Lesbók Morgunblaðsins - 05.02.2005, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 05.02.2005, Blaðsíða 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 5. febrúar 2005 | 3 að bæta fyrir skakkaföll sem hljótast af skammsýni og þröngsýni í skipulags- málum. Óvíða er bílnum ætlað að brúa jafnmargar og langar vegalengdir og hér heima. Íslenskar byggðir eru spýtt- ar eins og hundsskinn út yfir öll eðlileg mörk þannig að einangrun og óhagræði blasir við íbúum nýrra byggða ef þeir hafa ekki aðgang að bifreiðum, þessum dýrasta útgjaldalið hverrar fjölskyldu í einu dýrasta landi heims. Er til íslensk þéttbýlishefð? Sóðaskapurinn og hirðuleysið sem hlýst af stöðugt átakanlegra skipulagsleysi einkennir ekki einungis höfuðborg- arsvæðið, þar sem menn komast upp með að geyma eiturefni og eldsmat á lítt vörðum stöðum, heldur er sjónmengun og sinnuleysi fylgifiskur fjölmargra þéttbýlisstaða um allt land. Byggðir sem standa jafnvel í hrífandi umhverfi leyfa slíkan sóðaskap í landi sínu að það eyðileggur fullkomlega fegurð bæj- arstæðisins. Ferðamenn skilja ekkert í skorti þeim á samræmi sem einkennir margar sveitir á Íslandi þar sem mönn- um líðst að mála bæi sína í fullkomnu trássi við nánasta umhverfi, eða fylla túnfótinn ryðguðu véladrasli svo minnir á landslag að lokinni stórstyrjöld. Þórði verður einmitt tíðrætt um feg- urð og fegurðarhugtakið, sem hann tel- ur að hagnýtisstefnan hafi úthýst úr byggingarlist nútímans, enda mætti ætla af sinnuleysi okkar gagnvart skorti á skipulagi, samræmi og snyrtimennsku að hagnýtisstefnan hefði haft erindi sem erfiði í útrýmingarherferð sinni gegn fegurðinni. Pétur H. Ármannsson, arki- tekt og prófessor, bendir þó á þá stað- reynd, í erindi sínu Er til íslensk þétt- býlishefð?, að fegurð klassískra borga fyrir daga módernismans náði ekki til þeirra sem stóðu höllum fæti. Fátækt fólk bjó við slæm skilyrði, sem varð þess valdandi að frægir skipulagsfræðingar á borð við Ebeneser Howarth og Le Corbusier – menn sem fá afar slæma einkunn hjá Þórði Ben – sneru baki við aldalangri áherslu á fegurð í rótgrónu, evrópsku borgarskipulagi og vildu drífa borgarbúa burt af mölinni. Afleiðingar þessa má sjá í viðsnúningi á mati á manngerðu umhverfi. Áður fyrr horfðu menn á borgirnar utan frá, hvort heldur torg, stræti, hús eða hallir. Víða má sjá í fegurstu borgum hvernig fram- hliðinni var gert mun hærra undir höfði en öðrum útveggjum, rétt eins og útlitið eitt skipti öllu máli. Við Íslendingar höf- um sennilega tamið okkur að horfa á hlutina innanfrá. Fyrir okkur hefur út- sýnið löngum skipt mestu máli, jafnvel svo miklu að vistarverur okkar, utan frá séð, hafa mátt vera hvernig sem er svo fremi að fjöllin sæjust út um gluggana. Kæruleysi okkar gagnvart umhverfinu virðist þó fremur vera nýtilkomið ef marka má orð Péturs H. Ármannssonar, því svo undarlega vill til að skipulegustu hverfi Reykjavíkur og annarra íslenskra þéttbýlisstaða – þau sem gjarnan fá hæstu einkunn hjá okkur jafnt sem gestkomandi – eru elstu skipulögðu hverfin. Það er engu líkara en févana þjóð hafi verið snöggtum smekklegri en sú forríka sem síðar kom. Snemmbornir hugsjónamenn Tveimur árum áður en við urðum full- valda kom út fyrsta fræðilega ritið hér á landi sem fjallaði um skipulagsmál. Þetta var Um skipulag bæja eftir Guðmund Hannesson, pró- fessor við læknadeild Háskóla Íslands, sem út kom 1916, þegar skólinn hafði einungis starfað í fimm ár. Svo merkilegt sem það kann að virðast var Guðmundur leikmaður á sviði skipulags- mála en það kom ekki í veg fyrir að hann byggði eigið íbúðar- hús árið 1911, Hverfisgötu 12, á horni Ingólfsstrætis; glæsilegt steinsteypt íbúðarhús á hlöðnum grunni, sem Sævar Karl Óla- son klæðskeri lét færa til upprunalegs horfs fyrir fáeinum ár- um af sinni alkunnu smekkvísi. Guðmundur Hannesson hefur sennilega teiknað húsið sjálfur því það er engu öðru líkt hér- lendis. Með því og riti sínu, Um skipulag bæja, sem var óvenju ný- stárlegt fyrir sinn tíma, sýndi Guðmundur að umhverfismál þurfa ekki að vera einkamál sérfræðinga á því sviði. Reyndar var hann heilbrigðislæknir og skildi í þaula þörf almennings fyrir heilsusamlegar vistarverur en slíkur skilningur gerir menn ekki endilega hæfa sem skipulagsfræðinga. Samt má til sanns vegar færa að hugmyndir þær sem hann viðraði í riti sínu hafi haft heillavænleg áhrif á skipulag nýrra hverfa á milli- stríðsárunum. Þeim skilningi hans að hægt væri að raða húsum þannig við götur að sólar og skjóls nyti sem víðast var til að mynda hrundið í framkvæmd í nýjum hverfum á þriðja ára- tugnum. Trúlega var Guðjón Samúelsson undir áhrifum af kenningum Guðmundar þegar hann teiknaði hina frægu há- borg sína, árið 1924, sem rísa átti á Skólavörðuholtinu með ný- klassískri kirkju, háskóla og sjúkrahúsi. Því miður bárum við ekki gæfu til að taka við slíkum hug- myndum um heildarskipulag ákveðinna svæða þótt þau væru ekki stór í sniðum. Pétur H. Ármannsson bendir á að jafnvel þótt hróður þeirra Guðmundar og Guðjóns bærist út fyrir land- steinana upp úr miðjum fjórða áratugnum, og við Íslendingar fengjum mikið lof fyrir afrek þeirra, skorti okkur þann stórhug sem þarf til að skipuleggja hina verðandi borg með tilhlýðilegri djörfung og framsýni. Á eftirstríðsárunum, þegar við vorum komnir í álnir og farnir að sjá út úr kreppunni, hurfu allar stór- huga hugmyndir um áframhaldandi skipulag og við tóku laus- lega dregin úthverfi með handahófskenndri niðurhólfun svefn- bæja. Ekki var gert ráð fyrir neinni raunhæfri menningu í þessum úthverfum. Það þótti gott ef þar fannst matvöruverslun og sjoppa. Babýlon eða borg leiksins? Það er gegn þessari endalausu og óþörfu útþynningu þéttbýlis- ins og bifreiðinni, vafasömu og óburðugu bindiefni þess, sem Þórður Ben ræðst með teikningum sínum og málverkum af hugarfóstri sínu, Borg náttúrunnar. Hún lítur þó út fyrir að vera tilbrigði við gömlu Babýlon með öllum sínum risahofum og undursamlegu hengigörðum. Miðað við gömlu drögin hafa hin- ar nýju byggingar Þórðar stækkað og tekið á sig sérkennilegar og stórskornar formmyndanir líkastar ævintýralegum rökk- urhöllum Dimmuborga í Mývatnssveit. Rómantískum kynja- heimi hans verður varla jafnað við nokkuð nema fútúrískar draumsýnir ítalska arkitektsins Antonio Sant’Elia frá öðrum tug síðustu aldar og Himinbjörg Einars Jónssonar frá þeim þriðja. Þó er þessi dramatíska borgarmynd mun minni um sig en fyrstu skipulagsdrögin frá Kjarvalsstöðum 1982. En eins og Þórður sjálfur lýsir innviðum sinna ævintýralegu Feneyja, sem hann sér fyrir sér í Vatnsmýrinni, eru þeir þó mun nútímalegri og margbrotnari en myndirnar gefa til kynna. Áhorfandanum verður ósjálfrátt hugsað til annarra Babels- turna, eða Babýlonar hinnar nýju, sem aðstæðingarnir (situasjónistarnir) svokölluðu – með franska hugmyndasmiðinn Guy Debord og Cobra-málarana Asger Jorn og Constant í broddi fylkingar – létu sig dreyma um að risi til handa hinum eigrandi homo ludens, leikandi framtíðarmanninum, sem gerði sér alla þætti borgarlífsins að frjórri og skapandi skemmtun. Óviðjafnanleg borgarmódel Constants, smíðuð frá 1957 til 1975, voru hugsuð til bjargar nútímaborginni og firringu íbúa henn- ar. Þótt formrænt séð eigi þau lítið sameiginlegt með vistvænni náttúruborg Þórðar er grunnhvatinn ekki óskyldur. Eins og Guðmundur heitinn Hannesson eru þeir einnig leikmenn í skipulagsfræðinni. Það eitt ætti að vera okkur hinum hvatning til að leggja eitthvað til málanna, borginni okkar og byggðum til bjargar. Miðborgarskipulag Þórðar „Þórði Ben er greinilega mikið niðri fyrir og ástæðan er einkum sú að hann telur Reykjavík vera komna allnærri óafturkræfu skipulagsslysi.“ Er borginni við bjargandi? Höfundur er lektor við Listaháskóla Íslands.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.