Vísbending


Vísbending - 07.11.2008, Blaðsíða 1

Vísbending - 07.11.2008, Blaðsíða 1
7. nóvember 2008 42. tölublað 26. árgangur ISSN 1021-8483 1 4Hvernig eiga bankarnir að koma til móts við vanda skuldsettra fyrirtækja? Fjölmiðlar og stjórn- málamenn dekruðu við auðmenn fyrir hrunið mikla. Hvað getum við lært? Rifjuð er upp múgsefjun vegna túlípanabólunnar í Hollandi fyrir tæplega fjögur hundruð árum. Var Davíð Oddsson seðlabankastjóri einn fárra sem varaði við hættunni fyrir ári síðan? 3 Vikurit um viðskipti og efnahagsmál V í s b e n d i n g • 4 2 . t b l . 2 0 0 8 1 Miklar umræður hafa verið um það hvernig bankarnir nýju muni taka á þeirri lánasúpu sem þeir taka við af forverum sínum. Samkvæmt heimildum tóku þeir við lánunum með talsverðum afskriftum og hafa þar verið nefndar tölur nærri 40%. Mörg fyrirtæki hafa talið að þar með hefði opnast glufa fyrir þau að ná í sneið af þessum afskriftum sér til handa. Málið er ekki svo einfalt. Réttarstaða lána Segja má að skuldir fyrirtækja skiptist í tvennt (eða þrennt). Skuldin við hluthafa er nefnd hlutafé. Þetta er það fjármagn sem mest ávöxtunarkrafa er gerð til. Þar er áhættan mest því að ef tap er á rekstrinum saxast fyrst á fé eigenda. Næst koma víkjandi lán. Það eru lán sem eiga að greiðast síðast, á eftir öðrum lánum. Því bera þau oftast hærri vexti en venjuleg lán vegna þess að lánveitandinn hefur minni rétt ef fyrirtækið fer í þrot. Loks eru venjuleg lán. Þau eiga að njóta forgangs ef fyrirtæki fer í þrot. Reyndar eru skuldir vegna launa starfsmanna enn framar í röðinni. Þannig ber að líta svo á að skuldirnar hafi mismikinn forgang þegar fyrirtæki komast í þrot. Með neyðarlögunum sem sett voru áður en bankarnir komust í eigu ríkisins voru bankainnistæður settar í forgang og tryggðar af nýja eigandanum, ríkinu. Lánardrottnar hafa einnig ríkar skyldur, sérstaklega bankar. Fyrirtæki sem fyrirgefur einhverjum skuldunauta sinna allar hans lántökur gengur augljóslega á eignin rétt. Ef það fyrirgefur aðeins einum lántakanda en innheimtir skuldir hinna af krafti er það þar með að mismuna viðskiptavinum. Forstjóri sem ákveður að gera slíkt er í raun og veru að gefa eigur hluthafa til aðila úti í bæ. Þetta er ekki ósvipað því að hann rétti honum seðlabúnt úr eigu eigenda. Er allt í lagi að afskrifa lán? Þess vegna hafa flest fyrritæki þá meginreglu að beita ákveðnum aðferðum við innheimtu skulda. Þau setja allar kröfur í innheimtu og láta reyna á það til fulls hvort þær fást ekki greiddar. Í sumum fyrirtækjum má ekki afskrifa kröfur nema á gjaldþrota aðila. Stundum þarf að bera einstakar afskriftir á kröfum undir stjórnir, þó að það sé fátítt. Af framangreindu má ljóst vera að lán lúta í raun ákaflega stífum réttarreglum. Bankastjórar mega ekki beita handahófskenndum aðferðum við að ákveða hjá hverjum þeir afskrifa lán. Almenna reglan er að slíkt sé ekki gert fyrr en ljóst er að greiðslugeta greiðandans er engin. Hér má ekki rugla endanlegri afskrift við öryggisafskrift þar sem bankinn (eða fyrirtæki sem kröfuna á) metur það svo að hætta sé á að krafa tapist og leggur því ákveðna fjármuni til hliðar ef svo færi. Þessi sjálfsagða öryggisráðstöfun virðist hafa gleymst í bönkunum undanfarin ár. Margir vilja fá sín lán afskrifuð Í október hafa bankarnir fengið marga af viðskiptavinum sínum í heimsókn. Það er ekki að undra því að lausafjárþurrð er ekki bundin við fjármálafyrirtæki. Fyrirtækin í landinu eru smám saman að þorna upp líka. Litla lánafyrirgreiðslu er hins vegar að fá. Þetta leiðir til þess að fyrirtæki geta orðið gjaldþrota þó að þau eigi miklar eignir því að þær komast ekki í verð. Enginn er kaupandinn. Á sama tíma eru lán á gjalddaga nú þegar eða á næstunni. Fyrirtæki sjá að skuldastabbinn er svo hár að engin leið er að þau geti greitt hann niður. Því fara þau fram á lækkun skulda. Bankinn yrði þá jafnsettur, því að hann sér líka að skuldirnar verða aldrei greiddar. Vandinn er hins vegar sá að ef skuldirnar eru afskrifaðar hjá einum er bankinn að mismuna skuldunautum. Þeir sem tóku lítil lán og reyndu að gæta sín í rekstrinum fá ekki neitt, meðan hinir sem ekki sýndu sömu varúð fá umbun. Almenna reglan er sú að ekki á að afskrifa skuldir nema eiginfé fyrirtækja sé þrotið, það er hluthafar hafi tapað öllu sínu. Þegar það hefur gerst hefur bankinn öll ráð fyrirtækisins í hendi sér. En þá er það yfirleitt orðið of seint því að fyrirtæki sem á ekki fyrir skuldum er vart rekstrarhæft. Þetta er hin mikla þversögn sem bankarnir og þjóðfélagið allt stendur fyrir á þessari stundu. Annars vegar að ekki skuli umbuna „óreiðumönnum“, hins vegar að lífvænlegur framtíðarrekstur eyðileggist vegna mistaka í fortíðinni. Bankar hafa yfirleitt litla þekkingu á því að reka fyrirtæki. Ekki er líklegra að sú hæfni aukist við að bankarnir verði ríkisbankar. Þess vegna getur það verið skynsamlegt að láta fyrri eigendur halda einhverju eftir þó að í óefni sé komið núna. Í núverandi ástandi eru jafnvel varkár fyrirtæki komin í vanda, fyrirtæki sem tóku ákvarðanir sem virtust skynsamlegar fyrir skömmu. Hvað er hægt að gera? Allt orkar tvímælis þá gert er, segir máltækið. Þetta verður til þess að sumir telja að best sé að gera ekki neitt. Mörgum finnst að embættismennirnir sem nú hafa æðstu stjórn á bönkum þjóðarinnar séu ákaflega ákvarðanafælnir. Embættismenn eru í eðli sínu tregir til ákvarðana og það bætti ekki úr skák að fulltrúar erlendra kröfuhafa skrifuðu bréf til allra sem þeir töldu að gætu tekið einhverjar ákvarðanir. Í því hótuðu þeir þeim persónulegri málsókn vegna sérhverrar „rangrar“ ákvörðunar. Hótunarbréf af þessu tagi hvetja ekki þennan hóp til þess að fara sér hraðar. 2 framhald á bls. 4

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.