Lesbók Morgunblaðsins - 03.03.1990, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 03.03.1990, Blaðsíða 3
T.EgBfg (m) @ H [5] [u] 0 B [l] ® [öl E E [n] ® Útgefandi: Hf. Árvakur, Reykjavík. Framkvstj.: Haraldur Sveinsson. Ritstjórar: Matthias Johannessen, Styrmir Gunnarsson. Aöstoð- arritstjóri: Björn Bjarnason. Ritstjórnarfulltr.: Gísli Sigurösson. Auglýsingar: Baldvin Jóns- son. Ritstjórn: AÖalstrœti 6. Sími 691100. Nýir bílar í bflaþætti Lesbókar eru kynntir þrír nýir frá Þýzka- landi, sem munu sjást á þessu ári, þar á meðal nýr Benz, sem leysir núverandi S-gerð af hólmi og beðið hefur verið eftir með mikilli eftirvæntingu. Einnig er smávegis um öll þau verðlaun og viðurkenningar sem Citroén XM hefur sankað að sér. Forsíðan Myndirnar eru af Sinfóníuhljómsveit íslands og birtar í tilefni 40 ára afmælis hljómsveitarinnar, sem nú er minnst. Einnig eru viðtöl við Guðnýju Guðmunds- dóttur konsertmeistara um leiðandi hlutverk hennar, við Bjöm R. Einarsson básúnuleikara, sem er einn af þeim elztu í hljómsveitinni.Jóhannes Georgsson frá Rúmeníu, sem nú er orðinn íslendingur og loks við Sigurð Björnsson framkvæmdastjóra um söguleg- ar staðreyndir. de la Tour var franskur málari og uppi á 17. öldinni á svipuðum tíma og Hallgrímur Pétursson og Rembrandt. Hann gleymdist þar til á þessari öld, að hann hefur verið uppgötvaður, en aðeins em til eftir hann 31 verk svo víst sé. Hrafnhildur Schram skrifar um endurfæðingu þessa málara. TÓMAS GUÐMUNDSSON Bodun Maríu Var leikið á sítar? Nei, vindurinn var það, sem rótt í viðinum söng og næturró minni sleit. Ég gat ekki sofið. Sál mín var dimm og heit, Sál mín var dimm og heit eins og austurienzk nótt. Ogégreiknaðiþangaðsem döggin úrdökkvanum hló og á drifhvítum runnum hið gljúpa mánaskin las. Og ég lagðist nakin í garðsins svalandi gras. Sem gimsteina á festi nóttin stundirnar dró. Svo nálgaðist sítarsöngurinn handan að, ogsenn varhann biðjandi rödd, sem viðeyrumérkvað. Var það svefninn, sem vafði mig draumi sínum? Og varþað biærinn, sem brjóst mín og arma strauk, og blærinn, sem mig í titrandi faðmi sér lauk, með sæluna, er lokaði lémagna augum mínum? B B Loksins dautt Einhvem veginn hélt maður að lokið væri þeirri deilu um „hefðbundið ljóð- form“, sem um skeið var iðkuð hér af mikilli íþrótt. Ætla mætti, að menn hefðu áttað sig á þeirri staðreynd, að hugtakið Ijóð hefur á liðnum áratugum fært út kvíam- ar, og fremur en áður haslað sér völl á sviði óbundins máls. Þó er þessi umræða enn að láta á sér kræla annað veifið á opinberum vettvangi. Og þá kerrtur í ljós, að furðu marg- ir líta svo á, að „hefðbundið ljóð“ sé umfram allt bundið við rím. Talið er að ljóðform sé í öndverðu sprottið upp af dansi. Þess vegna er háttbundið hljóð- fall það eina sem jafnan hefur skilið milli ljóðs og lausamáls. Þá er um að ræða ein- hver þau einkenni á hrynjandinni, sem unnt er að greina sem reglu, en geta að öðm leyti verið með ýmsu móti. Fleira var það nú ekki. Hitt er svo annað mál, að einatt er þessi „bragur" glöggvaður með ýmsu móti, og er þá kominn til skjalanna ýmislegur bragar- háttur, sem svo kallast. Það eina, sem frá upphafi hefur brýnt hrynjandina í íslenzkum brag, er reglubundin setning ljóðstafa. Síðar koma einnig til hendingar dróttkvæðanna, og loks endarím; en hvorugt hefur verið sjálf- sagður fýlgifískur hefðbundins bragforms, þó beitt hafi verið sem „bragskrauti" á ótal vegu, þegar þótt hefur henta og vel fara. Þegar hins vegar allri reglu í hrynjandi sleppir, er textinn ekki lengur það sem um aldir hefur kallazt ljóð, heldur lausamál; og má í því tilliti einu gilda hvort prentað er í belg og biðu eða í mislöngum línum (sem af öðrum ástæðum getur farið vel). í raun eru öll bragforms-einkenni hefð- bundins ljóðs helguð hrynjandinni. Þegar mest er við haft er þrenns konar hrynjandi samferða gegnum íslenzkt ljóð af því tagi: í fyrsta lagi sú sem markast af áherzlu- atkvæðum og hefur braglið að einingu; í öðru lagi sú sem markast af rímorðum, svo að einingin verður heil Ijóðlína; og loks sú tilbreytilega regla sem ræður skipan ljóð- stafa. Þama segir til sín sú listræna hvöt að koma þekkilegri skipan á óskapnað. í því skyni er beitt þeirri einu aðferð, sem málið sjálft leggur til: að endurtaka með reglu- bundnum hætti áherzlur og tiltekin málhljóð, því ekki er mannamál annað en ýmisleg end- urtekin hljóð með misþungum áherzlum. Þannig verður til það bragform, sem tíðkazt hefur og þróazt um víða veröld með ýmisleg- um íjölbreytileik öldum og árþúsundum sam- an. Ljóð sem ekki eru ort á hefðbundnu formi af neinu tagi, hafa stundum verið kölluð fríljóð, þó að einnig séu þau greind nokkru nánar. Þessi gerð ljóða hefur, sem kunnugt er, einkum rutt sér til rúms á liðnum áratug- um samfara ýmsum nýmælum í yrkisefnum og ljóðstíl, þótt lengra sé að rekja til upphafs- ins, enda réttilega kynnt sem „nútímaljóð". Nýlega heyrði ég því haldið fram opin- berlega af miklum sannfæringarkrafti, að hið hefðbundna ljóðform væri endanlega úr sögunni, og var kallað fagnaðarefni allgott. Þó að fullyrðingar af þessu tagi kunni að láta svolítið barnalega í eyrum, er þessi stað- hæfing ekki verr ættuð en svo, að hún hrökk af vörum Steins Steinars á góðri stund, sem frægt er orðið. Steinn lét margt fjúka, og ekki var alltaf á vísan að róa um það sem á bak við bjó. Og nokkuð skýtur það skökku við, að megnið af skáldskap Steins er ljóð á hefðbundnu bragformi, sem hann beitti af meiri snilld en flestir aðrir og því betur sem lengra leið á skamman feril hans. Auðvitað var þessum valdsmannslega boð- skap Steins tekið með fögnuði af öllum þeim sem þótti skáldgáfu sinni misboðið í hörðum flötrum hins hefðbundna bragforms. Síðan hefur ljóðaflokkur Steins, Tíminn og vatnið, einatt verið látinn innsigla þessa staðhæf- ingu, enda þótt víða í þeim bálki skarti hefð- bundið ljóðform sínu fegursta. Nú ætti engum að dyljast, að á íslertzku sem öðrum málum hefur margt verið ort afburða vel án hefðar í formi, og sumt af bestu nútíma-skáldum vorum hefur ýmist sjaldan eða aldrei gripið til hins hefðbundna forms. Dæmi þess eru nærtæk um þessar mundir. Hins vegar reynist ýmsum frelsið viðsjált; og þegar losnað hafði um strangar formkröf- ur og byltingargjörn tízka hafði auk þess kosið að létta af ljóðinu áþján rökvísrar hugs- unar, var ekki nema vonlegt að yfír dyndi sú flóðbylgja af ómerkilegu gaspri og hreinu rugli, sem um skeið hefur hótað að kaffæra bragartún Egils, Hallgríms og Jónasar, enda skákað i því skjóli, að samkvæmt eðli máls- ins yrði torvelt um gagnrýni, hvort heldur á efni eða form. Nokkuð er það athyglisvert, að ýmsir þeirra, sem á sínum tíma voru taldir til frum- kvöðla hins óbundna ljóðs í Evrópu, svo sem frönsku skáldin Baudelaire og Rimbaud, hafa lifað hvað beztu lífi í þeim ljóðum sem þeir ortu á algerlega hefðbundnu formi, þó að áhrif þeirra á form annarra skálda eigi sér að sjálfsögðu rætur í öðrum skáldskap og síst ómerkari. Þýzka skáldið Hölderlin, sem uppi var fyr- ir hálfri annarri öld, hefur stundum verið kallaður eins konar fyrirrennari nútíma-ljóð- listar bæði um efni og form. Víst var hann æði frumlegur í hugsun, reyndar stundum á mörkum heilbrigðrar skynsemi; en eftirlæt- is-bragform hans voru háklassískir bragar- hættir Forn-Grikkja, sem að vísu eru órímað- ir, en þó svo stranglega háttbundnir, að hvert einasta atkvæði er rígskorðað í sérkennilega hrynjandi, sem stundum getur að sönnu leynt nokkuð á sér. Það skáld, sem flestum fremur hefur talizt frömuður nútíma-ljóðlistar, T.S. Eliot, orti sem kunnugt er nokkuð af sínum merkustu ljóðum á lítt hefðbundnu formi; að minnsta kosti fór hann þá sínar eigin götur á leiðum hefðarinnar. En margt af frægustu ljóðum sínum orti hann á harðbundnum og ramm- lega rímuðum bragarháttum. Og þótt hann léti gamminn geysa um ótroðnar slóðir, þeg- . ar sá gállinn var á honum, vii-ðist hann ekki í vafa um það, að hið hefðbundna ljóðform muni víðs fjarri dauða sínum. Meðal annars, sem hann hefur ritað um vanda ljóðlistarinn- ar, segir hann: „Það skáld, sem unnið hefur enskri tungu mest til þarfa er Shakespeare... Leikrit eftir Shakespeare er margslungið tónverk; auðveldara er að ná tökum á formi sonnett- unnar, óðunnar, ballöðunnar, vílanellunnar, rondósins eða sestínunnar. Stundum er svo látið sem nútímaljóð hafi gert út af við form sem þessi. Ég hef orðið þess var að til þeirra sé horfíð að nýju; og ég er þess fullviss, að hvötin til að leita á fasta ogjafnvel kirfilega bragarhætti sé ævarandi... Einhver tiltekin form hæfa einni tungu betur en annarri... og betur einu tímaskeiði en öðru ... vand- legt form kemur einlægt aftur, þó lagt skuli til hliðar annað veifið... En mikil býsn af vondu lausamáli hafa verð sett saman í nafni hins frjálsa Ijóðs... Einungis vont skáld gæti fagnað frjálsu Ijóði sem lausn undan kröfum formsins.“ Hér er þess að gæta, auk venjulegs fyrir- vara um þýðingu, að þessi orð Eliots eru slit- in úr lengra samhengi en unnt er að endur- segja hér; þau standa í bók hans On Poetry and Poets, 30. og 31. bls. En engum þarf að koma á óvart, að slíkur formsnillingur sem Eliot var vel næmur fyrir töfrum hins bundna bragar og spáði honum sífelldri endurkomu. Það er trúa mín, að þrátt fyrir öll gönu- hlaup hafi skeið hins óbundna forms verið íslenzkri ljóðlist til ómetanlegar hollustu. Það hefur, hvað sem Eliot segir, gert skáldlegri hugsun hægara um vik að ná tökum á nýjum tíma. Hins vegar er óbundið ljóðform vita- skuld ekkert listrænt markmið í sjálfu sér, umfram það sem allt laust mál er ævinlega; og það kann að hafa lokið sögulegu megin- hlutverki sínu þegar þar kemur, að listræn hvöt til meiri festu í formi fer að kallast á við þá þjóðlegu þörf að treysta böndin við menningu genginna kynslóða. Raunar má nú þegar sjá þess merki, jafnt á íslandi sem erlendis, að hið trausta ljóðform, bundið gró- inni menningarhefð, fari að láta til sín taka. En hvað sem verður og ekki verður, mun íslenzk bókmenntasaga varðveita meðal ger- sema sinna hið bezta af því sem ort er á blómaskeiði hins óbundna ljóðs á síðari ára- tugum tuttugustu aldar. Helgi hálfdanarson LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 3. MARZ 1990 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.