Lesbók Morgunblaðsins - 13.04.2002, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 13.04.2002, Blaðsíða 10
10 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 13. APRÍL 2002 S EXTÁNDA ágúst 1784 reið mikill jarðskjálfti yfir Suður- land og skemmdust í honum 372 bæir og þrír menn týndu lífi. Margar kirkjur féllu eða skemmdust en Skálholtskirkju sakaði ekki til muna. Hins veg- ar féllu flest hús önnur á bisk- upsstólnum og urðu nokkrir menn undir hús- unum en náðust þó lifandi. Biskupinn Finnur Jónsson, sonur hans Hannes sem þá var vígslubiskup og Magnús Ólafsson varalögmað- ur og ráðsmaður staðarins urðu ásamt öðru heimilisfólki að liggja í tjöldum. Seinni hluta ágúst gerði miklar rigningar og var undir haustið ljóst að mönnum myndi ekki verða vært í Skálholti þann vetur og var ákveðið að fella skólahald niður. Viðir í húsum höfðu brotnað svo illa að ekki var hægt að nota þá og hestleysi, sem stafaði af móðuharðindunum sem þá stóðu sem hæst, olli því að ekki var hægt að sækja timbur í kaupstað. Um haustið flutti Hannes vígslubiskup ásamt konu sinni, einum þjónustusveini og einni stúlku til tengdaföður síns Ólafs Stephensens á Innra- Hólmi. Finnur biskup hírðist áfram í Skálholti við vondan kost og sagði af sér embætti árið eftir. Þá var Skálholt formlega lagt niður sem biskupssetur en svo fór þó að Hannes biskup keypti jörðina og bjó þar til dauðadags 1796 enda hafði landsstjórnin ekki fundið nein önn- ur úrræði í húsnæðismálum biskupsins. Höfuðstaður og kirkjumiðstöð Svo óglæsilega endaði 700 ára saga bisk- upsstóls í Skálholti. Sú saga er hins vegar að flestu öðru leyti glæsileg og merk. Saga Skál- holts er einnig löng því mannvistarleifar í formi byggfrjóa frá seinni hluta 9. aldar benda til að búseta í Skálholti sé eldri en á flestum öðrum stöðum. Skálholt var í eigu Mosfellinga í byrjun 11. aldar og þar sat fyrsti biskup Ís- lands, Ísleifur Gissurarson, frá því að hann kom úr vígsluför 1057 til dauðadags 1080. Son- ur hans og eftirmaður, Gissur biskup, byggði þar dómkirkju og gaf henni jörðina. Íslenska kirkjan efldist mjög á 12. og 13. öld og við það óx Skálholtsstaður að andlegum og veraldleg- um auði og varð sannkallaður höfuðstaður Ís- lands frá seinni hluta 13. aldar. Þar var fjöl- mennasta byggð landsins með þorpi bygginga yfir starfsemi stólsins og þar risu kirkjubygg- ingar sem voru einstakar í evrópskri bygg- ingasögu. Í kaþólskri tíð stóð skólahald og önn- ur menningar- og fræðslustarfsemi með blóma í Skálholti og eftir siðaskiptin var þar reglu- bundinn skóli. Dómkirkjan í Skálholti hefur brunnið a.m.k. tvisvar (1309 og um 1527) og staðurinn allur brann 1630 og varð þar óbæt- anlegur skaði, þar sem skjöl og bækur urðu eldinum að bráð. Árið 1650 lét Brynjólfur Sveinsson biskup reisa nýja kirkju og stað- arhús. Eftir að biskupsstóllinn var fluttur til Reykjavíkur var kirkja Brynjólfs rifin og ný og mun minni kirkja byggð í hennar stað 1802. Skálholt var þá um skeið venjulegt bóndabýli með sóknarkirkju þar til viðreisn staðarins hófst að nýju á seinni hluta 20. aldar. Fornleifakönnun í Skálholti hefst Margir munir sem voru í eigu staðarins, þar á meðal merkir forngripir, voru seldir á upp- boðum um og eftir aldamótin 1800. Sumir þeirra rötuðu í dómkirkjuna í Reykjavík, aðrir á forngripasöfn í Kaupmannahöfn eða Reykja- vík, en enn aðrir skemmdust eða hafa horfið sporlaust. Þar á meðal má nefna Þorláksskrín og Ögmundarbrík svokallaða. Ekki er vitað um afdrif skrínsins, en reynt var að flytja bríkina til Reykjavíkur. Ekki komst hún á leiðarenda og lá í pakkhúsi á Eyrarbakka í mörg ár. Eru enn eftir af henni smávægilegar leifar sem sýna að hún hefur verið einn merkilegasti kirkjugripur á Íslandi. Þó að fornleifarannsóknir hæfust ekki í Skálholti fyrr en eftir miðja 20. öld komu þar ýmsir fornfræðingar á 19. öld sem skráðu upp- lýsingar um fornleifar í Skálholti. Fyrstur þeirra var danski fornfræðingurinn Kristian Kålund en hann kom við í Skálholti 1873 og þótti „ekki mikið eftir af dýrð biskupstímans“. Þar var nú ósjáleg trékirkja og bærinn „á eng- an hátt glæsilegur“. Það eina sem honum þótti enn vera sem áður var hið fagra útsýni. Kålund getur þess að sagnir á staðnum snúist einkum um Þorlák helga og hins vegar um atburði kringum Jón Arason Hólabiskup. Var Kålund sýndur staðurinn hjá kirkjugarðinum þar sem Jón og synir hans voru teknir af lífi og voru „blóðblettirnir“ enn sýnilegir á klöppinni. Einnig hafði til skamms tíma verið laut í kirkjugarðinum þar sem hinir líflátnu höfðu verið jarðaðir uns Norðlendingar grófu þá upp og fluttu til Hóla. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi var fyrstur íslenskra fornfræðinga til að kanna minjar í Skálholti. Hann kom þar árið 1893 og skráði sýnileg ummerki og munnmæli og frá- sagnir staðkunnugra um fornleifar. Skráði hann m.a. munnmæli er skýrðu uppruna ör- nefnisins Skálholts: Smalamaður Ketilbjarnar gamla landnámsmanns átti að hafa hafst við í skála, þar sem bærinn í Skálholti var reistur síðar. Skýrsla Brynjúlfs um fornleifar í Skál- holti er stutt, en í henni er að finna upplýsingar um ástand minja þar í lok 19. aldar og munn- legan vitnisburð um húsaskipan þar í tíð Finns biskups, á lokaskeiði biskupsstólsins á 18. öld. Heimildamaður Brynjúlfs var Sigurður Páls- son bóndi á Laug, en hann lýsti staðnum eftir frásögn Jóns Jónssonar, sem lengi hafði búið í Laugarási og dó um 1850, þá nærri hundrað ára. Margt var enn með sama sniði, m.a. var vatnsból bæjarins enn í Þorláksbrunni og í „aldingarði“ sem lá upp að kirkjugarðinum óx enn kúmen. Brynjúlfur segir frá svonefndu Íragerði norðvestast í túninu og átti það að vera leiði hinna írsku sveina Jóns biskups Gerrekssonar. Íragerði var upphækkun, rúmlega 22 m löng og um 2,5 m breið. Brynjúlfur hafði heyrt að hinir kaþólsku biskupar hefðu verið grafnir í norðurstúku kirkjunnar og lét hann grafa þar sem hann taldi hana hafa verið. Ekki fannst þó annað en eitt hauskúpubrot og járnnagli. Einnig lét hann grafa hjá Söðulhóli þar sem hann taldi líklegast að Diðrik frá Minden og menn hans hefðu verið grafnir en varð einskis vísari. Brynjúlfur kannaði legsteina í kirkjunni og kirkjugarðinum og skráði niður áletranir á þeim. Nokkrir voru orðnir máðir, sumir brotn- ir og legsteinabrot höfðu verið notuð í kirkju- garðshleðsluna. Hann lýsti einnig hinum fáu kirkjugripum sem eftir voru í kirkjunni. Hefur honum þótt ástand þessara merku fornleifa dapurlegt og lýkur skýrslu sinni með þessum orðum: „Mjög er áríðandi að vernda hinar fáu fornmenjar sem enn finnast í Skálholti.“ Þessum orðum Brynjúlfs var þó ekki gaum- ur gefinn og urðu veruleg minjaspjöll í Skál- holti árið 1902, en þá var grafið fyrir hlöðu beint ofan í bæjarhólinn, við ytri enda und- irgangsins, og einnig lagður vegur vestur frá bænum og ræsi meðfram honum hjá Þorláks- brunni. Var brunnurinn grafinn fram og tóku vegagerðarmennirnir steinhleðsluna innan úr brunninum, jöfnuðu sjálfan brunninn með ræs- inu og var hann þannig gereyðilagður. Sömu sögu var að segja um Skólavörðuna, en úr henni var grjót rifið til húsbygginga. Minjaspjöll sem þessi leiddu loks til þess að sett voru lög 1907 um verndun fornleifa, og stofnað embætti þjóðminjavarðar, sem var m.a. veitt heimild til að friðlýsa fornleifar, og sett viðurlög við minjaspjöllum. Ekki var þó gripið til neinna ráðstafana til verndunar forn- leifum í Skálholti fyrr en 1927 en þá friðlýsti Matthías Þórðarson þrennar minjar í Skál- holti: Þorláksbúð, Staupastein og Þorláks- brunn. Fornleifarannsókn 1954–58 Árið 1949 urðu þáttaskil í sögu minjavernd- ar í Skálholti. Að frumkvæði Sigurbjarnar Ein- arssonar, sem þá var prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, var stofnað Skálholtsfélag sem hafði það að markmiði að vinna að end- urreisn Skálholtsstaðar. Varð félaginu vel ágengt og ráðist var í að reisa nýja kirkju þar sem hinar fyrri kirkjur höfðu áður staðið. Var að þessum framkvæmdum staðið með meiri forsjá og framsýni en öðrum stórframkvæmd- um á þessum tíma, því ákveðið var að gera vandaða fornleifarannsókn á eldri kirkju- grunnum áður en þeir yrðu látnir víkja. Árið 1952 hófst uppgröftur á kirkjugrunnum í Skálholti og var það umfangsmesta rannsókn á einum minjastað á Íslandi til þess tíma. Graf- ið var árin 1952, 1954–55 og 1958 og stjórnaði Kristján Eldjárn þjóðminjavörður rannsókn- unum. Árið 1954 friðlýsti hann fleiri minjar á staðnum, þ.e. Skólavörðuna, eystri og vestari traðir, Kyndluhól, Þorlákssæti, leiði sveina Jóns Gerrekssonar í Íragerði og gamalt garð- lag syðst á túninu. Uppgröfturinn hófst með frumkönnun sem Björn Sigfússon gerði. Gróf hann leitarholur hér og hvar til að finna takmörk eldri kirkju- grunna, einnig gróf hann upp undirganginn að hluta og í svokallaðan Virkishól. Árið 1954 var gerður uppdráttur af kirkjugarðinum og nán- asta umhverfi hans, grafið var í Þorláksbúð að hluta, og í dómkirkjugrunnana. Fannst þá m.a. steinþró Páls biskups Jónssonar með beinum hans og bagli og vakti sá fundur gríðarlega at- hygli. Árið 1955 var grafinn upp grunnur að SKÁLHOLT – HÖFUÐSTAÐ- UR ÍSLANDS Í 700 ÁR Skálholtsstaður árið 1784. Í sumar hefjast að nýju fornleifarannsóknir í Skálholti. Þar bíður fjársjóður þekkingar þess að komast í dagsljósið og er nú unnið að því að skipuleggja þar umfangsmesta uppgröft sem ráðist hefur verið í fram til þessa á Íslandi. Með nýjum rannsóknum í Skálholti verður aflað nýrrar þekkingar, ekki aðeins um sögu staðarins heldur um þjóðarsöguna í heild. Í þessari grein segir frá fyrri rannsóknum í Skálholti og reifað er markmið fyrirhugaðra rannsókna. E F T I R O R R A V É S T E I N S S O N Morgunblaðið/Þorkell Á þessu ári verður ráðist í umfangsmiklar fornleifarannsóknir á Skálholtsstað.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.