Lesbók Morgunblaðsins - 29.08.1992, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 29.08.1992, Blaðsíða 10
Bréf til ungs skálds > Eg þakka yður fyrir snoturt bréf, Ijóðin yðar og sögurnar. Ég las þetta yfír af mikilli alúð og ótal glímur frá smíði minna fyrstu skáldverka vöknuðu upp úr dái gleymskunnar. Af bréfi yðar og kveðskap skín mikið sjálfstraust sem ég verð því miður að særa. Þér leggið fyrir mig nokkur ljóð og ýms- ar aðrar skáldatilraunir og biðjið mig að segja yður hvað mér fínnst um hæfileika yðar. Spurningin virðist einföld og að öllu leyti skaðlaus, sér í lagi vegna þess að þér biðjið ekki um flaður heldur sannleikann. Ég vildi ekkert frekar en svara þessari ein- földu spurningu með einföldu svari, þ.e.a.s. ef ég aðeins gæti það. Fyrir það fyrsta^ þá liggur „sannleikurinn" ekki á lausu. I annan stað tel ég það öldungis ómögulegt að álykta nokkuð um hæfíleika þess sem ég þekki alls ekkert af nokkrum sýnishom- um. Ég get séð á ljóðum yðar hvort þér hafíð lesið Nietzehe eða Baudelaire, hvort þér haldið upp á Liliencron eða Hof- mannstahl. Ég gæti eflaust líka sagt hvort ljóðin beri yður vitni um djúpstæðan skiln- ing á lífínu og listinni, án þess að það komi skáldahæfileikum yðar hið minnsta við. í besta falli (og það á aðeins við um ljóðin yðar) get ég reynt að sjá fyrir mér í gegn- um þann reynsluheim sem þér lýsið hvaða mann þér hafið að geyma. Meira get ég ekki sagt, en hver sá sem þykist geta lofað þína skáldlegu taug og borið þér vonir um mikinn frama á ritvellinum, á grundvelli þessara byijendaverka, er meira en lítið falskur ef ekki svikari. Það velkist enginn í vafa um að Goethe sé meiriháttar skáld eftir lestur á Fást. Á hinn bóginn væri satt best að segja enginn vandi að safna byijendaverkum eftir hann í dálítið hefti sem vitnaði ekki um annað en það, að hann hefði lesið Gellert og aðra fyrirrennara sína af mikilli nákvæmni og síðast en ekki síst að hann hefði næmt auga fyrir rími. í fyrstu handritum hinna mestu ljóðsnillinga þýskrar tungu skortir oft allan frumleik og ljóðin eru oft ómstríð eða bragðdauf. Til dæmis bregður fyrir í byijendaverkum Schillers furðulegum klisj- um og hreinni og klárri ósmekkvísi. Nei, það er ekki eins auðvelt og þér hald- ið að skera úr um hæfileika ungskálda. Þar sem ég þekki yður ekki, veit ég ekki á hvaða skeiði skáldaferils yðar þér eruð. Ljóðin sem þér sendið mér nú kunna yður að þykja broslega barnsleg að hálfu ári liðnu, einnig má ímynda sér að þér eigið eftir að gera stærstu mistökin um þrítugt. Það koma fram skáld um tvítugt sem yrkja undurfögur ljóð en síðan ekkert meir, rödd ljóðsins breytir ekki um tón. Sum skáld blómstra upp úr þrítugu og önnur um fer- tugt. Það er ekki til nein regla um það hvenær skáld ná hæstum tindum ljóðlistar- innar. Þér vitið varla .hvernig ljóð þér komið til með að yrkja að fimm árum liðnum. Það hljómaði líkt og fimm ára gamall snáði vildi telja mér trú um að fímmtán ára gamall yrði hann „einn-níutíuogtveir“ á hæð. Mér þótti vænt um að þér leggið ei gjör- valla framtíð yðar sem skáld á mínar herð- ar, eins og svo margir af yðar ágætu skálda- bræðrum gera. Þeir skrifa einhveijum virt- um rithöfundum og biðja þa um að segja sér hvort þeim beri að halda áfram að skrifa eður ei. Þeir gera sér ekki grein fyrir þeirri gífurlegu ábyrgð sem felst í slíkri spurn- ingu. Segjum sem svo að okkur yrðu á ein- hver mistök gætum við þurft að iðrast þess að þýsk bókmenntasaga væri einhveijum Niflungaljóðum eða Fásti fátækari, og það mætti ekki leggja á samvisku nokkurs manns. Með þessum orðum gæti ég lokið þessu bréfi. Þér báðuð mig um dálítinn greiða sem ég get því miður ekki veitt yður vegna þess að ósk yðar stendur ekki í mínu valdi. Þó get ég varla fírrt mig allri ábyrgð, yður er engin þægð í því og allt eins í lófa lagt að skilja slíka afstöðu sem fínlega hártogun á algerri höfnun. Leyfið mér því að eiga við yður nokkur orð í einlægni. Hvort þér komist í röð hinna mikilsvirtu skálda eftir fimm ár eða tíu, veit ég ekki. Hvort þér komist þangað á annað b’orð, veltur allavega ekki á þeim Ijóðum sem þér skrifíð nú! Að lokum þetta: Viljið þér endilega verða skáld? Margt ungt og gáfað fólk sér „skáld- ið“ fyrir sér í einhverri glæstri mynd. Sú mynd sýnir snjalla mannveru, hjartahreina og viðkvæma, heiðarlega, réttsýna og ein- staklega tilfinninganæma. Nú, við gætum öll borið þessar dyggðir, án þess að vera skáld; og það er betra að hafa þessar dyggð- ir að bera í yðar stöðu og almennt séð, en óljósan grun um hæfileika á bókmennta- sviðinu. Sá sem gerist skáld, í þeirri von að öðlast frægð og frama, væri betur sett- ur sem leikari. Þótt þér hafið hingað til haft löngun til að yrkja, þá er það yður hvorki til lofs né lasts. Það að draga saman reynslu yðar og meitla þá hugsun í knappt ljóðform gæti ég best trúað að gerði yður og þeim dýr- mæta áfanga að móta heilsteypta sýn á veruleikann, ekkert nema gott. Ljóðið getur líka skemmt fyrir yður, og það skaðar þar sem ekki er vandað til þess, þegar ljóðinu er ekki gefið andrúm til að fæðast hægt og átakalaust heldur gefín út jafnóðan og einhveijar línur eru komnar á blað. Að svo miklu leyti sem yður finnst skrift- imar hjálpa yður við að skýra stöðu yðar í heiminum og heiminn í eilífðinni, að svo miklu leyti sem þér sækið gildi lífsins í ljóð- ið og aukið visku yðar, þá skuluð þér fyrir alla muni halda yður að skriftunum. Hvort sem þér verðið fyrir vikið „skáld“ eða ekki, þá mun alla vega heilladrýgri, vökulli og bjartari maður fylgja þér um í heiminum. Ég sendi yður mínar bestu kveðjur, H.H. HERMANN HESSE (1877-1962) Árið 1920 ritaði T.S. Eliot bréf til Her- manns Hesse og vottaði honum virðingu sína fyrir greinasafnið Blick ins Chaos, þar skrifar Eliot: „í bók yðar Blick ins Chaos (útg. 1920) greini ég áhyggjur yfir alvarleg- um vandamálum sem hafa ekki enn á Eng- land dunið og ég vildi gjarnan auka hróður bókarinnar.“ Eliot stóð við orð sín og i V. hluta Eyðilandsins vísar hann í bókina, í skýringum sínum við ljóðið. Þessi tilvitnun bar ekki árangur. Greinum hans gáfu fáir gaum af einhveiju viti og án efa hafa þær fallið í skuggann af hinum miklu og fræknu skáldverkum Hesse: Rosshalde (1914), Demien (1919), Siddharta (1922), Der Step- penwolf (1927), Narziss und Goldmund (1930) svo nokkur séu nefnd. Árið 1946 hlaut Hesse bókmenntaverðlaun Nóbels, ekki síst fyrir síðasta og umfangsmesta verk sitt, Das Glasperlenspiel (1943). Hesse var án efa mikill sagnameistari, engu að síður var hann frábær greinahöf- undur, skarpur og athugull eins og Eliot vitnar um í ofangreindu bréfi. I seinni tíð hafa menn lagt sig fram við að safna þess- um greinum saman og gefið út í heild. Það var í einu slíku heildarsafni sem ég rakst á þessa grein um ungskáldið og þótti óm- aksins vert að snúa henni yfir á íslensku. Það er ámóta lítil fyrirhöfn að snúa ýmsu öðru yfir á íslensku; höfundarnir sem Hesse vísar til gætu þess vegna verið þeir Jónas Hallgrímsson, Jón Helgason, Kristján Karlsson eða Hannes Pétursson. Bréfíð gæti þess vegna hafa verið skrifað í Reykja- vík í gær, handa ungu skáldi á Islandi sem velkist í vafa um hvort hann eða hún gæti orðið mikið skáld. Þýð. Sæmundur Norðfjörð KRISTÍN BJARNADÓTTIR IMóttin er sæt Ég ætla að opna hliðin sem dagarnir loka. Gæla við gaddavírsstrengi. Syngja í sundur járngrindur. Láta nóttina setjast að svo tíminn verði mátulega víður. Beltislaus, felldur undir berustykki og allir kantar bryddaðir. Þannig búinn þarf hann ekki að fiýta sér að líða bak við fjöll. Þannig búinn getur hann verið nótt og verið morgunn þegar hann kemur... Nóttin er launétið brauð. II Og laundóttir Sólguðsins er að halda sér til fyrir vindinum að vestan. Hún er að hugsa um hestana. Ætlar að ná syni hans. Og laundóttir Sólguðsins ætlar að feta í spor bróður síns sem í unglingslegu óðagoti glopraði sólinni niður og bjó til eyðimörk. Ég hef séð hana greiða hár sitt þar sem kvöldið er rauðast. Ég hef séð hana um nætur í bjarma luktarinnar sem lýsti upp andlit elskhuga minna. Ég hef aldrei heyrt hennar getið. En ég hef séð hana. Og ef grunur minn er spádómur spennir hún vitlausan hest fyrir mikla ábyrgð. Fyrir sólina. III Veit hun ekki að synir vestanvindsins eru viðkvæmir og fljótir til að fælast. Veit hún ekki að augu þeirra óttast austrið. Veit hún ekki að gljáandi lendar þeirra sviðna við suðrið. Að þeir kunna þá list að krjúpa á kné en eiga það til að slá. Að þeir fara ekki forvindis en vita sína átt og hlýða henni einni. Þeir eru báðir beislislausir og hóffjaðrirnar flognar fyrir löngu. * $ Veit hún ekki að folinn er bundinn. Tyggur mélin. Forboðinn. Ljúfur. Ljóðin eru úr óbirtum Ijóðaflokki. Höfundur er skáld og leikkona og býr í Gautaborg. UNNUR SÓLRÚN BRAGADÓTTIR Lótusblómið mitt Nisansala situr undir mangótré hún er þreytt það var erfiður dagur á akrinum öslandi leðju að hnjám blóðsugurnar boruðu sig inn í kálfa hennar hún kroppar í sárin smyr fætur sínar kókosolíu stynur hún strýkur stóran magann skynjar hreyfingar skyldi hún geta haldið þessii eða yrði hún að gefa það eins og hin þijú hvar skyldi litla Nishanthi vera niðurkomin hún með stóru augun og bjarta brosið hún er hjá mér Nisansala hún er hjá mér á íslandi Htið lótusblóm og ég elska hana út af lífinu. Höfundur er húsmóðir og móðir í Reykjavík og hefur gefið út 2 Ijóðabækur. 10

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.