Lesbók Morgunblaðsins

Dagsetning
  • fyrri mánuðurfebrúar 2003næsti mánuður
    SuÞrMiFiLa
    2627282930311
    2345678
    9101112131415
    16171819202122
    2324252627281
    2345678

Lesbók Morgunblaðsins - 15.02.2003, Blaðsíða 14

Lesbók Morgunblaðsins - 15.02.2003, Blaðsíða 14
14 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 15. FEBRÚAR 2003 O FT hefur verið talað um íslenska myndlistar- sögu þannig að hún hafi byrjað um aldamótin 1900, þegar Þórarinn B. Þorláksson hélt sína fyrstu málverkasýn- ingu í Reykjavík. Þar með er gefið í skyn að nær ekkert verðugt myndefni sé að finna frá fyrri öldum, og óþarfi að fjalla sérstaklega um það. Þetta er auðvitað mikil einföldun, því íslensk myndlistarsaga er jafngömul þjóðinni; myndlýsingar í mið- aldahandritum eru aðeins einn hluti af þeim arfi sem sýnir fram á það. Íslendingar hafa lengi stært sig af mðaldahandritunun, en handrit síðari alda eru lítt þekktur fjársjóður í íslenskri menn- ingarsögu. Þau hafa ekki verið rannsök- uð að sama marki og miðaldahandritin og það er fyrst á síðustu árum að hafist hefur verið handa við að rannsaka þau með sérstöku tilliti til þess myndefnis, sem þar væri að finna. Lýsir er heitið á verkefni sem sett var á stofn með það að markmiði að búa til gagna- grunn um myndlist í íslenskum handritum. Að verkefninu stendur áhugafólk um þessi mál- efni, ásamt fræðimönnum frá Árnastofnun, Listasafni Reykjavíkur og fleirum. Markmið verkefnisins er að rannsaka og ljósmynda ís- lensk handrit í þeim tilgangi að auðvelda að- gengi myndlistarfólks, fræðimanna, nemenda og almennings að þeim lítt þekkta þætti mynd- listarsögu þjóðarinnar sem þar er að finna. Lítt við alþýðuskap Í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi stendur nú yfir sýning þar sem gefur að líta myndir úr fyrsta áfanga verkefnisins, meðal annars myndir eftir Jón bónda Bjarnason (1791–1861) í Vatnsdal, sem Gísli Konráðsson lýsti á þessa leið: „Hann er hinn mesti talna- fræðingur og fróður í mörgu svo, mælingum, stjörnuvísindum og eðlisfræði. Safnar hann mjög steinum fágætum og þykir undarlegur og lítt við alþýðuskap. Margt er honum og ekki lagið er öðrum er sem tíðast gefið. Hann er spurull og auðtrúa og eigi fríður sínum, grann- legur og þunnleitur.“ En þótt Jóni bónda væri margt ekki lagið sem öðrum er tíðast gefið var hann þekktur á sinni tíð og naut virðingar fyrir stjarnfræðiathuganir sínar, en hann ritaði einnig merkileg handrit og gerði myndir í þau. Sýningin er samstarfsverkefni Lýsis, Lista- safns Reykjavíkur og Landsbókasafns Íslands. Það er óhætt að segja að sýningin gleðji aug- að og kæti geðið, því þótt myndirnar séu á viss- an hátt bernskar (föður Jóns bónda þótti ekki taka því að senda soninn til mennta, þrátt fyrir góðar gáfur hans) ber hún vott um að hug- myndir og þekking Jóns hafi náð langt út fyrir túnfótinn eða Vatnsdalshólana. Meðal þess sem hann er að fást við eru myndir af ólíkum kynþáttum mannkynsins, mannkynsafbrigð- um sem í dag myndu flokkast undir síamství- bura og ýmislegt fleira; myndir af dýrum láðs og lands, bæði raunverulegum og ímynduðum, þar sem finna má allt frá hversdagslegasta sauðfé yfir í loðna hvali, skrímsli og dreka. Fyrir Jóni hefur hugarheimurinn verið jafn gildur þeim áþreifanlega. Einnig má finna myndir úr kristindómnum og nær þekking manna það langt að á sýningunni er mynd af Janusi, rómverskum dýrlingi, sem var vernd- ari opinberra bygginga, dyra og upphafs. Hreinn galdur En sýningin er ekki bara myndir sem hanga á vegg, heldur hefur verið komið fyrir hljóð- skúlptúr í lokuðu rými í miðjum salnum sem verkefnisstjóri pantaði sérstaklega fyrir sýn- inguna í Hafnarhúsi. Hljóðskúlptúrinn er unn- inn af þeim Hilmari Erni Hilmarssyni og Sjón og er tileinkaður hvítagaldri – sem auðvitað var verndargaldur. Þegar gengið er inn í hljóð- skúlptúrinn drunar þar djúpur tónn sem er eins sefandi og sá tónn sem kemur úr reg- indjúpum búddískra munkabarka og; í gegnum tóninn berst hvísl og kliðmjúk þylj- andi rödd. Þarna er gott að setjast niður til að slaka á og leyfa hvítagaldrinum að vinna á streitu og stjórnlausri hugsun. Hreinn galdur. Þegar verkefnisstjóri Lýsis, sem jafnframt er sýningarstjóri þeirrar sýningar sem er í Hafnarhúsinu, Ásrún Kristjánsdóttir, er spurð hvers vegna hún hafi farið að rannsaka mynd- list í handritum segir hún það hreina tilviljun. „Helga Friðfinnsdóttir hjá SÍBS hefur um ára- bil fengið listamenn til þess að hanna gripi til gjafa frá fyrirtækinu. Árið 1999 bað hún mig og Kolbrúnu Kjarval að hanna slíka muni og þemað var landafundirnir árið 1000. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að nálgast myndefni sem tengdist landafundunum að ein- hverju leyti, til dæmis í Grænlendingasögu og Eiríks sögu rauða, var ekkert myndefni að finna. Ég fór því að leita á öðrum stöðum. Ég fór í handritadeild Landsbókasafnsins, þar sem mér var bent á handritaskrárnar og kennt að leita í þeim. Ég sá að það var nánast hvergi minnst á neitt myndefni og það var nánast úti- lokað að nálgast það myndefni sem ef til vill var þar.“ Tónlist og myndlist „Stuttu síðar kemur að máli við mig Kári Bjarnason, sagnfræðingur og starfsmaður handritadeildar Landsbókasafnsins, og segir mér að hann sé að leita að tónlist, nótnaskrif- um, í íslenskum handritum og segir mér að hann og fólk á hans vegum sé búið að skoða handrit sem hafi titilinn kvæðasafn. Hans hóp- ur fór þá leið í handritaskránum, skrásetti og tók myndir af þeim síðum sem höfðu nótur. Meðan á þessari vinnu stóð áttaði tónlist- arfólkið sig á því að það er fullt af myndum í handritunum. Hann sýndi mér það og bað mig að setja upp sýningu í Skálholti árið 2000 sem átti að vera umgjörð um það þegar tónlistin var dregin fram. Í kjölfarið á þessari beiðni sat ég yfir handritum allt sumarið og fékk fyr- irtækið Hans Petersen til liðs við mig. Fram- kvæmdastjóri þess fyrirtækis lét mér í té tvo starfsmenn sem tóku myndir, skönnuðu þær og útbjuggu til sýningar sem var sett upp í Skálholti um haustið. Ég lét einnig gera fána sem blöktu við hún meðan á sýningunni stóð, með áþrykktum myndum úr handritum frá því stuttu eftir siðaskipti. Ég lét stækka myndirnar á sýningunni og fékk hjálp frá Hans Petersen við það. Þeirra mikla og góða að- stoð skipti sköpum fyrir áframhaldið. Það sem fékk Hans Petersen til þess að fá áhuga á þessu verkefni var sú hugmynd sem ég hafði fengið um að þetta væri upp- hafið að því að byggja upp gagnagrunn um myndverk í íslenskum hand- ritum. Þeir vildu leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að slíkur gagnagrunnur yrði til og varð til þess að ég fékk trú á því að þetta yrði framkvæmanlegt. Áræði og framsýni Síðan tók það mig nokkurn tíma að sannfæra landsbókavörð, Einar Sigurðs- son, um nauðsyn þess að búa til gagnagrunn af þessum toga – og sannfæra hann um að ég væri rétta manneskjan til þess. Það var eðli- legt, þar sem ég er hönnuður og myndlistar- maður og hann var því vanastur að starfa í fræðimannaumhverfi – en hann hafði þá fram- sýni og áræði til að bera að treysta mér til verksins. Hann útvegaði mér góða aðstöðu til að vinna verkefnið og við sóttum í sameiningu um nýsköpunarsjóðsnema, Hákon Skúlason, til þess að vinna með mér við að leita í handrit- unum. Einar og hans skilningur var ómetan- legur. Það fór langur tími og mikil vinna í að móta verkefnið; starfsaðferðir og ákveða hvað skyldi skrá. Öll rannsóknarvinna á efninu er ennþá algerlega eftir. Við erum einungis að skrásetja hvar myndirnar er að finna, auk lág- markstexta. Þegar hins vegar kom að tæknilegu hliðinni á verkefninu komu upp ágreiningsmál sem hafa tafið vinnuna um marga mánuði. Í öðrum deildum safnsins, sérstaklega handrita- og að- fangadeild, veittu starfsmenn mér hins vegar ómælda hjálp. Það var mjög fróðlegt að koma að þessu verkefni, vegna þess að það voru einstöku fræðimenn sem leist ekkert á það að myndlist- armenntaður einstaklingur stæði í þessari rannsóknarvinnu. Það var eins og þeim þætti þeir „eiga“ handritin. Þeir voru hins vegar miklu fleiri sem sýndu því áhuga og voru boðn- ir og búnir að veita mér lið. Það sem mér finnst hins vegar merkilegt og fallegt er að það skyldi vera tónlistarfólk sem áttaði sig fyrst á því að handritin eru full af myndum.“ Þúsund myndir í hverjum hundrað handritum Ásrún segir gríðarlegt magn til af handrit- um og vinnan sé rétt að hefjast. „Við erum búin að skoðan innan við þúsund handrit á Lands- bókasafninu og okkur reiknast til að það séu um þúsund myndverk í hverjum hundað hand- ritum. Á Landsbókasafni Íslands eru um fimmtán þúsund handrit. Auk þess eru talin vera mörg hundruð handrit á erlendum bóka- söfnum sem íslenskir safnarar hafa selt þang- að.“ Hvers konar myndlist er að finna í handrit- unum? „Þegar ég tala um myndlist er ég ekki ein- ungis að tala um myndir af fólki eða landslagi, heldur einnig myndir af letri og upphafsstöf- um, sem og umbrot; það er að segja hvernig textinn er settur upp á síðurnar, eins og sjá má í einum hluta sýningarinnar í Hafnarhúsinu. Allt slíkt er í mjög háum gæðaflokki. Miðað við það sem ég hef séð af myndum af fólki er megnið af því mjög bernskt. Þetta eru verk sem unnin eru á þeim tíma sem úti í heimi kall- aðist barokktímabilið en myndirnar í handrit- unum er ekki hægt að bera saman við það sem er að gerast í Evrópu hjá frönskum, spænsk- um og ítölskum myndlistarmönnum. Myndlist- in í Evrópu var miklu þróaðri en það sem ég hef hingað til fundið í handritunum. Það væri erfitt að bera Jón bónda saman við myndlist- armenn á borð við Rubens og Van Dyke. Hann hafði enga menntun hlotið. Það getur verið að sambærilegar myndir finnist seinna, en mér finnst það frekar ósennilegt.“ Leturgerð í háum gæðaflokki Það sem er aftur á móti í mjög háum gæða- flokki er leturgerðin, öll skreyting og form- aðferð á bókartexta, auk þess sem bókahnútar eru í hæsta gæðaflokki. Þar er allt mjög lip- urlega unnið; rithöndin og skreytihöndin er svo þjálfuð, en myndir af fólki og dýrum eru nokkuð barnslegar. Handritaskrif í klaustrum voru eftir hefð- bundinni uppskrift, eins og hægt er að sjá víða í Evrópu. Þau voru af jafnháum gæðastaðli. Þegar svo slík handritaskrif leggjast af eftir siðaskiptin er það almúgamaðurinn – bóndinn, sveitakonan – sem nær sér í pappír og blek og fer að skrá niður kvæði, sálma, hugleiðingar sínar og sögur, fer að velta fyrir sér náttúru- fræði og ýmiss konar dulspeki. Fyrsta prentvélin kemur til Hóla stuttu eftir siðaskiptin og þá er farið að prenta trúarlegan texta, en ekki nein alþýðuverk. Þetta er það sem starir á mann út úr þeim handritum sem við höfum verið að skoða. Það er þessi venju- legi almúgamaður sem fer að tjá sig; skrifa, skreyta og teikna – og það gerir hann langt fram á tuttugustu öldina. Það er líklega ein- stakt í sögunni.“ Hvert er markmiðið hjá ykkur með þessum rannsóknum? „Markmiðið með þessu öllu er að gera efnið aðgengilegt í gagnagrunni. Eftir að hafa verið myndlistarkennari í tuttugu og fimm ár gat ég ekki annað en velt því fyrir mér hvað það hefði getað skilað okkur öðruvísi myndlist í gegnum árin, ef það hefði verið aðgengilegt, þótt ekki væri nema til þess að byggja upp sjálfsvitund nemendanna. Það er auðvitað ekki víst, en ég get ekki gert að því að velta því fyrir mér. Þess vegna er þátttaka Listasafns Reykjavíkur í verkefninu svo mikilvæg. Hún er okkur mikils virði. Safnið hefur af stórhug lagt fram starfs- fólk, sal og fjármagn til þess að af sýningunni gæti orðið og ég vona að Íslendingar sýni henni jafnmikinn áhuga og þeirri arfleifð sem liggur í ritmálinu.“ Í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi stendur yfir sýning á myndlist úr íslenskum handritum. Rannsóknir á myndlist í handritum hófust árið 2000 og á sýningunni gefur að líta myndir úr fyrsta áfanga þeirrar vinnu sem ber heitið Lýsir. SÚSANNA SVAVARSDÓTTIR skoðaði sýninguna og ræddi við verkefnisstjóra Lýsis. ARFLEIFÐ RITHANDAR OG MYNDA Guðinn Janus fléttaður inn í upphafsstafinn H. Janus er með tvö andlit og er vörður allra dyra. Hann er guð upp- hafs (janúar er kenndur við hann), samskipta og opin- berra bygginga. Úr kvæða- og sálmakveri frá byrjun 19. aldar sem ritað er af Vigfúsi Jónssyni Scheving. Jón bóndi Bjarnason: Mannakynferðið. Vanskapningar.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað: 15. febrúar (15.02.2003)
https://timarit.is/issue/256308

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.

15. febrúar (15.02.2003)

Aðgerðir: