BFÖ-blaðið - 01.07.1990, Blaðsíða 3

BFÖ-blaðið - 01.07.1990, Blaðsíða 3
Árni Sigfússon: Þegar að er gáð Fræg er sagan af Hróðmundi bónda sem fór út að vitja kinda sinna á fögrum sumardegi. Konu hans var farið að lengja eftir honum og fór að leita hans. Hún gekk lengi þar til hún stóð uppi á hól allfjarri bænum. Þá sá hún sér til furðu bónda sinn á kafi upp að öxlum í for- arpytti. Hún kallaði til bónda síns og spurði hann hvað hann væri eiginlega að gera þarna í pyttinum. „Bjarga kind,“ svaraði Hróð- mundur. „Og hvar er kindin?“ spurði kerling. „Ég stend á henni!“ sagði bóndi hennar þá að bragði. Þessu er ekki ólíkt farið í þeim forarpyttum sem víða leynast í þjóðlífinu og þeim aðferðum sem við beitum þegar við ætlum að leysa margvísleg vandamál. Oft hef ég velt því fyrir mér hvort nokkurs staðar sé til betri lýsing en sagan af Hróðmundi í pyttinum á björgunar- aðgerðum okkar í vímuefnamálum. Skilaboð hinna eldri til unga fólksins stangast á. Ein tegund vímuefna er rómuð jafnt í bundnu sem óbundnu máli. Önnur tegund er lýst stór- hættuleg, án þess að raunverulega sé auðvelt að draga skýr mörk þar á milli. Hróðmundi tókst ekki að toga kindina upp úr forarpyttin- um með því að standa á henni. Hugsuðurinn Ralph Waldo Emerson, var vanur að heilsa gömlum vinum með eftirfar- andi spurningu: „Hvað hefur runnið upp fyrir þér, síðan við hittumst síðast?“ Vitringurinn vissi nefnilega að maðurinn býr yfir þeim eig- inleika að geta látið af fordómum og skamm- sýni ef hann hefur vit til að læra af reynslunni og moka flórinn sinn. En það vita þeir sem starfa að bindindismálum að sumir eiga erfið- ara með að læra af reynslunni en aðrir. Þrátt fyrir endurtekin dauðaslys í umferðinni af völdum ölvaðra ökumanna eru þeir enn til sem aka undir áhrifum áfengis. Hver einstaklingur á að hafa rétt á að velja sér sinn lífsstíl, svo lengi sem hann gengur ekki á rétt annarra til hins sama. Þetta frelsi okkar eigum við að virða. Sá sem velur að neyta efna sem kunna að auka hættuna á að hann valdi öðrum tjóni, verður að bera fulla ábyrgð á þeim gerðum. En mannslíf verður ekki endurheimt. Næst þegar við heilsum gömlum vin gerum það með brosi á vör til staðfestingar á því að það hafi runnið upp fyr- ir okkur síðan við sáum hann síðast að við verðleggjum heilsu okkar og hamingju meira en að búa við þá tvöföldu áhættu að aka ölvuð. Árni Sigfússon er borgarfulltrúi og framkvæmdastjóri Stjórnunarfélags íslands BFÖ-blaðið • a/1990 Utgefandi: Bindindisfélag ökumanna, Lágmúla 5,108 Reykjavík, sími 679070. Ritnefnd: Sigurður Rúnar Jónmundsson (ritsj. og áb.m.), Halldór Árnason og Jónas Ragnarsson. Myndir: Guðmundur Viðarsson o.fl. Prentun: GuðjónÓ hf. Upplag: 4.200 eintök 2. tbl. 18. árg. illilí 1990 ___________________________________________ 3

x

BFÖ-blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: BFÖ-blaðið
https://timarit.is/publication/234

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.