Samvinnan


Samvinnan - 01.05.1963, Blaðsíða 11

Samvinnan - 01.05.1963, Blaðsíða 11
DAGBLAÐ Kringum mánaðamótin febrúar- marz kom í bókabúðir skáldsaga eft- ir ungan höfund, Baldur Oskarsson, blaðamann hjá Tímanum. Ber hún heitið Dagblað og fjallar, eins og nafnið bendir til, um líf og starf blaðamanns við dagblað í Reykjavík. —- Er höfundur gjörkunnugur þeim vettvangi, enda fer honum dável úr hendi að vinna úr þeim efnivið, sem þar er boðið upp á. Sagan er skrifuð í harðsoðnum stíl og áhrifin frá Hemingway og þó eink- um Indriða G. Þorsteinssyni eru mjög auðsæ. Þó hefur höfundi tekist að móta sér ákveðin sérkenni í máli og stíl. Tekst honum sumsstaðar að skapa allsterk áhrif, ekki sízt í fyrsta hluta sögunnar og þó einkum í loka- þættinum. Má fullyrða, að með þess- ari sögu hafi Baldur trvggt sér sæti framarlega á bekk meðal íslenzkra rit- höfunda af yngri kynslóðinm. Dagblað er önnur bók Baldurs, hin fyrri var Hitabylgja, smásagna- safn er kom út 1960. Þá hefur Bald- ur skrifað margt greina í blöð, eink- um í Tímann, og fengist \ið ljóða- þýðingar, meðal annars úr spænsku eftir García Lorca. — Hin nyja bók er 125 blaðsíður að stærð, í meðal- stóru broti og gefin út af Bókaútgáf- unni Fróða. Prentunina hefur Prent- smiðja Jóns Helgasonar annast. dþ. Kjartan Sæmundsson Fæddur: 6. apríl 1911 Dáinn: 24. apríl 1963 Á síðasta degi nýliðins vetrar, sem mörgum varð þungbær um það lauk, hné óvænt og skyndilega í valinn einn geðþekkasti starfs- og trúnaðarmaður íslenskra sam- vinnusamtaka, Kjartan Sæmunds- son, kaupfélagsstjóri Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis. Hafði hann komið úr verzlunarferð frá útlöndum þá um morguninn, geng- ið þegar til vinnu sinnar glaður og hress, að því er virtist og var síð- degis á leið til skrifstofu sinnar, er hann féll niður og var þegar ör- endur. Kjartan var Norðlendingur, fæddur í Ólafsfirði 6. apríl 1911. Foreldrar hans voru hjónin Magnea Magnúsdóttir og Sæmundur Steins- son verkstjóri. Innan við 10 ára aldur flutti hann til Akureyrar með foreldrum sínum og unglingspilt- ur aðeins 16 ára að aldri réðist hann til KEA og varð þar fljótlega deild- arstjóri. Ávann hann sér þegar traust og vinsældir allra. Þegar svo skyggnzt var um eftir æskilegum manni til vandasamra starfa fyrir SÍS erlendis 1942, atvikaðist það einhvern veginn svo, að einmitt Kjartan Sæmundsson varð fyrir valinu. Vann hann þá næstu 4 árin vestur í Ameríku við vöruinnkaup fyrir landsmenn. Eftir heimkom- una varð Kjartan deildarstjóri í Búsáhaldadeild SÍS árum saman, seinna fulltrúi framkvæmdastjóra Innflutningsdeildar og verzlunar- stjóri í SÍS Austurstræti, unz hann tók við kaupfélagsstjórn í KRON 1. október 1957. Þann dag átti Kjartan réttra 30 ára afmæli sem starfsmaður samvinnusamtakanna í landinu. Síðan eru liðin 5y2 ár. Þannig helgaði þessi mæti maður samvinnuhugsjóninni dýrmæta starfsævi sína óslitið. Það var þráfaldlega ekki heiglum hent að standa í sporum Kjartans, hvorki að afköstum né vanda. Ekki sízt mun hafa reynt á starfsþrek hans og hæfni eftir að hann hafði tekið við þeim mikla vanda, sem forsjá KRON lagði honum á herðar. En Kjartan lagði sig allan fram og var vakinn og sofinn í örðugu hlut- verki sínu. Var samvizkusemi hans og dugnaður með einsdæmum. Skeði þá hvort tveggja, að hagur og gengi félagsins batnaði frá ári til árs og vinsældir kaupfélags- stjórans uxu, en gengið mun þá hafa á persónuleg verðmæti hans sjálfs: heilsu og þrótt, þótt þessum árvaka hugsjónamanni yrði það ekki sýnilegur fjötur um fót. Hann var seint og snemma borinn uppi af brennandi áhuga fyrir samvinnu- félagslegum framförum til lífsbóta fyrir almenning. Kjartan Sæmundsson var hinn hugljúfasti maður í allri umgengni, drenglundaður, góðviljaður, lítillát- ur og manna prúðastur. Það fór þess vegna ekki hjá því, að vin- sældir hans yrðu miklar og varan- legar. Hann var einn af þeim mönn- um, sem með mannkostum sínum og lífsviðhorfum fegra og bæta lífið svo langt sem áhrif þeirra ná. Kvæntur var Kjartan Ástu Bjarnadóttur Benediktssonar frá Húsavík, hinni ágætustu konu. Eignuðust þau fjórar dætur, sem enn eru í bernsku. Heimilisfaðir var Kjartan hinn ágætasti eins og að líkum lætur um slíkan mannkosta- mann. Mætti ég mæla við vin minn, Kjartan, veit ég ekki nema ég segði með Matthíasi: Gott er að eiga góða frændur, betra sjálfum sér braut að ryðja — bezt er að lifa sem lifðir þú, hógvær og prúður heiðursmaður. Skarð Kjartans Sæmundssonar í forystusveit íslenzkra samvinnu- manna stendur ennþá ófyllt og opið. Baldvin Þ. Kristjánsson. SAMVINNAN 11

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.