Morgunblaðið - 10.04.2008, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 10.04.2008, Blaðsíða 38
38 FIMMTUDAGUR 10. APRÍL 2008 MORGUNBLAÐIÐ Alt hefur verðbréfagildi um-hverfis frægan listamann,“sagði í Silfurtúngli Laxness. Í góðærinu, kannski gróðaæðinu, á Íslandi undanfarin ár hefur allt verið metið til fjárins, einnig gildi listaverka. Sumir listamenn þykja fínni peningaseðill en aðrir. Og fólk lætur ráðleggja sér hvað sé eft- irsóknarverð list, í merkingunni góður díll. Það jafnast ekkert á við listaverk sem líklegt er að hækki í verði. Svo falla hlutabréfin og gengi krónunnar. En listaverkin hanga enn á veggjunum. Og ekkert lát er á hamarshöggum, hvorki á heimilum né uppboðum.    Fyrir listakaupstefnuna The Ar-mory Show í New York í síð- ustu viku var „skjálfti“ í mörgum, eins og einn orðaði það, en svo kom á daginn að viðskiptin döfnuðu vel og rúmlega það, þó að menn færu var- lega í sakirnar og væru heldur íhaldssamir í vali á listaverkum sem teflt var fram. Í The Art Newspaper var fyrirsögnin eftir fyrsta daginn: „Crash, what crash?“ Sumir spá því að áhrifa nið- ursveiflunnar í efnahagslífinu fari ekki að gæta fyrr en eftir hálft ár. Aðrir eru á því að þótt dragi úr æs- ingnum og yfirboðum, þá muni lista- verkamarkaðurinn halda sínu striki. Fólk sé varkárt með fjármuni sína og vilji „fara nær gullinu“. Sigurður Gísli Pálmason benti raunar á það nýverið á ráðstefnu um íslenska nútímamyndlist og stöðu hennar að þegar horft væri áratugi aftur í tímann væri slík fjárfesting engu síðri leið en aðrar til að ávaxta sitt pund. Enda var það þannig í byrjun níunda áratugarins að fjár- festing í listaverkum og fornbókum var ein af fáum leiðum til að bjarga sparifénu frá óðaverðbólgunni. Og ekki má gleyma því að þótt verðgildið lækki færir listaverk eig- anda sínum áfram ánægju. Að því gefnu að hann hafi ekki einungis verið að hugsa um aurinn þegar hann keypti verkið og þyki það jafn- vel nauðaómerkilegt og forljótt. Þrátt fyrir allt er gildi listaverka nefnilega fólgið í innra virði þess, ekki verðmiðanum sem límdur er á það. Nokkuð sem ættu að vera aug- ljós sannindi. Enda skiptir verðið yf- irleitt ekki máli fyrr en skipta á dán- arbúinu, því fólk selur sjaldnast listaverk sem á annað borð eru kom- in inn á heimilið. Þegar kemur að slíkum uppskiptum er kannski best að listaverkin séu einskis virði, í krónum talið. Það minnkar líkurnar á sundrungu í hópi afkomenda.    En innra virðið er óháð sveiflumá mörkuðum. Á sýningu Sig- urðar Guðmundssonar er verk sem nefnist „Aðdáendur mínir“. Víst má telja að fyrirsæturnar á þessu óborganlega verki, sem eru í raun og veru aðdáendur listamannsins, eigi verk eftir hann í fórum sínum. Og gildi þeirra verka í hugum aðdá- endanna er eflaust hærra en verð- miðinn segir til um. Menn úr listheiminum hafa hneykslast á því við mig að greint hafi verið frá kaupum Emmanuel Petit á verkum eftir Óla G. Jóhanns- son, listmálara á Akureyri á baksíðu Morgunblaðsins. Og spurt af hverju það sé frétt að knattspyrnumaður kaupi listaverk. Lítið er gefið fyrir að hann hafi orðið heimsmeistari með Frökkum, hvað þá Englands- meistari með Arsenal. Víst vaknar sú spurning hvort listamaðurinn verði áhugaverðari fyrir vikið. Er hann þá góður lista- maður, úr því Petit keypti verkin? Úr orðum „sérfræðinganna“ má lesa að meiri vigt hefði verið í frétt- inni ef kaupandinn hefði verið list- fræðingur. Eins og almenningi hefði ekki staðið á sama um slík viðskipti. Fyrirsögnin hefði þá verið: „List- fræðingur kaupir listaverk“. Í nýlega viðtali við listamann var fyrirsögnin: „Er mjög vinnusamur“. Enn má spyrja hvort skilaboðin séu þá að úr því hann sé ekki latur, þá hljóti hann að vera góður listamað- ur? Og víst var það upphefð fyrir Vesturport að leikskáldið Harold Pinter mætti á síðustu sýningu á Hamskiptunum í London. En varð sýningin betri fyrir bragðið, þján- ingin dýpri og brandararnir fyndn- ari? Það er nefnilega alltaf verið að líma verðmiða á listaverk, en sá gjörningur hefur bara ekkert með listina að gera. Ekkert frekar en hverjir eru kaupendur að listaverk- um eða hvenær listamönnunum þóknast að stíga úr rekkju.    Einu sinni sagði menningarsinn-aður kollegi minn: „List er ekki fyrir fólk.“ Og spurning vaknar hvort listaverk sé síðra þó að það höfði ekki til neins? Eða bara til eins – og það heimsmeistara í knatt- spyrnu? Er það ekki hann sem ákveður verðið á listaverkunum með því að taka upp pyngjuna? Hamarshögg glymja á hverjum degi. Og bísnessinn gengur bara vel. Listfræðingur kaupir listaverk AF LISTUM Pétur Blöndal »Menn úr listheim-inum hafa hneykslast á því við mig að greint hafi verið frá kaupum Emmanuel Petit á verk- um eftir Óla G. Jóhanns- son, [...] á baksíðu Morgunblaðsins. Morgunblaðið/Valdís Thor Aðdáendur mínir Frá sýningu Sigurðar Guðmundssonar í Listasafni Reykjavíkur. pebl@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.