Morgunblaðið - 10.12.2002, Blaðsíða 42

Morgunblaðið - 10.12.2002, Blaðsíða 42
42 C ÞRIÐJUDAGUR 10. DESEMBER 2002 MORGUNBLAÐIÐHeimiliFasteignir Í febrúarmánuði árið 1875 fékk Þorsteinn Guðmundsson út- mælda lóð við Þingholtsstræti. Lóðin var sunnan við lóð Helga Helgasonar, trésmiðs og tón- skálds. Á lóðinni byggði Þorsteinn sér bindingshús sem enn stendur og nýtur friðunar í B-flokki. Talið er að nágranni hans, Helgi, hafi byggt húsið. Árið 1880 kaupir Þorsteinn lóðarspildu sunnan við lóð sína, tíu álna breiða. Árið 1881 lengir hann húsið til norðurs um sex álnir og tveimur árum síðar byggir hann geymsluskúr, að grunnfleti 6 x 9 áln- ir, við suðurenda hússins. Einlyft hús með kjallara og risi Í brunavirðingum fyrir 1900 er húsinu lýst á eftirfarandi hátt.: Ein- lyft hús með kjallara og risi, byggt úr múruðum bindingi, klætt utan með borðum og járni á veggjum og þaki. Í binding er múrað með múr- steini. Á útveggjum er pappi á blind- veggjum. Flestir skilveggir í húsinu eru úr tvöföldum þiljum, en lang- veggur er úr einföldum plægðum borðum. Loftbitar eru klæddir með borðum. Á aðalhæðinni eru fjögur íbúðar- herbergi, eldhús, búr og gangur. Herbergin eru ýmist veggfóðruð eða máluð. Í þaklyfti eru tvö íbúðar- herbergi og framloft sem allt er þilj- að og málað. Geymslukjallari er undir 1⁄3 hluta hússins. Inngönguskúr er við aust- urhlið hússins, byggður eins og það. Við suðurhliðina er geymsluskúr, 2,4 m x 5,7 m að grunnfleti. Hann er byggður úr bindingi, klæddur að ut- an með borðum og járni á veggjum og þaki. Í honum eru tvö geymslu- herbergi og timburgólf. Í virðingunni kemur ekki fram að skúrinn var aðallega byggður fyrir eldiviðargeymslu. Í einu horni hans var kolagryfja og stía fyrir mó. Í hinu herberginu var taurulla og seg- ir Jórunn Ragna Blandon, barna- barn Þorsteins Guðmundssonar, að hún muni vel eftir þegar farið var með þvottinn af útisnúrunni og hann settur í rulluna í skúrnum. Samkvæmt íbúaskrá frá árinu 1876 búa í húsinu: Þorsteinn Guð- mundsson tómthúsmaður, 29 ára, Kristín Gestsdóttir, kona hans, 25 ára, Kristín Jónsdóttir hjú, 40 ára, Guðmundur Sigurðsson hjú, 25 ára og Ragnheiður Runólfsdóttir saumakona, 30 ára. Frumkvöðull í verkun á fiski Þorsteinn Guðmundsson var fæddur 7. júní 1847 á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd. Hann var einn af helstu frumkvöðlum í íslensku þjóðfélagi í meðferð á fiski, verkun og geymslu. Þorsteinn var fyrsti yf- irfiskimatsmaður hér á landi, skip- aður í embættið 1904. Hann ferðað- ist til Ítalíu og Spánar til að kynna sér þarfir og kröfur kaupenda þar varðandi sölu á fiski þangað. Síðar urðu þessi lönd ein af helstu viðskiptalöndum Íslands í saltfisk- sölu. Þegar Þorsteinn fór til Spánar og Ítalíu hafði Noregur sterk við- skiptabönd við þessi lönd í saltfisk- sölu. Það hefur því verið sérstakt þrekvirki hjá Þorsteini að ná að mynda viðskiptasambönd á þessum stöðum. Seinna ferðaðist hann um Ísland á þá staði sem stunduðu útgerð og fiskverkun. Þorsteinn brýndi fyrir landsmönnum að fara vel með hrá- efnið og kenndi fiskverkendum að flokka fiskinn áður en hann var sendur á Suðurlandamarkað. Áður en Þorsteinn varð yfirfiskmatsmað- ur var hann pakkhúsmaður hjá Tomsensmagasíni. Hann var einnig flokksstjóri hjá slökkviliðinu. Þorsteini er lýst sem hávöxnum, sviphreinum og réttlátum manni. Bræður hans voru: Björn Guð- mundsson, múrari og kolakaupmað- ur og Hafliði Guðmundsson sem var allt í öllu á Siglufirði. Norðmenn létu gera styttu af Hafliða og gáfu Sigl- firðingum. Systir þeirra bræðra var Jórunn Guðmundsdóttir, þekkt kaupkona í Reykjavík. Jórunn fór til Danmerkur og lærði þar bæði fatasaum og útsaum. Eftir heimkomuna lagði hún stund á að kenna ungum stúlkum sauma- skap. Um margra ára skeið rak Jór- unn verslun, fyrst í Skólastræti 1 og síðan á Laugavegi. Hún giftist ekki og bjó í húsinu með Þorsteini bróður sínum og Kristínu mágkonu sinni. Kona Þorsteins Guðmundssonar var Kristín Gestsdóttir frá Hauks- stöðum á Álftanesi. Þau eignuðust eina dóttur, Ragnheiði, og þrjá syni: Guðmund lækni, sem lengi var hér- aðslæknir í Hróastunguhéraði, með aðsetur á Bakkagerði í Borgarfirði eystra, Sigurð sem vann hjá Jes Ziemsen alla tíð og Ragnar, sem var við verslun en lést ungur. Þorkell Blandon, eiginmaður Ragnheiðar Þorsteinsdóttur, var frá Fremstagili í Langadal. Hann nam lögfræði við Kaupmannahafnarhá- skóla og var cand. juris frá Háskóla Íslands 1920. Ragnheiður og Þorkell bjuggu í húsinu en Þorkell missti heilsuna og var langdvölum á sjúkrahúsum. Börn þeirra voru Þor- steinn Blandon og Jórunn Ragna Blandon. Ragnheiður bjó í húsinu fram til 1965 en þá gat hún ekki lengur verið ein. En henni þótti vænt um húsið sitt og fór á hverjum degi til þess að líta eftir því. Heimili merkra manna Margir merkir menn hafa átt heima á Þingholtsstræti 13 og má af þeim nefna: Inga T. Lárusson tón- skáld og Einar Jónsson myndhöggv- ara. Eftir að börn Ragnheiðar og Þor- kels, Þorsteinn og Jórunn Ragna, giftust og fluttu að heiman, leigði Ragnheiður út eitt herbergi sem Þorkell hafði notað fyrir skrifstofu. Það var aldrei lögð hitaveita í hús- ið á meðan afkomendur Þorsteins og Kristínar áttu það. Jórunn Ragna Blandon segir að það hafi alltaf verið hlýtt í því. Tveir stórir kolaofnar voru á hæðinni og um þá var vel hugsað. Á þá var borin ofnasverta svo að þeir voru gljáandi svartir. Uppi var lítill ofn. Á stofunni var gólfdúkur sem alltaf var lakkaður fyrir jólin. Á veggjum stofunnar var munstrað betrekk frá brjóstþili að loftlistum. Á stofuborðinu var þykk- ur rauður dúkur og ofan á honum ljósadúkur eins og venja var á betri heimilum. Útsaumaðar myndir prýddu veggina. Ragnheiður Þorsteinsdóttir fékk píanó þegar hún var 12 ára gömul – af gerð Pfeiffer Berlin. Píanóið stóð í stofunni og var af því mikil prýði auk þess sem húsmóðirin spilaði listavel á það. Einhvern tíma á ferlinum voru tvö herbergi á hæðinni sameinuð og gerð ein góð stofa. Á sjöunda áratugnum verður Reykjavíkurborg eigandi hússins. Á meðan húsið var í eigu borgarinnar var það ekki hitað upp og lítið um það hirt. Vatn komst í kjallarann sem var með timburgólfi og notaður fyrir búr og geymslur. Talið er að bilun hafi orðið í frárennsli húss eins sem stóð nokkru ofar í Þingholtun- um. Húsinu bjargað Árið 1976 kaupir Þuríður Berg- mann húsið af Reykjavíkurborg. Ekki hafði verið búið í því í meira en hálfan áratug en utangarðsfólk hafði hreiðrað um sig þar. Fyrsta árið hafði Þuríður ekki fjárhagslegt bol- magn til þess að skipta um járn- klæðningu á húsinu en árið eftir var skipt um bárujárn bæði á þaki og veggjum. Allan gluggaumbúnað og skraut varð að endurnýja. Gluggarnir voru hnoðkíttaðir upp og málaðir. Sumir þeirra voru það illa farnir að smíða þurfti nýja en þeir eru gerðir ná- kvæmlega eins og upphaflegir gluggar hússins. Vegleg brjóstþil prýða stofurna en þau eru upphafleg og Þuríður hefur gert við þau af mikilli natni. Upphaflegt spjaldaloft er í eld- húsinu sem áður var skrifstofa Þor- kels Blandons lögfræðings. Loftin voru illa farin vegna þess að á meðan Reykjavíkurborg átti húsið var það ekki hitað upp og eins og áður segir hafði komist vatn í kjallarann og myndast mikill saggi í húsinu. Gisn- að hafði á milli spjaldanna og var mikið þolinmæðisverk hjá Þuríði að kítta í allar glufur en viðgerðin hefur tekist mjög vel. Loft í stofu og svefnherbergi eru með stórum bitum sem þiljað er í kringum. Verklegir loft- og gólflist- ar eru í stofum og herbergi sem flestir eru upphaflegir. Nýtt gólf var sett á alla hæðina og á gólfin valin borð sem fara húsinu vel. Eldhúsið var áður í austanverðu húsinu en það var gert að baði og aðstöðu til þvotta. Stiginn upp í risið er sá sami og handriðið, tröppurnar eru orðnar nokkuð slitnar enda eru þær ekki dúklagðar en hvítskúraðar. Veggir múraðir á bast Upp í risinu eru tvö svefnherbergi og framloft. Þar eru veggir múraðir á bast eða sif, en það var notað á sama máta og vírnet sem núna er notað til að múra á. Allt gert eins og þegar húsið var nýbyggt. Allar lagnir fyrir vatn og frá- rennsli voru endurnýjaðar og hita- veita lögð í húsið. Raflagnir allar endurnýjaðar. Árið 1995 var í samráði við hús- friðunarnefnd ráðist í að taka niður bárujárnið á norðurgafli og húshlið- inni sem snýr að Þingholtsstræti og láta panilinn njóta sín. Sumstaðar þurfti að skipta um hann en megnið af honum er frá því að húsið var byggt. Húsið var síðan málað gult, Þingholtsstræti 13 Morgunblaðið/Golli Þetta er einlyft hús með kjallara og risi. Þegar húsið var gert upp, var það málað gult, en talið er, að þannig hafi liturinn á því verið þegar það var nýbyggt. Ekki hafði verið búið í húsinu í meira en hálfan áratug, en utangarðsfólk hafði hreiðrað um sig þar. Freyja Jónsdóttir fjallar hér um merkilegt hús, sem tókst að bjarga og hvernig það verk var unnið. Það er næstum einsdæmi, hve vel hefur tekist til. Þorsteinn Guðmundsson yfirfiskimatsmaður. Kristín Gestsdóttir með Þorstein, dótturson sinn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.