Lesbók Morgunblaðsins - 28.06.2003, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 28.06.2003, Blaðsíða 8
Í GREININNI Kona listamannsins, sem birtist í Lesbók 13. júlí 2002, var lagt upp með orð Björns Th. Björnssonar í sjón- varpsþættinum Maður er nefndur, þar sem hann talaði um listamenn og lífsbjörg þeirra; eiginkonuna, sem hann sagði að ætti skilið stærri hlut í íslenzkri menning- arsögu en verið hefur. Hér verður ýtt úr annarri orðavör Björns; í yf- irlitsriti hans um íslenzka myndlist á 19. og 20. öld; „Íslenzkum listamönnum hefur löngum orðið fengsælt til hjúskapar á náms- og dvalarárum sín- um erlendis. Við liggur að fara megi kóngaröðina og sjá erlenda eiginkonu við hvers manns hönd, – Einars Jónssonar, Jóns Stefánssonar, Kjarvals, Schevings, Þorvalds, Jóns Engilberts, Jóhanns Briem, Sigurjóns, Eggerts, Sveins, Guðmundar frá Miðdal …“ Í framangreindri Lesbókargrein var fjallað um: Ástu Kristínu Eiríksdóttur og Svavar Guðna- son, Tove Fugmann og Jón Engilberts, Astrid Fugmann og Þorvald Skúlason, Tove Thomason og Sigurjón Ólafsson, Birgittu Spur og Sigurjón Ólafsson, Grete Linck og Gunnlaug Scheving, Gunnfríði Jónsdóttur og Ásmund Sveinsson og Ingrid Hakansson og Ásmund Sveinsson. Hér verður áfram hlaupið með kóngaröðinni og nokkrir þeir klukkaðir, sem ekki voru látnir hlaupa í Konu listamannsins. Anne Marie og Einar Þegar nítjánda öldin var að renna út, gekk ung Kaupmannahafnarstúlka með skólasystrum sín- um eftir Breiðgötu í Kaupmannahöfn og þar fram hjá glugga, sem inn um mátti sjá ungan mann móta stóra mynd í gips. Þessi ungi maður tók sér bólfestu í huga stúlkunnar og þegar þau síðar hittust á Íslendingaballi, dönsuðu þau rakleitt inn í hjörtu hvors annars. Það samband dugði þeim í gegnum súrt og sætt og aðeins dauðinn megnaði að mynda þar vík unz hann sameinaði þau aftur til eilífðarinnar í Hrepphólakirkjugarði á Íslandi. Listamaðurinn í glugganum var Einar Jónsson myndhöggvari. Í bókinni; Minningar – Skoðanir, sem hann tileinkar „elskaðri konu minni,“ segir hann m.a. svo frá: „Þennan vetur fyrir Rómarför mína (1902 – innskot fj) var ég tíður gestur á mannafundum og skemmtunum landa minna. Þangað komu líka margir Danir, kunnugir eða venslaðir Íslending- um. Eitt kvöld fór ég á dansleik, sem haldinn var í Prins Wilhelms Palæ, en þar voru samkomur Ís- lendinga löngum. Dóttir konu þeirrar, er ég bjó hjá í borginni, var þar meðal annarra kunningja, og með henni var dönsk stúlka, kornung, barns- lega glöð og hrein á svip. Kunningjastúlka mín kynnti mig henni og við dönsuðum saman „Lanc- iers“. Hún var létt eins og laufblað, og á gáska- fullu augnabliki hóf ég hana á loft með beinum örmum, en hún hratt mér þá frá sér; og þó við dönsuðum dansinn til enda, þóttist ég sjá þykkju hennar á því, hve hún hafði roðnað í andliti, sem annars var mjallahvítt í umgjörð þykkra og kol- svartra lokka. Henni buðust nú margir kurteisari dansherrar, sem hún hlaut að taka fram yfir mig. En seinna um kvöldið var gengið til borðs, og þá bað ég hana að vera borðdömu mína, – og hún ját- aði því. Og er við skildum um nóttina, spurði ég hana, hvort ég mætti heimsækja hana á heimili foreldra hennar, og svaraði hún því líka játandi. Það var eitthvað í fari þessarar barnslega ósnortnu, dálítið einstæðingslegu stúlku, sem hreif mig, strax er ég sá hana, og ég þóttist ekki hafa séð neina konu brosa fegurra brosi. Þó var ég alls ekki sérlega ástfanginn; en ég var gripinn þeirri undarlegu tilfinningu, að við tilheyrðum hvort öðru, og enginn gæti tekið hana frá mér.“ Stúlkan, sem hreif Einar Jónsson svo á nýjárs- dansleik Íslendinga í Prins Wilhelms Palæ, hét Anna Jörgensen, fædd 14. apríl 1885, en sjálfur var hann fæddur 11. maí 1874. Og þótt hann hafi þá séð hana fyrsta sinni, hafði hún hins vegar gengið með mynd hans í huga sér í ein tvö ár án þess þó að vita á honum persónuleg deili. Jón Auðuns segir m.a. í minningargrein um Önnu: „Fyrir þremur aldarfjórðungum rúmum var hún ásamt skólasystrum sínum á leið í skólann. Þær gengu eftir Breiðgötu í Kaupmannahöfn fram hjá stórum glugga og blasti þar við henni sjón, sem vakti svo athygli hennar, að hún nam staðar við gluggann stundarkorn. Á vinnupalli sá hún standa fallegan, ungan mann í hvítum vinnu- sloppi. Hann var að móta í gips geysistóra mynd. Unga stúlkan, þá á fermingaraldri, hélt leið sinni áfram, en myndin af fallega manninum við stóra listaverkið fylgdi henni svo að hún gat ekki gleymt. Örfáum árum síðar bauð henni dönsk vinkona með sér á nýársdansleik Íslendinga í Kaup- mannahöfn. Hún hafði ekki verið lengi þar þegar henni brá undarlega við: Þarna var ungi listamað- urinn fallegi, sem hún hafði séð gegnum gluggann á vinnustofunni í Breiðgötu. Hann bauð henni í dans og þetta kveld voru ráðin örlög þeirra beggja, mikil örlög, sem dauðinn innsiglaði við sjúkrabeð níræðrar konu norður á Íslandi.“ En eftir Íslendingaballið átti unga parið ekki fyrir höndum langan tíma saman að sinni, því snemma vors lagði Einar Jónsson land undir fót og hélt í suðurveg; til Rómar. „Ég hafði þá kvatt Önnu litlu. Hún kom heim til mín um morguninn til þess að óska mér góðrar ferðar og gat varla falið tárin sín, þótt hún reyndi að vera hin kátasta. Bráðlega sat ég í járnbraut- arlestinni, sem brunaði suður Sælund gegnum akra og skóga á leið til Berlínar. Ég stóð við klefa- glugga og horfði á hinar yndislegu myndir, sem fram hjá þutu; en hrifning mín yfir þeim var blandin undarlegum trega. Ég fann nú í fyrsta sinn til þess, að ég hafði bundið örlög mín við aðra sál, – ungu stúlkunnar, sem ég hafði nýlega kvatt, hennar, sem síðar varð lífsförunautur minn, er aldrei brást, en barðist með mér, hughraust, skilningsrík og sterk í gegnum allt andstreymi og erfiðleika; gladdist svo hjartanlega yfir velgengni minni og veitti mér þá huggun og hvatningu á örðugum einstæðingsstundum, sem hinn fórn- andi kærleikur einn fær gefið.“ Eftir hálft annað ár kom Einar aftur að sunn- an: „Á stöðinni í Höfn kom ég brátt auga á unga stúlku í ljósri kápu. Hún leitaði í mannþrönginni og kom líka brátt auga á mig. Og um tíma varð nú allt að víkja úr huga mér, allar áhyggjur og óyndi, fyrir þessu eina, að ég hafði aftur fundið hana, sem ég hafði þráð og aldrei gleymt hinn viðburða- ríka tíma, sem liðinn var, síðan ég hóf þá för, er nú var lokið.“ En lífið var langt frá dansi á rósum. Við tók sjö ára barátta í Kaupmannahöfn, þar sem Einar Jónsson barðist upp á líf og dauða án þess að ná fótfestu fyrir sig og list sína. Hann afréð þá að fara frá Kaupmannahöfn og í ágústmánuði 1909 var hann kominn til Berlínar. En örbirgðin í Höfn gekk ekki aðeins nærri listamanninum, heldur bitnaði hún líka á sambandi hans og unnustunnar. „Ég varð að vera eins og ég var og engan veg öðruvísi, þótt leiðir til fjár og frama virtust nær gjörsamlega lokaðar og ég eygði enga vonar- glætu í framtíðinni. En á hinn bóginn var mér það allt of ljóst og hafði lengi verið, að á þessum ótrygga grunni gat samlíf mitt og unnustu minn- ar ekki hvílt áfram. Bestu ár æsku hennar liðu, án þess að ég hefði minnstu von von um að geta stofnað okkur heimili; og þó hún vildi fúslega bíða svo lengi sem verkast vildi, hafði ég þá nokkurn rétt til að þiggja þá fórn? Var það drengilegt að setja hamingju hennar að veði í því tvísýna tafli, sem ég tefldi um framtíð mína? Hún átti æsku, hreysti og fegurð, og frjálsri voru henni allir vegir færir. Hversu þungt, sem báðum félli það, urðum við að slíta sambandi okkar; ég sá, að það var hið eina rétta. Og að lokum urðum við ásátt um þetta. Hún vildi allt fyrir mig gera – og jafnvel það. Ég vildi eitthvað burt, og hún var þá laus allra mála.“ En ástin hrökk ekki upp af, þótt um það væri talað. Í Berlín náði Einar Jónsson vopnum sínum á ný og þegar hann kom aftur til Kaupmanna- hafnar sumarið 1910 tók unnusta hans á móti hon- um „og við vorum glöð að hafa fundið hvort annað aftur.“ Einar hélt svo heim til Íslands og sumarið 1911 gerði hann unnustu sinni orð um „að koma heim og með henni gat ég nú heimsótt fjölskyldu mína og sýnt henni æskuhéruðin mín yndislegu.“ Þau héldu svo utan aftur, en komu heim með Botníu í byrjun styrjaldar. Þá hófst baráttan fyrir því að safnhús risi á Skólavörðuholtinu. Á Jónsmessudag 1917 héldu Anne Marie og Einar vestur um haf með Gullfossi og var það í senn brúðkaupsferð þeirra, því kvöldið áður hafði pastor Servais gefið þau saman í Landakots- kirkju. Þau höfðu þá verið heitbundin í 16 ár. Þau dvöldu vestanhafs í tvö ár og haustið 1919 héldu þau aftur austur um haf til Kaupmanna- hafnar. Styrjöldin var að baki og hægt að hefja heimflutning listaverkanna og húsið á Skóla- vörðuholtinu komið undir þak. Þau fluttu svo í íbúð sína þar og Listasafn Einars Jónssonar var opnað á Jónsmessudag 1923. Einar var ekki hrif- inn af nafninu Hnitbjörg á húsinu og segir syst- urdóttir hans, Gígja Björnsson, að fjölskyldan hafi alltaf kallað húsið Einarssafn og ekkert ann- að. Lydia, eiginkona Guðmundar frá Miðdal, segir í bókinni Lífsgöngu Lydiu frá því að helztu vinir þeirra hjóna úr röðum listamanna hafi tvímæla- laust verið Einar Jónsson myndhöggvari og Anna Jónsson eiginkona hans. Íbúð Önnu og Einars var uppi á lofti, en eldhús- ið og borðstofan á aðalhæðinni, þar sem er mjög hátt til lofts. Segir Lydia að það hafi verið afar gaman að sækja þau heim. „Einar gat líka verið mjög kátur og skemmtilegur þegar þannig lá á honum.“ Einu sinni tóku Kjarval og Sigurður Guðmundsson arkitekt að dansa trölladans sam- an og tók þá Anna til við að dansa indverskan dans og setti stóran járnpott á höfuðið til að auka áhrifin. Hreif þetta alla viðstadda í dans og Lydia tekur fram, að aldrei hafi verið haft vín um hönd í veizlum hjá Önnu og Einari. „Anna var afskaplega góð og skemmtileg manneskja,“ segir Gígja Björnsson, systurdóttir Einars Jónssonar. „Hún lifði bara fyrir Einar og þau voru mikið út af fyrir sig; bæði var að hann hafði mikið að gera og svo kærði hann sig lítið um selskapslíf. Anna hins vegar hafði gaman af að hitta fólk þegar svo bar undir og þá var hún glaðvær; létt og kát og talaði við hvern sem var. Hún var mjög list- ræn og fíngerð í sér. En umfram allt vildi hún vera með Einari og hafði lengst af ekki þörf fyrir annað. Mamma og Einar voru mjög samrýmd og þau Anna komu oft til okkar. Ég man bara eftir þeim saman meðan Einar lifði, en eftir það kom hún oft ein. Það er annars merkilegt, að fjögur systkinin giftust öll miklum listamönnum: Anna giftist Ein- ari Jónssyni, Franzisca varð kona Gunnars Gunn- arssonar skálds, þriðja systirin giftist Karli Briss- KONUR KÓNGA Anna og Einar Jónsson á 70 ára afmæli Einars; 11. maí 1944. Bið að heilsa Önnu litlu, sagði Ásgrímur Jóns- son í bréfum til vinar síns Einars Jónssonar. Anna Jónsdóttir – málverk eftir Ásgrím. Kóngaröð íslenzkra myndlistarmanna var með erlenda eiginkonu við hvers manns hönd. FREYSTEINN JÓHANNSSON vekur upp sögur nokkurra þeirra. 8 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS ˜ MENNING/LISTIR 28. JÚNÍ 2003

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.