verið meinað að yfirheyra þá vegna ránsins á Dikko. Sendiherra Nígeríu, Haldu Hananiya, flaug í skyndi til heimalands síns til við- raéðna við yfirvöld og tilkynnti fyrir brottför að hann myndi snúa aftur. Howe sagði hins vegar, að hann teldi óviðeigandi að Hanan- iya kæmi aftur til Bretlands. Stjóm Nígeríu sagði að hún myndi grípa til viðeigandi gagn- ráðstafana.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.