Húsfreyjan - 01.01.1963, Blaðsíða 9

Húsfreyjan - 01.01.1963, Blaðsíða 9
nema von. Björg var oftas ein og ólétt. Og hún Björg hafði heldur ekki verið nein sérstök myndarstúlka áður en hún giftist, það er að segja til handanna. En í útliti hafði hún verið gjörfileg og greindarleg og öll í bókum, var sagt. Og almenna undrun og umtal hafði það vakið í sveit- inni, þegar hún giftist Jóni frá Seli og þau reistu bú að Einarsstöðum. Nú var sú undrun gleymd fyrir löngu. Björg kom sárasjaldan á mannamót. Menn höfðu gleymt þvi, hvernig hún leit út um tví- tugt, áður en hún giftist. Björg gekk inn í bæinn. Hún strauk hendinni aftur yfir augun og eins og rétti dálítið úr sér um leið. Inni í baðstofunni lá næst yngsta barnið fyrir dauðanum. Jón hafði farið út í kaupstað um daginn til þess að reyna að ná í lækni og var ó- kominn aftur. Börnin höfðu verið lasin af kvefi, en þeim hafði öllum skánað aftur, öllum nema Gunnu litlu. Henni eln- aði sóttin dag frá degi. Björg óttaðist að það kynni að vera lungnabólga. Sigríður frá Seli, systir Jóns, hafði verið hjá þeim um tíma til þess að létta undir með þeim í veikindunum. En nú var hún farin á kvenfélagsskemmtunina. Björg var alein í bænum, ásamt börn- um sínum. Hún gerði sér vonir um, að Jón kæmi með lækninn fyrir miðnætti. ef hann hefði þá hitt hann heima. En það gat vitanlega brugðið til beggja vona. Vafamál hvort læknirinn hefði verið við- látinn. Og ef Jón hefði orðið að bíða, þá var ekki víst, að þeir kæmu fyrr en undir morgun. Björg gat ekki að því gert, að hún kveið fyrir þessari nótt. Hún hafði vonað í lengstu lög, að Sigga byðist til að vera hjá henni. En hún hafði ekki get- að fengið sig til þess að biðja hana. Nú sá hún eftir því, að hafa ekki gert það. Ungt fólk var oft svo hugsunarlitið. Sigga hafði auðvitað hlakkað til að fara á skemmtunina og átt bágt með að hætta við það. Æ, já. Hún hefði átt að brjóta odd af oflæti sínu og biðja hana að fara hvergi. Það var óttalegt, ef barnið dæi og hún húsfreyjan væri alein með börnunum. En ef til vill hafði hún sjálf ekki verið hugsunarsam- ari á Siggu aldri, þó að hún ætti erfitt með að gera sér grein fyrir því nú. Börnin á Einarsstöðum eru sofnuð. Björg situr með Gunnu litlu fárveika í fanginu. Úti er farið að hvessa, kominn bylur. Skuggalegt er í baðstofunni og ógnar- lega ömurlegt. Ljósið á lampanum, sem stendur á borðinu, ber daufa birtu og er einhvern veginn líflaust, finnst henni. Hún rær með barnið, stendur upp, geng- ur um gólf og sezt niður aftur og reynir að hagræða litlu stúlkimni á allar lundir. Það er ávallt sárt að horfa upp á sjúk- dóma og þrautir og geta ekki hjálpað, en sárast af öllu er þó að sitja með lítið, ósjálfbjarga og óvita barn og geta á eng- an hátt linað þjáningar þess. — Guð minn góður, gefðu að þeir fari nú að koma, stundi Björg. Nú var eins og ofurlítil hvíld. Gunna litla mókti. Sigga frá Seli og fólkið úr sveitinni var víst farið að skemmta sér. Eitt andartak sveif fyrir augum henar bjartur danssalur, prúðbúið fólk, konur og karlar. Að hugsa sér, hvað hún var einmana. Það fór um hana hrollur. Skyldi hún þá eiga eftir að missa Gunnu sína? Hana hafði dreymt illa að undanförnu. Flestir mundu víst líta svo á, að þau væru heppin, ef barnið fengi að deyja. Þau ættu nóg eftir samt. Hún var ekki alveg viss um nema Jón liti líka þannig á málið. Milda skæra móðurauga, mörg og heit eru tárin þín. Enginn veit, hvað oft þau falla ofan á barnsins vöggulín. Milda, skæra móðurauga, mörg og djúp eru sárin þín. Enginn veit, hvað oft þau blæða. Alfaðir lít í náð til mín. Hún raulaði þessar vísur nokkrum sinnum í hálfum hljóðum, og síðan fór hún að biðja til guðs, heitt og innilega. Framhald á bls. 12. 9

x

Húsfreyjan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Húsfreyjan
https://timarit.is/publication/831

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.