Lesbók Morgunblaðsins - 18.05.2002, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 18.05.2002, Blaðsíða 4
4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 18. MAÍ 2002 Í MENNINGARMIÐSTÖÐ Kerguéh- ennec-hallarinnar sem er í 20 km fjar- lægð frá Vannes á Bretagne-skaga í Frakklandi var opnuð yfirgripsmikil einkasýning á verkum Hreins Frið- finnssonar þann 6. apríl sl. Kerguéhennec-höllin var upphaflega í eigu Hogguer-bræðra, sem voru for- ríkir svissneskir bankastarfsmenn, en er nú eign Morbihan-sýslu. Það var arkitektinn Oliv- ier Delourme sem teiknaði höllina í byrjun átjándu aldar og löngu síðar eða árið 1872 var landslagsarkitektinum Denis Buhler falið það hlutverk að skipuleggja þennan stórkostlega 175 hektara garð sem umlykur hallarbygging- arnar og er í dag orðinn einn stærsti högg- myndagarður Evrópu. Enskur andi og frönsk formfesta Franska menningarráðuneytið og FRAC (Fonds régional d’art contemporain) í Bre- tagne hafa haft veg og vanda af því að fá al- þjóðlega listamenn til að halda sýningar á staðnum og gera verk fyrir garðinn og er gert ráð fyrir því að fleiri verk muni bætast við safnið. Þarna eru verk eftir listamenn eins og Richard Long, Markus Raetz, Ulrich Rukriem, Ian Hamilton Finlay, Tony Cragg, Jean Pierre Raynaud, Giuseppe Penone, Elisabeth Ballet og marga fleiri. Flest verkin falla einstaklega vel að þessari mögnuðu náttúru og verður eng- inn svikinn sem gefur sér tíma til að rölta þessa tveggja tíma gönguferð sem þarf til að skoða safnið. Þegar gengið er inn um aðalhliðið inn í húsa- garðinn að höllinni er umhverfið spegilmynd, þ.e.a.s. í miðju ílöng tjörn og tvær aflangar byggingar á hvora hönd sem áður voru útihús, skemma og hesthús, en nú er búið að breyta í hvítmálaða, bjarta sýningarsali. Á bak við hesthúsið er önnur bygging sem var um tíma notuð sem fjárhús, en er nú líka búið að um- breyta í sýningarsali og kaffistofu. Þó að enskur andi svífi yfir vötnum í garð- inum er það franska formfestan og samræm- ingin sem einkennir hallarbygginguna og úti- húsin. Það er varla hægt að ímynda sér betri um- gjörð fyrir verk Hreins Friðfinnssonar, sem hefur í raun og veru aldrei slitið sig frá lands- lagshefðinni, þótt það sé ekki hin hefðbundna landslagsmynd sem heillar hann heldur eins konar rökræða og samspil við náttúruna. Listferill Hreins hefur verið á stöðugri upp- leið síðan hann sýndi við opnun Pompidou- safnsins í París fyrir 25 árum og þarf ekki leng- ur að kynna hann íslenskum listunnendum. Yf- irlitssýningarnar eru orðnar fjölmargar, hvort sem er á Norðurlöndunum, Hollandi þar sem hann býr eða í Frakklandi. Vorið 2000 hlaut Hreinn hin virtu finnsku Fennica-verðlaun og stuttu síðar hlotnuðust honum önnur verðlaun í Carnegie-samkeppninni sem eru einnig veitt fyrir framúrskarandi framlag til myndlistar- innar. Þegar gengið er inn á kaffistofuna, sem er eins konar anddyri í fyrri sýningarsalnum, blasir við verkið Attending Earth, Attending Sky (1973), tvær ljósmyndir þar sem Hreinn varpar annars vegar grænum jarðarbút upp í himininn og hins vegar dregur hann smábrot úr himingeimnum niður á jörðina. Bogadregin form spegilsins minna á fagrar líkamslínur og þessi skemmtilega tvíræði speglaleikur tengir sýninguna strax umhverfinu og leiðir okkur beint inn í margræðan hugarheim listamanns- ins, þar sem andhverfur, speglun, náttúra og hljóðlát ögun eru fyrir hendi. Sýningin fer fram í byggingunum tveimur þar sem fjárhúsin og hesthúsin voru áður og spannar hún allan feril Hreins, þ.e.a.s frá 1971–2002. Það er ekki tímaröð sem hefur ákvarðað uppsetningu sýningarinnar, heldur innbyrðis tengsl verkanna og samhljómur þeirra við hina innri og ytri umgjörð, þ.e.a.s rýmið, útsýnið og umhverfið. Sýningin hefst á bernskuminningum, verki frá 2001 sem heitir einfaldlega Kindur og hest- ar frænda míns, 12 ljósmyndir úr Dölunum, átthögum Hreins, sem hann hengir ramma- lausar á vegginn stutt frá Að teikna tígrisdýr frá 1971, verki sem er oft notað sem upphafs- punktur á yfirlitssýningum. Síðan koma mynd- ir eins og I spent a day (1975), Staður (1975) Álagablettir (1972), Sjö sinnum (1978), Síðar (1976), Samanbrotin stjarna (1983), allt gam- alkunn verk sem eru hlaðin tíma og minning- um, jafnvel söknuði, og þar sem hið hulda og óhöndlanlega er í fyrirrúmi. Þessi verk fá að spreyta sig við hliðina á nýrri verkum eins og Á rigningardegi (2001), Fyrsti glugginn (1992), Tungustapi (1998), Griðastaður (1992), Þrjár flöskur (2001–2002), St. Victoire-fjallið (1999) og fleirum. Með því að stefna þannig saman gömlum og nýjum verkum fær áhorfandinn tilfinningu fyr- ir þessum ljósofna streng sem spinnur þau öll saman eins og vagninn og hestinn í Draumur frá 1973 og einnig myndast ákveðið ferli sem hefst með þessum bernskuminningum og end- ar í seinni byggingunni á verkum sem eru nán- ast yfirskilvitleg, þyngdarlaus og fljótandi eins og hillingar. Í síðasta sal fyrri byggingarinnar er verkið Hreyfing (1999) sem samanstendur af tveimur ljósmyndum teknum af Hreini sjálfum á vinnu- STEFNUMÓT VIÐ NÁTT- ÚRUNA E F T I R L A U F E Y J U H E L G A D Ó T T U R For Light Shadow and Dust 1994. Þrjár flöskur 2001–2002.Án titils 2001–2002.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.