Morgunblaðið - 02.07.2002, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 02.07.2002, Blaðsíða 38
MINNINGAR 38 ÞRIÐJUDAGUR 2. JÚLÍ 2002 MORGUNBLAÐIÐ ✝ Valdís Halldórs-dóttir fæddist í Fljótstungu í Hvítár- síðu 27. maí 1908. Foreldrar hennar voru Vigdís Valgerð- ur Jónsdóttir frá Fljótstungu, f. 26. sept.1880, d. 24. okt. 1938, og Halldór Helgason, skáld og bóndi á Ásbjarnar- stöðum, f. 19. sept. 1874, d. 7. maí 1961. Valdís giftist 2. febr- úar 1935 séra Gunn- ari Benediktssyni, rithöfundi og kennara, frá Við- borði í Austur-Skaftafellssýslu, f. 9. okt. 1892, d. 26. ágúst 1981. Hann var sonur Benedikts Krist- jánssonar, bónda á Viðborði og síðar Einholti, og konu hans, Álf- heiðar Sigurðardóttur. Valdís og Gunnar eiga tvö börn: 1) Heiðdís, leikskólafulltrúi í Árborg, f. 5. febr.1943, gift Árna Óskarssyni, starfsmanni Landsbankans á Sel- fossi, f. 10. júlí 1939. Börn þeirra eru: a) Elísabet, hjúkrunarfræð- ingur, f. 17. mars 1964. Dóttir hennar og Jan Poulsen, f. 7. jan. 1964, er Erna Jansdóttir f. 9. nóv. 1988. b) Gunnar, magnaravörður, f. 5. jan. 1966, kvæntur Önnu Lóu Sigurjónsdóttur, rekstrarstjóra. Dætur þeirra eru Heiðdís, f. 7. nóv. 1990, og Íris, f. 8. apríl 1997. 2) Halldór, formaður Landssam- takanna Þroskahjálpar, f. 18. júní 1950, kvæntur Jarþrúði Þórhalls- dóttur, sjúkraþjálfara, f. 21. apríl 1955. Börn þeirra eru, andvana fætt sveinbarn 14. ágúst 1978, Þórhall- ur, f. 23. júlí 1980, Gunndís, f. 25. maí 1983, og Hafsteinn Helgi, f. 4. mars 1987. Dóttir Hall- dórs með Rut Sum- arliðadóttur er Val- dís, f. 10. ágúst 1976. Börn hennar eru: Hróar Þór Ægisson, f. 3. nóv. 1993, d. 28. jan. 1994, Esther Björg Ragnarsdótt- ir, f. 7. ágúst 1995, Embla Nótt Ander- son, f. 25. júlí 1997, og Elka Rut Kolbeins, f. 20. ágúst 2001. Sam- býlismaður Valdísar er Halldór Kolbeins og eru þau búsett á Pat- reksfirði. Valdís ólst upp hjá foreldrum sínum á Ásbjarnarstöðum. Hún stundaði nám í unglingaskóla Ás- gríms Magnússonar í Reykjavík 1925-1926 og lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum 1930. Hún kenndi eitt ár í Borgarhreppi, var kennari á Eyrarbakka 1931-1942 og síðan við Barna- og miðskólann í Hveragerði 1945-1948 og frá 1956-1973. Þau hjónin Gunnar og Valdís bjuggu lengst í Hveragerði en fluttu til Reykjavíkur er þau voru bæði hætt kennslu. Gunnar lést 1981. Valdís sat í skólanefnd Ölfusskólahéraðs frá 1948-1954. Síðustu árin bjó Valdís í Skóg- arbæ, Árskógum 2, Reykjavík. Valdís verður jarðsungin frá Fossvogskirkju í dag og hefst at- höfnin klukkan 13.30. Ég og tengdamóðir mín kynnt- umst fyrir 25 árum, ég var í námi og hún var nýlega hætt í starfi sínu sem kennari. Fljótlega var ég orðin eins og eitt af börnunum hennar og orðin aðnjótandi þeirrar miklu um- hyggju og hlýju sem hún bar til sinna nánustu. Í byrjun vissi ég ekki alveg hvernig ég ætti að taka svo mikilli umhyggjusemi, var orðin 22, löngu farin að heiman, búin að læra að klæða mig eftir veðri og fannst ég bara nokkuð sjálfstæð. Við nán- ari kynni fann ég að um einlæga um- hyggju var að ræða, ekki afskipta- semi eða vantraust. Ég lærði líka að meta það að alltaf væri einhver til taks til að hlúa að mér og spyrja hvernig mér liði, hvort ég væri ekki svöng, hvernig próflesturinn gengi og hvort ég væri ekki þreytt. Þegar börnin fæddust fengu þau aðgang að sömu umhyggjuseminni, fóru undir stóra vænginn og við foreldr- arnir fengum aðstoð við uppeldið. Amma Valdís, eins og hún var alltaf kölluð eftir að barnabörnin fæddust, hafði þannig stórt hlutverk í fjöl- skyldu okkar og til hennar var farið til að fá andlega og líkamlega að- hlynningu og hún brást aldrei. Valdís var einstaklega hæfileika- rík kona, hún var listræn í eðli sínu, skáldmælt, greind og fyrir okkur sem vorum svo lánsöm að eiga hana að var hún eins og gangandi alfræði- orðabók, einkum þó hvað varðaði bókmenntir. Gömlu íslensku ljóð- skáldin og persónur úr Íslendinga- sögunum voru heimilisvinir. Hún hafði einstaka frásagnargáfu, hún sagði þannig frá að það var eins og maður sæi atburðina gerast og hún bjó til sögur fyrir börnin, sem gleymdu um leið öllu leiðinlegu. Valdís var menntaður kennari en hún var líka kennari af guðs náð og samvera með henni gat allt eins snúist upp í kennslustund og alltaf fór maður fróðari og ríkari en áður af hennar fundi. Valdís var í mörgu langt á undan sinni samtíð, í hugsun og gerðum. Hún var kvenréttinda- kona og gaf út á fimmta áratugnum, ásamt tveimur öðrum konum bók- menntatímarit sem birti eingöngu efni eftir konur og umfjöllun um það. Í kennsluháttum var hún einnig á undan sinni samtíð. Valdís hafði einstakt lag á börnum, hún talaði við börn, ekki til þeirra og aldrei niður til þeirra, þau voru ekki aukahlutir sem fylgdu bara með fullorðna fólk- inu og hún var næm á líðan þeirra. Eðli málsins samkvæmt fékk elsti sonur okkar lengst af okkar börnum að njóta samvista við ömmu sína og samband þeirra var einstakt og ómetanlegt veganesti fyrir hann út í lífið. Dóttir okkar sem er með ein- hverfu tengdist ömmu sinni einnig mikið og var samband þeirra ein- staklega fallegt og fullt af kímni og gleði. Síðustu árin lét þeim báðum best að tjá sig í söng, þar voru báðar á heimavelli. Yngsti sonur okkar átti sömuleiðis yndislegar stundir með ömmu sinni og naut hennar um- hyggju eins og aðrir fjölskyldumeð- limir. Valdís sagði mér eitt sinn að Gunnar maðurinn hennar hefði tal- að um að hún hefði svo góða „heild- argáfu“ og að það nýttist henni svo vel í kennslunni. Þessi eiginleiki að sjá hlutina í víðu samhengi og hafa heildarsýn var einmitt einn af henn- ar sterku persónueiginleikum. Samband tengdaforeldra minna var afskaplega fallegt, þau voru samhent hjón og báru djúpa virð- ingu hvort fyrir öðru. Heimili þeirra var mikið menningarheimili og þar var hlýja og manngæska í fyrirrúmi. Því miður fékk ég aðeins að njóta samvista við tengdaföður minn í rúm 3 ár en um hann á ég afar góðar minningar. Valdís var algjörlega laus við að vera þjökuð af lífsgæðakapphlaup- inu eða upptekin af veraldlegum gæðum, hún hafði heldur engan áhuga á því að tala mikið um annað fólk eða hneykslast á lífsháttum þess. Hins vegar ef einhverjir lentu utan vegar eða áttu bágt af öðrum sökum áttu þeir skilning hennar og samkennd vísa. Það var þó eitt sem hún þoldi illa í fari fólks en það var þegar menntað fólk talaði eða skrif- aði ekki rétta íslensku. Valdís hafði ríka kímnigáfu og átti sá eiginleiki eftir að koma sér vel í þeim veikindum sem hún átti við að stríða síðustu árin en hún fékk heilablóðfall 1996 og náði ekki fullri heilsu eftir það. Í veikindunum kom fram sá sterki baráttuvilji sem hún bjó yfir og sá eiginleiki að sjá sam- hengi hlutanna, finna leiðir til úr- bóta og hún hélt sinni reisn. Eftir áfallið átti hún oft erfitt með að finna orðin sem hún vildi segja. En Valdís gafst ekki upp og við tók end- urhæfing bæði andleg og líkamleg. Valdís fann upp sínar eigin aðferðir til að þjálfa hugann og náði hún ótrúlegum framförum, einkum eftir að hún komst á Hjúkrunarheimilið í Skógarbæ, þar sem hún naut örygg- is og góðrar umönnunar. Þar kynnt- ist hún mörgu góðu fólki sem kunni að meta þann persónuleika sem hún hafði að geyma. Tilsvörin hennar ömmu Valdísar eru mörg ógleym- anleg og hafa skemmt afkomendum hennar svo og öðrum sem umgeng- ust hana. Og mikið var sungið og hlegið með ömmu. Síðustu árin hefur Valdís oft verið hætt komin en alltaf reis hún upp aftur, þrátt fyrir að tölfræði lækna- vísindanna benti til annars. Valdís kallaði það „að ganga aftur“. Valdís náði að eiga innihaldsríkt líf síðustu árin þrátt fyrir veikindi sín og alltaf var umhyggjan og hlýjan sú sama, ennþá var hún að miðla og gefa og lífið fékk alltaf nýja og dýpri merk- ingu eftir samvistir við hana. Valdís veiktist alvarlega í mars sl. og náði ekki aftur fyrri færni. Hún gat ekki lengur notið þess að lesa ljóð, ekki einu sinni Grettisljóð Matthíasar Jochumssonar, sem höfðu stytt henni stundir síðustu misserin. Og hún var nánast hætt að syngja. Brageyrað var þó ennþá til staðar því viku áður en hún dó kom- um við Halldór til hennar og fórum með nýlega vísu eftir Gunnu systur hennar, sem hún kunni auðsjáan- lega vel að meta, það varð síðasta skiptið sem við gátum rætt saman. Hún dó 17. júní og það var sama reisn yfir henni í dauðanum og hafði einkennt hana allt hennar líf. Ég er óumræðilega þakklát fyrir það að hafa átt slíka tengdamóður sem Valdís var og fyrir allt það sem hún var mér og fjölskyldunni. Hún var raunar ekki bara tengdamóðir mín og amma barnanna minna, hún var besta vinkona mín. Jarþrúður Þórhallsdóttir. Valdís lést rétt fyrir 12 á mið- nætti 17. júní, 94 ára að aldri. Úr því að komið var að leiðarlok- um hjá henni Valdísi frænku minni fannst okkur Heiðdísi dóttur hennar vel til fundið hjá forsjóninni að velja henni dánardægur á sjálfan sautjánda júní. Valdís og Gunnar voru hvort öðru íslenskara. Allt ís- lenskt var þeim hjartfólgið, örugg- lega ekki síst þjóðhátíðardagurinn okkar. Ástæðan fyrir því að ég reyni að kveðja Valdísi með fáum og fátæk- legum orðum er sú, að fáum á ég meira að þakka. Þau mætu hjón, hún og Gunnar, voru einhverjir mestu velgerðarmenn mínir og vin- ir. Þegar við systur, Gyða og ég, vorum unglingar buðu þau okkur dvöl hjá sér í heilan vetur, veturinn 1946-1947. Ekki nóg með það heldur buðu þau einnig til sín systurdóttur Gunnars, Sigríði Einarsdóttur, sama veturinn. Þarna dvöldum við allar þrjár við gott atlæti og í fullu fæði – bæði andlegu og veraldlegu. Þau hjón kenndu bæði við Miðskól- ann í Hveragerði. Gunnar og séra Helgi Sveinsson voru þar aðalkenn- arar til landsprófs í bóklegum grein- um og þeir létu sig ekki muna um að koma okkur öllum yfir þann erfiða hjalla á einum vetri, þó að það væri venjulega þriggja ára nám. Gunnar var í einu orði sagt frábær kennari, sannarlega kennari af Guðs náð, og áhugi hans á viðfangsefnunum var svo bráðsmitandi að hann kveikti í ólíklegasta fólki. Þessi eini vetur var til dæmis eina tímabilið á ævi minni, sem mér fannst gaman að stærð- fræði, nánar tiltekið algebru. Hann var líka að öðrum ólöstuðum besti íslensku- og bókmenntakennari minn. Síðar meir átti ég þó eftir að kynnast mörgum góðum eintökum af þeirri tegund til samanburðar. Smátt og smátt buðu þau fleiri unglingsstúlkum til sín á sama hátt, m.a. Sigrúnu systur okkar. Við sáum best eftir á hvað þessi góðu og elskulegu hjón sýndu okkur ótrú- lega alúð og höfðingslund. Við kunn- um alltaf betur og betur að meta það eftir því sem lengra líður, enda skiljum við sem lífsreyndar hús- mæður hvað þau lögðu á sig fyrir okkur. Þarna voru opnaðar fyrir okkur dyr að framhaldsnámi, sem við nýtt- um síðan hver á sinn hátt. Öllum, sem þau hjón umgengust, komu þau til nokkurs þroska. Ég segi fyrir mitt leyti að þetta varð mér dýr- mætt, breytti mínu lífi og gaf því pínulítið innihald. Enn þann dag í dag nýt ég til dæmis ávaxta af því námi, sem þau leiddu mig út í. Ég nota þann grunn mér til dundurs á efri árum, svo að mér þarf ekki að leiðast þó að ég eigi að vera komin úr umferð á vinnumarkaði. Án þessa og þess náms, sem ég stundaði á Laugarvatni í framhaldi af því, hefði ég heldur aldrei lagt út í ferðaþjón- ustu, sem ég stundaði síðan sem aukabúgrein í 30 ár mér til gagns og gleði. Við, sem nutum umhyggju og vináttu Valdísar og Gunnars erum öll ríkari fyrir bragðið, ekki endi- lega fjárhagslega, heldur erum við ríkari að trú á hið góða í manneskj- unum og það skiptir mestu máli. Þegar við komum úr jólaleyfinu þennan vetur lét Valdís blessunin sig ekki muna um að fagna okkur með dýrlegri jólaveislu, þó að komið væri fram yfir nýjár. Hún var eins og önnur móðir okkar jafnframt því að vera vinkona og einskonar eldri systir okkar, enda var skyldleikinn náinn og ættarböndin sterk. Við vorum systkinabörn, hún og við Fljótstungukrakkarnir. Valdís hneigðist til skrifta eins og margt af hennar fólki. Þær systur, Guðrún á Ásbjarnarstöðum sem átti níræðisafmæli 1. júní og hún, voru meðal þeirra allra bestu í bókinni Og þá rigndi blómum, sem hýsir frumsamið efni eftir 142 borgfirskar konur. Ég var svo lánsöm að vera beðin að safna efni í þá bók fyrir Samband borgfirskra kvenna árið 1991. Það var afar skemmtilegt og spennandi viðfangsefni. Þar er líka Guðrún Halldórsdóttir eldri, amma þeirra systra, og Guðrún Jónsdóttir skáldsagnahöfundur, bróðurdóttir Halldórs föður Valdísar. Faðir hennar, Halldór Helgason, gaf út tvær ljóðabækur, Uppsprettur og Stolnar stundir. Glíma Ásbjarnar- staðafólks við orðlistina og sigrar á þeim vettvangi virðist hafa smitað út frá sér á næstu bæjum. Í bókinni Og þá rigndi blómum eru auk allra kvennanna, sem tengjast Ásbjarn- arstöðum þrjár konur frá Sleggju- læk og ein frá Selhaga. Karlarnir þarna á bæjunum sluppu ekki heldur við þennan ágæta faraldur eins og sjá má í Borgfirðingaljóðum, sem út komu einmitt um sama leyti. Valdís var reyndar ein af frum- herjunum á því sviði að gefa út efni eftir konur. Hún ásamt Karólínu Einarsdóttur (Líbu) frá Miðdal og Valborgu Bentsdóttur gáfu út bók- menntatímaritið Emblu, sem birti eingöngu efni eftir konur; sögur og ljóð auk ritgerða um skáldskap kvenna. Það kom út á árunum 1945– 1948 og var hið uppbyggilegasta rit. Valdís frumsamdi töluvert, bæði sögur og ljóð. Eftir miðjan aldur þýddi hún líka heilmikið, smásögur og skáldsögur eftir norræna höf- unda og las sumt af því í útvarpi. Hjá Valdísi og Gunnari var ekki bara ljúft og yndislegt að vera. Þar var einnig og ekki síður mjög gaman að vera. Húsráðendur voru alls staðar heima, höfðu lifandi áhuga á öllu, sem jákvætt var í mannlífinu, og ríka kímnigáfu. Ég geri mér ljóst að í minningum mínum verða þau hjónin vart aðskilin og þess vegna fjalla þessar línur einnig dálítið um hann enda skulda ég honum það þótt seint sé og langt sé um liðið síð- an hann féll frá. Blessuð sé minning þeirra beggja og hafi þau hjartans þökk fyrir allt og allt. Ég vil enda þessar línur á ljóð- broti eftir Guðmund Böðvarsson á Kirkjubóli, sjöttu og síðustu vísu ættjarðarljóðsins Með vinarkveðju: Uppi stend ég ósnjall maður – engin ræða er lík þeirri, er feðrafold og mæðra flytur sögurík, sú, er rótt við ruggur smáar raular friðarlag, sú, er einnig ann oss hvílu eftir liðinn dag. Ingibjörg Bergþórsdóttir. VALDÍS HALLDÓRSDÓTTIR  Fleiri minningargreinar um Val- dísi Halldórsdóttur bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. 7 1   +8< ,<  8-**  # 1       8  01    '    4$6 " 0$  ( %   .     46 @ .  1A B=   $ /    1   9      :   $ $$  ' %/   ) '  <   '   3% !  $  ( 7          )+,9 C  8-** 0 1 / 1&0 % 1   =>        6   6 " 0 6 " 7  $  - #1 6 " 0 1$   $  5 '1 6 " 0 "&' "  $  "& &' (
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.