Vísbending


Vísbending - 11.09.2009, Blaðsíða 3

Vísbending - 11.09.2009, Blaðsíða 3
V í s b e n d i n g • 3 6 . t b l . 2 0 0 9 3 Góð stjórnun - slæm stjórnun Á árunum 2003 – 2007 töldu margir að íslenskir stjórnendur væru algjörir snillingar. Þeir þorðu að kaupa erlend fyrirtæki meðan útlendir fjárfestar voru enn að funda um málin. Boðleiðir voru stuttar og hraðinn mikill. Ísland var líka laust við allt skrifræði, sem gerði Íslendingum kleift að vinna hraðar en erlendir keppinautar. Þó að Ísland sé fámennt land var það góð æfing fyrir útrásarvíkingana að reka fyrirtæki á heimavelli, því þar ríkti mikil samkeppni á mörkuðum. Það sem virkaði á Íslandi ætti því líka að ganga annars staðar. Svo voru þeir með víkingablóð í æðum og því ekki hræddir við að fara á erlenda vígvelli. Þetta var bara hluti af þeim eiginleikum sem gerði íslenska stjórnendur svo góða, að minnsta kosti ef tekið er mark á ræðu sem forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson hélt í London í maí 2005. Hann var þó ekki sá eini sem dásamaði íslenska stjórnendur, því það hlakkaði í mörgum Íslendingum þegar þeir heyrðu afrekssögur af löndum sínum sem eignuðust þekkt fyrirtæki í Danmörku, á Bretlandseyjum og víðar. Núna þykjumst við hins vegar sjá hið sanna í málinu. Útrásarvíkingarnir voru ævintýramenn sem tóku mikla áhættu á kostnað almennings. Þeir voru augljóslega skammsýnir og áhættustýring þeirra var léleg. Allt sem okkur þótti áður aðdáunarvert hefur snúist í andhverfu sína. Eða hvað? Eru málin virkilega svona svart- hvít? Geislabaugsáhrifin Það er vel þekkt innan sálfræðinnar að álit okkar mótast að hluta til af fyrri reynslu. Edward L. Thorndike var fyrstur til þess að sýna fram á fordóma sem eru kallaðir geislabaugsáhrifin (e. the halo effect). Hann birti rannsóknarniðurstöður árið 1920 þar sem hann skoðaði viðhorf hermanna til yfirmanna sinna. Hann tók eftir því, að við sjáum flest aðra ekki sem samsetta persónuleika, blöndu af jákvæðum og neikvæðum eiginleikum, heldur finnst okkur þeir í grófum dráttum annað hvort góðir eða slæmir menn. Í röð tilrauna sem Barry Staw hefur gert hafa þessi áhrif komið skýrt fram. Hann tók fólk og skipti því niður í hópa sem áttu hver um sig að leysa ýmis verkefni. Þátttakendum var svo annað hvort sagt að hópurinn þeirra hefði staðið sig vel eða illa. Þeir, sem var sagt að hópurinn hefði staðið sig vel, lýstu hópnum sínum sem samrýndum, að samskipti hefðu verið góð, og að fólk hefði verið opið fyrir breytingum. Hinir, sem var sagt að hópur þeirra hefði staðið sig illa, sögðu hið gagnstæða. Í raun stóðu allir hóparnir sig álíka vel, eini munurinn var hvað fólki var sagt um frammistöðuna. Á svipaðan hátt komust James Meindl og samstarfsmenn hans að því, að álit manna á stjórnendum var mjög háð því hvernig viðkomandi fyrirtæki stóð sig. Meindl ályktaði, að ef menn hefðu ekki upplýsingar um það hvernig fyrirtæki stóð sig, hefðu þeir enga skoðun á leiðtogahæfileikum forstjórans. Ef fyrirtæki stendur sig vel er forstjóra þess lýst sem hugsjónamanni, heillandi náunga með góða samskiptahæfileika. Gengi fyrirtækið illa, var sama forstjóra lýst sem hikandi, utan við sig og hrokafullum. Phil Rozenzveig, prófessor í alþjóðastjórnun, hefur rannsakað geislabaugsáhrif í viðskiptalífinu gaumgæfilega. Þau eiga sérstaklega við um stjórnun því að mörg hugtök þar eru oft bæði illa skilgreind og illmælanleg á hlutlægan hátt. Þetta gildir t.d. um fyrirtækjamenningu, leiðtogahæfileika og hvernig fyrirtækin þjóna viðskiptavinum sínum. Seint á tíunda áratug síðustu aldar var hugbúnaðarfyrirtækið Cisco Systems lofað fyrir frábæra stefnumótun, framúrskarandi skipulag við yfirtöku fyrirtækja og skarpan fókus í samskiptum við viðskiptavini sína. Eftir að netbólan sprakk var fyrirtækið sakað um að vera ómarkvisst, ráðvillt í yfirtökum fyrirtækja og hafa léleg tengsl við viðskiptavini. Í raun hafði lítið breyst hjá fyrirtækinu sjálfu, en léleg afkoma varð til þess að fólk sá fyrirtækið í nýju ljósi. Svipaða sögu er að segja um Dell sem var árið 2005 í fyrsta sæti yfir dáðustu fyrirtæki í heimi samkvæmt tímaritinu Fortune. Aðeins tveimur árum síðar var forstjóri fyrirtækisins, Kevin Rollins, rekinn í von um að hægt væri að auka hagnað og glæða sölu. Fjölmiðlar og greiningardeildir gáfu margar skýringar á því hvers vegna Dell hefði dalað, en við nánari athugun stóðust fæstar þeirra. Aftur var það fjárhagsleg staða sem breytti skoðun fólks. Oft er ástæðan fyrir versnandi gengi almenn niðursveifla, breyttar markaðsaðstæður, aukin samkeppni eða tilviljun. Það getur samt verið erfitt að komast hjá þessum fyrirfram ákveðnu skoðunum. Sálfræðingurinn Richard Nisbett hefur sýnt fram á það að jafnvel þó að fólki sé sagt að það hafi látist blekkjast vegna geislabaugsáhrifanna trúi það því samt ekki. Bestar eru því óhlutbundnar vísindalegar rannsóknir á gæðum stjórnunar. Samkvæmt Rozenberg eru þó margar þekktar úttektir undir geislabaugsáhrifunum. Rannsóknir sem hafa jafnvel átt stóran þátt í að móta viðhorf viðskiptalífsins á því hvað gerir stjórnendur góða. Þetta á meðal annars við um bókina In Search of Excellence: Lessons from America’s Best-Run Companies frá 1982. Þar var byrjað á að velja úr 43 framúrskarandi fyrirtæki. Því næst var safnað gögnum með viðtölum, úttekt á fjölmiðlaumfjöllun og loks valin átta atriði sem sagt var að skiptu sköpum fyrir velgengni fyrirtækjanna. Þar má nefna framkvæmdavilja, og nálægð við viðskiptavini. Þessi atriði samræmdust vel ímynd fólks af góðum stjórnarháttum og bókin varð metsölubók. Fljótlega tók þessum fyrirtækjum hins vegar að hnigna. Aðeins þriðjungur þeirra hækkaði meira í verði en hlutabréfamarkaðurinn almennt næstu fimm ár. Svipað gilti um hagnað. Af 35 fyrirtækjum sem til voru gögn um minnkaði hagnaður hjá 30. Hvernig stendur á því að fyrirtækjum sem stóðu sig vel að mörgu leyti hrakaði svona fljótt? Skýringuna er að finna í því að menn rugluðu saman orsök og afleiðingu. Fyrirtækin höfðu góða eiginleika vegna þess að þeim gekk vel. Önnur mistök sem bæði almenningur og sérfræðingar gera oft er að horfa ekki á það hvernig fyrirtækin standa í samanburði við önnur fyrirtæki í sömu atvinnugrein. Fyrirtæki getur hafa bætt sig í flestum þáttum rekstrarins meðan önnur fyrirtæki hafa bætt sig enn meira. Þá eru það ekki aðeins innri þættir sem ráða afkomu fyrirtækja heldur oft ytri aðstæður sem fyrirtækin hafa enga stjórn á. Íslensk fyrirtæki gengu vel vegna þess að umhverfið var hagstætt. Um leið og þessar ytri aðstæður versnuðu hrundu fyrirtækin eins og spilaborg. Hins vegar skulum við ekki gleyma fyrri skoðun okkar á fyrirtækjunum. Ef okkur þótti þau standa sig frábærlega þá, en komumst að þeirri niðurstöðu að við höfðum rangt fyrir okkur, er víst að við höfum frekar rétt fyrir okkur núna? Ef fyrirtæki stendur sig vel er forstjóra þess lýst sem hugsjónamanni, heillandi náunga með góða sam- skiptahæfileika. Kári S Friðriksson

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.