Vísbending


Vísbending - 14.11.2008, Blaðsíða 2

Vísbending - 14.11.2008, Blaðsíða 2
2 V í s b e n d i n g • 4 3 . t b l . 2 0 0 8 dósent Gylfi Magnússon Fjármálakreppa er um margt sérkennilegt fyrirbrigði. Að sumu leyti má líkja henni við sprengju sem eyðir ýmiss konar pappírsverðmætum. Hlutabréf, skuldabréf og önnur verðbréf verða allt í einu minna virði en áður var talið, jafnvel einskis virði. Innstæður í bönkum gufa upp og ýmsar eignir, svo sem, fasteignir, snarlækka í verði. Fjármálakreppa hefur hins vegar engin bein áhrif á raunveruleg verðmæti. Mannvirki, mannauður og náttúruauðlindir sitja eftir, í grundvallaratriðum allt óskaddað. Áhrif kreppunnar Áhrif fjármálakreppu eru engu að síður mjög raunveruleg. Augljósustu áhrifin eru þau að auður færist til. Margir þeirra sem voru ágætlega stæðir á pappírnum og gátu lifað góðu lífi geta það ekki lengur. Sumir sitja uppi með óviðráðanlegar skuldir. Enn aðrir sjá fram á skertan lífeyri á efri árum. Svo mætti lengi telja. Þetta hefur allt saman raunveruleg og stundum afar slæm áhrif á líf fólks. Raunveruleg áhrif fjármálakreppu koma líka fram í því að það hægir á verðmætasköpun, a.m.k. um tíma. Ýmiss konar rekstur stöðvast eða það hægir á honum. Vinnufúsar hendur fá ekkert að gera og skapa því ekki verðmæti. Fjármunir eru ekki nýttir til fulls, margs konar atvinnutæki standa óhreyfð og dýrir innviðir eru vannýttir. Sé fjármálakerfi illa starfhæft þá hefur það afar slæm áhrif á aðra hluta hagkerfisins. Mikil verðmæti tapast yfirleitt ef rekstur fyrirtækja stöðvast. Við brunaútsölu á eignum er þeim sjaldnast ráðstafað skynsamlega. Þá fylgir því almennt talsverður kostnaður að breyta verðmætasköpun samfélagsins þannig að hún endurspegli þarfir og eftirspurn í kreppu og í kjölfar hennar, í stað góðærisins á undan. Þær peningalegu eignir sem sýslað er með í fjármálakerfinu eru ávísanir á raunverulegar eignir eða þau verðmæti sem framleiða má með þeim. Hlutabréf og skuldabréf eru kröfur á eignir fyrirtækja og þau verðmæti sem fyrirtækin búa til. Það kann því að virðast mótsagnakennt að peningalegu eignirnar geti skemmst, þótt raunverulegu eignirnar standi eftir. Skýringin á þessu er tvíþætt. 1) Fjármálakreppur koma yfirleitt í kjölfar mikillar uppsveiflu, þar sem Fyrsta dómínóið eignaverð hefur hækkað mjög mikið. Það er því búið að setja of háa verðmiða á ýmsar eignir. T.d. getur hlutabréfaverð verið orðið mjög hátt og falið í sér óraunhæfar væntingar um mikinn hagnað og arðgreiðslur í framtíðinni. Sömuleiðis geta ýmis fyrirtæki eða heimili hafa skuldsett sig svo mikið að lítil von er til að þau geti endurgreitt allt. Við slíkar aðstæður eru peningalegar eignir, t.d. hlutabréf og skuldabréf, í raun að einhverjum hluta innstæðulausar ávísanir. Þegar hlutabréfaverð lækkar og afföll verða af skuldabréfum í fjármálakreppu þá er horfst í augu við innstæðuleysið og verð bréfanna lækkað í samræmi við það. Við þetta hverfa engin verðmæti sem áður voru til, það er einfaldlega verið að viðurkenna að það sem menn héldu að væru verðmæti voru það ekki. 2) Síðari skýringin á því að peningalegar eignir geta skemmst í fjármálakreppu er að í kreppunni og í kjölfar hennar nýtast ýmsar raunverulegar eignir illa eins og áður var rakið. Leiðir úr kreppunni Leiðir út úr fjármálakreppum eru ýmsar. Besta lækningin er auðvitað, hér sem endranær, forvarnir, þ.e. aðgerðir sem koma í veg fyrir að þær aðstæður myndist sem leiða til fjármálakreppu. Það þýðir lítið að hugsa um það núna. Við Íslendingar beittum engum forvörnum. Raunar þvert á móti. Við fórum með bensíngjöfina í botni fram af bjargbrúninni og súpum nú seyðið af því. Það verður hins vegar án efa hugsað talsvert um forvarnir, hérlendis sem erlendis, þegar um hægist, til að reyna að tryggja að sambærileg staða komi ekki upp aftur. Fyrstu viðbrögð við fjármálakreppu eru yfirleitt að reyna að blása lífi í hagkerfið. Reyna að halda dampi, keyra upp eftirspurn með aðgerðum í ríkisfjármálum og auka framboð af lánsfé með aðgerðum í peningamálum. Það er í grundvallaratriðum engin lækning en getur keypt tíma til að leysa vandamál fjármálakerfisins eða a.m.k. dreifa afleiðingum þeirra á lengri tíma. Oft er einnig hægt að skera burt vandræði vegna einstakra illra staddra fjármálafyrirtækja með því að stærri og betur sett fjármálafyrirtæki taka þau yfir, stundum með stuðningi hins opinbera. Séu vandræðin lítil þá kann þetta að duga. Séu meinsemdir fjármálakerfisins dýpri þarf dýrari og róttækari aðgerðir sem fela í sér verulegt framlag hins opinbera, þ.e. skattgreiðenda. Í grundvallaratriðum er um þrjár leiðir að ræða til að bjarga fjármálakerfum. 1) Hið opinbera getur keypt vandræða- eignir á yfirverði (þ.e. yfir raunhæfu markaðsverði en ekki endilega yfir bókfærðu verði) af fjármálastofnunum. Ef þetta gengur eftir þá losnar fjármálageirinn við innstæðulausu ávísanirnar og getur starfað áfram. Þetta býr þó ekki til nein verðmæti og leysir þannig ekki vandann fyrir þjóðfélagið í heild en flytur hann hins vegar yfir á herðar skattgreiðenda. 2) Þá getur ríkið lagt fjármálafyrir- tækjum til eigið fé. Þetta er hægt að gera með ýmsum hætti. Mildasta leiðin er að ríkið veiti víkjandi lán eða kaupi forgangshlutabréf. Í öðrum tilfellum eignast ríkið stóran hluta almenns hlutafjár, jafnvel allt hlutaféð, fyrir framlag sitt. Þetta býr heldur ekki til nein verðmæti en getur skapað svigrúm til að hægt sé að afskrifa vandræðaeignir og skilja eftir sæmilega heilbrigða efnahagsreikninga fjármálastofnana. 3) Ríkið getur veitt ábyrgðir. Þannig getur ríkið aukið innstæðutryggingar, jafnvel tryggt allar innstæður, til að róa sparifjáreigendur. Ríkið getur einnig ábyrgst ýmsar aðrar skuldbindingar fjármálastofnana, t.d. vegna millibanka- lána. Þessi leið býr ekki til verðmæti, frekar en hinar, og getur kostað skattgreiðendur verulegt fé ef reynir á ábyrgðirnar. Leiðirnar að ofan eru eingöngu færar ef fjármál hins opinbera leyfa þær. Hrun íslenska fjármálakerfisins sýndi þetta glögglega. Lítið ríki hafði engin tök á að bjarga risavöxnu og fársjúku fjármálakerfi sem hafði stóran hluta skuldbindinga sinna í erlendri mynt. Það var fráleitt að reyna það og hefði fyrirsjáanlega skilið Íslendinga eftir í miklu verri stöðu en þeirri sem nú blasir við. Fjórða leiðin í fjármálakreppu er sú sem við fórum. Fjármálakerfið hrynur og mikið af peningalegum eignum ónýtist. Á rústunum er svo byggt nýtt fjármálakerfi og raunhagkerfinu haldið gangandi eftir því sem kostur er. Falla fleiri? Þótt ekkert annað Evrópuríki hafi misst jafnilla tökin á sínu fjármálakerfi og Ísland þá er því miður ekki útilokað að niðurstaðan verði svipuð á endanum víðar, þ.e. að ekki takist að komast hjá hruni fjármálakerfisins. Margir horfa til Írlands í þessu samhengi en einnig koma Sviss og Bretland til greina og raunar fleiri lönd, eins og Spánn. Fall breska framhald á bls. 4

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.