Lesbók Morgunblaðsins - 15.01.2005, Blaðsíða 16

Lesbók Morgunblaðsins - 15.01.2005, Blaðsíða 16
16 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 15. janúar 2005 H ann var meðalmaður á hæð, grannvaxinn, með hvikultog forvitið augnaráð sem alltaf var leitandi. Hann var forvitinn með eindæmum, ekki um persónulega hagi fólks heldur um umhverfi sitt – nánast manískur á stundum einkum um ýmislegt tæknilegt sem fangaði huga hans. Hann gat vel verið utan við sig þegar svo bar undir, og þegar allt þetta sameinaðist gátu skondnir hlutir gerst eins og þegar hann stillti sér upp í langri biðröð í New York sem hann kom að – hann vildi vita hvert þessi bið- röð leiddi og lét sig hafa það að standa í henni og fylgja straumnum að kistu einhvers maf- íuforingja í New York sem hann vissi engin deili á, en fólkið var að votta virðingu sína; en það var rétt að kanna þetta. Hann var ljúfur í umgengni, en um leið gat hann verið gagnrýninn á menn og málefni og gat tjáð sig þannig að menn tóku eftir því sem sagt var. Það var þessi eðlislæga forvitni Magnúsar Blöndal Jóhanns- sonar sem leiddi hann þá lífsbraut sem hann fór, ásamt fjöl- þættum hæfileikum á ýmsum sviðum. Þessi svið gátu verið margvísleg; áhuginn á hreinni tækni eins og segulbands- tækjum og tóngjöfum sem nota mátti í tónsmíðalegum tilgangi; áhugi á eðli flugsins á sama tíma og að njóta frelsisins sem því fylgdi að fljúga; áhuginn á siglingum, að fanga tímann og augnablikið í kvikmyndum og ljósmyndum auk þess að vera virkur tónsmiður og tónlistarflytjandi. Það er löng leið úr Skálum á Langanesi til New York. En til Reykjavíkur fluttist Magnús með foreldrum sínum, Jóhanni Kristjánssyni stórkaupmanni og Þorgerði Magnúsdóttur er hann var um 7 ára gamall. Þá voru foreldrarnir fyrir löngu búnir að gera sér grein fyrir músíkalítetinu í stráknum. Hann fór strax að sækja píanótíma, fyrst hjá Þórhalli Árnasyni og síðar Helgu Laxness. Magnús innritaðist í tónlistarskólann í Reykjavík árið 1935, þá 11 ára gamall og sótti tíma hjá dr. Franz Mixa og dr.Victor Urbancic til ársins 1946. Magnús Blöndal gerði einnig nokkrar atlögur að almennu framhalds- námi, fyrst í Menntaskólanum í Reykjavík og síðan í Versl- unarskólanum en það skilaði litlum sem engum árangri. Í ársbyrjun 1946 sigldi Magnús, ásamt föður sínum, með bandarísku herflutningaskipi til New York þar sem hann átti eftir að búa og nema næstu átta árin. Skipið kom í höfn 9. febr- úar árið 1946, sem var laugardagur. Strax á mánudeginum 9. febrúar fór Magnús í skólann og tók próf í tónfræði. Hann var ekkert að hika við hlutina – strax á þriðjudeginum keypti hann sér píanó, Steinway að sjálfsögðu. Í fyrstu bjuggu þeir feðgar á hóteli þannig að Magnús fékk leyfi til að píanóið stæði í versl- uninni og þangað kom hann svo og æfði sig fyrstu dagana, eða þar til hann fékk íbúð til að búa í. Það má sjá af dagbókarblöð- unum að feðgar hafa verið sæmilega staddir fjárhagslega. Magnús átti m.a. litla kvikmyndatökuvél og má ætla að fáir ís- lenskir námsmenn hafi á þessum tíma getað veitt sér slíkan munað. Hann stundaði síðan nám í hljómsveitarstjórn, tónsmíðum og píanóleik í Juilliard School of Music fram til ársins 1954. Kennarar Magnúsar við skólann voru Bernard Waagenor, Marion Bauer, Fobert Ferrante og Louis Teicher. Magnús sótti síðar masterclasstíma hjá hinum fræga píanókennara, Carl Freidberg (sem sjálfur hafði verði nemandi Clöru Schu- mann, en fjöldi heimsfrægra píanóleikara voru nemendur hans á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar). Magnús hefur sagt sjálfur svo frá: „Það var mjög erfitt að komast að hjá honum sem nem- andi; og var hann mjög strangur sem kennari. Svo fór ég einu sinni heim til hans og jú jú, hann bað mig að spila hitt og þetta, Bach, Beehoven, Chopin, Liszt, Debussy, – „heyrðu, geturðu improviserað?“ Já sagði ég. Ég lék fyrir hann, og það réð úr- slitum. Þetta var þveröfugt við það sem maður fékk að vita hér á landi.“ Magnús sá fyrir sér framtíðina sem píanóleikari og á fyrsta vetri lék hann Fantasíu op. 15 eftir Schubert, Minstrels eftir Debussy og sónötu op. 2 nr. 1 eftir Beethoven. Verkin áttu eftir að verða stærri og erfiðari með árunum. En svo undarlegt sem það má vera hélt Magnús aldrei sjálfstæða píanótónleika á ævi sinni. Þó eru til hjá Ríkisútvaprinu þó nokkrar hljóðritanir þar sem Magnús leikur einn á píanóið og sem meðleikari með söngvurum. Er Magnús fluttist utan var hann heitbundinn ungri glæsi- legri stúlku, Bryndísi Sigurjónsdóttur, sem síðan flutti til hans til New York og þau giftu sig þar árið 1947. Þau eignuðust tvo syni er heita Jóhann Magnús og Kristján Þorgeir. Á meðan þau hjónin bjuggu í New York stundaði Bryndís nám við Col- umbiaháskólann í New York í sálfræði, enskum bókmenntum og frönsku. Þau hjónin fluttust til Íslands árið 1954 og hófu störf hjá Ríkisútvarpinu – Bryndís fyrst og Magnús nokkru síðar. Bryndís varð síðar þekkt meðal þjóðarinnar sem umsjón- armaður óskalaga sjúklinga í ríkisútvarpinu, en Bryndís starf- aði einnig um tíma á dagblaðinu Tímanum. Hún lést árið 1962. Jón Leifs, sannur vinur þeirra hjóna, skrifaði m.a. í minning- arorðum um Bryndísi: „Hún bauð af sér mikinn yndisþokka þegar við fyrstu kynni og hafði til að bera þá hæversku sam- fara tilfinningasemi, er gerir einmitt konur oft svo aðlaðandi. Jafnframt birti hún dulda viljafestu, sem auðsjáanlega var stjórnað af greind. Hún vildi standa sig og fylgjast með öllu. Fögur kona var hún og tíguleg, en slíkt varð veigalítið við kynnin af skapferli hennar og eiginleikum.“ Undir þetta geta tekið þeir sem náðu að kynnast þeim hjónum, bæði meðan þau bjuggu í New York og eftir heimkomuna. Í tónfræðitímum þurfti að leysa ýmis verkefni og urðu þá smátt og smátt til lítil tónverk sem mörg eru til á nótum en hafa aldrei verið flutt. Þetta eru frekar einföld verk í litlum formum, enda skólaverkefni. Eftir að námi lauk við Juilliard- skólann sótti Magnús einkatíma í píanóleik og tónsmíðum þar til hann flutti alkominn til Íslands árið 1954. Um það leyti sem Magnús hóf störf hjá Ríkisútvarpinu, árið 1957, hafði hann þegar samið nokkur verk fyrir píanó og meðal þeirra er eitt þekktasta píanóverk hans, 4 Abstraktsjónir sem að öllum líkindum er fyrsta 12 tóna verkið sem samið er af Ís- lendingi. Fleiri verk komu í áþekkum stíl næstu árin og má þar nefna sönglagið Hendur og orgelverkið Ionization. En þegar líða tók á 6. áratuginn verður Magnús æ djarfari listamaður og forvitnari um leið. Sú staðreynd að hann var bæði forvitinn og flinkur í höndunum í senn leiddi til að hann fór að gera tilraunir með hljóðvinnslu á segulbandstækjum útvarpsins. Þær til- raunir leiddu af sér verkið Elektrónísk stúdía sem var frum- flutt á tónleikum Musica Nova árið 1960. Í framhaldi komu síð- an elektrónísk verk eins og Constellation, elektrónísk tónlist við kvikmyndir Osvaldar Knudsens, hljómsveitarverkið Punkt- ar þar sem segulbandið kemur einnig við sögu og fleiri verk, bæði elektrónísk og framsækin hljóðfæraverk. Tímabilið í lífi Magnúsar sem skilgreina má hið framsækn- asta í tónsköpun eru árin frá 1957–1970. Umhverfið varð líka ungum og framsæknum tónskáldum vistvænt á þessu tímabili. Flytjandi og skapandi listamenn voru að streyma til landsins um þetta leyti og var tónleikahald félagsskaparins Musica Nova samnefnari þeirra. Árið 1960 fengu menn loksins að heyra þá innlendu og erlendu tónlist sem var hvað framsækn- ust. Útvarpið tók líka við sér. Hver man ekki eftir þáttum Þor- kels Sigurbjörnssonar sem fyrst hétu Tónlist á atómöld og síð- ar Nútímatónlist. Hljóðfæraleikarar fluttu ný verk á tónleikum sínum og erlendir tónlistarmenn komu hingað til lands og fluttu tónlist sína. Öll þessi gróska fór meira og minna fram undir merkjum Musica Nova, en Magnús Blöndal var einmitt einn af stofnendum þess. En hvernig tók umhverfið þessum breytingum? Það er að sjálfsögðu hægt að tala um breytingar. Sinfónían, Tónlistar- félagið og Kammermúsíkklúbburinn sem á þessum tíma voru helstu drifkraftar í tónlistarflutningi helguðu sig nánast ein- göngu tónlist „hinnar sönnu listsköpunar“ eins og einhver kall- aði hana, en sniðgengu alla nýja tónlist. Hin „grimmilega atóm- músík“ sem m.a. kom úr smiðju Magnúsar Blöndals Jóhannssonar var að sjálfsögðu mikið áreiti fyrir unnendur hinnar svokölluðu „sönnu listar“. Þessar tilraunir ungu tón- skáldanna þóttu af sumum hin versta öfugþróun, „lokaskrefið út í tómið kalt og dimmt“ og því átti þetta ekki rétt á sér. En forvitnin var ekki aðeins hjá hinum skapandi listamönnum. Tónleikagestir voru líka forvitnir. Þeir hópuðust á tónleikana í Leikhússkjallaranum, í Framsóknarhúsinu og á fleiri kaffistaði þegar hin nýja tónlist hljómaði þar. Ísland var að taka við sér – við vorum að ná í skottið á hinu vestræna umhverfi í tónsköpun og flutningi tónlistar. Áratugurinn milli 1960 og 70 fór í það. Magnús Blöndal Jóhannsson var mikilvægur hlekkur í allri þessari þróun. Hann átti sitt tónmál, hann átti sína forvitni og leit eftir listrænum nýjungum. Hann samdi Sonorities I fyrir píanó (1963) þar sem flytjandinn leikur með sleglum inni í pí- anóinu og beitir upphandlegg, hnúum og fingrum til að fram- kalla hljóðin úr píanóinu. Atli Heimir Sveinsson skrifaði vand- aða grein um verkið í Birting. Þar segir hann m.a.: „Píanóverkið Sonorities, sem samið er 1963 ætti að geta gef- ið okkur dálitla hugmynd um vinnuaðferðir Magnúsar. Það er ekki ætlun mín að skilgreina verkið til hlítar, til þess er það of margrætt og flókið. List verður aldrei skilin né greind til fulln- ustu. Aðeins það sem er banalt og simpilt (vond list, þ.e.a.s. ekki list) getum við skilið. Og allt, sem er augljóst þarfnast ekki skýringa, aðeins hið dularfulla og skapandi er þess virði að fást við. Þess vegna vil ég drepa á nokkur atriði til almennrar glöggvunar, sem ég held að skipti máli. Í þessu verki notar Magnús fleiri hluta píanósins en tónborðið til hljóðmyndunar. Ef spilað er á strengina innaní píanóinu er unnt að fá fíngerðan og umfangsmikinn skala af mismunandi tónblæ. Við þekkjum það, að margvíslegur tónblær sé myndaður á einu og sama hljóðfærinu, bæði á strengja- og blásturhljóðfærum, og við þurfum ekki að kippa okkur upp við það þó slíkt sé gert á píanó. Það mætti segja að það væri andstætt eðli píanósins að berja nótnaborðið með flötum lófum, hnefum eða handleggjum, og spila á strengina innan í því. En hljóðfæri er ekki annað en hljóðgjafi, og hver kynslóð tónskálda hefur notað það eftir sínu höfði, og ekki hafa tónskáld nútímans búið til þessi hljóðfæri sem þau verða að notast við, hvað þá heldur haft áhrif á það hvernig þessi hljóðfæri væru notuð áður fyrr og því fáránlegt að ætlast til að tónskáld í dag noti sömu hljóðfæri á sama hátt og kollegar þeirra fyrir hundrað árum.“ Þetta var djörf skoðun árið 1964. Magnús samdi líka fram- sækna fiðluverkið Dimensions sem Rut Ingólfsdóttir frumflutti og hljóðritaði svo eftirminnilega 40 árum síðar. Þetta var alveg nýtt hér á landi en þekktist erlendis. Tilviljanatónlistin var líka þekkt erlendis og elektróníska tæknin var á svipuðu stigi í þró- un sinni í Evrópu og hún var í höndunum á Magnúsi upp úr 1960. Hann var einfaldlega með á nótunum í listsköpun sinni. Magnús var forvitinn í leit að umhverfi fyrir verk sín. Hann var einnig forvitinn á veraldlega sviðinu. Margir muna Magnús akandi í stórum amerískum bílum. Hann átti það einnig til að stökkva upp í flugvél „on the blue“ eins og hann orðaði ein- hverja skyndiákvörðun sína við mig einu sinni, fljúga austur að Hellu til að fá sér kaffi. Honum þótti líka gaman að bjóða fögr- um fljóðum í siglingu um sundin í skútunni sinni. Hann átti það líka til að leita sér að myndefnum í fögrum litum blómanna, heima sem uppi á heiðum. Hann elskaði alla tækni og oft heyrð- ist rödd hans í Gufunesradíói á árum áður í gegnum talstöðina sem hann hafði í Lapplander jeppanum – kallaði jafnvel heim í gegnum Gufunes og spurði: Átti ég að kaupa tvo eða þrjá lítra af mjólk. Það var tekið eftir þessu. Þetta eru aðeins augna- bliksmyndir af listamanninum Magnúsi. Árin milli 1970 og 80 eru hvergi, þau gufuðu upp og liðu hjá í tilgangsleysi en þegar aftur voraði upp úr 1980 varð til hið ynd- islega hljómsveitarverk Adagio sem Sinfóníuhljómsveit Ís- lands hefur leikið svo eftirminnilega og flutt hefur verið víða um heim. Síðar komu ýmis smáverk, verk fyrir synthesizer, sönglög og eitt og annað smálegt. Tónlist Magnúsar Blöndal Jóhannssonar ber höfundi sínum gott vitni um framsækinn, heiðarlegan og sannan listamann. Magnús giftist Kristínu Sveinbjörnsdóttur árið 1968 og eign- uðust þau einn son, Marinó Má. Þau slitu samvistum árið 1970. Árið 1974 giftist hann Sigríði Jósefsdóttur en hún lést úr slys- förum árið 1977. Magnús giftist fjórðu konu sinni, Huldu Sas- son í mars 1989 og lifir hún mann sinn. Sögulegt samstirni Magnús Blöndal Jóhannsson – 8.9.1925–1.1.2005 Eftir Bjarka Sveinbjörnsson bjarki@ruv.is Morgunblaðið/Sverrir Magnús Blöndal Jóhannsson „Hin „grimmilega atómmúsík“ sem m.a. kom úr smiðju Magnúsar Blöndals Jóhannssonar var að sjálfsögðu mikið áreiti fyrir unnendur hinnar svokölluðu „sönnu listar“. „Þessar tilraunir ungu tónskáldanna töldu sumir hina verstu öfugþróun. Höfundur er tónlistarfræðingur. Magnús Blöndal Jóhannsson lést 1. janúar síðastliðinn. Magn- ús var einn af framsæknustu tónlistarmönnum landsins, frumkvöðull í samningu tólftónatónlistar hér á landi og á sviði raftónlistar. Hér er ferill hans rifjaður upp.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.