Lesbók Morgunblaðsins - 02.09.2006, Blaðsíða 15

Lesbók Morgunblaðsins - 02.09.2006, Blaðsíða 15
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 2. SEPTEMBER 2006 15 SUMARSÝNING Listasafns Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum er einstaklega létt og leikandi að þessu sinni enda hefur sýningarstjórnin tekið þá ákvörðun að hvíla allar pælingar um listsögulega þróun og samhengi verka við ákveðin tímabil og einbeitt sér að fagurfræð- inni. Áhersla hefur verið lögð á samhljóm verk- anna í sölum safnsins og sýnd eru verk „sem áhorfandinn getur notið á forsendum fegurðar og tilfinninga“, segir í texta sýningarinnar, og óhætt er að segja að vel hafi tekist til við að skapa þessar forsendur. Í austursalnum hefur verið sköpuð „saloon“-stemming sem er um- gjörð um verk gömlu meistaranna. Áhorfand- inn gengur inn í hálfmyrkvaðan salinn þar sem landslagsmálverk og kyrralífsmyndir í þung- um gylltum römmum eru lýst upp með ljós- kösturum. Bakgrunnur verkanna er á köflum í sterkum litum, rauðum, bláum og gráum, sem gerir það að verkum að upphafning verkanna verður enn meiri. Það virðist vera þversögn en í þessu ljósi, þar sem málverkin hlutgerast sem dýrmætir borgaralegir listmunir, verður áherslan um leið á sjálft myndefnið, landslag og önnur mótíf áberandi. Málaratæknin, pens- ildrættir og sköfuför leika aukahlutverk þar sem athyglin beinist að hinni sjaldséðu fegurð verkanna sem birtist í þessu ljósi, og minnir það um margt á ljósaskiptin í náttúrunni sem valda því að allir litir verða dýpri, fyllri og dul- úðlegri. Flest verkin í þessum sal eru eftir Kjarval og má segja að dökkgrár og ljósgrár bakgrunnur henti þeim ákaflega vel hvort heldur sem um er að ræða mosa- og hraun- myndir eða blúndugardínur í glugga. Sama er að segja um dökkbláan bakgrunn við verk Jóns Stefánssonar sem magnar upp hinn sérstæða bláa lit í fjallamyndum hans. Verkin glitra og glansa, fjallamjólkin verður enn hvítari, Eyja- fjallajökull Ásgríms Jónssonar er eins og fjólu- bleikur gimsteinn og stemmingin óviðjafn- anleg. Í Vestursal má sjá verk yngri listamanna í hefðbundinni birtu nútímasýning- arsala. Þar hefur einnig tekist vel upp við val verka, fagurfræðilegt samhengi þeirra og upp- hengi einkennast af næmri smekkvísi og létt- leika. Hugmyndafræðilegt verk Kristjáns Guðmundssonar og afstrakt málverk Gunnars Kvaran fara vel saman og gætu allt eins verið verk úr sömu listastefnu. Málverkin leika stærsta hlutverkið á sýningunni en þrívíð verk á borð við verk Hreins Friðfinnssonar, Ljós skugga og ryks, ásamt sérstæðu pappamassa- verki Svövu Björnsdóttur, njóta sín vel innan um. Á göngum eru tveir skúlptúrar ásamt mik- ið sýndu verki Finns Arnars, sem sam- anstendur af þríhjólum sem börn hafa aðgang að. Hér er léttleikinn kannski fullmikill og ekki laust við að manni finnist langveggurinn óþarf- lega vannýttur. Hins vegar er rúsínan í pylsu- enda þessarar sýningar óvenjulegt og sérstakt verkefni í hinum litla Norðursal hússins, sem ber yfirskriftina Skoðum myndlist og er ætlað börnum. Bók með sama titli liggur á gólfi á litlum mottum þar sem börn geta sest niður, en listaverkum úr eigu safnsins hefur verið komið fyrir í rýminu, á gólfinu eða á veggjum í augn- hæð barnanna. Þar sem salurinn gæti við fyrstu sýn virkað eins og hefðbundið leik- herbergi sem komið er upp fyrir börn á op- inberum stað þá bregður manni auðveldlega við þegar í ljós kemur að það eru ekki kubbar sem liggja á gólfinu heldur frægt verk Katr- ínar Sigurðardóttur, Green Grass of Home, sem inniheldur ferðamódel af görðum í sér- stakri tösku. Hér má segja að virðing og fullt traust sé borið til barnanna og leiðsögumanna þeirra og starfsmanna safnsins. Sýningin er ákaflega vel heppnuð og til þess fallin að gleðja gesti safnsins, jafnvel endurnýja áhuga á myndlist, gamalli jafnt sem nýrri. Morgunblaðið/Sverrir Sumarsýningin „Þar hefur einnig tekist vel upp við val verka, fagurfræðilegt samhengi þeirra og upphengi einkennast af næmri smekkvísi og léttleika,“ segir Þóra Þórisdóttir um sumarsýninguna á Kjarvalsstöðum. Sýningunni lýkur 17. september. Fegurð og samræmi MYNDLIST Kjarvalsstaðir Sýningin stendur til 17. september Opið alla daga kl. 10–17 Sumarsýning – Úr safneign Listasafns Reykjavíkur Þóra Þórisdóttir Gláparinn Eplin hans Adams (Adams Æbler) er ein- staklega vel gerð og áhrifamikil dönsk bíó- mynd, gerð 2005 af leikstjóranum Anders Thomas Jensen. Myndin er í senn einföld og margbrotin dæmisaga um baráttu góðs og ills með bíblíulegum tilvísunum ma. í Jobs- bók. Sveitapresturinn Ivan tekur að sér að endurhæfa unga afbrotamenn og snúa þeim frá villu síns vegar. Hann trúir á hið góða í manninum, lætur allt yfir sig ganga og er í algjörri afneitun gagnvart því sem úrskeiðis hefur farið í hans eigin lífi. Ungur, ofbeld- ishneigður nýnasisti, Adam, kemur til hans í sveitina í meðferð. Presturinn hvetur Adam til að setja sér markmið til að keppa að og í hálfkæringi velur Adam það einfaldasta sem honum kemur í hug: að baka eplaköku úr eplunum, sem vaxa á stóra eplatrénu á prestssetrinu – þegar þau hafa náð fullum þroska. En einföldustu markmið reynast flókin. Bráðfyndin mynd, sem býr yfir heilmikilli dýpt og býður upp á skemmtilegar vanga- veltur. Hvað gerist þegar manneskjan er svipt blekkingarvefnum, sem hún hefur vafið sig í (líkt og Ibsen leikur sér með í Villiönd- inni). Fallegt töfraraunsæi í efnistökum, sem gengur oft glannalega á allan trúverðugleika, stílhrein myndataka, áhrifamikil tónlist og af- bragðsgóður leikur: Ulrich Thomsen, Mads Mikkelsen og Nicolas Bro. Flott verk! Myndin er komin út á DVD hjá M&M Pro- ductions, Nordisk Film, 90 mín. Stefán Baldursson Morgunblaðið/Golli Stefán Baldursson „Bráðfyndin mynd, sem býr yfir heilmikilli dýpt og býður upp á skemmti- legar vangaveltur,“ segir Stefán um dönsku kvikmyndina Epli Adams. Hlustarinn Ég er ekki „alæta“ á tónlist heldur „valæta“ – þurfi að líkja tónlistarnautn við át. Síðast keypti ég Modern Times með Bob Dylan og á eftir að átta mig á henni. Þetta er ekki sú besta síðan Blood on the tracks – það held ég hafi verið Oh Mercy en eins og undanfarið skiptast á illskeyttir búggar og krúnaðar ballöður. Hann er eins í öllum lögum en aldrei samur. Eða samur og aldrei eins. Þetta eru oft tví- hendur laustengdar með viðlögum og geyma fimmaurabrandara, húsganga og djúpa speki í einum graut. Allar setningar hafa orðið „ég“ í þeim en „ég“-arnir eru hundrað. Hér er Barra- bas á krossinum, elskhuginn undir glugganum, trúbadorinn og presturinn; sumt hljómar eins og „þessi erfiði á númer ellefu“ og ekki ljóst hvort hann er að tjútta með göngugrindinni eða skekja hana ógnandi; sumt hljómar eins og Donald Rumsfeld á fylleríi, krunkandi um að hefndin sé sín – og sumt hljómar eins og 20. öldin í andarslitrunum. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur Morgunblaðið/Ásdís Guðmundur Andri Honum finnst ný plata Dylans, Modern Times, ekki sú besta síðan Blood on the tracks en eins og undanfarið skiptist á illskeyttir búggar og krúnaðar ballöður.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.