Vísbending


Vísbending - 24.07.2009, Blaðsíða 3

Vísbending - 24.07.2009, Blaðsíða 3
V í s b e n d i n g • 2 9 . t b l . 2 0 0 9 3 Þjóðhagfræði sem vísindagrein Hagfræðingar líta margir á sig sem raunvísindamenn. Náttúru-vísindamönnum finnst aftur á móti oft skrítið að hagfræðingar telja sína fræðigrein skylda þeirra. Hagfræðingarnir minna á að „hagfræðikenningar séu settar fram af stærðfræðilegri nákvæmni, að stórum gagnasöfnum sé safnað um hegðun einstaklinga og hópa og hagfræðin nýti sér fáguðustu aðferðir tölfræðinnar til þess að komast að niðurstöðum sem eru óbjagaðar og óháðar hugmyndafræði (eða það viljum við halda)“ eins og Gregory Mankiw orðaði það árið 2006. Hann telur samt að hagfræðingar eigi frekar að vera eins og verkfræðingar og að guð hafi ekki sett þá á jörðina til þess að setja fram fágaðar kenningar heldur til þess að leysa vandamál. Síðustu áratugi hafa nýjungar í hagfræði hins vegar fyrst og fremst falist í þróun líkana og kennisetninga. Þessi nýju tæki hagfræðinnar hafa þó aðeins nýst að takmörkuðu leyti við stefnumótun. Hagfræði Keynes Þjóðhagfræði sem sérstakt svið innan hagfræðinnar fæddist á fjórða áratug síðustu aldar í kjölfar kreppunnar miklu. Laun lækkuðu þá mikið og atvinnuleysi var víðtækt. Þetta olli því að sumir fóru jafnvel að efast um ágæti markaðsbúskapar. Það var í þessu umhverfi sem bókin Almenna kenningin um atvinnu, vexti og peninga eftir John Maynard Keynes kom út og olli byltingu í hagfræðinni. Bókin var að vísu stundum torskilin og rökin voru ekki fullkomin. Margir endar voru lausir. Í kjölfarið fóru hagfræðingar að þróa heilsteypt líkön sem gætu á einfaldan hátt skýrt boðskap bókarinnar. Það vinsælasta kallast IS-LM líkanið og er enn þann dag í dag eitt allra vinsælasta líkan í sem kynnt er í grunnnámi í hagfræði. Þegar stjórnmálamenn tala um að niðurskurður í ríkisfjármálum muni minnka lands- framleiðslu og auki atvinnuleysi eða að skattalækkanir örvi efnahagslífið eru þeir yfirleitt að vitna í þetta líkan, hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki. Á sama tíma var byrjað að þróa flókin líkön með mörgum breytum sem seðlabankar gátu notað til þess að spá og beita við hagstjórn. Þau eru vísir að módelum sem eru notuð í seðlabönkum enn þann dag í dag. Helstu kenningasmiðir þess tíma voru gegndu allir jafnframt ráðgjafastarfi. Keynes sinnti sjálfur ýmsum störfum gegnum tíðina, meðal annars var hann starfsmaður Breska seðlabankans og ráðgjafi forsætisráðherra í efnahagsmálum. Ný-klassíska hagfræðin Á sjöunda og áttunda áratugnum fór að flæða undan hagfræði Keynes. Annars vegar kom fram gagnrýni og nýjar kenningar spruttu upp sem virtust brjóta í bágu við þær keynsísku. Hins vegar urðu tvær kreppur í Bandaríkjunum og víðar vegna hækkana á olíuverði. Hærra olíuverð leiddi til hærra verðlags, en á sama tíma olli það atvinnuleysi því að iðnaður var mjög háður olíu, og framleiðsla dróst því saman. Þetta var andstætt hinni svonefndu Philips- kúrfu, en samkvæmt áttu mikil verðbólga og mikið atvinnuleysi ekki að geta fylgst að. Þetta kom því keynesísku hagfræðingunum í opna skjöldu. Fyrsta kenning af nýklassískum meiði sem kom fram í lok sjötta áratugarins var peningamálahagfræði, en Milton Friedman var helsti merkisberi hennar. Keynsistar litu svo á að hagkerfið væri í eðli sínu mjög sveiflukennt vegna misjafnrar tiltrúar fjárfesta á markaðinum eða sveiflu í dýrslegum anda fjárfesta (e. animal spirit) eins og Keynes orðaði það. Í bókinni Monetary History of the United States sem Friedman skrifaði ásamt Önnu Schwartz og var gefin út 1963, héldu þau því hins vegar fram að óstöðugleiki hagkerfisins væri ekki til kominn vegna einkaaðila heldur ófullnægjandi peningastefnu. Þau röktu rætur kreppunnar miklu til þess að peningamagn hefði minnkað um þriðjung og mistök seðlabankans hefðu aðallega falist í því að auka ekki peningamagn til þess að bæta upp fyrir þennan skort. Nokkrum árum síðar gerði Friedman atlögu að Philips-kúrfunni ásamt Edmund Phelps. Philips-kúrfan var mikilvægur hluti af keynsískri hagfræði, kenning sem sýndi neikvætt samband milli verðbólgu og atvinnuleysis. Því ættu stjórnmálamenn að geta valið milli þess að hafa litla verðbólgu og mikið atvinnuleysi eða lítið atvinnuleysi og mikla verðbólgu. Friedman og Phelps héldu því hins vegar að þetta samband gæti mesta lagi staðist í skamman tíma, því að til lengri tíma væru peningar hlutlausir, þ.e. peningalegar stærðir gætu ekki haft áhrif á raunhagkerfið. Þá taldi Robert Lucas öll keynsísku líkönin vera gagnslaus fyrir hagstjórn, því þau tækju ekki mið af væntingum. Líkönin myndu ekki halda ef efnahagstefna væri ákvörðuð út frá þeim, því að fólk myndi mynda sér nýjar væntingar út frá stefnubreytingunni sem aftur myndi hafa áhrif á niðurstöður. Hann stakk upp á því að líkön yrðu byggð á því að fólk hefði ófullkomnar upplýsingar en rökréttar væntingar og fullkomlega sveigjanlegt verð. Í slíkum líkönum hafa tæki peningamálastefnu, svo sem stýrivextir, engin áhrif nema þau komi fólki á óvart. Í kjölfarið komu svokallaðar framhald á bls. 4 raunsveiflukenningar. Fylgjendur þeirra trúðu því að allar sveiflur í hagkerfinu yrðu vegna breytinga á tækni. Samkvæmt þeim gat tækni hrakað og það væri ástæðan fyrir niðursveiflum. Þeir túlkuðu tækni sem mjög vítt hugtak. Með tækni flokkuðu þeir ýmislegt sem væru ekki beint tæknistig, en hefði svipuð áhrif á framleiðsluna. Dæmi um slíkt væri veðurfarsbreytingar, löggjöf sem skikkar fyrirtæki til að framleiða á umhverfisvænni hátt og hækkun olíuverðs vegna minnkandi olíubirgða. Þrátt fyrir alla þessa galla fannst fylgjendum Keynsismans þó margt í kenningunum þess virði að halda í það. Ný bylgja af líkönum kom fram, svokölluð ný-keynsísk líkön. Þar á meðal voru módel sem tóku tillit til þess að fólk gæti haft rökréttar væntingar, án þess þó að gera ráð fyrir að verð aðlagi sig fullkomlega að breyttu ástandi. Ný-klassíska hagfræðin gerði því ekki útaf við keynesismann, heldur dró fram það sem var ábótavant. Ný-keynesískir hagfræðingar fóru til dæmis að tengja kenningar sínar meira við rekstrarhagfræði, sem að fjallar um smærri einingar hagkerfisins, en keynsistarnir höfðu verið gagnrýndir fyrir skort á slíkum tengingum. En þeir afneituðu ekki öllum nýklassísku kenningunum, heldur buðu fram eins konar málamiðlun: Keynsísku líkönin virki til skamms tíma meðan verð og laun eru tregbreytanleg. Til lengri tíma litið er hins vegar allt verð fullkomlega sveigjanlegt John Maynard Keynes

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.