Dagur - 04.05.1991, Blaðsíða 8

Dagur - 04.05.1991, Blaðsíða 8
8 - DAGUR - Laugardagur 4. maí 1991 í þessu sögubroti kynnumst við lítillega rit- höfundinum og prestinum Jónasi Jónas- syni frá Hrafnagili og gluggum í höfuðverk hans, íslenska þjóðhætti. Þetta er jafn- framt undirstöðurit um lífið hér á landi á 18. og 19. öld. Jónas lýsir daglegu lífi fólks, atvinnu, skemmtunum, heilsufari, þankagangi og ytra umhverfi á nákvæman og læsilegan hátt en því er ekki að neita að í augum nútímamannsins eru þessar stað- reyndir oft lyginni líkastar. Séra Jónas var fæddur 7. ágúst 1856 á Úlfá í Eyjafirði. Faðir hans, Jónas, var sonur Jóns Bergssonar og Helgu Sigurðar- dóttur, en móðir hans, Guðrún, dóttir Jónasar Guðmunssonar frá Halldórsstöð- um í Eyjafiðri og Guðlaugar Jónsdóttur. Faðir séra Jónasar var fróðleiksmaður og fékkst m.a. við lækningar þótt ekki væri hann lærður í þeirri grein. Hann drukkn- aði í Djúpadalsá í Eyjafirði 23. september 1895 er hann var á leið heim úr lækninga- ferð. Jónas Jónasson ólst upp í Eyjafirði fram til ársins 1872 er fjölskyldan fluttist til Skagafjarðar og settist að á Tunguhálsi. Eftir að Jónas kom til Skagafjarðar fékk hann kennslu hjá séra Hjörleifi Einarssyni í Goðdölum, en hann hafði snemma þótt námsfús og greindur og las hann allt sem auga á festi. Jónas tók inntökupróf vorið 1875 og varð stúdent í Reykjavík 1880 með fyrstu einkunn. Hann útskirfaðist úr Prestaskólanum 1883. Fimm dögum siðar var honum veitt Landsprestak'all í Rangár- vallasýslu og dvaldist hann þar hálft annað ár. Prestskapur og kennsla Vorið 1884 gekk Jónas að eiga Pórunni Stefánsdóttur Ottesen frá Hlöðutúni í Borgarfirði. Áttu þau hjón 8 börn saman en þegar Einar Ólafur Sveinsson ritar for- málann að íslenskum þjóðháttum 1934, þar sem þessar heimildir eru fengnar, eru aðeins fjórir synir á lífi: Oddur Rafnar, framkæmdastjóri í Höfn, Jónas Rafnar, læknir í Kristnesi, séra Friðrik Rafnar á Akureyri og Stefán Rafnar, bókhaldari í Reykjavík. Jónasi voru veitt Grundarþing í Eyja- firði haustið 1884 og þar var hann prestur til 1910 og bjó lengst af á Hrafnagili en fluttist til Akureyrar 1905. Hann var pró- fastur í Eyjafirði 1897-1908. Árið 1908 var hann settur annar kennari við Akureyrar- skóla en hafði þá gegnt þar stundakennslu um nokkurra ára bil. Árið 1910 var honum veitt þriðja kennaraembætti við skólann og lét hann þá af prestskap. Aðalkennslugrein hans var íslenska en hann kenndi einnig sögu, félagsfræði, íslandssögu og stærð- fræði. Jóns var kennari til vors 1917 er hann lét af störfum vegna heilsubrests. Það ár fékk hann dálítinn styrk frá Alþingi. Fluttist hann til séra Friðriks, sonar síns, er þá var prestur á Útskálum, en heilsu hans fór hnignandi. Jónas fór til Reykjavíkur til að leita sér lækninga og þar andaðist hann 4. ágúst 1918. Banamein hans var krabba- mein í brjóstholi. Hann var síðan fluttur norður til Eyjafjarðar og grafinn í Munka- þ verárkirk j ugarði. Óslökkvandi fróðleiksþorsti Jónas Jónasson frá Hrafnagili var hár mað- ur og frekar grannur, hárið dökkt, skeggið mikið og sítt, augun björt og góðmannleg. Honum tókst að afla sér fjölbreyttrar þekkingar og koma sér upp ótrúlega góðu bókasafni. Fróðleiksþorsti hans var óslökkvandi og starf hans ber vott um mikla eljusemi. Allir sem ritað hafa um Jónas ljúka upp einum munni um mann- kosti hans og vinsældir. Að trúarskoðun og lífsskoðun var hann frjálslyndur og Kona í brúðarklæðum á 18. öld. I mannúðlegur, laus við alla kreddufestu og hafði óbilandi trú á framförum. Ritstörf Jónasar bera glöggt vitni um hve mikill eljumaður hann var og fjölfróð- ur. Þó verður að hafa í huga vanheilsu hans og þá staðreynd að hann vann öll sín I ritstörf í hjáverkum og lagði þar að auki stund á aðrar greinar en þær sem koma fram í ritum hans. í rithöfundinum Jónasi Jónassyni bland- ast saman kennimaðurinn og fróðleiks- maðurinn. Á þetta bæði við um fræðirit hans og sögur, en þó ber ef til vill ekki mikið á fræðimanninum í smásögum hans úr samtíðinni. Kennimaðurinn er hins veg- ar auðsær. í flestum eða öllum sögum hans birtist ádeila og er hún óvenju sár í mörg- um þeirra. Þegar Jónas var ungur var raunsæisstefnan efst á baugi í bókmennt- um og tók hann henni tveimur höndum. Sögur hans endurspegla skuggahliðar lífs- ins og höfundur stingur á kýli. Aðferð hans er sprottin af umbótavilja, bak við hina hörðu og dapurlegu frásögn slær hjarta sem ann af heilum hug þeim er lifa í skugganum. Jónas samdi smásögur, skáldsögur, kvæði og fræðirit, þýddi ljóð og sögur og skrifaði auk þess fjölda fræðandi greina í ýmis tímarit. Hann ritstýrði mánaðarritinu Nýjum kvöldvökum, skrifaði dansk- íslenska orðabók og bjó til prentunar Þjóðtrú og þjóðsagnir Odds Björnssonar. Fyrsta saga séra Jónasar birtist í Iðunni 1885 og heitir Glettni lífsins. Sögur hans og smásagnasöfn eru Frelsisherinn (1888), Randíður á Hvassafelli (1892), Ljós og skuggar (1915), Hofstaðabræður (1924) og Rit I-III (1947-49). * Undirstöðuritið Islenskir þjóðhættir Mesta verk séra Jónasar Jónassonar er íslenskir þjóðhættir en ritið kom fyrst út 1934, sextán árum eftir dauða hans. Einar Ólafur Sveinsson bjó handrit Jónasar til prentunar og ritaði formála. í formála þriðju útgáfu 1961 kemur skýrt fram hvaða viðtökur ritið hafi fengið. „Bók þessi hlaut miklar vinsældir, jafn- skótt og hún kom út 1934. Hér var fengið heildaryfirlit yfir íslenzka þjóðhætti á síð- ari öldum, svo að ekki vantaði nema einn kaflann, um sjómennsku, auk þess sem kaflinn um húsagerð var eigi fullsaminn. Hefur jafnan síðan fyrst verið leitað til þessara bókar, þegar mönnum hefur leikið hugur á að fá vitneskju um eitthvað í siðum, háttum og trú þjóðarinnar. Sama hefur verið erlendis, fræðimönnum þar hefur þótt hentugt að geta leitað til þessa heildarverks, þegar spurt var, hvernig eitthvað hafi verið hér á landi.“ (bls. XXIII). íslenskir þjóðhættir er rit upp á 500 blaðsíður. Það skiptist í eftirfarandi meg- inkafla: Daglegt líf, Aðalstörf manna til sveita, Veðurfarið, Skepnurnar, Hátíðir og merkisdagar, Skemmtanir, Lífsatriðin, Heilsufar og lækningar, Hugsunar og trú- arlífið og Húsaskipun og byggingar. Við skulum nú grípa niður í nokkra kafla til að gefa lesendum innsýn í þann fróðleik sem íslenskir þjóðhættir Jónasar Jónassonar frá Hrafnagili hafa að geyma. „Leggja við tönn úr dauðum manni“ Fyrst skulum við líta á kaflann Heiisufar og lækningar, en þar er auk kunnuglegra húsráða að finna ótrúlegustu bábiljur. „Við tannpínu á að brjóta tönn úr mús og stanga með henni við tönnina; leggja við tönnina saur úr ársgömlu sveinbarni; mylja hundstennur og taka inn duftið; leggja við tönn úr dauðum manni. Pétur hét bóndi Bjarnason í Tjaldanesi vestra; árið 1710 fékk kona hans óþolandi tann- pínu, sem ekki Iét undan neinu; fór hann Jónas Jónassun frá Hrafnagili. þá seinast í ráðaleysi til kirkjunnar, reif þar upp leiði og náði í mannstönn til þess að leggja við tönnina veiku. Oddur lög- maður Sigurðsson tók upp málið, og var Pétur sektaður fyrir tiltækið.“ (329) Þessar lýsingar fá mann til að hrífast af tannnlækningum nútímans. Lítum næst á einfaldan kvilla á borð við blóðnasir og furðuleg ráð til lækninga: „Við blóðnösum á margt, t.d. brenna blóðið á hellu til ösku og taka öskuna í nefið, eða brenna horn og taka öskuna í nefið; drekka þrjá dropa af blóðinu í vín- ediki; binda klút vættan í köldu vatni um háls og enni; gera kalt bað milli fóta sér; leggja kalt brýni milli herðanna; binda fast spotta um baugfingur eða litlafingur; halda á hjartarfa í hendi sér, þangað til hann volgnar; anda að sér reyk af kálfa- eða hrossataði; taka mold úr kirkjugarði í nefið. Skrifa með nasablóðinu á enni þess, er blæðir, þessi orð: maiss, pais, tais, og lesa faðirvor á meðan.“ (329) Fleiri krassandi dæmi mætti nefna en lækningaaðferðirnar eru þess efnis að varla er hægt að mæla með þeim. * Astir samlyndra hjóna Jónas fjallar töluvert um tilhugalífið, hjónalífið og barnauppeldi. Eru þær lýs- ingar oft grátbroslegar vægast sagt en sum- ar gilda enn í dag eins og t.d. þessi: „Þegar konan var orðin ólétt, mátti ráða í það af mörgu, hvort hún gengi með pilt eða stúlku. Piltar sprikla meira í móðurlífi en stúlkur, og það ber meira á þykkt móð- urinnar, hún er stærri um sig, ef hún geng- ur með pilt, en stendur meira fram, ef hún gengur með stúlku. Ef þykktin er meira hægramegin, gengur hún með pilt, og sömuleiðis ef hægra brjóstið stækkar meira.“ (258) Loks eru hér hollar ábendingar til hjóna: „Ekki má bera út rúmföt hjóna á sunnu- dagsmorgni til að viðra þau, því að þá verður hjónaskilnaður. Ef bóndinn ferðast eitthvað útaf heimilinu, má konan ekki búa um rúmið þeirra sjálf fyrsta kvöldið, sem hann er að heiman, því að þá koma þau aldrei framar í eina sæng. Hjón mega aldrei gefa hvort öðru odd- eða eggverk- færi, því að þá stingast eða skerast ástir þeirra sundur. Margir varast þetta enn í dag. Til þess að konan elski bónda sinn skal gefa henni rjúpuhjarta að eta, saxað í mat, eða hafa tvær tungur undir tungu sér og kyssa hana. Það bætir samlyndi hjóna, að maðurinn beri á sér hjarta úr hrafni, en konan úr kráku, eða bera á sér segulstein. Ef maður er hræddur um, að konan hafi framhjá sér, skal hann leggja segulstein eða segulstál undir höfuð hennar sofandi; ef hún er honum trú, snýr hún sé að hon- um og faðmar hann, en annars snýr hún sér frá honum og veltir sér ofan á gólf, ef mikil brögð eru að.“ (297) Af þessum stuttu dæmum má ljóst vera að í íslenskum þjóðháttum er margt fróð- legt og skemmtilegt. Sagnagerð séra Jón- asar er líka gaman að kynnast en sögubroti er hér með lokið. Brúðhjónabollar. Stefán Sæmundsson.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.