Morgunblaðið - 23.11.2005, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 23.11.2005, Blaðsíða 14
14 MIÐVIKUDAGUR 23. NÓVEMBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ ERLENT NEÐRI deild þýska þingsins kaus í gær með miklum meirihluta Angelu Merkel í embætti kanslara og er hún fyrst kvenna til að gegna embættinu. Hún las upp hinn hefðbundna eið um að vernda stjórnarskrána eftir bestu getu en bætti síðan við ósk um hjálp Guðs í starf- inu. Fyrstur til að óska henni til hamingju var fráfarandi kanslari, jafnaðarmaðurinn Gerhard Schröder, sem nú lætur af þing- mennsku. En verður nýja stjórnin sterk og langlíf? Margir efast mjög um það og benda á að vandamálin sem hún þarf að glíma við séu svo mörg og risavaxin að kraftaverk þurfi til að ekki skerist alvarlega í odda áður en kjör- tímabilinu lýkur. Jafnaðarmenn (SPD) fá helming ráðuneyt- anna 16 og nokkur af valdamestu embætt- unum í sinn hlut, þ. á m. embætti varakansl- ara auk ráðuneyta utanríkismála og fjármála. Franz Müntefering, fráfarandi formaður SPD, verður mikill áhrifamaður sem varak- anslari. Sama er að segja um arftaka hans í flokknum, hinn alþýðlega Matthias Platzek, sem er austanmaður eins og Merkel. Hann situr að vísu ekki í stjórninni en á aðild að sérstökum samráðshópi stjórnarflokkanna sem mun hittast í hverjum mánuði. „Eitthvað nýtt og ferskt“ Þýskaland er mesta efnahagsveldið í Evr- ópusambandinu. Ljóst er að margir binda vonir við að nýrri stjórn í Þýskalandi takist að binda enda á efnahagsástand sem síðustu árin hefur einkennst af atvinnuleysi, miklum fjárlagahalla og litlum hagvexti. „Aðrar Evr- ópuþjóðir vona að eitthvað nýtt og ferskt líti dagsins ljós í Þýskalandi,“ sagði The Irish Times nýverið. „Nú gengur ekki lengur [fyr- ir þýska ráðamenn] að kenna andstæðingum um pólitísk mistök vegna þess að andstæð- ingarnir sitja hinum megin við ríkisstjórn- arborðið.“ En Merkel hefur þurft að slaka mikið til og athyglisvert er hve illa stjórnarsáttmál- anum hefur verið tekið í Þýskalandi, þannig hafa jafnt stéttarfélög sem vinnuveitendur fundið honum flest til foráttu. Merkel boðaði í kosningabaráttunni rót- tækar aðgerðir, einkum aukið frelsi í við- skiptum og á vinnumarkaði. Hún vildi losa um þær skorður sem gera vinnumarkaðinn ósveigjanlegan, gera auðveldara að reka starfsmenn og almennt ýta undir markaðs- hyggju þótt það þýddi að eitthvað yrði dregið úr umsvifum velferðarkerfisins. Og stað- bundin stéttarfélög áttu að fá að gera kjara- samninga í stað þess að samið væri á lands- vísu eins og lengi hefur tíðkast. Er sú tilhögun oft talin reyra efnahagslífið í viðjar sem losa þurfi um. Ekki náði sú hugmynd fram að ganga, nið- urstaðan varð sú að markaðshyggjan rót- tæka var að mestu lögð til hliðar. Það sem helst virðist standa eftir er að menn ætla að minnka fjárlagahallann sem er geysilega mikill, spáð að hann verði um 35 milljarðar evra á árinu. Verður það aðallega gert með aukinni skattlagningu, virðisaukaskattur hækkar úr 16 í 19% en einnig verður lagður á sérstakur hátekjuskattur að kröfu jafn- aðarmanna. Virðisaukaskatturinn hækkar þó ekki fyrr en 2007. Munu ráðamenn m.a. von- ast til þess að neysla fram að hækkuninni aukist, hagvöxtur eflist vegna þess að al- menningur helli sér út í kaupæði áður en verðlag hækki. Breska tímaritið The Economist er fullt efasemda og segir að Japanar hafi farið flatt á slíkum aðferðum 1997. Niðurstaða skatta- hækkana varð að afturkippur kom í efnahag sem var farinn að rétta úr kútnum. Er bent á að ýmis merki séu nú um að þýskur efna- hagur sé loks á uppleið en rangar ákvarðanir stjórnvalda gætu kæft þann bata. Bætt samskipti við Bandaríkin Ekki er búist við umtalsverðum breyt- ingum á stjórnarstefnunni í utanríkismálum en Merkel vill bæta samskiptin við Bandarík- in. Áherslan verður áfram á náið Evrópu- samstarf og samstöðu með Frökkum en stíll- inn gagnvart Bandaríkjamönnum verður annar, lögð meiri áhersla á að græða sárin eftir deilurnar um Írakstríðið. Þjóðverjar munu þó ekki senda herlið til Íraks til að létta undir með bandaríska og breska liðinu. Nánasti ráðgjafi Merkel verður hinn fimm- tugi Christoph Heusgen, sem var yfirmaður stefnumótunarráðs Evrópusambandsins frá 1999. Var aðalstarf hans að aðstoða Javier Solana, aðaltalsmann ESB í utanríkismálum. Heusgen þurfti að sögn International Herald Tribune að verjast ýmsum aðgangshörðum skriffinnum sambandsins sem óttuðust að Solana og embætti hans fengi of mikið sjálf- stæði. Mun Heusgen hafa sýnt mikla leikni í þeim erfiða dansi í Brussel. Samanlagt hafa stjórnarflokkarnir, annars vegar kristilegu systurflokkarnir tveir, CDU og CSU og hins vegar Jafnaðarmannaflokk- urinn, 448 þingsæti af alls 614. Merkel hlaut 397 atkvæði í kanslarakjörinu, 12 sátu hjá en 202 voru á móti, þar af 51 úr röðum stjórn- arliða. Þykir sumum þessi uppreisn stjórn- arþingmanna nokkur váboði. Ef umtalsverð- ur fjöldi stjórnarþingmanna er fyrirfram á móti samstarfinu er hætt við að snúið geti reynst að ná saman meirihluta um sársauka- fullar aðgerðir sem verða óhjákvæmilegar eigi Merkel að ná árangri. Sjálf hefur hún sagt að markmið sitt sé að Þjóðverjar geti að loknu kjörtímabilinu sagt að ástandið hafi batnað. Lægsti samnefnarinn? Starf Merkel verður ef til vill ein samfelld málamiðlun, leitin að lægsta samnefnaranum. En The Economist segir að þótt horfurnar séu ekki góðar ef menn einblíni á stjórn- arsáttmálann sé ekki öll von úti. Aðstæður geti knúið ráðamenn til að huga að nauðsyn- legum breytingum sem Merkel boðaði í kosn- ingabaráttunni. Minnir ritið á að Schröder hafi eitt sinn stært sig af því að hafa aldrei lesið stjórnarsáttmála jafnaðarmanna og græningja. Erfið stjórnarfæðing en Merkel hvergi bangin AP Angela Merkel sver eið sem nýr kanslari Þýsklands í þinghúsinu í Berlín í gær. Stjórnarsáttmála Angelu Mer- kel, fyrstu konunnar á stóli kanslara í sögu Þýskalands, hef- ur verið misjafnlega tekið. Krist- ján Jónsson kynnti sér málið. ’Munu ráðamenn m.a. vonasttil þess að neysla fram að hækkuninni aukist, hagvöxtur eflist vegna þess að almenn- ingur helli sér út í kaupæði áð- ur en verðlag hækki.‘ kjon@mbl.is HELMUT Kohl, fyrrverandi Þýskalandskansl- ari, kallaði hana „stelpuna“ sína þegar hún sat í stjórn hans. En Angela Merkel er ekki lengur í skugga læriföður síns og hefur komið mörgum á óvart sem leiðtogi Kristilegra demókrata, CDU, með festu sinni, kænsku og skarpskyggni. Angela Merkel fæddist í Hamborg í Vestur- Þýskalandi 17. júlí 1954. Faðir hennar, Horst Kasner, var prestur og fjölskyldan fluttist bú- ferlum til Austur-Þýskalands þremur árum síð- ar. Merkel ólst upp í Templin, litlum bæ um 80 km norðan við Berlín. Foreldrar Merkel sögðu henni að þar sem hún væri dóttir prests þyrfti hún að standa sig betur í námi en önnur börn til að eiga mögu- leika á að komast í háskóla í kommúnistaríkinu. Sem nemandi skaraði hún fram úr í stærðfræði, raunvísindum, ensku og rússnesku. Hún lauk doktorsnámi í eðlisfræði við Leipzig-háskóla og stundaði rannsóknir við Vísindaakademíu A- Þýskalands þegar Berlínarmúrinn hrundi árið 1989. Merkel var um tíma í nýrri pólitískri hreyf- ingu, Lýðræðislegri vakningu, áður en hún gekk til liðs við CDU. Hún var kjörin á þýska þingið með glæsibrag árið 1990 í austanverðu Þýskalandi. Kohl gerði hana að ráðherra fjöl- skyldumála og seinna umhverfismála. Merkel sýndi þó sjálfstæði sitt gagnvart Kohl síðar þegar hún gagnrýndi þátt hans í hneyksl- ismáli, sem snerist um fjármögnun kosninga- baráttu CDU og sú gagnrýni er sögð hafa hjálp- að henni að komast til valda í flokknum. Merkel er tvígift og barnlaus. Hún giftist skólabróður sínum, Ulrich Merkel, 1977 en þau skildu. Síðari eiginmaður hennar, Joachim Sauer, er eðlisfræðiprófessor við Humboldt- háskóla í Berlín. Þegar Merkel varð leiðtogi Kristilegra demó- krata í apríl 2000 litu margir á hana sem leið- toga til bráðabirgða en hún hefur komið þeim á óvart. Merkel hefur oft verið líkt við Margaret Thatcher, einu konuna sem gegnt hefur emb- ætti forsætisráðherra Bretlands. En einn af samstarfsmönnum hennar þegar hún var að feta sig upp valdastigann í CDU segir að Merkel sé aðeins að hluta til Thatcher, hún sé einnig þýskur Tony Blair. Þótt hún sé hægrisinnuð í efnahagsmálum gegnir öðru um félagsleg efni, hún er t.d. hlynnt auknum réttindum samkyn- hneigðra. „Stelpan“ tekur við ANGELA Merkel bætist í fámennan hóp póli- tískra leiðtoga úr röðum kvenna í heiminum. Staða kanslara svarar til forsætisráðherraemb- ættis og voru aðeins fjórar fyrir með þann titil. Þær eru Helen Clark á Nýja Sjálandi, Begum Khaleda Zia í Bangladesh, Luisa Diogo í Mósam- bík og Maria do Carmo Silveira í smáríkinu Sao Tome og Principe. Tvö síðastnefndu ríkin eru bæði í Afríku. Fleiri konur gegna forystuhlutverkum í lönd- um sínum, oftast eru þær þó tiltölulega valdalitl- ir þjóðhöfðingjar eins og Tarja Halonen, forseti Finnlands, eða krýndir þjóðhöfðingjar sem hafa erft stöðuna. En Gloria Arroyo á Filippseyjum er álíka valdamikil þar og bandarískir forsetar vestra. Allt bendir einnig til þess að Ellen John- son-Sirleaf verði næsti forseti Líberíu og er embættið hið valdamesta þar í landi. Alls eru nú 193 sjálfstæð ríki í heiminum. Fyrsta konan sem varð forsætisráðherra var Sirimavo Bandaranaike sem tók við embætti á Sri Lanka ári 1960 eftir að eiginmaðurinn, sem gegndi embættinu á undan henni, hafði verið myrtur. Þekktust kvenna í slíku embætti er án vafa Margaret Thatcher, „Járnfrúin“ svonefnda, sem var forsætisráðherra Bretlands 1979–1990. Fáar valdakonur SKOÐANAKANNANIR, sem birt- ar voru í gær, benda til þess að Ariel Sharon haldi embætti for- sætisráðherra Ísraels í komandi þingkosningum eftir að hann ákvað að segja sig úr Likud og stofna nýjan flokk. Moshe Katsav, forseti Ísraels, tilkynnti í gær að hann hefði orðið við beiðni Sharons um að rjúfa þing. Gert er ráð fyrir að kosið verði til þings 28. mars. Skoðanakannanir benda til þess að Likud, sem Sharon átti þátt í að stofna fyrir rúmum 30 árum, gjaldi afhroð í kosningunum. Flokki Sharons, Þjóðarábyrgð, var spáð 30–33 þingsætum af 120 og Likud aðeins 12–15 sætum. Lik- ud fékk 40 þingmenn kjörna í síð- ustu kosningum en fjórtán þeirra hafa sagt sig úr honum og ætla að ganga í nýjan flokk Sharons. Verkamannaflokknum, undir forystu nýs leiðtoga, Amirs Peretz, var spáð 26 þingsætum. Hann er nú með átján þingsæti. Sá kvittur kom upp að margir þingmenn Verkamannaflokksins hygðust ganga til liðs við Sharon en orðrómurinn sjatnaði eftir fund þingmanna flokksins í gær. Nokkr- ir atkvæðamiklir þingmenn, sem voru bendlaðir við Sharon, sögðust ekki ætla að segja sig úr flokknum. Shimon Peres, sem beið ósigur fyrir Peretz í leiðtogakjöri flokks- ins fyrr í mánuðinum, mætti ekki á fund þingflokksins í gær. The Jer- usalem Post hafði eftir Peres að ástæðan væri sú að hann hefði tek- ið sér „frí frá flokkspólitíkinni“. „Frí er ekki það sama og skiln- aður,“ sagði hann og gaf til kynna að hann hygðist ekki ganga til liðs við Sharon. Leiðtogakjör Likud hefst 19. desember Sjö frammámenn í Likud ætla að bjóða sig fram í leiðtogakjöri flokksins, þeirra á meðal Benjamin Netanyahu, fyrrverandi forsætis- ráðherra, Shaul Mofaz varnar- málaráðherra og Silvan Shalom ut- anríkisráðherra. Ísraelska dag- blaðið Yediot Aharonot birti í gær skoðanakönnun sem bendir til þess að um 50% félaga í Likud vilji að Netanyahu verði leiðtogi flokksins. Mofaz varnarmálaráðherra og Sha- lom utanríkisráðherra mældust báðir með 15% fylgi í flokknum. Aðeins um 23% allra kjósend- anna sögðust vilja að Netanyahu yrði forsætisráðherra. Leiðtogakjörið á að hefjast 19. desember og fái enginn frambjóð- endanna 40% atkvæða verður kos- ið aftur þremur dögum síðar, að sögn The Jerusalem Post. Netanyahu gerði harða hríð að Sharon í útvarpsviðtali í gær og sagði að þeir sem gengju í nýja flokkinn yrðu strengjabrúður for- sætisráðherrans. „Sharon er ein- ræðisherra. Hvaða máli skiptir það að einræðisherra brosi og hafi skopskyn ef hann leiðir yfir ykkur einræði, spillingu og stofnar öryggi ríkisins í hættu?“ Sharon kvaðst ekki hafa í hyggju að leggja niður byggðir gyðinga á Vesturbakkanum en léði máls á að það yrði niðurstaða samningaviðræðna við Palestínu- menn. Hann sagði að nú gæfist sögulegt tækifæri til að koma á friði eftir brotthvarf Ísraela frá Gaza-svæðinu fyrr á árinu. „Ég ætla ekki að leyfa neinum að glutra því.“ Flokki Sharons spáð sigri í kosningum Eftir Boga Þór Arason bogi@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.