Tíminn - 10.04.1984, Blaðsíða 8

Tíminn - 10.04.1984, Blaðsíða 8
8 ÞRIÐJUDAGUR 10. APRII. 1984 Útgefandi: Nútíminn h.f. Ritstjórar: Magnús Ólafsson (ábm) og Þórarinn Þórarinsson Ritstjórn, skrifstofur og auglýsingar: Síðumúli 15, 105 Reykjavík. Sími: 86300. Auglýsingasími: 18300. Kvöldsímar: 86387 og 86306. Verð í lausasölu 20 kr. en 22 kr. um helgar (2 blöð). Áskrift 250 kr. Setning og umbrot: Tæknideild Timans. Prentun: Blaðaprent hf. Létt undir með útgerdinni ■ Gífurlegar olíuverðshækkanir á undanförnum árum, stóraukinn fjármagnskostnaður og aflabrestur hafa leikið sjávarútveginn illa og fyrirsjáanlegt er að ekki má búast við auknurn afla fyrr en fiskistofnar fara að rétta við eftir þá lægð sem helstu nytjastofnarnir hafa komist niður í. En sjósókn verður að stunda frá íslandi hvað sem tautar og raular og hvað sem líður fjárhagsstöðu einstakra útgerðarfyrirtækja. Ýmislegt hefur verið gert til að létta útgerðinni róðurinn og nú síðast var ákveðið að skuldbreyta lánum Fiskveiðisjóðs og ætti það að létta vel undir í þeim erfiðleikum sem sjávarútvegurinn á nú í. Vextir af lánum sjóðsins eru lækkaðir um rúmlega helming, eða úr 10% í 4% og verður lánstíminn lengdur í allt að 25 ár. Þótt þetta leysi engan veginn allan vanda útgerðarinnar er þetta þó spor í þá átt að losa hana úr klafa lausa- og vanskilaskulda. Þau kjör sem Fiskveiðisjóður býður nú upp á ná til allra þeirra sem skulda sjóðnum án tillits til þess hvernig skuldastaða þeirra er, þannig að hér er ekki verið að hygla skussunum á kostnað þeirra sem dugmeiri eru eins og oft hefur viljað við brenna. En þrátt fyrir góðan vilja stjórnvalda og sjóðsstjórna verður hinn svokallaði vandi útgerðarinnar ekki leystur nema á einn veg, það er með aukinni fiskgengd og verðmætum afla. Allur sá mikli atvinnuvegur sem háður er sjávarfangi á allt sitt undir viðgangi fiskstofna og aflabrögðum. Þegar á heildina er litið er engan veginn vandalaust að þræða þann gullna meðalveg, að takmarka sókn í þá nytjastofna sem að bestu manna yfirsýn eru í hættu vegna ofveiði, og að sjá svo til að öllum fjárhagsgrundvelli verði ekki kippt undan sjávarútveginum. Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra hefur marg- ítrekað bent á að ef þjóðin ætlar sér að halda áfram að lifa í þessu landi dugi ekki að fara ránshendi um þá nytjastofna sem eru í hættu. Með því að takmarka sókn í þá svo að vöxtur og viðgangur þeirra geti orðið með eðlilegum hætti geti þeir í framtíðinni og staðið undir þeim lífskjörum sem kröfur eru gerðar til. Sjávarútvegurinn verður að sætta sig við takmark- anir á afla þangað til hættan er liðin hjá en jafnframt verður að halda útgerð og fiskvinnslu gangandi. Verðbólga undangenginna ára hefur leikið sjávarútgerð grátt, eins og aðra atvinnuvegi. Fjármagnskostnaður hefur aukist um allan helming en þess ber að gæta að hann er engan veginn séríslenskt fyrirbæri, eins og oft er látið í veðri vaka. Fjármagnskostnaður hefur aukist gífurlega um allan heim og þar sem íslendingar eru mjög háðir erlendum viðskiptum og erlendu fjármagni hefur þessi þróun mikil áhrif á íslenskt fjármálalíf og ekki síst það sem að sjávarútvegi snýr. Þá er útgerðin sá atvinnuvegur sem olíuverðhækkanir koma hvað verst við, og eru þær engan veginn heimatilbúinn vandi. Það eru því margar samverkandi orsakir sem hrjá sjávarútveginn. Mikið hefur verið gert úr of stórum fiskveiði- flota og sú töfralausn verið ágeng að fækka fiskiskipum og þá muni annað lagast af sjálfu sér. En það er ekki stærð flotans sem fyrst og fremst veldur vandræðunum, heldur aflatregðan. Þegar vel veiðist kvartar enginn yfir að fiskiskip séu of mörg eða of dýr. í fyrra t.d. var loðnuflotanum algjörlega ofaukið þegar engin loðna var dregin úr sjó, en í vetur kvartaði enginn yfir að nótaskipin væru of mörg þegar þau færðu mikla björg í þjóðarbúið. Sama verður uppi á tengingnum þegar friðunaraðgerðir og skynsamleg fiskveiðistjórn fara að hafa áhrif á þorskstofninn. En það verður að þreyja þorrann og góuna þegar hart er í ári og fiskiskipin verða að vera til staðar þegar betur árar. Þær skuldbreytingar sem nú er verið að gera eru liður í þeirri viðleitni að létta undir með útgerðinni á erfiðum tímum og munu ráðstafanir af þessu tagi skila sér margfaldlega þegar úr rætist. O.Ó. ___________________ skrifað og skrafað Sátt um sinn Breyfingar á stjórnarskrá og kjördæmaskipan var mjög til umræðu á síðasta ári. Mál þessi voru í brennidepli þegar formenn stjórnmálaflokk- anna komust að samkomu- lagi í þá veru að breyta þingmannafjölda einstakra kjördæma til að ná meira samræmi en verið hefur og fjölga alþingismönnum. Bú- seturöskunin undangengna áratugi hefur fært mál þessi mjög úr Iagi og þótti því eðlilegt að meira tillit væri tekið til fjölda kjósenda á bak við hvern þingmann en nú er gert. Sitt sýnist hverjum um mál þessi öll. Sumum finnst of skammt gengið og vilja að atkvæðavægi sé jafnt á öllu landinu, en þeir telja eðlilegt að hin fámennari kjördæmi hafi fleiri þingmenn en hin fjölmennu og færa þar til ýmis rök. Sú skoðun hefur verið uppi að óeðlilegt væri að Alþingi, þar sem stjórnmálaflokkarnir ráða lögum og lofum, hafi eindæmi um breytingar á stjórnskipaninni og benda á að eðlilegt væri að sérstakt stjórnlagaþing fjalli um þessi mál. Á margar leiðir er bent þegar fjallað er um stjórn- skipanina. Stungið er upp á að landið allt verði gert að einu kjördæmi og raddir heyrast um að einmennings- kjördæmi verði tekin upp á ný, en flestir munu þó vera á þeirri skoðun að núverandi kjördæmaskipan haldist, en þingmönnum fjölgað í þeim fjölmennustu til jafnvægis. Tómas Árnason alþingis- maður reifar málin í Austra og veltir þar einkum fyrir sér hvort ekki sé eðlilegast að sérstakt stjórnlagaþing fjalli um breytingar á stjórn- skipaninni. Tómas skrifar: „Breytingin á stjórnar- skránni sem samþykkt var á Alþingi í fyrra og sem áreið- anlega verður staðfest á þessu þingi fjallar í reynd fyrst og fremst um hvaða hlutfall skuli gilda um kosn- ingu þingmanna í Reykjavík og á Reykjanesi annars vegar og hins vegar á landsbyggð- inni. Þetta er raunar sátt um sinn hvað þetta snertir að viðbættu samkomulagi fjög- urra stjórnmálaflokka um að setja stjórnarskrá fyrst og fremst fyrir sig en ekki fyrir þjóðina. Heildarendur- skoðun stjórnar- skrárinnar bingflokkarnir sem stóðu að þessari breytingu á stjórnarskránni urðu ásáttir um að leggja fram með frum- varpinu sem sérprentað fylg- iskjal, „skýrslustjórnarskrár- nefndar um endurskoðun skrárinnar“ (Reykjavík, janúar 1983). Þetta er gert í því skyni að almennar um- ræður fari fram um heildar- endurskoðun stjórnarskrár- innar. Ætti almenningi þá að gefast kostur á að tjá sig um þá endurskoðun þannig að afgreiðsla nýrrar stjórnar- skrár geti orðið með vönduð- um hætti að lokinni rækilegri umfjöllun. Þannig varð sam- komulag þingflokkanna þeg- ar frumvarpið um breytingar á stjórnarskránni var lagt fram á Alþingi. Það er sam- komulag um að afgreiðsla nýrrar stjórnarskrár geti orði með vönduðum hætti að lok- inni rækilegri umfjöllun þjóðarinnar þar um. Stjórnlagaþing setji nýja stjórnarskrá Á seinasta flokksþingi Framsóknarflokksins var ályktað m.a. á þá leið að efna beri til sérstaks stjórnlaga- þings sem leitist við að ná þjóðarsáttum um stjórnskip- an landsins. Það hefur marga kosti að stjórnlagaþing setji þjóðinni stjórnarskrá. Fyrir það fyrsta myndi slíkt þing einvörðungu fjalla um stjórnarskrána og ekkert -annað. Fulltrúar á stjórnlagaþingi yrðu væntan- lega kosnir eftir afstöðu manna til þess máls fyrst og fremst. Þess vegna er líklegt að menn með ólíkar stjórn- málaskoðanir yrðu samherj- ar um setningu stjórnarskrár eða grundvallarlaga. Það gæti því myndast samstæður meirihluti um málið á stjórn- lagaþingi þótt ekki væri grundvöllur fyrir slíku á Al- þingi. í öðru lagi yrði megin viðfangsefni stjórnlagaþings að setja grundvallarlög fyrir þjóðina. Eitt kjarnaatriði í stjórnarskránni er meðferð ríkisvaldsins. Stjórnmála- flokkarnir fara í reynd með ríkisvaldið í lýðræðisþjóðfé- lagi. Er þá ekki hætt við að afstaða þeirra til grundvállar- laga myndi einmitt ráðast af hagsmunum sjálfra flokk- anna í stað þeirra stóru hags- muna þjóðarinnar að setja stjórnarskrá sem myndi leiða til farsælla stjórnarhátta. Það er enginn réttlátur dómari í eigin sök, hvorki Alþingi, stjórnmálaflokkarnir né aðrir. Á stjórnlagaþingi myndi e.t.v. skapast grundvöllur fyrir því að gjörbreyta kosn- ingaskipun og kosningafyr- irkomulagi. Stjórnlagaþing þyrfti ekki nauðsynlega að reikna nákvæmlega út kerfi fyrir stjórnmálaflokkana eins og nú hefur verið gert heldur að setja nýtt kerfi sem yrði nýr grundvöllur nýrrar flokkaskipunar í landsinu. Kerfi sem þjappaði mönnum með skyldar skoðanir saman í stærri flokka í stað tilhneig- ingar núverandi kerfis til að fjölga flokkum og auka á glundroða í íslenskum stjórn- málum. Hvernig á að kjósa til stjórnlagaþings? Ein aðferð gæti verið sú að leggja til grundvallar hlutfallið milli þingmanna Reykjavíkur og Reykjaness annars vegar og landsbyggðarinnar utan höfuðborgarsvæðisins hins vegar eins og það er í núver- andi stjórnarskrárfrumvarpi, það er 30 á móti 33 þingsæt- um. Skipta svo þessum landshlutum upp í einmenn- ingskjördæmi með sem jafn- astri kjósendatölu. Það mætti hugsa sér að hafa tvær um- ferðir í kosningum. Það væri því nægjanlegt, þegar þar að kemur, að leggja fram á Alþingi frum- varp til laga um þá einu breytingu á stjórnarskránni að sérstakt stjórnlagaþing væri kosið til að setja lýðveld- inu stjórnarskrá sem öðlist gildi eftir að meirihluti al- þingiskjósenda hefur greitt henni atkvæði. Þá verður jafnframt að setja lög um kosningar til stjórnlagaþings- ins.“ . . ■ Gíslatún er á vinstri hönd þegar ekið er inn í Borgarnes af Borgarfjarðarbrúnni. Þar hefur Kaupfélag Borgfirðina verið úthlutað lóð þar sem gert er ráð fyrir að rísi ný þjónustumiðstöð. Mynd Ragnheiður. Verkalýðsfélag Borgarness: Rúm 1,2 millj. í atvinnuleysisbætur ■ „Nú þegar verði hafist handa við byggingu þjónustumiðstöðvar á Gísla- túni í Borgarnesi. Unnið verði að sam- ræmdri stefnu hvað varðar þjónustu við ferðamenn í Borgarfirði. Gerð verði rækileg athugun á möguleikum að auk- inni fullvinnslu landbúnaðarvara í Borg- arnesi. Komið verði á léttum iðnaði á Hvanneyri og í Reykholti." Þetta eru áherslu atriði í samþykkt aðalfundar Verkalýðsfélags Borgarness sem haldinn var nýlega. Félagið leggur mikla áherslu á að störfum fjölgi í Borgarfirði þannig að allir sem þess óska eigi kost á atvinnu. Á fundinum kom fram að atvinnu- ástand var ekki gott á félagssvæði Verka- lýðsfélags Borgarness á síðasta ári. At- vinnuleysisbótum var úthlutað til 62 einstaklinga samtals að upphæð 1.231.254 krónum. Þótt atvinnu- og kjaramál væru að venju höfuðviðfangsefni félagsins var unnið að ýmsum fleiri málum. Miklar endurbætur voru gerðar á félagsheimili stéttarfélaganna. Haldin voru námskeið um fjölmiðlun. um opinbera þjónustu og námskeið fyrir trúnaðarmenn á vinnu- stöðum. Tekið var upp formlegt samstarf við Neytendafélag Borgarfjarðar, sem hefur skrifstofu í félagsheimili verka- lýðsfélaganna. Þá ákvað félagið á árinu að kaupa frístundatryggingu fyrir félags- menn. Er hún svipuð og trygging at- 'vinnurekenda á launþegum, nema að hún nær yfir frítíma fólks. Að lokum má geta þess að Samkór var stofnaður á vegum Verkalýðsfélags Borgarness, sem byrjaði æfingar í nóvember s.l. undir stjórn Björns Leifssonar. Formaður félagsins var endurkjörinn Jón Agnar Eggertsson. Aðrir í stjórn eru: Karl Á. Ólafsson, Agnar Ólafsson, Sigrún D. Elíasdóttir, Baldur Jónsson, Ólöf Svava Halldórsdóttir og Guðríður Þorvaldsdóttir. -HEI

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.