Morgunblaðið - 20.06.2009, Blaðsíða 32

Morgunblaðið - 20.06.2009, Blaðsíða 32
32 Minningar MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 20. JÚNÍ 2009 ✝ Magnús Sigurðs-son fæddist 27.9. 1924. Hann lést 6.6. 2009. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Snorrason, bóndi á Gilsbakka, f. 23.10. 1894, d. 2.10. 1978, og Guðrún Magn- úsdóttir, f. 16.3. 1896, d. 9.9. 1943. Systur Magnúsar eru Sigríður, fv. starfs- maður á skrifstofu lögreglunnar í Reykjavík, f. 2.6. 1926, og Guðrún, fv. einka ritari forsætisráðherra, f. 4.8. 1928. Magnús kvæntist hinn 27.12. 1955 Ragnheiði Kristófersdóttur, f. 15.5. 1932. Foreldrar hennar voru hjónin Kristófer Ólafsson, bóndi í Kalmanstungu, f. 29.5. 1898, d. 5.10. 1984 og Lisbeth Zimsen, f. 8.3. 1907, d. 6.9. 1996. Börn Magnúsar og Ragnheiðar eru: 1) Katrín, f. 17.4. 1957, maki Þorleifur Geirsson, f. 1956; 2) Sig- urður, f. 15.10. 1958, maki Vala Friðriksdóttir, f. 1954; 3) Ólafur, f. 25.8. 1961, maki Anna Gunn- laug Jónsdóttir, f. 1963; 4) Þor- steinn, f. 26.12. 1964; 5) Guð- mundur, f. 15.8. 1968, maki Elín Kristjánsdóttir, f. 1966. Barna- börnin eru sextán og barnabarnabörnin tvö. Magnús var fædd- ur og uppalinn á Gilsbakka í Hvít- ársíðu og átti þar heima alla tíð. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1946, en vann æ síðan að bú- störfum á Gilsbakka og var bóndi þar frá 1956 til 1997. Magnús gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyr- ir sveit sína og hérað og átti lengi sæti í hreppsnefnd Hvítársíðu- hrepps og stjórnum Kaupfélags Borgfirðinga og Sparisjóðs Mýra- sýslu, þar sem hann gegndi lengi formennsku. Hann starfaði auk þess mikið að félags- og hags- munamálum bænda og sat m.a. á Búnaðarþingi, í framleiðsluráði landbúnaðarins og í stjórnum Búnaðarsambands Borgarfjarðar, Búnaðarfélags Íslands og Stétt- arsambands bænda. Útför Magnúsar fer fram frá Reykholtskirkju í dag, 20. júní, og hefst athöfnin kl. 11. Jarðsett verður í Gilsbakka- kirkjugarði. Á Gilsbakka var sauðburður langt kominn þegar Magnús Sigurðsson tengdafaðir minn fór að heiman í hinsta sinn. Það fór vel á því að síð- asta verk hans hafði verið að færa ný gögn inn í fjárbókina í tölvunni sinni. Magnús var mikill gæfumaður bæði í leik og starfi. Þegar ég tengd- ist fólkinu á Gilsbakka fyrir rúmum aldarfjórðungi var að hefjast nýtt tímabil í lífi tengdaföður míns. Hann hafði fram að því verið allt í senn eig- inmaður, faðir, stórbóndi, sveitar- höfðingi, félagsmála- og fundabóndi, söngmaður, bókavörður og margt fleira. Nú bættust við ný hlutverk þegar hann varð margfaldur tengda- faðir og afi á stuttum tíma og undir það síðasta náði hann því meira að segja að verða langafi. Þessum nýju hlutverkum sinnti hann með sömu reisn og prýði og einkenndu allt hans líf. Í dag þegar við kveðjum Magnús eiga barnabörnin hans um sárt að binda, en þau eru svo lánsöm að geta yljað sér við margar góðar minningar úr eldhúsinu hjá afa og ömmu. Þau minnast Magga afa sem sat við eld- húsborðið og sagði sögur, söng og fór með ljóð. Afa sem lagði kapal, spilaði við eldri barnabörnin og teygði sig í eldhússkápinn eftir „afaskít“ til að stinga upp í munninn á þeim yngri. Tengdafaðir minn var alla tíð opinn fyrir nýjungum og hann var fljótur að sjá kostina sem fylgdu almennri tölvuvæðingu. Við minnumst öll Magnúsar hin síðari ár sitjandi við tölvuna, óþreytandi við að færa inn og halda til haga ýmsum þjóðlegum fróðleik og minningabrotum frá fyrri tíð. Við minnumst hans líka sem bók- menntamannsins sem hélt utan um bókakaup lestrarfélagsins og hafði verið félagi í kiljuklúbbi í mörg ár. Á Gilsbakka skapaðist oft líflegur út- lánamarkaður í kringum kiljurnar, sem mikil ásókn var í meðal barna og tengdabarna að fá lánaðar og ræða um við Magnús. Allar hafði hann les- ið, sem og margt annað og myndað sér skoðun á. Fyrst og fremst minnumst við þó Magnúsar sem fjármanns. Hann bjó alla sína tíð á æskuslóðunum sem hann unni og var svo lánsamur að ævistarfið var einnig hans stærsta áhugamál og ástríða. Í fjárhúsunum átti hann sínar bestu stundir. Hann var með afbrigðum fjárglöggur og iðulega seig hakan á borgarbarninu lengra og lengra niður á bringu þegar hann hóf að þylja ættartölur kinda sem voru að bera, gjarnan marga ættliði aftur í tímann. Hann gat rakið hvernig burður hafði gengið hjá hverri fyrir sig undanfarin ár, hvaða hrútar höfðu komið við sögu og hvað hafði orðið um lömbin. Ómerkta und- anvillinga gat hann rakið til móður á útlitinu einu saman og hann sá gjarn- an á svipnum hvaðan ókunnugt aðko- mufé var upprunnið. Nú þegar leiðir skiljast vil ég þakka tengdaföður mínum kærlega fyrir samfylgdina. Ég votta Ragn- heiði tengdamóður minni, afkomend- um Magnúsar og öðrum aðstandend- um innilega samúð mína. Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama; en orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur. (Úr Hávamálum.) Vala Friðriksdóttir. Það er skrítið að hugsa það að núna er enginn afi lengur á lífi. En þú varst orðinn svo þreyttur að það var gott að fá hvíld. Og nú ertu kominn til Guðs og þar líður þér vel. En minningarnar lifa og þær munu gera það alltaf. Það var nú margt sem við gerðum saman þegar ég var í sveitinni og það er skrítið að hugsa til þess að næst þeg- ar ég kem í sveitina þá verður enginn afi þar sem segir „sæll litli drengur“. En núna ertu búinn að hitta alla góðu vinina þína og ættingja sem fóru á undan þér. Vertu, Guð faðir, faðir minn, í frelsarans Jesú nafni, hönd þín leiði mig út og inn, svo allri synd ég hafni. (Hallgrímur Pétursson.) Takk, elsku afi minn, fyrir allar góðu stundirnar. Þinn afastrákur Þorkell Þorleifsson. Hann Maggi á Gilsbakka er látinn. Sú fregn kom þeim, sem til þekktu ekki á óvart þar sem seinustu árin hafa verið honum erfið heilsufarslega en aldrei heyrðist hann kvarta heldur var talað um veikindin af yfirvegun og skynsemi og þeim léttleika sem þeim hjónum var svo eðlilegur. Magnús á Gilsbakka var eins og aðrir nágrannar sjálfsagður hluti af æskustöðvum mínum í uppsveitum Borgarfjarðar. Þegar systir mín og hann ákváðu að rugla saman reytum sínum varð hann einnig sjálfsagður hluti af stórfjölskyldunni. Margt var Magga til lista lagt, svo sem sönglist og ljóðlist sem hann iðk- aði nokkuð. Hann var annálaður fyrir skarpskyggni og rökfestu í þeim mál- um sem hann tók að sér og þau voru æði fjölbreytt trúnaðarstörfin sem honum voru falin í þágu bænda og ýmissa þjóðþrifafyrirtækja í hér- aðinu. Ekki var það vegna þess að hann sæktist eftir vegtyllum. Hann var fyrst og fremst bóndi og það góð- ur bóndi og ég hygg að hans mesta gæfa hafi verið að fá að búa á og bæta jörðina Gilsbakka þar sem hann var borinn og barnfæddur og að sjá jörð- ina í góðum höndum afkomenda sinna. Um leið og ég kveð mág minn með virðingu og þökk votta ég systur minni og allri fjölskyldunni samúð en jafnframt gleðst ég þeirra vegna yfir því að hafa átt svo frábæran ferða- félaga á lífsleiðinni eins og Magnús Sigurðsson á Gilsbakka var. Ólöf Kristófersdóttir og fjölskylda. Þau eru orðin mörg árin frá því að leiðir okkar Magnúsar lágu fyrst saman. Ég var þá í sveit á Gilsbakka. Þá voru þar líka þeir Guðmundur bróðir minn og Guðmundur Ás- mundsson, frændi okkar. Við vorum því þarna fjórir systkinasynir og fór vel á með okkur við leik og störf. Sér- staklega eru mér minnisstæðar veiði- ferðir okkar upp á Tvídægru. Við fór- um þær ferðir ríðandi. Það var því ekki einvörðungu veiðiskapurinn sem vakti okkur spennu og gleði heldur líka blessaðir hestarnir sem við sát- um. En ferðir okkar strákanna voru þó ekki allar á heiðar upp heldur var líka farið í hellana í Hallmundarhrauni. Eitt sinn riðum við fram í Kalman- stungu og þaðan í hlíðar Strútsins og gengum síðan á fjallstoppinn. Veður var bjart og blasti fagurt útsýni við okkur þarna uppi. Arnarvatnsheiðin, tígulegur Eiríksjökull og aðrar nátt- úruperlur spegluðust þarna í tærum ljóma og fegurð. Þótt Magnús væri ungur þegar þetta var, þekkti hann helstu örnefni, sem þarna komu við sögu. Ekki var lífið þó tómur leikur held- ur tókum við virkan þátt í bústörf- unum. Þar voru smalamennskur tíð- ar og var alltaf farið ríðandi í þær. Búið var stórt og jörðin landmikil. Féð var rekið heim þar sem ær voru rúnar og lömbin mörkuð. Magnús tók vel eftir umhverfinu og því, sem í því bærðist. Hann var reyndar afar glöggskyggn – ekki aðeins á búfénað – heldur á flest annað, sem hann sá, heyrði eða las. Og skarpminnugur var hann alla tíð. Magnús mótaði lífs- feril sinn af festu við nám og störf. Stúdentsprófi lauk hann 1946, en sat þó aðeins einn vetur í menntaskóla. Hann lærði fögin heima, fékk þó að- eins tímakennslu í framburði er- lendra tungumála. Að skapferli var Magnús traustur og velviljaður. Hóf- samur var hann, glaðsinna og manna skemmtilegastur að vera með. Skop- skyn hans gat verið glettið en aldrei meiðandi fyrir aðra. Dagfarslega var hann mildur í máli en gat þó orðið býsna fastur fyrir, ef honum misbauð tal manna eða gerðir. Þessir eiginleikar hans og víðfeðmt gáfnafar þroskuðust með menntun hans og aukinni reynslu. Hann varð strax sem ungur maður afar fróður enda var hann hinn mesti lestrar- hestur. Þá hefur sá menningararfur sem afi hans á Gilsbakka skóp, borist honum með foreldrunum og Katrínu móðursystur hans, sem las með hon- um í æsku. Við Magnús áttum oft samstarf um ýmis málefni héraðsins sem við töldum til umbóta. Var þetta bæði um rekstur stofnana, sem sýsl- an átti og menningarmál Borgar- fjarðarhéraðs. Þannig lagði Magnús okkur lið er undirbúin var stofnun Tónlistarfélags Borgarfjarðar og varð hann síðar einn af stjórnendum félagsins og eindreginn stuðnings- maður þess allar götur síðan. Sjálfur lagði hann söngmennt í héraðinu gott lið, enda var hann ágætur söngmaður og söng með kórfélögum sínum fram á efri ár. Magnús tók við búi á Gils- bakka árið 1956 og var bóndi þar um rúmlega fjögurra áratuga skeið. Hann jók og bætti húsakost og rækt- un býlisins. Og víst er um það að hirð- ing alls búfjár, gæsla þess og fóðrun var til fyrirmyndar. Magnús gegndi mörgum trúnaðar- störfum fyrir sveit sína og hérað. Enn fremur starfaði hann mikið fyrir bændastéttina. Hann naut ávallt virðingar samverkamanna sinna fyr- ir störf sín. Magnús fylgdist vissulega vel með gangi þjóðmála. En hann lét eiga sig að ganga til liðs við stjórn- málaflokka. Ég veit fyrir víst að það voru gerðar tilraunir til þess að fá hann í framboð til Alþingis. Því hafn- aði hann alfarið. Magnús hafði vissu- lega sterkt sjálfstraust og metnað. En þá eiginleika hefur hann heldur viljað nýta sem búhöldur og liðsmað- ur við umbætur heima í héraði. Þann- ig var nú viðhorf hans. En hitt verð ég þó að segja að rökvísi Magnúsar og réttsýni hefði orðið Alþingi góð búbót. Magnús var sannarlega mikill gæfumaður. Hann eignaðist góða og mikilhæfa konu, Ragnheiði Krist- ófersdóttur frá Kalmanstungu. Hún studdi hann í öllu lífi þeirra og má þá minnast þess að í glímu hans við heilsubrest var hún óþreytandi hjálp- arhella. Eitt er það sem lifir mann- inn. Það er góður orðstír. Hann hafði Magnús getið sér. Hans mun því lengi minnst. Með það í huga kveð ég þennan góða frænda og þakka honum vináttu og stuðning. Fjölskyldu hans sendi ég einlægar samúðarkveðjur. Ásgeir Pétursson. Meira: mbl.is/minningar Við lát Magnúsar á Gilsbakka, vin- ar míns til 55 ára, leita minningarnar á hugann, allar ljúfar og yljandi. Við kynntumst vorið 1954, hann var þá ókvæntur í föðurhúsum, þrítugur þá um sumarið, ég fjórtán ára svein- stauli úr Reykjavík, sem að þeirra tíma hætti hafði verið sendur í sveit. Eitt af fyrstu verkunum sem Sigurð- ur bóndi Snorrason fól mér var að fara með Magnúsi syni sínum fram að Hólmavatni að vitja silunganeta. Farið var á hestum frameftir og Magnús fræddi mig um öll örnefni á leiðinni. Síðast er við hittumst, í mars sl., rifjuðum við einmitt þessa ferð upp. Sumrin á Gilsbakka hafa reynst mér hinn besti skóli sem ég hef sótt, þar var og er heimilisandinn slíkur að sjálfsagt þótti að blanda öllum á heimilinu í umræður allar og hlusta á og svara öllum spurningum sem í ungum hugum kviknuðu. Við vorum látin botna stökur og málfar okkar leiðrétt ef einhverju var ábótavant. Einnig var á heimilinu mikill bóka- kostur og vandaður og höfðum við ótakmarkaðan aðgang að honum. Samband mitt og minnar fjölskyldu við Gilsbakkafólkið hefur aldrei rofn- að og dvaldi t.d. yngsti sonur minn mörg sumur þar. Magnús var mjög hæfileikaríkur maður, enda hlóðust á hann mörg og mikilsverð trúnaðarstörf í þágu bændastéttarinnar og heimabyggð- arinnar. Ferill hans var á þeim vett- vangi afar farsæll, en ýmsum þeim störfum tók hann við af föður sínum. Á Gilsbakka hafa menn jafnan búið stórt, mannmargt á heimilunum og rausnin, myndarskapurinn og snyrti- mennskan í fyrirrúmi. Þegar messað var í Gilsbakkakirkju var öllum boðið í kaffi á eftir og hófst þá hið merkasta málþing yfir kaffinu og kræsingun- um. Við unglingarnir fylgdumst með orðræðum manna af athygli og mér eru þær stundir enn í fersku minni. Úr þessum jarðvegi var Magnús sprottinn, víðsýnið, jöklarnir, skógur- inn, hraunið, fegurðin öll mótaði hann. Hann var maður skarpgreind- ur, las nær allan menntaskólann ut- anskóla, sat aðeins síðasta bekkinn fyrir stúdentspróf í skóla. Hann kaus að helga krafta sína búskapnum á Gilsbakka, gerðist bóndi árið 1956 og hafði þá kvænst Ragnheiði Krist- ófersdóttur frá Kalmanstungu. Þau eignuðust fimm mannvænleg börn og Ólafur sonur þeirra situr nú jörðina. Lokið er nú löngum og farsælum lífsferli, en eftir lifa minningar um merkan héraðshöfðingja, dreng góð- an, sem alltaf hafði mannbætandi áhrif á samferðamenn sína. Síðasti fundur okkar var er þau hjónin komu með kór eldri borgara í Borgarfirði í heimsókn til söngfélaga sinna í Kópa- vogi, en Magnús var söngmaður góð- ur og hafði yndi af tónlist. Ég og mín fjölskylda eigum Magnúsi og öllu Gilsbakkafólki mikla þakkarskuld að gjalda fyrir vináttu á liðnum árum. Fyrir hönd okkar allra votta ég Ragnheiði og allri fjölskyldunni inni- lega samúð og mun ætíð minnast Magnúsar á Gilsbakka er ég heyri góðs manns getið. Blessuð sé minn- ing hans. Kjartan Sigurjónsson. Með Magnúsi á Gilsbakka er í mín- um huga genginn einhver fjölhæfasti og öflugasti fulltrúi bændastéttarinn- ar og bændamenningar. Í fáum orð- um vil ég þakka. Kynni okkar voru öðru fremur í tengslum við margvís- leg félagsmálastörf hans fyrir ís- lenska bændur en einnig eitt hjart- fólgnasta áhugamál okkar beggja, íslenskan sauðfjárbúskap. Magnús sóttist ekki eftir forystustörfum í málum bænda. Ég kynntist honum á búnaðarþingi og sem stjórnarmanni hjá BÍ. Í nefndarstarfi var ákaflega lærdómsríkt að kynnast því hve fljót- ur hann var að greina aðal- og auka- atriði hvers máls og koma skýrri af- stöðu til mála fram í meitluðu og vönduðu máli á svipstundu. Stjórn- armanna BÍ minnist ég sem öndveg- ismanna, en engum þeirra kynntist ég samt sem jafn áhugasömum um verkefni starfsmanna og Magnúsi. Heima í fjárhúsunum á Gilsbakka var Magnús samt mestur konungur í ríki sínu. Öllum þeim, sem kynntust honum á þeim vettvangi, verður ógleymanlegt að ganga þar um garða og krær. Þar geislaði starfsánægjan, frásagnarsnilldin og ótakmörkuð þekking á bústofninum betur en á nokkrum öðrum vettvangi. Fyrstu kynni mín af Magnúsi voru þar. Haustið 1971 starfaði ég hjá Halldóri Pálssyni á Hesti. Dag einn ákvað hann að við skyldum fara að Gils- bakka til að fylgjast þar með fjárragi. Þarna voru þessir snillingar í ríki sínu. Minnisstætt er þegar þeir voru að handfjatla fullorðnu forystusauð- ina. Vinátta og samstarf Magnúsar og Halldórs var gamalgróið. Vert er að minnast á þessari stundu að það mun hafa hafist með rannsóknar- störfum Halldórs á mæðiveikinni á upphafsárum þessa vágests. Þar naut hann næmrar athyglisgáfu Magnús- ar sem unglings við öflum upplýs- inga. Þarna var verið að vinna fyrstu erfðarannsóknir í tengslum við bú- fjársjúkdóma í heiminum. Full ástæða er að halda til haga frum- kvöðlastarfi í því verki og þar er hlut- ur Magnúsar ómældur. Ferðir mínar í ríki Magnúsar á Gilsbakka urðu margar. Fræðsla hans um bú og bú- stofn á hverri stundu ómetanleg. Þá var ekki síður unun að njóta frásagna hans og fræðslu um fjárbúskap og fjárskiptin á síðust öld. Þar hef ég ekki meira af öðrum lært. Í fjárbú- skapnum á Gilsbakka kynntist maður öllum bestu þáttum ræktunarmenn- ingar. Magnús þekkti deili á hverjum einstaklingi, sem hafði hver sitt nafn. Nafngiftir þess voru þaulhugsaðar. Magnúsi var ákaflega umhugað um að miðla þessari þekkingu til unga fólksins. Síðasta ferðin var á liðnu hausti. Magnús í hringiðunni, glaður og reif- ur og greindi frá hverjum einstak- lingi. Um leið var mér einnig miðluð fræðsla og skilningur um ýmsa þætti úr nýjasta bókmenntaverkinu úr Síð- unni, með leiftrandi frásagnargáfu hans. Fyrir þessi ómetanlegu og ógleymanlegu kynni er nú þakkað að leiðarlokum. Íslenska moldin mun taka á móti Magnúsi Sigurðssyni hlýjum faðmi. Þar endurheimtir hún einn af þeim mönnum sem best munu hafa skilið hana og lifað í góðu sam- býli við hana. Aðstandendum heima á Magnús Sigurðsson Leiðaþjónustan Sími 772 3301. Netfang umhirda@gmail.com Heimasíða http://umhirda.com Láttu okkur sjá um leiði ástvina þinna. Allar lagfæringar og umhirða. Örugg og vönduð þjónusta er okkar stolt.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.