Vísbending


Vísbending - 14.04.2009, Blaðsíða 3

Vísbending - 14.04.2009, Blaðsíða 3
V í s b e n d i n g • 1 5 . t b l . 2 0 0 9 3 Verkalýðsforystan úr leik Þriðja forsendan sem ég vil gera að umræðuefni er sú breyting sem verður á samskiptum stjórnvalda og verkalýðshreyfingar við endalok ríkisstjórnar Hermanns Jónassonar 1958. Sú skoðun hafði náð æ meiri fótfestu hér á landi að varanlegar umbætur á stjórn efnahagsmála gætu ekki náðst nema í samráði á milli stjórnvalda og verkalýðshreyfingar. Þessi skoðun átti rót sína að rekja til reynslu kreppuáranna þegar illvíg átök höfðu orðið á vinnumarkaði og leiðrétting gengis hafði dregist um mörg ár. Á styrjaldarárunum hafði svo hinn svokallaði skæruhernaður verkalýðsfélaga gert að engu tilraunir stjórnvalda til þess að stöðva víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds. Nýsköpunarstjórnin, sem báðir þeir flokkar sem tengdust verkalýðshreyfingunni stóðu að undir forustu Sjálfstæðisflokksins, fól í sér tilraun til þeirrar samstöðu sem leitað var eftir. Harkaleg átök á vinnumarkaði árið 1955 stuðluðu svo að því að vinstri stjórn var mynduð undir forustu Hermanns Jónassonar að loknum kosningum 1956 og að sú stjórn gerði tengslin við verkalýðshreyfinguna beinlínis að grundvelli tilveru sinnar. Í málefnasamningi stjórnarinnar var kveðið svo á að haft skyldi samráð við launþegasamtökin um dýrtíðar- og kauplagsmál. Var því ákvæði dyggilega fylgt eftir, enda var sjálfur forseti Alþýðusambandsins, Hannibal Valdimarsson, félagsmálaráðherra í stjórninni. Þegar svo var komið haustið 1958 að nauðsyn bar til að setja hemil á víxlhækkanir launa og verðlags, sem leitt höfðu af umbótum á uppbótakerfinu vorið áður, lagði forsætisráðherrann, Hermann Jónasson, það til í ríkisstjórn að leitað yrði samþykkis launþegasamtaka til að fresta um einn mánuð 17 stiga hækkun kaupgreiðsluvísitölu sem átti að taka gildi 1. desember. Samkomulag um þetta náðist ekki í ríkisstjórn, en Hermann fékk því framgengt að hann fengi að koma sjálfur á þing Alþýðusambandsins, sem þá stóð yfir, og leggja málið fram. Hann lagði þar með höfuðið á höggstokkinn, Forsendur viðreisnar - Seinni hluti - Jónas H. Haralz hagfræðingur eins og hann sjálfur komst að orði, þar sem hann lýsti því ótvírætt yfir að neitun þingsins myndi leiða til afsagnar hans sem forsætisráðherra. Nokkrum dögum síðar baðst hann lausnar eftir að beiðninni hafði verið hafnað. Þessir atburðir ollu tímamótum. Neitun ASÍ á frestun kauphækkunar um einn mánuð, á meðan frekari viðræður á alvarlegri stöðu efnahagsmála færu fram, dæmdu launþegasamtökin úr leik. Það var bersýnilegt að lausn efnahagsvandans gat ekki grundvallast á samræðum og samkomulagi við þau, heldur yrði að ná fram að ganga án þeirra fulltingis. Þegar til kom ári síðar að móta stefnu viðreisnarstjórnarinnar í launamálum kom ekki annað til álita en að fella niður tengingu kauplags við vísitölu verðlags með beinum fyrirmælum laga án nokkurs samráðs við aðila á vinnumarkaði. Þetta gekk mun lengra en gert hafði verið við gengislækkunina 1950, en þá hafði einmitt komið í ljós hversu fljótt samtenging launa við verðlagsvísitölu gróf undan áhrifum gengisbreytinga. Nú var hinsvegar reynt að draga úr skerðingu lífskjara með hækkun bóta almannatrygginga og lækkun tekjuskatts, án þess að nokkurt samráð væri haft við verkalýðsfélögin um þau mál frekar en um kaupgjaldsmálin. Seðlabanki sér um gengisskráningu Svo virðist sem afsögn Hermanns Jónassonar hafi komið forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar á óvart. Þeir hafi ekki lagt á það trúnað að hann myndi standa við yfirlýsingar sínar. Tilraunir voru fljótlega gerðar til þess að endurreisa stjórnina, sem ekki báru árangur, enda var myndun minnihlutastjórnar Alþýðuflokksins þegar komin á rekspöl. Ekki kom til þess að ráðist yrði til atlögu af hálfu verkalýðsfélaganna á þær aðgerðir sem sú stjórn stóð fyrir, né heldur, fyrst í stað, á aðgerðir viðreisnarstjórnarinnar sjálfrar. Það er ekki fyrr en á útmánuðum 1961, ári eftir að viðreisnin hafði komið til sögunnar og jákvæð áhrif hennar voru farin að koma í ljós, að verkalýðshreyfingin lét til skarar skríða. Að loknu stuttu verkfalli var í júnímánuði samið um kauphækkun sem nam rúmum 13 prósentustigum. Ríkisstjórnin hopaði þó ekki, heldur kallaði saman þingflokka sína til fundar um mitt sumar, og gaf að svo búnu út bráðabirgðalög þann 1. ágúst sem fólu nýstofnuðum seðlabanka ákvörðun gengis í stað Alþingis, en bankinn lækkaði gengið daginn eftir um svipaðan hundraðshluta og kauphækkunin fyrr um sumarið hafði numið. Nýtt samráð Þessi skjótu og einbeittu viðbrögð komu í veg fyrir að viðreisnin færi út um þúfur á öðru ári vegferðar sinnar. En togstreitunni um stjórn efnahagsmála á milli ríkisstjórnar og verkalýðshreyfingar var þó engan veginn lokið. Frjálsir samningar á vinnumarkaði voru sem fyrr í gildi og verkalýðshreyfingin beitti styrk sínum til að neita að gera samninga nema til skamms tíma, jafnvel svo skamms tíma að lítill munur var á slíkum launasamningum og sjálfkrafa tengingum við vísitölu verðlags. Að sínu leyti hafði ríkisstjórnin hins vegar uppi fyrirætlanir um róttækar breytingar á fyrirkomulagi kjarasamninga. Í odda skarst í lok október 1963 þegar ríkisstjórnin lagði fram frumvarp á Alþingi sem ætlað var að koma í veg fyrir hækkanir kauplags og verðlags til áramóta. Þetta frumvarp var dregið til baka samkvæmt samkomulagi þeirra Ólafs Thors og Eðvarðs Sigurðssonar, eins og frægt er orðið, en verkföllum jafnframt frestað um nokkurn tíma. Þessar sættir urðu svo upphaf að viðræðum á milli fulltrúa ríkisstjórnar, verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda á næstu mánuðum sem leiddu til hins svokallaða júní- samkomulags 1964. Þar var fallist á að tengja kauplag að nýju við vísitölu framfærslukostnaðar samfara hóflegum launasamningum til eins árs, sem fólu í sér nokkra tilfærslu frá eftirvinnukaupi til dagkaups. Um leið var sérstöku átaki í húsbyggingum láglaunafólks hrundið af stað. Í kjölfar þessara samninga fylgdi áframhaldandi samráð um kaup og kjaramál allt til loka viðreisnaráranna 1971. Þegar leitað er skýringa á því að þessi árangur skyldi nást verður að líta aftur til ársins 1961. Ný gengislækkun eftir að launahækkanir höfðu verið knúnar fram hafði þá sýnt svo ekki varð um villst að ríkisstjórnin myndi halda stefnu sinni til streitu. Á hinn bóginn hafði verkalýðshreyfingin sýnt mátt sinn með því að fallast ekki á kjarasamninga nema til skamms tíma. Festa beggja aðila hafði með öðrum orðum knúið fram skynsamlega framhald á bls. 4

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.