Vísbending


Vísbending - 20.04.2009, Blaðsíða 2

Vísbending - 20.04.2009, Blaðsíða 2
2 V í s b e n d i n g • 1 6 . t b l . 2 0 0 9 Að setja öryggið á oddinn Yfirstandandi efnahagslægð og gjaldeyriskreppa í kjölfar hruns bankakerfisins hafa nýst vel til að skjóta stoðum undir ýmsar mýtur í heimi hagfræðinnar. Ein þeirra er ágæti verndarstefnu og mikilvægi hennar við endurreisn hagkerfa og eflingu á gjaldeyrisforða. Slíkum hugmyndum vex oft ásmegin þrátt fyrir að reynslan hafi sýnt fram á þær slæmu aukaverkanir sem slíkum meðulum fylgja; efnahagsleg hnignun og hraðversnandi lífskjör. Þrátt fyrir að ágæti frjálsra viðskipta hafi sannað sig um víða veröld en ómögulegt sé að finna dæmi um farsælt, lokað hagkerfi, þá virðast þjóðir heims engu að síður streitast við á ýmsum sviðum. Þar stendur hæst í flokki landbúnaður, en ólíklegt er að nokkur atvinnugrein hafi notið viðlíka styrkja í aldanna rás – jafnvel þó nýlegur stuðningur við fjármálakerfi heimsins sé tekinn með í jöfnuna. Margir súpa hveljur þegar tölur birtast um framlög stjórnvalda til stuðnings fjármálafyrirtækjum á undanförnum misserum en þær upphæðir nema hundruðum milljarða bandaríkjadala. Færri vita að heildarframlög OECD ríkja til landbúnaðar nema samsvarandi upphæðum ár hvert og hafa gert lengi. Sem dæmi má nefna árið 2007, en þá námu millifærslur vegna landbúnaðar innan OECD 365 milljörðum dala. Ýmsir klóra sér í kollinum og velta fyrir sér hvernig á þessu standi. Að rekja ástæður þess að vestræn samfélög kjósi að styðja við óskilvirkan og óarðbæran landbúnað væri efni í bókaflokk og verður því ekki rakið nánar hér. Aftur á móti er vert að huga að innlendri umræðu og þeim ástæðum sem raktar hafa verið til réttlætingar á þeim mikla stuðningi sem innlendum landbúnaði er veittur. Óvissa nýtt til framdráttar veikum málstað Erfið staða krónunnar í kjölfar hruns bankakerfisins – með þeirri óvissu sem ríkt hefur í erlendri greiðslumiðlun og utanríkisviðskiptum í kjölfarið – hefur blásið hugmyndum um mikilvægi matvælaöryggis þjóðarinnar byr undir báða vængi. Rökin fyrir matvælaöryggi byggja fyrst og fremst á því að þjóðin geti ekki nálgast erlendar vörur af einni af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi gæti brotist út styrjöld sem kæmi í veg fyrir matvælaviðskipti í öllum heiminum (þar sem Ísland hefur ekki her er ekki gert ráð fyrir að landið gæti tekið þátt í stríði). Í öðru lagi gæti reynst ómögulegt að flytja hingað matvæli af einhverjum orsökum. Í þriðja lagi gæti matarskortur í heiminum eða viðskiptabann á Ísland leitt til þess að Íslendingar gætu ekki nálgast vörur á erlendum mörkuðum. Allir þrír möguleikar verða að teljast afar fjarstæðukenndir. Engu að síður er vert að kanna mikilvægi landbúnaðarins kæmi til þess að Íslendingar myndu einangrast frá öðrum mörkuðum vegna einhverra af ofangreindum ástæðum. Heildarkjötframleiðsla á Íslandi árið 2007 nam tæplega 27.000 tonnum. Af þeirri framleiðslu neyttu Íslendingar um 24.500 tonna, um 1.400 tonn voru flutt út úr landi en afganginum fargað. Heildarneysla á innlendum mjólkurvörum sama ár skiptist annars vegar í 44.300 lítra af mjólk og rjóma og hins vegar í 14.400 tonn af ýmsum mjólkurvörum, s.s. jógúrti, smjöri og ostum. Að lokum skiptist innlend korn- og grænmetisuppskera árið 2007 í 13.000 tonn af kartöflum, 11.000 tonn af korni og 5.500 tonn af öðru grænmeti. Samanlögð framleiðsla Íslendinga á landbúnaðarvörum nemur því um 70.000 tonnum af matvöru og 45.000 lítrum af drykkjarvöru. Til samanburðar má nefna að heildarafli sjávarútvegs árið 2007 nam 1.395.700 tonnum eða um tuttugufaldri matvöruframleiðslu landbúnaðarins. Það er nokkuð ljóst að mörgum myndi leiðast að snæða fisk í öll mál, en þegar rætt er um matvælaöryggi er líklega ekki verið að vísa til ástar Íslendinga á rauðum paprikum og camenbert osti. Af drykkjarvatni er nóg og því hverfandi líkur á því að Íslendingar líði nokkurn tíma skort á því sviði. Það mætti því með réttu segja að fæðuöryggi þjóðarinnar væri best tryggt með því að eiga hér ríflegan varaforða af olíu og nauðsynlega varahluti til viðhalds á skipaflota og veiðafærum Íslendinga. Að halda því fram að landbúnaður sé Íslendingum nauðsynlegur vegna matvælaöryggis fellur í besta falli undir vanþekkingu, en í versta falli áróður. Þessu til viðbótar er vert að benda á samspil aukinna viðskiptatengsla og friðar á milli ríkja. Á þessum grunni var Kola- og stálbandalag Evrópu stofnað sem síðar þróaðist yfir í Evrópusambandið. Því samtvinnaðari sem viðskiptahagsmunir þjóða verða, þeim mun sársaukafyllri verður sú leið að beita hernaðarafli fremur en diplómatískum samningaviðræðum í milliríkjadeilum. Að halda því fram að ríki standi betur að vígi komi til stríðsátaka með því að standa vörð um innlendan landbúnað byggir á sömu rökvillu og vopnakapphlaup á milli þjóða. Í báðum tilvikum búa menn sig undir eitthvað sem lítil ástæða er til ætla að sé framundan, en ýta þar með undir spennu í milliríkjasamskiptum og auka þannig líkur á því að þeir atburðir sem reynt er að forðast eigi sér stað. Ísland fremst í flokki Það er ekki markmið þessarar greinar að gera lítið úr íslenskum landbúnaði sem atvinnugrein. Innlend framleiðsla er mjög góð og á ýmsum sviðum hafa íslensk fyrirtæki sýnt mikið hugvit í vöruþróun landbúnaðarvara, einkum í mjólkurvörum. Það er engu að síður erfitt að sjá hvernig núverandi styrkjafyrirkomulag stuðlar að frekari framþróun greinarinnar eða bættum lífskjörum á Íslandi. Þvert á móti stendur óbreytt ástand nýliðun og hagræðingu innan greinarinnar fyrir þrifum og kemur harkalega niður á íslenskum neytendum. Hér að ofan var minnst á heildarframlög OECD-ríkja til landbúnaðar. Íslendingar eru síður en svo eftirbátar hvað þetta varðar, en framleiðslustyrkir sem hlutfall af söluverðmæti afurðunna voru hæstir á Íslandi af OECD-löndum árið 2006. Frosti Ólafsson hagfræðingur Að halda því fram að landbúnaður sé Íslendingum nauðsynlegur vegna matvælaöryggis fellur í besta falli undir vanþekkingu, en í versta falli áróður.

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.