Þjóðviljinn - 28.06.1986, Blaðsíða 10

Þjóðviljinn - 28.06.1986, Blaðsíða 10
MINNING Skúli Guðjónsson frá Ljótunnarstöðum Fœddur 30. janúar 1903 — Dáinn 20. júní 1986 Hugurinn reikar fjörutíu ár til baka. Þá dvaldirðu, frændi minn, lengur hjá foreldrum mínum hér syðra en í annan tíma. Þú varst að hefja göngu þína í myrkrinu og lærðir á ritvél, sem þú svo notaðir æ síðan til að senda hinum sjá- andi bæði bréf og bækur og annað tiltal. Lítill strákur kom norður í sveit til þín. Þura, konan þín, stýrði innan stokks, - Hjörtur, bróðir þinn, sístarfandi og í gamla bænum þau Guðjón, pabbi þinn, og systkinin Mundi og Guja. Allt varð stráknum stórt í augum eins og vatnsieiðslan í skurðinum frá bænum niður að fjárhúsunum, sem þú hafðir unn- ið án sjónar, og forysta þín um töðuvöllinn þar sem þú þreifaðir eftir heyinu með hrífunni . í þess- ari tilveru voru synirnir, Bragi og Björgvin, á líku reki, Ingibjörg lítil, Heiðar farinn að hlaupa- og við veltum okkur niður Ljótunn- arhólinn. Mjólkin var skilin heima og rjóminn varð þykkur, - svo þykkur. í klettinum ofan við veginn fundum við Bragi hellis- holuna og beinin og þú ortir skýr- ingu fyrir unga hugi. Og eitt sinn lékum við strákarnir að bílum norður í mónum og þú stóðst í sólskini við bátinn og tókst okkur með þér á sjó. Á haustum áttuð þið faðir minn sprettiræður um ritverk þín, útgáfur þeirra og upplestur, og um stjórnmál og strauma þjóðfélagsins er þú sóttir fundi sósíalista til borgarinnar. Eina kvöldstund kom það í minn hlut að vera leiðari þinn á flokksþingi og þar voru Björn Jónsson og Karl Guðjónsson auk fastra liða og ekki allir sáttir á eina stefnu eins og gengur. Eftir kvöldmat- inn sagðirðu þeim frá herberg- isfélaga þínum á Bifröst, sem bæta vildi rykloftið og sveiflaði herbergishurðinni í jötunmóð uns öllu var upp þyrlað, og taldi þá nóg að gert. Og þú spurðir hvort mönnum fyndist ekki nóg að gert og kominn tími að láta setjast til. En auðvitað settist ekkert til nema á hvers manns veg í hans eigin sálarkima og framvindan hafði sinn gang. Það tognaði og trosnaði úr flokknum og það tognaði úr tímanum. Mörg ár hafa gengið um garð og sjaldnar höfum við hist en báðir vildu. Ég hef þó notið nærveru þinnar og kynnst þér í árdaga í þeim frá- bæra sjóði, þar sem í þú lagðir liðnar stundir fyrir fjórum árum í bókinni, sem varð þín síðasta. Og þegar nú Þura og María mey renna upp á könnuna og bera ykkur guði brennheitt lút- sterkt baunakaffi með hnausþykkum rjóma og syk- ruðum pönnukökum, situr hann faðir minn með ykkur við eldhús- borðið og þið takið sprettiræður um straumana og stefnurnar, sem enn vilja ekki setjast til á snyrti- legan hátt. Og meðan þú treður Edgeworth í pípuna þína úr tó- bakspungnum hans guðs trúi ég hann faðir minn verði á undan að segja við þig glaðklakkalega og næstum því hróðugur: „Jæja, frændi minn. Við sem fundumst á myrku haustkvöldi heima hjá þér á Ljótunnarstöðum fyrir nær sex- tíu árum. - Frændi minn, - aldrei fór þó svo, að við næðum ekki landi.“ Kæru frændsystkin, Bragi, Björgvin, Ingibjörg og Heiðar. Innileg samúðarkveðja til ykkar og fjölskyldna ykkar. Gísli Ól. Pétursson. Kynni okkar Skúla á Ljótunn- arstöðum komust á vegna þess að við áttum sameiginlegan góð- kunningja, Pétur Sumarliðason kennara. Ekki voru þau kynni ýkja löngeða náin, aðeins bundin við stopular ferðir Skúla suður til Reykjavíkur, en gott þykir mér að hugsa til þeirra stunda. Oftast sátum við í kaffistofu útvarpsins og röbbuðum saman. Þar gerð- ustu jafnan sessunautar okkar einhverjir mætismenn, „hand- hafar“ radda, sem Skúli þekkti úr útvarpinu, og virtist mér hann hafa gaman af að þeir skyldu ger- ast honum þannig nærtækir. Skúli var afar viðræðugóður, sló oft á létta strengi í tali sínu, en allt um það var hann mikill alvöru- maður, einskonar alþýðlegur heimspekingur - alþýðuspeking- ur. Þótt hann yrði að una því þungbæra hlutskipti að missa sjónina um miðjan aldur, kom það síður en svo niður á glögg- skyggni hans, líklega hefur hún miklu fremur skerpzt og skýrzt á marga lund. Eins og að líkum lætur var út- varpið Skúla mikilvægur miðill, gluggi til umheimsins, og þar lét hann alloft til sín heyra í þáttum um daginn og veginn fyrir með- algöngu hollvinar síns, Péturs Sumarliðasonar, sem var kjörinn til að gæða orð Skúla hinum rétta málhreimi. Þá las Pétur heitinn annað útvarpsefni eftir Skúla, kvöldvökuþætti og æviþættina Heyrt en ekki séð, sem komu síð- an út á bók 1972. Fimm bækur aðrar komu frá hendi Skúla, og mun Pétur þá ætíð hafa lagt hon- um lið svo um munaði. Þessar bækur eru allar hinar eigulegustu og bera vitni ritsnilli höfundar síns, skýrri hugsun og heilbrigð- um sjónarmiðum. Þá er þess að minnast, að Skúli skrifaði um árabil útvarpsgagnrýni í Þjóðvilj- ann. Munu ekki aðrir hafa lagt betri skerf til slíkrar umfjöllunar í íslenskum blöðum heldur en Skúli á Ljótunnarstöðum. Oft notaði hann þá tilefni, sem út- varpsefnið gaf honum, til sjálf- stæðra hugleiðinga um hitt og þetta. í lok þessa flýtisskrifs set ég ferhendu, sem ég sendi Skúla í símskeyti á áttræðisafmæli hans: Hefur á máli og málstað tök meiri en hver einn getur. Ef maður var blindur í sjálfs sín sök sástu það öðrum betur. Mikill mætismaður er genginn. Minning hans varir lengi. Baldur Pálmason Hinn 20. júní síðastliðinn lést á Sjúkrahúsi Hvammstanga Skúli Guðjónsson, bóndi og rithöfund- ur á Ljótunnarstöðum, á 84. aldursári. Skúli varð fyrir þeirri lífsreynslu, þegar hann var á miðjum starfsaldri, að missa sjónina. Hann lýsir því í einni bóka sinna, hvernig hann vænti þessarar breytingar og reyndi að búa sig undir hana. En blindan varð alls ekki eins og Skúli hafði hugsað sér, enda getur enginn gert sér í hugarlund ástand sitt, sem verður, fyrr en það er orðið. En þessi andlegi undirbúningur Skúla mun vafalitið hafa greitt fyrir því að hann missti ekki kjarkinn, heldur barðist ótrauður áfram til sigurs og vann sér sess sem einn af merkustu rithöfund- um þessarar þjóðar, eftir að hann var orðinn blindur. Almenningur gerir oft mikið úr atorku þeirra sem blindir eru og dáir þá fyrir starfsþrek þeirra og árangurinn sem þeir ná. Sumum þeim, sem eru blindir, vex þetta í augum og hreykjast af, en aðrir benda réttilega á að árangurinn fari fyrst og fremst eftir því hversu til hans er sáð og blindan sé ekki endir alls, heldur ákveðin kapítulaskipti í lífi manna, og þennan kapítula verði menn að lesa af sama áhuga og hina fyrri kafla ævinnar. Þetta gerði Skúli; hann las lífsbók sína af áhuga eftir að hann missti sjónina og miðlaði íslendingum af blöðum hennar, sem voru þétt skrifuð orðum fjölbreytilegrar reynslu. Skúli ritaði margt eftir að sjón- ina þraut. Hann lærði að skrifa á ritvél og nýtti sér hana til hins ýtrasta. Auk bóka hans og blaða- greina eru mönnum í fersku minni erindi þau, sem flutt voru eftir hann í útvarp, um daginn og veginn og ýmsa þætti úr samtíð hans og frá fyrri dögum, en Skúli var langminnugur og hafði lifað umskipti þau, sem urðu í menningar- og atvinnulífi þjóðar- innar í upphafi þessarar aldar og kalla mætti með sönnu menning- arbyltingu. Hann stóð því föstum rótum í fortíð sem samtíð og skildi og mat réttilega arf hins liðna, sem hann fléttaði samtíð sinni og hræringum hennar. Skúli var einn þeirra sósíalísku rithöfunda sem byggði bækur sínar mjög á lífsreynslu sinni. Hann ritaði margt um uppvöxt sinn og æsku og reynsluna við sjónmissinn. Fróðlegar eru vangaveltur hans um hlutskipti blindra, og mótast þær mjög af þeirri baráttu sem hann háði við umhverfi sitt, sem hann bendir á að sé á tíðum skilningsvana um hagi hinna blindu. Skúli varð að vera sinn eiginn félagsráðgjafi og það sem hann komst, tókst hon- um af eigin rammleik, og ef til vill með uppörvun náinna ættingja sinna og vina. Þótt okkur, sem fæddir erum sjóndaprir eða blindir og höfum notið stuðnings og jafnvel sérstaks uppeldis, sem hefur átt að búa oíckur betur undir lífsbaráttuna, finnist á stundum Skúli taka fulldjúpt í árinni og sé skilningsvana á ýmis- legt, sem gerist í „heimi blindra“, getum við ekki borið á móti því að umfjöllun hans um þennan hóp manna er að mörgu leyti raunsönn - birtir okkur skoðanir einstaklinga á sjálfum sér og meðbræðrum sínum, skoðanir sem hafa orðið til og mótast án afskipta og aðstoðar þeirra, sem eru sérlærðir um þessi málefni, eða hafa umgengist þennan sér- staka hóp þjóðfélagsþegna og skapað með sér ákveðna sam- kennd og mótað afstöðu sína hver eftir annars reynslu. Þannig hljómar það skrýtilega í eyrum blinds manns þegar Skúli ræðir um það á einum stað að ýmis orð séu forboðin í tungutaki blindra, t.d. eins og setningin „Sjáumst síðar“. En skyldi ekki vera hér um að ræða sanna lýsingu manns á viðbrögðum sínum við að heyra orð, sem ekki lengur höfðuðu til sama merkingarsviðs og höfðu ekki framar það gildi, sem áður, þegar sjónarinnar naut við. En samt sem áður þurfti ekki að tala neina tæpitungu við Skúla eða búa honum sérstakt orðafar sem hann þyldi, enda þroskaðist mað- urinn með fötlun sinni og lærði að búa við hana. En þakklát megum við vera fyrir að Skúli skyldi festa þessar minningar sínar og viðhorf frá fyrstu árum blindunnar á blað. Skúli varð þjóðþekktur rithöf- undur og naut almennrar virðing- ar sem ötull baráttumaður, sem lét blinduna ekki hindra sig í að ná settu marki. Ég minnist þess að í æsku var Skúli sú fyrirmynd, sem faðir minn, Helgi Benedikts- son, notaði óspart til að brýna okkur syni sína til dáða. Ég ólst upp í því sérkennilega andrúms- lofti að stjórnmálaskörungurinn Jónas Jónsson frá Hriflu var á- trúnaðargoð föður míns, þótt hann vissi og viðurkenndi ýmis- legt, sem betur mætti fara í skoð- unum þessa mikilmennis, en að- dáun hans á Jónasi var svo einlæg og vinátta þeirra svo hlý, að inn í barnssál mína síaðist hún og skaut rótum á svipaðan hátt og sagt er að ýmsir austantjaldsbúar dái þjóðhöfðingja sína. Þannig urðu mér það mikil sannindi þeg- ar ég heyrði föður minn hafa eftir Jónasi að menn skyldu lesa Þjóð- viljann, því að þeir skrifuðu svo vel, strákurinn hans Kjartans og blindi maðurinn frá Ljótunnar- stöðum. Þannig varð Skúli óafvit- andi til þess að foreldri sá ástæðu til að brýna sjóndapra syni sína og átta sig betur á því en ella að þeirra gat beðið nokkur framtíð. Skúli hafði fljótlega samband við Blindrafélagið eftir að hann missti sjónina og naut þar ó- skiptrar hylli og aðdáunar. Það þóttu ætíð stórtíðindi þegar spurðist að Skúli væri kominn suður og menn þyrptust til að hitta hann, hvort sem þeir voru samþykkir skrifum hans eða höfðu eitthvað við þau að athuga. Skúli gaf sér drjúgan tíma til að ræða skoðanir sínar og hlusta á gagnrýni annarra, en gagnrýnendur hans fóru gjarnan af fundi öldungsins mun fróðari en áður. Þegar umræðan um endurhæf- ingu hófst á meðal blindra fyrir rúmum áratug lét Skúli ekki sitt eftir liggja. Honum þótti sem von var umræðan einkum beinast að hagsmunum þéttbýlisins og benti á veilur nýrra hjálpartækja, sem gerðu þau gagnslaus í strjálbýl- inu, þar sem hann bjó og starfaði. Þannig auðgaði hann umræðuna og greiddi okkur sem í þessum málum vöfstruðum götuna til gagnrýnni skilnings á viðfangs- efninu. Skúli á Ljótunnarstöðum er horfinn héðan á vit feðranna. Með honum er genginn einn af áhrifamestu einstaklingum úr röðum blindra. Blindrafélagið sér á bak einum af félagsmönnum sínum, sem tók gagnrýninn þátt í störfum þess og lét óhikað í ljós skoðun sína á þeirri hættu, að fé- lagið glataði áhrifum sínum, þendist það út og sjáandi starfslið tæki við hlutverki hinna blindu og mótaði forystu þess. Ef til vill hefur Skúli verið forspár um þau tíðindi sem urðu innan félagsins á síðastliðnu ári og skóku innviði þess. En hann lifði það að sjá að forystumenn félagsins gátu staðið vörð um hagsmuni Blindrafélags- ins, og má honum því vera rótt að vita félagið nú í styrkum höndum blinds framkvæmdastjóra og for- manns. Hafðu heill þökk fyrir leiðsögn og samfylgd. Dæmi þitt mun verða ótöldum íslendingum til fyrirmyndar. Arnþór Helgason. Skúli Guðjónsson, bóndi og rithöfundur frá Ljótunnarstöð- Frh. á bls. 11 „UPPHAF OG ÆTTERNI“ Ég er borinn í þennan heim 30. jan. 1903 að Ljótunnarstöðum. Ljótunnarstaðir standa við Hrútafjörð vestanverðan, nálægt miðju. Þetta segi ég vegna þess að margir þeirra sem við mig kannast vita ekki hvar Ljótunnarstaðir eru á þessu kalda landi. Ég sleit þar barnsskónum og vann sem vinnumaður foreldra minna framyfir tvítugt. Eftir það var ég sem ólöglegur lausamaður og sj álfs mín húsbóndi, þótt oftast dveldi ég heima, allt til ársins 1936, að ég kvæntist og byrjaði búskap á móti föður mínum fyrstu árin. En eftir að hann brá búi fyrir aldurs sakir og vanheilsu bjó ég á allri jörðinni til ársins 1963, er sonur minn fór að búa á móti mér, en 1973 brá ég búi og lét í hendur barna minna. Þetta er mín búskaparsaga. Foreldrar mínir voru Björg Andrésdóttir og Guðjón Guðmundsson. Móðir mín var fædd að Efri-Lág í Grundarfirði 10. júní 1867 en faðir minn var fæddur að Guðlaugsvík við Hrútafjörð 1. ágúst sama ár og voru bæði komin út af Guðmundi gullsmið í Hundadal í Dölum vestur....“ (Skúli Guðjónsson: Hver liðin stund er lögð í sjóð.) 10 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Laugardagur 28. júnt 1986

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.