Vísbending


Vísbending - 13.07.2009, Blaðsíða 3

Vísbending - 13.07.2009, Blaðsíða 3
V í s b e n d i n g • 2 8 . t b l . 2 0 0 9 3 Kári S Friðriksson Hefðbundin hagfræðilíkön gera ráð fyrir því að fólk spari á unga aldri og lifi svo af sparnaðinum í ellinni. Þannig hafi það jafnari neyslu yfir ævina en ella. Aðalatriði sé að spara það hlutfall af launum sínum sem gefur mesta velferð á ævinni í heild. Stór hluti sparar minna en þessar kenningar segja til um. Fyrir því má telja þrjár ástæður. Í fyrsta lagi er erfitt að reikna út hversu mikið ætti að spara og hversu mikið menn þurfa í ellinni. Í öðru lagi skortir aga til þess að auka neyslu í framtíðinni á kostnað neyslu í dag. Í þriðja lagi eru margir einfaldlega of kærulausir. Það er margt sem bendir til þess að sparnaður sé ekki nægur. Kannanir benda til þess að yfirgnæfandi meirihluti telji sig ekki spara nóg, en aðeins örfáir telja sig spara of mikið. Richard Thaler, prófessor í hagfræði við Chicago háskólann, telur að þessi niðurstaða gefi til kynna að flestir yrðu þakklátir ef til væri kerfi sem hjálpaði þeim að spara meira. Ónýtt tækifæri Á Íslandi nýta innan við 25% vinnandi manna sér séreignalífeyrissparnað. Það þýðir að 75% afsala sér 1% aukagreiðslu frá vinnuveitenda, sem þeir fá sem spara 2-4% sjálfir. Svipað er uppi á teningnum í Bandaríkjunum. Þar þarf stór hluti að ákveða hversu mikið skal leggja fyrir til lífeyrissparnaðar. Þegar menn hafa valið sér sparnaðarhlutfall, er sparnaðurinn dreginn af launum og settur á svokallaðan 401(k)- reikning. Þær tekjur sem fólk leggur fyrir eru undanþegnar tekjusköttum. Þessi 401(k)-sparnaður fylgir mjög sveigjanlegri áætlun. Hægt er að velja milli öruggra sparnaðarreikninga, eða nota peningana til hlutabréfakaupa og fólk getur breytt um fjárfestingakost hvenær sem er. Yfirleitt bjóða vinnuveitendur mótframlag upp að vissu marki, t.d. 50% af framlagi launþega fyrir fyrstu 6% af launum sem það sparar. Þetta mótframlag er í raun launaauki. Samt nota aðeins um 30% launþega sér það. Það getur verið skynsamlegt fyrir einhverja að sleppa þessu tækifæri, en hjá mörgum er það bara kæruleysi. Í Bretlandi eru til sparnaðarkerfi þar sem framlag kemur frá vinnuveitanda, án þess að launþeginn þurfi að greiða neitt. Það eina sem þarf að gera er að skrá sig. Samkvæmt gögnum sem Thaler tók saman úr 25 slíkum kerfum þar sem kom í ljós að aðeins um 51% af þeim sem áttu rétt á því, skráðu sig. Þetta er svipað og að nenna ekki að sækja launaseðilinn sinn. En ef sparnaður er of lítill, hvernig má fá launamenn til þess að spara meira án þess þó að skerða frelsi þess? Með hegðunarhagfræðina að vopni hefur Thaler reynt við að svara þessum spurningum og í kjölfarið komið með nokkrar tillögur. Sjálfkrafa skráning eða þvingað val Þeir sem að eiga rétt á séreigna- lífeyrissparnaði ættu að vera sjálfkrafa skráðir í hann. Í stað þess að þurfa að fylla út eyðublöð til þess að nýta sér séreignarsparnaðinn, þyrftu menn að skrá sig úr honum. Það þyrfti þó að vera hægt að gera á mjög einfaldan hátt. Með þessu móti má búast við að miklu fleiri spari og byrji jafnvel fyrr að spara. Það er skárra að spara of mikið en of lítið, og því myndi þetta bæta velferð flestra. Reynslan sýnir að hlutfall þeirra sem hætta sparnaði í slíku kerfi er litlu hærra en ef menn velja sparnað að eigin frumkvæði. Annar möguleiki er að neyða menn til þess að taka ákvörðun. Þvingað val hefur haft þau áhrif að töluvert fleiri spara en ella. Valið þarf þó að vera einfalt. Til dæmis gæti launþegi þurft að haka við já eða nei um hvort hann vilji spara um leið og hann er ráðinn í vinnu. Þeim mun flóknara sem valið er því líklegra er að færri spari. Ef valið stendur milli of margra sjóða, aukast líkurnar á að mönnum fallist hendur og velji ekki neinn þeirra. Þess vegna þarf að hafa ákveðinn „pakka“ sem sjálfgefið val, þar sem er búið að velja fyrirfram hversu mörg prósent á að spara, og í hvers konar sjóðum sparnaðurinn lendir í. Thaler gagnrýnir að sjálfgefið val um sparnað er yfirleitt allt of lágt, oft í kringum 2-3 prósent. Mjög margir breyta aldrei út frá sjálfgefnu vali og svo lítill sparnaður dugi skammt í ellinni. Margir eyða minni tíma í að áætla hversu mikið á að spara og í hverju það á að fjárfesta, heldur en þeir eyða við að velja sér nýtt sjónvarp. Ef spurt er hversu mikið væri æskilegt að spara, þá velja flestir einhverja rúnnaða tölu, eins og fimm, tíu eða fimmtán prósent. Það er hins vegar engin rökrétt ástæða fyrir því að hlutfall tekna sem sé best að spara sé margfeldi af fimm. Sparaðu meira á morgun Þegar nógu margir eru byrjaðir að spara á enn eftir að fá menn til að spara nógu mikið. Þess vegna hefur Thaler hannað sparnaðarkerfi sem hann kallar „sparaðu meira á morgun“. Við hönnun á kerfinu hafði hann í huga einkenni mannlegrar hegðunar. 1. Margir segja að þeir ættu að spara meira og ætli að gera það í framtíðinni, en gera það svo aldrei 2. Það er auðveldara að setja sér skorðurnar ef þær taka ekki gildi fyrr en einhverntíman í framtíðinni. 3. Það er erfitt að sjá launaseðlanna lækka 4. Margir þjást af peningaglýju (e. money illusion). Menn hugsa í nafnvirði en ekki raunvirði. Mörgum finnst þúsund krónu seðill í dag vera jafnverðmætur og hann var árið 1995 (hann er helmingi verðminni í raun) 5. Fólk er tregt til að breyta til „Sparaðu meira á morgun“ kerfið leyfir launþegum að skuldbinda sig til þess að auka við sparnaðinn í hvert skipti sem það fær launahækkun. Með því að tengja launahækkanir og aukinn sparnað mun enginn sjá launin sín lækka að nafnverði. Menn mega hætta eða lækka sparnað sinn hvenær sem er, en fæstir skipta um sparnaðaraðferðir. Með þessu kerfi verður íhaldssemin til þess að sparnaður eykst, í stað þess að hann haldist í sama farinu. Nú þegar hafa nokkrir atvinnurekendur í Bandaríkjunum tekið upp þetta kerfi sem sjálfgefið val fyrir starfsfólk sitt með góðum árangri. Þannig næst bæði mikil þátttaka og hátt sparnaðarhlutfall. Flestir sem gátu ekki hugsað sér að leggja mikið fyrir strax, voru tilbúnir að taka þátt í „sparaðu meira á morgun“ kerfinu. Eftir örfá ár spöruðu þessir starfsmenn mest af öllum og þeir munu eiga töluvert meira í ellinni en þeir sem bauðst ekki slíkt sparnaðarkerfi. Kerfið er líka að vissu leyti betra en íslenska lífeyrissjóðakerfið, vegna þess að ef skylt er að spara í gegnum lífeyrissjóði gefur það sjóðunum mikið vald sem er auðvelt að misbeita. Betra væri að launþegar fengju að velja milli þess að setja peningana í lífeyrissjóð eða setja fé sitt í annars konar bundinn sparnað. Ég ætla að byrja að spara á morgun

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.