Vísbending


Vísbending - 10.10.2008, Blaðsíða 3

Vísbending - 10.10.2008, Blaðsíða 3
V í s b e n d i n g • 3 8 . t b l . 2 0 0 8 3 Nikolay Dimitriyevich Kontratév var rússneskur hagfræðingur fæddur 1892. Hann vann að fyrstu fimm ára áætlun Sovétríkjanna. Þegar hann seinna var andsnúinn algjörri samyrkjubúskapar væðingu landbúnaðarins, féll hann í ónáð hjá sovéskum yfirvöldum og hvarf inn í Gúlagið. Þar var hann fyrst dæmdur í átta ára vist en dómur hans endurskoðaður að þeim tíma liðnum og hann dæmdur til dauða og tekinn af lífi, líklega 1938. Á meðan hann var ennþá í náðinni hjá Stalín ferðaðist hann til Bandaríkjanna og Bretlands árið 1924. Þar hélt hann erindi um kenningu sína um langtímasveiflur í kapítalísku hagkerfi. Fyrir þá kenningu varð hann nokkuð þekktur á Vesturlöndum. Hann byggði skoðanir sínar á greiningu sveiflna í bresku og frönsku hagkerfunum, en á báðum stöðum var hægt að fá skráðar tölur allt aftur til Napóleonsstyrjaldanna. Hann athugaði sveiflur í vöxtum skuldabréfa, bankasparnaði, verðlagi neysluvara, launum verkafólks í landbúnaði og iðnaði, sveiflur í utanríkisverslun og framleiðslu á kolum og járni. Þegar Kondratév vann að greiningu sinni voru að vísu til handknúnar reiknivélar, en engu að síður hefur vinnan við þetta verið bæði löng og ströng. Ennfremur byggðist greining hans á grafískum aðferðum fremur en ítarlegri stærðfræðigreiningu. Nú á þessum tölvutímum væri þetta auðsótt. Kenning Kondratévs Það sem Kondratév taldi sig finna, var að í ofangreindum hagkerfum mætti finna nokkuð óreglulegar sveiflur sem endurtækju sig með áratuga millibili. Þessar sveiflur væru hinsvegar miklu sterkari en tíðari og styttri sveiflur. Hann ritaði bók um kenningar sínar (1). Á tímum kreppunnar á fjórða áratug síðustu aldar vöktu kenningar Kondratévs þó nokkra athygli en með uppgangi vestrænna hagkerfa eftir aðra heimsstyrjöldina gleymdust þær fljótt, þóttu ómarktækar vegna þess að allt væri svo breytt frá fyrri tímum að þær ættu ekki lengur við. Samt sem áður glímdu ýmsir fræðimenn við að reyna að finna stærðfræðilegar aðferðir til að greina hegðun verðbréfamarkaða. Það líkan sem einna helst virtist lýsa verðsveiflum var hið svokallaða tilviljanakennda ráp líkan (Random walk model (2)). Því hefur verið líkt við sporgöngu fyllirafts er stendur við staur og ákveður að fara eitthvað, tekur eitt spor í einu, en áttin sem hann velur til að stíga næsta spor er algerlega óháð áttinni sem síðasta spor bar hann í. Hann ráfar í ýmsar áttir, en staurinn verður nokkurnveginn miðsvæðis fyrir hann. Stundum er hann nærri og stundum fjær honum. Rápmynstur hans líkist sveiflum á verðbréfamarkaði að því leyti að stærri fjarlægð frá meðalstöðu er sjaldgæfari en minni fjarlægðir. Hins vegar, af því að forsenda reiknilíkansins er að hreyfingarnar séu tilviljanakenndar, spáir líkanið engu um hvenær sveiflan er stór og langvarandi. Oftast eru sveiflurnar litlar og stuttar. Í tilviljanakenndu kerfi er ekkert samband milli atburða, engin sérstök orsök veldur neinni sérstakri afleiðingu. Nú liggur það í augum uppi að það gildir ekki um ákvarðanir einstaklinga hvort fjárfesta eigi í ákveðnum hlutabréfum eða ekki. Því leita fræðimenn enn að betra líkani sem bæði hermir eftir stærð og tíðni hagsveiflna, jafnframt því að orsakasamband tengi atburðarás í kerfinu. Til þessa má nota tölvukeyrt hermilíkan er byggir á stærðfræði er þróuð var í sambandi við veðurspár. Veðurfar er sveiflukennt, oftast eru sveiflur ekki mjög miklar en einstaka sinnum ofsafengnar og veður hvers líðandi dags tengist veðri gærdagsins. Sú grein stærðfræðinnar er að þessu lýtur er kölluð óreiðufræði (Chaos Theory (3)). Einkenni kerfa er lúta lögmálum óreiðufræðinnar er að stórir þættir og smáir þættir kerfisins líta eðlislega eins út. Sem dæmi má nefna litla hvirfla og stóra hvirfla í iðustreymi vökva. Annað einkenni er að kerfin leita með nokkuð reglulegu millibili í svipaðan farveg og áður. Ástand kerfisins er þá svipað og stundum áður, en aldrei alveg eins. Eins er tímabil smárra sveiflna styttra en stórra og sveiflutíðni svipuð fyrir gefna stærð en aldrei alveg eins. Þetta eru einmitt einkenni hagkerfa og er óreiðufræðin sú besta leið til að greina sveiflur í hagkerfi sem fundist hefur til þessa. Þetta kemur nokkuð heim og saman við niðurstöður athugana Kondratévs, svo að ef til vill hafði hann þó nokkuð til síns máls. Höfum við eitthvað lært? Sé eitthvað til í hugmyndum Kondratévs vekur það spurninguna hvað veldur þessum langtíma sveiflum í hagkerfinu, sérstaklega þar sem svo margt breytist á ártuga tímabili. Eitt breytist þó ekki og það er mannlegt eðli sem aftur hefur áhrif á hjarðhegðun manna. Ef til vill er skýringin sú að það tekur tvær kynslóðir að gleyma framgangi og áhrifum síðustu kreppu. Menn gleyma fortíðinni og falla svo aftur í sama sporið. Nú eru rúm sjötíu ár liðin frá kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Bandaríski heimspekingurinn Georg Santayana sagði: „Þeir sem gleyma fortíðinni eru dæmdir til að endurtaka hana“. Það má umyrða ummæli hans og segja sem svo: Þeir sem ekki íhuga framtíðina fá engu um hana ráðið. Gerðum við nóg af því? Hversu miklu fáum við ráðið um eigin framtíð? Tíminn mun skera úr um það. Tilvitnanir: 1. Kondratieff (Kondratév), N., The Long Wave Cycle, Richardson & Snyder, New York, 1984. 2. Cootner, P. The Random Character of Stock Markets, MIT Press, Cambridge, 1964. 3. Peters, E. Chaos and Order in the Capital Mark ets, John Wiley & Sons, New York 1996. Er Kondratév kominn í heimsókn? Ágúst Valfells eldri verkfræðingur Menn gleyma fortíðinni og falla svo aftur í sama sporið. Nú eru rúm sjötíu ár liðin frá kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Nikolay Dimitriyevich Kontratév (1892-1938)

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.